Leita í fréttum mbl.is

Áður glitti í löngutöng, en nú sést hún skýrt og greinilega

Um miðjan janúar hélt Gylfi Magnússon, lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands ræðu á Austurvelli.  Þá mælti hann eftirfarandi orð:

Sú hugmyndafræði sem kom okkur í núverandi stöðu er andlega gjaldþrota.  Þeir sem fóru fyrir henni þurfa að víkja strax af sviðinu og láta öðrum eftir uppbygginguna. Hvort sem þeir eru í stjórnmálum, stjórnkerfinu, fyrirtækjarekstri, fara fyrir hagsmunasamtökum eða voru bara í klappliðinu. Fyrsta skrefið til fyrirgefningar er að þetta fólk rétti fram sáttahönd og axli ábyrgð með því að víkja. Því miður hefur lítið sést til þeirrar sáttahandar enn þá. Það glittir bara í löngutöng.

Í dag er þessi sami Gylfi búinn að skipta um starf tímabundið.  Hann er viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Einhverra hluta vegna hafa vistaskiptin orðið til að breyta skoðun hans á þörf fyrir sáttarhönd, en það sem verra er, að hann skilur ekki vanda almennings. Ummæli hans í frétt mbl.is get ég ekki skilið nema á einn hátt.  Hann var að reka löngutöngina framan í okkur.

Eins og það væri ekki nóg að Gylfi væri búinn að tapa áttum heldur hefur "heillög" Jóhanna gert það líka.  Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld varar hún fólk við að hætta að greiða.  Líkt og Gylfi bendir hún á mikilvægi þess að halda áfram að borga.  Töfraorð beggja er greiðsluaðlögun. Mbl.is hefur eftir honum í óbeinni tilvísun:

Fyrir þá allra verst stöddu sé kominn sá möguleiki að fara í greiðsluaðlögun og fá tilsjónarmann.

Ég veit ekki hvað gengur að þessu tveimur ráðherrum.  Þekkja þeir ekki lögin sem Gylfi Arnbjörnsson stærði sig af að hafa samið í 1. maí ræðunni sinni eða var það í einhverjum útvarpsþætti.  Hagsmunasamtök heimilanna (HH) gagnrýndu greiðsluaðlögunarlögin strax á þeirri forsendu að þau væru ekki ætluð öllum.  Fyrst skulum við hafa í huga að um tvenn lög er að ræða.  Hin fyrri fyrir almennar skuldir og hin síðari fyrir veðskuldir.  HH benti strax á að fyrri lögin væru meingölluð og skiluðu ekki tilætluðum árangri, þar þau náðu bara til hluta þjóðarinnar.  HH benti á að frumvarp Framsóknarflokksins sama efnis væri mun vandaðra frumvarp og víðtækara.  Þetta varð til þess að menn forhertust í vitleysunni.  Varðandi síðari lögin, þá bentum við á að þau dygðu ekki fyrir þá verst stöddu, þar sem sá sem er kominn í vanskil getur ekki fengið greiðsluaðlögun.  Ég segi bara:  Hvers konar bull er þetta?  Sá sem er líklegastur í að þurfa greiðsluaðlögun, er einmitt sá sem er kominn í vanskil.  Annað sem er glórulaust varðandi þessi lög er að þau eru tvískipt, þ.e. tvenn lög, en er að um ein heildstæð lög sé að ræða.  Svo má ekki gleyma því, að aðeins var gert ráð fyrir að 200 manns færu í gegn um greiðsluaðlögun á ári.  (Kannski er þetta rétt tala, þar sem þetta er sá fjöldi sem sleppur í gegnum nálarauga laganna.  Allir aðrir sem þurfa á greiðsluaðlögun að halda eiga ekki möguleika, þar sem þeir eru komnir í vanskil.)

Mér finnst viðbrögð Jóhönnu og Gylfa bera þess augljós merki að þau ráða ekki við vandann.  Þau eru búin að fá einni stöðuhækkuninni og mikið.  Sorgleg og alltof algeng staðreynd.  Í þrjá mánuði hafa þau og ríkisstjórnin sem þau sitja í gert allt annað en ætlunin var að gera.  Það átti að slá skjaldborg um heimilin og það átti að hafa samráð við Hagsmunasamtök heimilanna.  Ef þau telja að aðgerðir ríkisstjórnar Samfylkingar og VG til bjargar heimilunum teljist skjaldborg, þá er tímabært að þau fái sér ný gleraugu.  Í besta falli er um tjaldborg að ræða og verst falli er komin ein LEGO kubba röð einhvers staðar í grassverðinum.

Ég átta mig ekki á þessu tali ráðherranna.  Þau láta sem það sé lítið mál fyrir fólk að standa í skilum.  Það er alls ekki svo.  Mjög margir eru búnir að leggja á sig og sína ótrúlegar raunir til að halda bönkunum góðum.  Aðrir fóru í umfangsmiklar frystingar á lánunum sínum og nú er tími þessara frystinga að renna út.  Fólk gat staðið í skilum með önnur lán vegna þessara frystinga og eingöngu þess vegna.  Fólk hélt að þegar frystingartíminn væri á enda, þá væru komnar einhver úrræði af hálfu bankakerfisins og stjórnvalda.  Að það væri komin niðurstaða í ýmis álitamál, þar með um leiðréttingu á höfuðstóli verðtryggðra og gengistryggðra lána.  En hver er staðan.  Öll úrræði sem sett hafa verið fram snúast um að blóðmjólka almenning.  Hvergi er króna gefin eftir.  Mér er alveg nákvæmlega sama þó NBI, Íslandsbanki eða Nýja Kaupþing séu með aðra kennitölu en gömlu svikamyllubankarnir.  Í mínum huga eru þetta sömu bankarnir og felldu hagkerfið.  Þetta eru sömu bankarnir og stálu af almenningi í landinu.  Þetta eru sömu bankarnir og bera ábyrgð á að krónan féll um 40-50% á 7 eða 8 mánuðum og að ársverðbólga síðasta árs var yfir 17%.  Þetta eru sömu bankarnir, það er mergur málsins og þeir skulda okkur háar upphæðir vegna þessa athæfis.  Almenningur í landinu skulda þessum bönkum ekki neitt!  Þess vegna er greiðsluverkfall réttlætanleg aðgerð fyrir hvern þann sem kýs þá leið.  Ef ríkisstjórnin heldur að hún geti kúgað almenning til að greiða ósanngjarnar kröfur bankanna með því að segja eins lítið barn "þá færð þú ekki að vera memm í greiðsluaðlögun", þá er ríkisstjórnin að misskilja hlutina.

Ég á svo sem ekki von á því að ríkisstjórnin taki orð mín alvarlega, en ég ætla að reyna.  Ég krefst þess:

  • að tillaga Talsmanns neytenda um gerðardóm vegna húsnæðislána verði samþykkt og afgreidd innan 10 daga;
  • að jöfnuð verði áhætta milli lánveitenda og lántakenda með þaki á nafnvexti;
  • að veð verði bundið við veðandlag;
  • að fjármálafyrirtæki bjóði lántakendum upp á langtímalán með sambærileg kjör og fást í nágrannalöndum okkar;
  • að lögum um greiðsluaðlögun verði breytt þannig að þau nái til allra innlendra lántakenda (einstaklinga);
  • að sama fjárhæð verði notuð til að leysa vanda heimilanna og hefur farið/mun fara í að afskrifa lán starfsmanna og eigenda bankanna og félögum þeim tengdum;
  • að strax verði farið í að kyrrsetja eigur auðjöfra sem mergsugu bankakerfið (það á ekki að vera nóg að færa lögheimili til Rússlands, en búa með konu og börnum á Akureyri til að komast undan því að borga);
  • að viðurkennt verði öll að lán veitt af innlendum lánastofnunum til innlendra aðila, sem eru með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, séu ólögmæt;
  • að Fjármálaeftirlitið úrskurði stýrivaxtatryggð lán NBI ólögleg, þar sem um er að ræða tengingu við vísitölu aðra en neysluverðsvísitölu, en slíkt er ólöglegt samkvæmt 13. og 14. grein laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.
Ég verð að viðurkenna að þolinmæði mín gagnvart stjórnvöldum er að þrotum komin.  Undirlægjuháttur ráðamanna gagnvart fjármagnseigendum er slíkur að manni ættu að fallast hendur.  Ég er bara ekki þannig.  Eftir því sem ruglið eykast vex mér baráttuandinn í brjósti.  Þess vegna tek ég þátt í baráttunni með Hagsmunasamtökum heimilanna og hvet ég alla að skrá sig sem ekki hafa ennþá gert það (skráning í HH).  Okkar markmið er að safna svo mörgum félagsmönnum, að stjórnvöld geta ekki leyft sér að hunsa kröfur okkar.  Við höfum náð talsverðum árangri nú þegar, en betur ef duga skal.

Mig langar rétt svo í lokin að nefna eitt atriði varðandi tillögu Talsmanns neytenda.  Sjálfskipaðir og útvaldir varðhundar Samfylkingarinnar hafa ruðst fram á ritvöllinn út af þessum tillögum og talið það vera málsstað sínum til framdráttar að vega persónulega að Gísla Tryggvasyni.  Slík ummæli dæma sig sjálf.  Menn nefna að tillögurnar um eignarnám setji ríkissjóð á hausinn.  Sé það raunin, þá finnst mér nauðsynlegt að benda á, að innlendir lánveitendur hafa samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde mátt frá því í október (eða nóvember) færa öll húsnæðislán sín yfir í ÍLS.  Einu skilyrðin voru að lánveitandinn hafi frumkvæðið að flutningnum og að samkomulag hafi náðst milli ÍLS og lánveitandans um sanngjarnan afslátt af lánasafninu þegar það er flutt yfir.
mbl.is Flestir geta staðið í skilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Frábær grein eins og svo oft áður.  Nú þarf að sameinast um þessar kröfur sem þú setur fram.  Nýja búsáhaldabyltingu ef á þarf að halda.

Jón Kristófer Arnarson, 3.5.2009 kl. 23:50

2 identicon

Flottur pistill Marinó!

Þörf og góð ádrepa í kjölfar opinberunar á skilningsleysi ráðamanna á stöðu skuldara í þessu landi.  Það var sjokkerandi að sjá hótanir og ómálefnaleg svör landsfeðranna í sjónvarpinu í kvöld. Venjulegt fólk mun á endanum sjá í gegnum "sjaldborgir og velferðarbrýr" stjórnvalda, sem eru lítið annað en innantóm orð til að slæva vitund fólks.  Til hvers að reyna að blóðmjólka sig um hver mánaðarmót til að þóknast ríkisbankanum, eiginfjárstaðan neikvæð um milljónatugi og búið að rífa börnin úr tónlistarnámi og íþróttum til að spara bankanum til heilla?

Þið í Hagsmunasamtökum heimilanna eigið heiður skilinn fyrir vasklega varðstöðu og málefnalega framgöngu!

Björn Þorri Viktorsson (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 23:57

3 identicon

Frábær grein! Það er tími til kominn að eitthvað fari að gerast í þessum málum þótt fyrr hefði verið. Það virðist því miður vera þannig að um leið og fólk sest í þessa blessaða ráðherrastóla verði það staurblint og fyllist þvílíkum hroka að það hálfa væri nóg. Algjörlega óskiljanlegt að yfirvaldið geti ekki skilið þann vanda sem heimilin í landinu búa við, vanda sem þarf að leysa strax!

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 23:58

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, ég skoðaði þessa "velferðarbrú" á heimasíðu Samfylkingarinnar nokkrum dögum fyrir kosningar.  Veistu hverju ég komst að?  Það var EKKERT um velferðarbrúna á vefnum. Ég hef oft heyrt og séð innantóm loforð, en þetta var það ótrúlegasta sem ég hef séð.  Ég leitaði, fór í veftré og opnaði alla glugga sem ég gat opnað, en hvergi, já HVERGI, fannst tangur né tetur af velferðarbrúnni.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 00:07

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég gekk í Hagsmunasamtök heimilanna fljótlega eftir stofnun þeirra, HH er góður vettvangur til þess að þrýsta á stjórnvöld að gera eitthvað raunhæft fyrir skuldara þessa lands.  Okkur skattgreiðendurna.  Hvað ætli það séu margir félagsmenn þar núna?  Veit einhver það?  Ég þakka frábæra grein. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.5.2009 kl. 00:17

6 Smámynd: AK-72

Mjög flottur pistill, Marinó.

Langar til að spyrja út í samt nokkra hluti.

1. Þú minnist á lög sem Gylfi Arnbjörnsson stærir sig af. Hvaða lög eru það?

2. Eftir hrunið, þá kom fögur yfirlýsing frá þáverandi stjórnvöldum, um að sýslumenn og aðrir ættu að hlífa fólki við aðgerðum vegna fjárhagsvanda. Mánuði síðar sat ég fund þar sem var fulltrúi frá ónefndu sýslumannsembætti, sem sagði að enginn formleg fyrirmæli um slíkt hefði borist til embætta. Hefur það eitthvað breyst?

3. Það var fullyrt við mig mánuði fyrir kosningar af manneskju í erfiðleikum, að bankarnir settu fólk á vanskilaskrá fyrir að fara í greiðslufrystingu, greiðslujöfnun- eða aðlögun. Þetta væri gert svo hægt væri að halda kröfunum lifandi, og bankarnir gætu haldið fólki í skuldafangelsi. Hefurðu heyrt um eitthvað slíkt og er eitthvað til í þessu?

4. Eitt af því sem maður hefur heyrt, er að til að geta fryst lánin, farið í greiðslujöfnun eða slíkt, þá þurfir þú að vera með öll lán í skilum. Nú hljómar þetta frekar furðulega því fólk sem stendur í skilum, er neitað um alla fyrirgreiðslu eða aðstoð í bönkum út frá því að það stendur í skilum, miðað við sumar sögur sem maður hefur heyrt. Er eitthvað til í þessum sögum, og gagnast þessar leiðir nokkuð fólki sem er í miklum erfiðrleikum?

AK-72, 4.5.2009 kl. 00:23

7 identicon

Já, það er dæmalaust hvernig kosningabaráttan fór fram án þess að núverandi stjórnarflokkar (sérstaklega Samfylking) þyrftu að standa efnislega fyrir þeim frösum sem notaðir voru.  Það er t.d. dæmalaust að þeir komist upp með að kalla það "skjaldborg" að setja þessi lög Gylfa Arnbjörnssonar og ASÍ spillingarliðsins um greiðsluaðlögun.

Ég held að fólk átti sig ekki á því að það þarf að fara sjálfviljugt í 5 ára "skuldafangelsi" með dómsskipaðan eftirlitsmann á öxlinni.  Sá hefur það eitt hlutverk að gæta þess að fólk greiði örugglega alla peningana sína umfram nauðþurftir, til kröfuhafa.  Það verður t.d. fróðlegt að sjá hvort tónlistarnám barna eða íþróttaiðkun fær náð fyrir augum slíks tilsjónarmanns.  Hvað má halda stóra fermingarveislu?  Mega börnin fara í tannréttingar?  Má kaupa ný vetrardekk undir bílinn?  Má gefa konunni blóm á brúðkaupsafmælinu?  Má kaupa nýtt reiðhjól, hjólabretti, hlaupaskó eða hjólaskauta handa börnunum?

Efti 5 ára "skuldafangelsi" færðu svo hugsanlega afskifaðar skuldir umfram 110% af matsvirði fasteignar þinnar (já, þess er vandlega gætt að þú fáir aldrei meira afskrifað eftir allt puðið.  Þú skalt skulda a.m.k. 22 milljónir í 20 milljóna fasteign).  Þetta kallar maður "skjaldborg á velferðarbrú".  E.t.v. er það vegna þessa sem þeir reikna sjálfir ekki með að nema 200 manns muni nýta sér þetta frábæra ráð....

Björn Þorri Viktorsson (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 00:26

8 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég borgaði ekki á réttum tíma Eurocard reikninginn minn og fjórum dögum eftir gjalddaga var komið hótunarbréf um frekari innheimtu með tilheyrandi kostnaði fyrir mig.  Þetta kallar maður sko velferðarbrú.  Það var líka búið að loka samstundis á erlenda úttekt sem hefur alltaf fengið að standa óáreitt þó ég borgi ekki alveg á réttum tíma.  Það er bókstaflega verið að gera alveg þveröfugt við gefin loforð.  Enda sjálfsagt skipulagt samsæri frá útlöndum um að gera almenning ráðviltan og fátækan.  Davíð Oddsson er líka örugglega umboðsmaður fyrir þessi ósköp hér á landi.  

Björn Heiðdal, 4.5.2009 kl. 00:48

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það fer ekki fram hjá mér að þolinmæði þín er á þrotum en ég skil það svo vel! Þakka þér fyrir enn einn baráttupistilinn og vona svo sannarlega að hér fari að verða einhver vakning sem verður til þess að réttlætið sem Hagsmunasamtök heimilanna og talsmaður neytenda hafa barist svo ötullega fyrir nái fram að ganga.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.5.2009 kl. 04:00

10 identicon

Þetta er virkilega góður pistill hjá þér og mikill sannleikur. Væntanlega er ekki erfitt að standa í skilum ef maður er ráðherra.

 Það sem ráðamenn virðast svo vanmeta skelfilega í þessari stöðu er að það er stór munur á því að geta staðið í skilum og að "geta" staðið í skilum og samt lifað nokkurn vegin eðlilegu lífi. Ég get svo sem staðið í skilum með mín lán, en þá borðar fjölskyldan mín ekki mikið eftir miðjan mánuðinn. Margir aðrir "geta" kannski staðið í skilum, en eru líka búnir að taka börnin sín úr íþróttum eða tónlistarnámi, geta ekki farið í aðkallandi tannviðgerðir/tannréttingar, leggja ekki í viðhald á fasteignum sem eru hvort eð er orðnar verðminni en lánin, fresta brúðkaupum, styrkja engin góð málefni, gefa ekki afmælisgjafir, hætta að kaupa innlent ef það er ekki ódýrast, leggjast í þunglyndi og svo framvegis. Allt þetta er ekki bara slæmt fyrir viðkomandi einstaklinga heldur þjóðfélagið í heild og hefur keðjuverkandi áhrif. Fyrir utan það hvað það er niðurdrepandi fyrir fólk að sjá reikningana hækka um hver einustu mánaðarmót og skuldirnar aukast en geta ekkert að gert nema bara borgað meira og meira. Flestir eru búnir að herða sultarólina í þrengsta gat en skuldirnar aukast samt þótt fólk sé alltaf að borga. Það er það sem stjórnvöld skilja ekki. Til dæmis er ég námsmaður í Bandaríkjunum. Gengið hefur gert mér lífið ansi leitt að undanförnu. Það er ekki gaman að borga húsaleigu hér úti þegar dollarinn er í 127 krónum. Ég get jú tekið námslán og þau taka mið af genginu þannig að skólagjöldin mín verða allavega greidd og svoleiðis. En þegar námið er búið eftir 3 ár mun eg líka skulda mörgum milljónum meira heldur en ég gerði ráð fyrir þegar ég fór út í námið sl. haust. Ég á íbúð heima sem ég get ekki selt og lánin hækka stöðugt en íbúðin fellur í verði. Þolinmæði mín er á þrotum. 

Davíð Arnar (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 06:28

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég setti athugasemd inn á pistil hjá efasemdarmanninum, Snorra Hrafni Guðmundssyni, og langar að birta hana hér líka:

Snorri Hrafn, í tæpa 14 mánuði hefur almenningur beðið þolinmóður.  14 mánuði!  Á þessum tima hefur hann þurft að horfa upp á milljarða afskriftir skulda stjórnenda hjá Kaupþingi.  Hundruð milljarða gjaldþrot fjárfestingafélaga, þar sem eigendur þeirra missa vissulega eignir en þurfa ekkert að borga til viðbótar.  Kennitöluflakk þriggja banka og fjölmargra fyrirtækja sem kennitöluflakkararnir hafa keypt.  Tvö fjárfestingabanka fá lán hjá ríkissjóði með 2% vöxtum.  Hvað hefur verið gert fyrir almenning?  Nánast ekki neitt.  Algengast er að boðið er upp á lengingu lána, sem eykur heildargreiðsluna umtalsvert þegar um er að ræða verðtryggð lán, en mun vonandi koma þeim sem eru með hin ólöglegu gengisbundnu lán til góða.  Nauðungarsölur hafa verið stöðvaðar tímabundið til 1. nóvember, en þvert á hvatningu hagsmunaaðila, þá halda aðfaragerðir áfram fram að nauðungarsölunni.  Auk þess er þetta að því virðist ekki sjálfkrafa aðgerð heldur þarf skuldarinn að óska eftir henni.  Vaxtabætur voru hækkaðar hjá þeim tekjulægri um allt að 30%, en allt að 500% hjá næsta tekjuhópi fyrir ofan.  Peningurinn fyrir hækkun vaxtabóta er tekinn af tekjuskatti vegna innlausnar á séreignalífeyrissparnaði.  Ég held að samanlagður kostnaðurinn af aðgerðum fyrir heimilin nái ekki einu sinni þeirri tölu sem afskrifuð var hjá eiginmanni fyrrverandi menntamálaráðherra vegna skulda hans við Kaupþing, hvað þá að þetta nái þeirri fjárhæð sem lögð var í Sjóð 9 til að bjarga andliti efsta manni á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður, Illuga Gunnarssyni.

Mér vitanlega hefur enginn aðili hvatt til greiðsluverkfalls, en margir hafa verið þvingaðir út í þá aðgerð vegna skilningsleysis kennitöluflakkaranna og stjórnvalda.  Þá er ég að tala um þessi sömu stjórnvöld sem ætluðu að slá skjaldborg um heimilin.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa vakið athygli þessara aðila á því hvað gæti gerst, ef stór hópur skuldara hættir að greiða af lánum sínum.  Þetta er það sem við köllum greiðsluverkfall.  Við höfum ítrekar spurt hvað það þurfi stóran hóp til að hætta að borga svo menn átti sig á vandanum.

Hagsmunasamtök heimilanna eru ekki með óréttlátar kröfur, þegar þess er krafist að lánveitendurnir sem keyrðu hér allt í þrot, taki á sig byrðar til jafns við heimilin þegar kemur að lánum heimilanna.  HH eru ekki með óréttmætar kröfur, þegar þess er krafist að heimilin í landinu eigi kost á sömu niðurfellingu skulda og starfsmenn Kaupþings eða fái sömu vaxtakjör og Askar Capital og Saga Capital.  HH finnst með ólíkindum að FME og Seðlabankinn hafi ekki stöðvað í upphafi ólöglegar lánveitingar svikamyllubankanna og annarra lánastofnana með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.

Mér finnst það göfugt af þér, Snorri Hrafn, að þú skulir hafa áhyggjur af því að lánalínur erlendis lokist.  Heldur þú virkilega að einstaklingur sem á ekki til mat handa börnunum sína kæri sig ekki kollóttan um erlendar lánalínur.  Auk þess lokuðust þær á haustmánuðum 2007 og þá stóðu flestir í skilum.  Ef þú heldur að um 200 milljarða leiðrétting á skuldum heimilanna vegi þyngra í því að lánalínur lokist en 600 milljarðarnir sem fóru í að bjarga innistæðunum eða 224 milljarðarnir sem fóru í peningamarkaðssjóðina eða 270 milljarðarnir sem fóru í að bjarga Seðlabankanum eða 8.000 milljarðarnir af skuldum svikamyllubankanna, þá held ég að þú vaðir í villu.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 08:55

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

AK-72:  1) Lögin sem Gylfi stærði sig af eru greiðsluaðlögunarlögin hin fyrri, þ.e. þessi um greiðsluaðlögun almennra skulda.  Hugsanlega vill hann líka eigna sér hin síðari, þ.e. um greiðsluaðlögun veðskulda.

2)  Mér vitanlega hefur ekkert breyst.  Í þessu samhengi vil ég líka benda á að fulltrúi sýslumanns við uppboð hefur kost á að hafna tilboðum í eignir, ef þau reynast of lág.  Fróðlegt væri að vita hversu oft það hefur verið gert á undanförnum mánuðum og árum og hversu oft óeðlilega lágu tilboði hefur verið tekið.  Ég hef heyrt tröllasögur af því að einbýlishús hafi verið slegið á uppboði á kr. 1 milljón.  Ef það er rétt, þá er það út í hött.

3) Ég þekki þetta ekki.  Ef einstaklingur er settur á vanskilaskrá, þá ber að tilkynna honum um slíkt.  Samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga ber aðila sem heldur utan um persónuupplýsingar eða persónugreinanlegar upplýsinga um einstakling (hinn skráða) að tilkynna viðkomandi um skráninguna hafi hún ekki orðið til vegna samskipta hins skráða við viðkomandi skráningaraðila.  Hver og einn getur óskað eftir því við alla aðila nema lögregluna að fá vitneskju um hvaða upplýsingar viðkomandi aðili hefur skráð um sig.

4)  Í þessu felst fáránleiki greiðsluaðlögunarlaganna.  Til þess að geta fengið greiðsluaðlögun, þá máttu hvergi vera í vanskilum.  Er ekki líklegt að þeir sem komnir eru í þrot hafi mesta þörf fyrir greiðsluaðlögun.  Ég held að sá sem samdi þennan krók á lögin hafi ekki haft hagsmuni neytenda að leiðarljósi.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 09:26

13 Smámynd: Haraldur Hansson

Mögnuð færsla. Þú hefur verið alveg passlega reiður þegar þú skrifaðir.

Varðandi punkt 2 í upptalningunni, um þak á nafnvexti:
Sama dag og Alþingi samþykkti uppfærslu á misgengislögunum frá 1984, með því að setja inn orðið "greiðslujöfnunarvísitala", lagði Steingrímur Joð fram frumvarp. Þetta var 17. nóvember og hann var þá í stjórnarandstöð. Frumvarpið var tvær greinar: 1) Að nafnvextir á verðtryggð lán verði 2% að hámarki. 2) Að lögin taki þegar gildi.

Nú er hann fjármálaráðherra í ríkisstjórn. Skyldi frumvarpið hafa týnst?

Haraldur Hansson, 4.5.2009 kl. 09:28

14 identicon

Eftirfarandi ætlaði ég að tengja við einhverja frétt um komandi greiðsluverkfall sem stuðningsyfirlýsngu við þá sem í það ætla. En mér fanst viðeigandi að kommenta á þessa færslu líka.

Ég er tilbúinn til að verja rétt fólks gegn auðmönnum. Og ég þekki fullt af fólki sem er tilbúið til þess sömuleiðis. Þá er ég að tala um að komi til eignarnáms þá skal m.a. ég standa fyrir útidyrunum svo að lögmenn, lögreglan eða aðrar varðsveitir auðvaldsins komist ekki að sækja það sem er fólksins. Þ.e. hindra hústökur auðvaldsins.

---

Ég styð 100% aðgerðir fólks gegn bönkum og slíkum stofnunum. Allt of lengi höfum við tekið þessa þvælu mótspyrnulaust og höfum orðið að skuldaþrælum þeirra. Með síhækkandi lánum og verðlagi, og staðnandi launum hafa auðmannastofnanirnar tekið frá okkur sem ætti ekki að vera hægt. Þær hafa m.a. tekið frá okkur svo mikinn tíma að við höfum ekki lengur tíma til að ala upp börnin okkar. Ég þekki t.d. manneskju sem tók sér loks frumkvæði og fékk sér nýja vinnu með kristnilegum vinnutíma, svona svo hún gæti verið með barninu sínu. Þegar hún svo fór í bankann til að reyna að redda skuldamálunum sagði þjónustufulltrúi þar að hann gæti ekki hjálpað henni því hún væri á of lágum launum. Ef þetta er ekki þrældómur þá veit ég ekki hvað.

Við hefðum átt að vera löngu búin að spyrna við þessu. Það er langt síðan við vissum um hvernig bankarnir hafa verið að taka af okkur það sem á að vera heilagt. En þeim tókst að blekkja okkur. Þeir skrifuðu bara eitthvað í tölvurnar sínar og við vorum komin með eitthvað sem þeir kalla yfirdráttarheimild, eða endurfjármögnun. Við gátum keypt okkur nýja bíla og flatskjá þökk sé þeim. Í grunnskólum er þetta kallað einelti. Valdameiri krakkarnir nýta skort sumra krakka til að lokka þá til sín með nammi eða slíku og fara svo með þá eins og þeim sýnist. Núna í kreppunni þá geta bankarnir ekki stundað þennan leik lengur og þá fyrst fáum við ástæðu til þess að spyrna við þessum stofnunum, þessu kerfi.

Betra er seint en aldrei. En í staðin fyrir að múta okkur með veraldlegum óþarfa koma yfirvöld nú með elsta útspilið í sögunni. „Ef þú borgar ekki tíkall núna, þá borgarðu mér hundrað kall á morgun.“ Þau beita hræðsluáróðri. Það er auðvelt að festast í honum. Sjáum bara hvernig fer fyrir konum sem eru barðar af mönnum sínum. Hræðslan heldur okkur fjötruðum. Til að losna, er aðeins eitt hægt. Verum hugrökk, hættum að sýna hollustu við þrælahaldarana.

En ég get ekki tekið þátt í greiðsluverkfallinu því ég á engin lán til að neita að borga. Eina lánið sem ég hef tekið var námslán sem ég tók til að greiða niður skuldir konunnar að ofan. En ég sýni þess í stað stuðning með andófinu með því að lýsa mig tilbúinn til að berjast fyrir rétti fólks gegn auðvaldinu. Með því að standa í vegi þeirra og leyfa þeim ekki að taka það sem er okkar.

 

Baráttukveðjur

Rúnar Berg

 

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 10:12

15 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ég á ekki til orð. Þjóðin sat í 16 ár og kaus yfir sig sömu vitleysuna aftur og aftur, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar stjórnarandstöðu þess tíma um hvert stefndi með sama áframhaldi. Björn Þorri kvartaði ekki mikið þá.

Síðan kemur að skuldadögum - og þeir eru skelfilegir - og þá er allt einhverjum öðrum níðingsmönnum að kenna. Mönnum sem hvað? Unnu innan ramma þeirra laga sem þess tíma stjórnarmeirihluti setti? Unnu innan ramma þeirra reglna sem eftirlitsstofnanir þess tíma stjórnarmeirihluta settu?

Mér dettur ekki í hug að verja svínin sem komu landinu á hausinn. Ekki séns. En að sitja og lesa svona rugl frá aðilum sem á köflum fóru fremstir í flokki í lánafylleríinu (Marinó, þessu er ekki beint til þín), það er í raun fáránlegt.

Við getum ekki kyrrsett eignir svínanna, við höfum ekki lagaákvæði til þess - fyrr en við höfum fengið rökstuddan grun um refsivert athæfi. Við getum ekki afnumið verbólguna eða sett á lága vexti í dag án þess að á ríkið (og þar með okkur sjálf sem svo illa erum stödd) falli gríðarlegur kostnaður. Við getum ekki uppfyllt flestar af þeim kröfum sem Marinó setur fram í dag vegna þess að með því værum við að auka skuldaklafa okkar allra og lengja kreppuna.

Við verðum því miður að taka hænuskref, eitt í einu, hægt og bítandi, hænuskref út úr þessu skelfingarástandi sem hægri flokkarnir komu okkur í með 16 ára græðgisvæðingu sinni. Ef við förum aðra leið þá gerum við það á kostnað okkar sjálfra - sem við eigum alls ekki að vilja.

Það er gríðarlega margt í færslu og athugasemdum Marinós og jafnframt í athugasemdum annarra sem ég vildi svara, miklu meira en ég hef tök á núna. Kannski svara ég því seinna en ég vil þó að minnsta kosti koma með eftirfarandi viðbrögð við punktum úr greininni og athugasemdunum:

Það hafa ekki verið settir 600 milljarðar frá ríkinu til þess að bjarga innstæðunum og vonandi kemur aldrei til þess, því vonandi duga eignir gömlu bankanna til. Mér vitanlega hafa heldur ekki farið 224 milljarðar úr ríkissjóði til þess að styrkja penkingamarkaðssjóðina. En vissulega var gefið út skuldabréf uppá 270 milljarða til Seðlabankans, til þess að rétta af eiginfjárhlutfall hans.

Sú aðgerð, skuldabréfaútgáfa til að styrkja eignasafn bankans - íslenska Seðlabankans, þrautavaralánabakhjarlsaðila bankakerfisins og gjaldmiðilsins. Sú staða ætti í raun að gera okkur öllum ljóst hversu erfið staða þjóðarbúsins er. Og hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá takmarkast aðgerðir ríkisvaldsins við stöðu ríkissjóðs á hverjum tíma.

Þess vegna verðum við að bíta í það súra, sætta okkur við lengingar og frystingar og aðlaganir og jafnanir og hvað þetta allt saman heitir. Ekki huga að eignastöðu vs. skuldastöðu heldur greiðslubyrði hvers mánaðar og þrauka í þrjú ár. Að þremur árum liðnum verður staðan vonandi betri og möguleikar okkar til raunverulegra aðgerða til bóta fyrir alla þjóðina verða vonandi betri.

Í öllu falli, ef við gerum það ekki næstu þrjú árin - þá verða næstu fimm ár þar á eftir enn erfiðari en annars. Hvers erum við þá bættari?

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 11:37

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, mig langar að fá að hrekja nokkur atriði hjá þér.  Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við á vordögum 2007 þá voru strax farin að sjást alls konar veikleikamerki.  Samfylkingin sá þau ekki vegna þess að hún kaus að líta framhjá þeim.  Það er aumur málflutningur að kenna öðrum um að drullusvaðið fór út um allt vegna þess að kúkurinn safnaðist upp áður en þeir tóku við stjórnartaumunum!

Krónan hrundi á vakt Samfylkingarinnar, verðbólgan fór í hæstu hæðir á vakt Samfylkingarinnar, fyrirtækin eru að fara í þrot á vakt Samfylkingarinnar, heimilin eru að fara í þrot á vakt Samfylkingarinnar, atvinnuleysi er í hæstu hæðum á vakt Samfylkingarinnar.  Ef Samfylkingin treystir sér ekki til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að vinna gegn ástandinu, þá er bara best að breyta flokknum í málfundafélag sem ræðir hlutina og láta þá sem þora, vilja og geta sjá um tiltektina.  Ég verð að viðurkenna að mér fannst Jóhanna ámátleg í kosningasjónverpinu þegar hún hrópaði:  "Þetta er Framsókn og Sjálfstæðisflokknum að kenna.  Þeir einkavæddu bankana." (eða hvernig hún orðaði það).

Það eru rúmir sjö mánuðir frá þeirri afdrifaríku aðgerð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Davíðs Oddssonar (því Samfylkingunni var ekki treyst til að vera með) að þjóðnýta Glitni.  Síðan er búið að setja neyðarlög og nokkurn veginn ekkert annað.  Það er ekki komin fram ein einasta tillaga frá Samfylkingunni um uppbyggingu þjóðfélagsins á þessum 7 mánuðum.  Kannski er það Framsókn vegna þess að þeir voru í stjórn fyrri hluta árs 2007 eða Borgaraflokknum vegna þess að þeir voru í stjórn 1992 eða hvað það nú var.  Ég held að það sé tími til kominn að Samfylkingin taki sig saman í andlitinu og fari að gera eitthvað.

Nei, voru ekki settir peningar úr ríkissjóði til að verja innistæðurnar?  Hvaðan komu þá þessir peningar?  Röð kröfuhafa var breytt og vegna þess færðust 600 milljarðar fram fyrir í kröfuröð.  Af hverju kom þessi peningur ekki úr ríkissjóði, en ef leiðrétta á lánin, þá er það úr ríkissjóði.  Ég skil ekki svona málflutning.

Það hefur margoft komið fram að 200 milljarðar fóru í að kaupa eitraðar eignir út út peningasjóðunum eftir fall bankanna.  það hefur líka komið fram að fyrst fóru 11 milljarðar frá Gamla Glitni inn í Sjóð 9 og síðan 13,5 milljarðar frá Nýja Glitni síðar Íslandsbanka.  Hvaðan komu þessir peningar?  Úr hatti galdramannsins?

Það fellur enginn kostnaður á ríkið vegna leiðréttinga á lánum heimilanna frekar en að það fellur kostnaður á ríkið vegna afskrifta á lánum starfsmanna Kaupþings.  Það eru kröfuhafar bankanna sem bera skaðann.  Þennan skaða fyrir þá þarf að meta áður en gengið er frá samningum við þá.  Gleymum því ekki að stórhluti þeirrar upphæðar sem þarf að fara í leiðréttinguna er þegar sokkinn kostnaður, þ.e. töpuð útlán.  Það mun ennþá meira tapast, ef lausnin verður ekki fundin strax.

Ef þú hefðir lesið fyrri færslur frá mér, þá hefðir þú séð að ég gef ekki neitt fyrir þessa björgunaraðgerð vegna "þrautavaralánabakhjarlsaðila" (sic).  Hinn áhættusækni "þrautavaralánabakhjarlsaðili", þ.e. Seðlabanki Íslands, tók við "ástarbréfum" frá svikamyllubönkunum sem tryggingu fyrir svikalánum bankans til þessara sömu banka með milligöngu smærri fjármálafyrirtækja.  Þetta gerði bankinn þrátt fyrir minnisblaðið sem enginn fékk að sjá.  Seðlabankinn ginnti þessi fyrirtæki út í að taka áhættu, sem hann vildi ekki taka sjálfur!  Ég benti á það í febrúar að björgun Seðlabankans hefði mátt nota til að bjarga fleiri aðilum.  Með því að kaupa lánasöfn af smærri fjármálafyrirtækjunum með því skilyrði að þau keyptu "ástarbréfin" af Seðlabankanum með sama afslætti og ríkissjóður fékk hjá Seðlabankanum.  Þetta hefði bjargað SPRON og aukið líkur á björgun Sparisjóðabankans og Straums.

Þú talar um að þrauka í þrjú ár með frystingu, lengingu og aðlögunum.  Það er bara ekki nóg.  Í fyrsta lagi bjóðast ekki öllum þessir kostir.  Í öðru lagi nýtast þessir kostir ekki öllum, þar sem fólk hefur ekki efni á neinu.  Í þriðja lagi  eru margir þegar komnir í þrot, vegurinn er á enda.  Í fjórða lagi, þá er fólk búið með aukafé.  Ef þessar aðgerðir hefðu verið í boði strax í ágúst, eins og ég lýsti eftir í ágúst, þá væri ástandið mun betra.  Í fimmta lagi, þá eru greiðsluaðlögunarlögin algjör steypa og eru uppnefnd líknardeildin.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 12:28

17 Smámynd: Elfur Logadóttir

Meinarðu að "þrautavaralánabakhjarlsaðili" sé ekki gott orð hjá mér ;)

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 13:04

18 Smámynd: AK-72

Mig langar til að benda á eitt atriði, varðandi frystingu eigna grunaðra og að það þurfi rökstuddan grun. Svo er ekki, það nægri að kalla menn í yfirheyrslu til að nýta lagaheimild um frystingu reikninga og eigna, og upptöku á meðan rannsókn stendur yfir. Ég bendi á sem dæmi, mál hælisleitenda í Njarðvík, þar sem allt fé var gert upptækt vegna óljós(ekki rökstudds) grunar um að e.t.v. væri féð aflað með svartri vinnu. En þegar kemur að auðmönnum og bankamönnum þessa lands, fólks sem ætti að gera landlægt um aldur og ævi, þá er allt kapp lagt á að vernda hagsmuni þeirra hvort sem það eru fyrirtæki eða eigur.

Hversvegna? Skýringin er mjög einföld. Ítök þeirra inn í stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn sem hafa tengsl í yfirstjórn lögreglu, rannsóknar- og dómsvalds, valda því að það mun aldrei verða gripið til aðgerða gegn þeim né nokkrum öðrum. Aðeins verða minniháttar peð dæmd sem sökudólgar til friðþægingar en ekkert verður snert á höfuðpaurunum sem sumir hverjir fá enn frítt spil innan bankakerfisins, eða vinna þar.

Það sama mun verða upp á teninginn með hvítþvottanefnd þingsins líklega. Ekkert mun koma út úr því og ef eitthvað kemur, þá munu niðurstöðurnar verða hundsaðar, og allt við það sama.

Og niðurstaðn sem slík, stefnir öll í sömu átt: almenningur á að borga brúsann, auðmenn og bankamenn ekkert.

AK-72, 4.5.2009 kl. 13:22

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þrautavara og bakhjarl er náttúrulega með svipaða eða sömu merkingu.  Ég held að orðið sem þú varst að leita að hafi verið "þrautavaralánveitandi".

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 13:29

20 Smámynd: Elfur Logadóttir

Nei ég var bara að skeyta saman helstu ábyrgðarhlutverkum Seðlabankans í eitt orð. Ef ég hefði flutt mál mitt munnlega þá hefðirðu orðið var við snúninginn í merkingunni.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 13:46

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

AK-72, ég er alveg sammála þér í því að auðvelt á að vera að frysta eða kyrrsetja eignir.  Nú telji menn að ekki sé næg stoð í lögum, þá er bara að bæta úr því.

Annars hef ég haft fregnir af því að ónefndur maður sem nýlega flutti lögheimili sitt og skyldi við konuna sína, sjáist mjög oft við hlið hennar í ræktinni í gamla heimabænum.  Þessi saga kemur frá fólki í heimabæ þeirra hjóna, fyrirgefið, fyrrverandi hjóna.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 13:53

22 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó, í upphaflegri færslu þinni, fyrir mýmörgum athugasemdum síðan, er að finna eftirfarandi klausu:

"Fyrst skulum við hafa í huga að um tvenn lög er að ræða.  Hin fyrri fyrir almennar skuldir og hin síðari fyrir veðskuldir.  HH benti strax á að fyrri lögin væru meingölluð og skiluðu ekki tilætluðum árangri, þar þau náðu bara til hluta þjóðarinnar.  [...] Varðandi síðari lögin, þá bentum við á að þau dygðu ekki fyrir þá verst stöddu, þar sem sá sem er kominn í vanskil getur ekki fengið greiðsluaðlögun.  Ég segi bara:  Hvers konar bull er þetta?  Sá sem er líklegastur í að þurfa greiðsluaðlögun, er einmitt sá sem er kominn í vanskil. (leturbr. mín)"

Ég velti fyrir mér hvað þú hefur fyrir þér í þessari fullyrðingu. Við lestur á lögunum sjálfum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna (lög 50/2009), stendur í 3. tl. 3. gr:

"3. Hvaða skuldir hvíla á fasteigninni, en í greinargerð um þær skal lýst nákvæmlega meðal annars tegund þeirra, tilurð, fjárhæð þeirra í upphafi og eftirstöðvum, greiðsluskilmálum, ákvæðum um vexti og verðtryggingu, að hvaða marki þær séu þegar í vanskilum, hvaða fjárhæð greiða þurfi af þeim með afborgun, við hverja skuldirnar eru og hvar þær eru til innheimtu."

Í 1. tl. 2. mgr. 5. gr. sömu laga segir einnig:

"1. Hverjar skuldirnar eru sem greiðsluaðlögun er ætlað að taka til, við hverja þær eru og við hvaða heimild þær styðjast, hver staða þeirra er í veðröð, hver núverandi fjárhæð þeirra er sundurliðað annars vegar í vanskil og hins vegar ógjaldfallinn þátt þeirra, svo og hvenær og hvað skuldari verður að greiða í afborganir og vexti af því sem ógjaldfallið er ef ekki kemur til greiðsluaðlögunar."

Við lestur frumvarpsins sem fylgir þessum lögum finn ég ekkert sem segir að vanskil skulda eigi að hafa þau áhrif að umsókn um greiðsluaðlögun verði hafnað. Þvert á móti benda ofantalin ákvæði auk umfjöllunarinnar í 6. gr. sömu laga til þess að ekkert sé því til fyrirstöðu að skuldari fari með vanskilakröfur í greiðsluaðlögun.

Ég viðurkenni að ég hef ekki rýnt önnur lögskýringargögn en lögin sjálf og upphaflega frumvarpið sem þeim fylgir, en mér sýnist það duga til þess að vega gegn þeirri fullyrðingu sem þú setur fram.

Ég tel að þetta breyti verulega forsendum margra og rökstuðningi fyrir því að þetta sé "ekkert gert" og óska því eftir að þú færir niðurstöðu af þinni könnun á þessum hlutum á meira áberandi stað en athugasemd númer 23 við þessa færslu, því þetta getur verið stór áhrifavaldur í ákvörðunum fólks á þessum síðustu og verstu tímum.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 15:30

23 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég verð að viðurkenna, að þarna er ég að treysta því að Gylfi Magnússon fari rétt með.  Ásta Ragnheiður orðaði þetta á svipaðan hátt í morgun.  Ég man þó, að þegar ég las frumvarpið, þá stóð þetta atriði í okkur hjá HH og því var gerð athugasemd við þetta atriði.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 15:42

24 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Elfur

"Við lestur frumvarpsins sem fylgir þessum lögum finn ég ekkert sem segir að vanskil skulda eigi að hafa þau áhrif að umsókn um greiðsluaðlögun verði hafnað."

arfaJóhanna man ekki sjálf hvað er í þessum lögum sem eiga að bjarga þjóðinni, og er ekki komin í gagnið vegna leti ráðherra. Hún fullyrti að lögin ætti ekki við þá sem eru hættir að borga.

Þetta er náttúrulega ein stór arfaVitleysa hvernig þessi stjórn lætur !

Axel Pétur Axelsson, 4.5.2009 kl. 15:47

25 Smámynd: Elfur Logadóttir

Axel, nú hengir þú þig í rangt herðatré vinur. Fullyrðing Jóhönnu stendur eftir sem áður vegna þess að hún sagði að hafirðu burði til þess að halda áfram að greiða ættirðu ekki að hætta þar sem slík ákvörðun kæmi í veg fyrir beitingu greiðsluaðlögunarúrræðis.

Málið er að í 8. tl. 2. mgr. 4. gr. laganna segir að héraðsdómari hafni beiðni um greiðsluaðlögun ef "[s]kuldari hafi svo að máli skipti látið hjá líða að standa í skilum við veðkröfuhafa þótt honum hefði verið það kleift að einhverju leyti eða öllu."

Sem sagt, ef þú getur, endilega borgaðu, ef þú getur ekki (nú eða síðar) leitarðu aðstoðar og sækir eftir einhverjum þeim greiðsluerfiðleikaúrræðum sem til eru, ef þú getur enn ekki eftir að þeim úrræðum hefur verið beitt, leggurðu fram beiðni um greiðsluaðlögun til þess að tryggja áfram búsetu á þínu heimili.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 16:01

26 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Er Elfur á launum við að að hakka niður rök þeirra sem gagnrýna úrræðaleysi stjórnvalda við vanda heimilanna í landinu

Get ekki stillt mig um að skjóta þessu inn í tvíátta lotningu yfir eljusemi þessa bloggara sem ég hef aldrei rekist á áður en á nú aðra hverja athugasemdina á fætur annarri hjá flestum þeim sem ég heimsæki reglulega. Þetta er líka engar vengjulegar athugasemdir heldur langar og vandaðar (segi það jafnvel þó ég sé ekki sammála málatilbúnaðinum, -flutningnum eða innihaldinu).

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.5.2009 kl. 17:09

27 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Rakel, ekki dettur mér í huga að efast um tilvísanir hennar í lög, enda er hún lögfræðingur með upplýsingaöryggi og persónuvernd sem sérsvið.  Ég veit ekki af hverju hún er orðin meira áberandi núna, en mér finnst meiri örgun í því sem frá henni kemur en Sighvati Björgvinssyni eða Jóhönnu Sigurðardóttur.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 17:13

28 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég ætla alls ekki að efast um lögfræðiþekkingu Elfar og auðvitað á hennar sjónarmið fullkominn rétt á sér. Þó ég sé ekki sammála öllu sem hún segir þá er ekki þar með sagt að hún færi ekki góð og gild rök fyrir máli sínu. Ég dáist m.a.s. að því hvað athugasemdir hennar eru vandaðar. Ég var bara að furða mig á því hvernig hún hefði tíma til að setja inn svona vandaðar athugasemdir um þetta málefni inn hjá svo mörgum sem raun ber vitni.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.5.2009 kl. 17:22

29 Smámynd: Elfur Logadóttir

Rakel,

ég er svo sannarlega ekki á launum og tel mig ekki vera að hakka eitt eða neitt. Mér brá allverulega í gær þegar ég las bloggfærslur við frétt af frásögn Gylfa og "lét til skarar skríða" ef þú vilt túlka það svo.

Mér fannst ekki hægt að láta það sem sagt hefur verið standa óáreitt, án þess að andstæð sjónarmið séu sett fram. Sérstaklega þar sem nokkuð hefur verið um rangfærslur og misskilning.

Ég hef þá staðföstu trú, og byggi það á nokkurri greiningarvinnu, að úrræði sem sett hafa verið fram virki. Þau eru hins vegar ekki töfralausn og þau eru ekki nægileg í hugum þeirra sem krefjast flatrar niðurfellingar / leiðréttingar og svo framvegis.

Ég vil bara vera viss um að fólk fái allar upplýsingar í málinu áður en það tekur afstöðu. Sérstaklega þegar gríðarleg hvatning hefur gengið um þjóðfélagið undanfarna daga um svokallað "greiðsluverkfall" sem mér, lögfróðri manneskjunni, finnst arfavitlaus ákvörðun og til skaða fyrir þá sem hana taka. Greiðslufall þeirra sem ekki geta staðið við skuldbindingar er nógu slæmt fyrir fjölskyldur, svo við aukum ekki á þann vanda með sjálfvöldu greiðslufalli.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 17:32

30 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, segir ekki einhvers staðar "desparate times require desparate measures".  Málið er að heimilin hafa ekki lengur efni á því að standa í skilum.  Bæði peningar og úrræði eru þrotin.  Skjaldborgin sem lofuð var hefur ekki látið sjá sig.  Hún breyttist í ryksugu sem gengur út á að bankarnir sogi til sín allt lauslegt fé og síðan ef það dugar ekki, þá er náð í stóru ryksuguna sem sýgur til sín fasteignum.

Hvers vegna dettur bönkunum ekki í hug að lækka vexti eða semja við fólk um niðurfærslu þess hltua höfuðstóls sem er augljóslega tapaður?  Hverju munar það fyrir bankann að viðurkenna tap sitt núna eða að láta næsta eiganda eignarinnar njóta verðlækkunarinnar?  Þetta snýst um það hvort stór hluti þjóðarinnar verði gerður gjaldþrota eða að skuldaþræli bankanna um aldur og ævi eða hvort farin verður sú leið að greiðslubyrði og greiðslugeta verði samstillt miðað við upprunalegan lánstíma.  Þetta snýst líka um það, að regluverkið er vinveitt fjármagnseigendum en óvinveitt lántakendum og þeim sem hafa lagt sparnað sinn í fasteignir.  Fólkið sem átti 10 milljónir inni á bankareikningi er varið í bak og fyrir, en sá sem lagði 10 milljónir til að búa sér og sínum gott heimili hann skal þola það að ekki bara tapa öllu heldur skulda margfalt á eftir.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 19:27

31 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Elfur: Ég dáist að þér að taka óábyrgum aðdróttunum mínum um að þú sést á launum við að setja inn athugasemdir við bloggfærslur um greiðsluverkfall af slíkri stóísku ró sem svar þitt ber vitni um. Við erum sammála um eitt. Það eru áhyggjurnar af svokölluðu „greiðlsuverkfalli“.

Hins vegar skil ég vel slíkar hugmyndir miðað við þær aðstæður sem eru uppi í samfélaginu í dag. Mér þykir það ólýsanlegt óréttlæti þegar skjaldborg er slegin utan um fjármálastofnanirnar í landinu og afleiðingar efnahagshrunsins sem eigendur þeirra, yfirmenn, fjölskyldur og annað venslalið ullu er látið skella með fullum þunga á almenningi. Þetta óréttlæti er sínu meira fyrir það að í orði var lofað að þessi skjaldborg yrði slegin utan um heimilin en á borði standa þau algjörlega úti í næðingunum!

Mér þykir með ólíkindum að lesa um eignatilfærslur og niðurfellingu skulda upp á óteljandi aukastafi þegar þær eiga við um ofantalda sem tengdust bönkunum með beinum eða óbeinum hætti en á sama tíma er ekkert gert fyrir almenna skuldara annað en ganga svo um hnútanna að þeir sem skulduðu bönkunum geti fært afkomendum sínum skuldir sínar í arf. Slíkt kallar ekki aðeins á ótrú á stjórnvöldum, landslögunum og réttlætinu yfir höfuð. Slíkt kallar á viðbrögð eins og greiðsluverkfall.

Þeir sem eiga að bregðast við eru Jóhanna og Steingrímur! En auðvitað er það fallega hugsað af þér að vilja fræða fólk um hvaða afleiðingar fólk kallar yfir sig með því að neita að setja allar sínar ráðstöfunartekjur upp í afborganir á skuldum sem það ræður ekki við að borga af lengur hvort eð er... Þú fyrirgefur að ég skuli ekki meta það meira en ástæðan er sú að mér finnst þú ekki skilja vandamálið sem þeir sem um ræðir standa frammi fyrir eða hverjir beri ábyrgðina á því hversu stórfenglegt það er.

Stærð vandamálsins er ekki síst óréttlætið sem ég reyndi að draga fram hér að ofan.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.5.2009 kl. 19:36

32 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó, ég vil reyndar meina að nákvæmlega það "desperate times ..." sé ástæða þess að ekki sé hægt að ganga eins langt og HH hafa viljað ganga í niðurfellingum og "leiðréttingum." Það sem ég hef verið að reyna að segja er eftirfarandi:

1. Framundan eru ca. 2-3 ár með litlum sem engum hagvexti, miklu atvinnuleysi og erfiðu ástandi heilt yfir.

2. Á meðan á þessu ástandi varir, þurfa allir sem vettlingi geta valdið að leggja sitt af mörkum til þess að þjóðarbúið í heild komist í gegnum þetta ástand. Því ef þjóðarbúið kemst ekki í gegnum þetta, þá er pottþétt að flestir einstaklingar komast ekki heldur í gegnum ástandið.

3. Sanngirni og réttlæti eru munaðarorð sem við getum ekki leyft okkur - fyrr en eftir 3 ár í fyrsta lagi.

4. Á þessu tímabili (næstu 3 ár) munu væntanlega verða hækkaðir skattar, skert þjónusta og auknar tekjutengingar. Ég viðurkenni að ég treysti betur vinstri stjórn til þess að fara í þessa vegferð, því ég tel miklu meiri líkur á að vörður verði staðinn um þá sem allra verst hafa það, heldur en ef hægri stjórn með stóran niðurskurðarhníf tekst á við vandann (en þetta var persónulegur útúrdúr).

5.  Þess vegna, með alla þessa mynd á bakinu er ekki hægt að bæta því á þjóðarbúið - á næstu þremur árum - að breyta höfuðstólum á lánum. Höfuðstólsbreytingar fela í sér rýrnun eigna, sem aftur rýrir eiginfjárhlutfall sem aftur getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það skiptir máli fyrir bankann hvort eign hans er afskrifuð í dag eða eftir þrjú ár. Munurinn felst í því eiginfjárframlagi sem ríkið þarf að leggja til hans. Eina leiðin fyrir ríkið til að leggja fram fé er að sækja það til skattgreiðenda.

6. Það er rangt að "skjaldborgin sé ekki að skila sér." Það sem þið hjá HH verðið að fullyrða, er að skjaldborgin sem þið viljið sjá, hefur ekki skilað sér.  Þetta snýst nefnilega um það hvernig menn skilgreina þessa blessuðu skjaldborg. Ef í þínum huga skjaldborgin felst ekki í öðru en niðurfellingu eða leiðréttingum eða breytingum á höfuðstól, þá mætti mögulega fallast á að hún sé ekki að skila sér. Ríkisstjórnin hefur hins vegar lagt fram skilgreiningu á því hvað átt sé við með skjaldborg fyrir heimilin og öll þau úrræði hafa verið að skila sér og þau úrræði eru til staðar fyrir þá sem á þeim þurfa að halda.

7. Síðan koma vonandi betri tímar (og eins og ég sagði ofar, ef við förum þessa leið sem ég tilgreini í 1-6 þá eru meiri líkur á að þeir komi). Allar spár gera ráð fyrir að verði þeim áætlunum sem gerðar hafa verið, fylgt, þá muni hér verða jákvæður hagvöxtur að ca. þremur árum liðnum. Og með þessum betri tímum koma betri aðstæður til að:

a) skoða hvort hægt sé að leiðrétta höfuðstóla skuldbindinga

b) gera allt hitt sem við þurfum að gera til þess að öllum líði betur :)

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 19:53

33 Smámynd: Elfur Logadóttir

Rakel,

ég greini skýrt á milli þeirra sem ekki hafa val um greiðslufall og þeirra sem hafa það val. Það er til seinni hópsins sem ég reyni að ná með orðum mínum - sá fyrri er í nauð og þarf greiðsluerfiðleikaúrræði til þess að létta á sínum vanda á meðan við förum í gegnum erfiðasta skeiðið. Sá síðari er að auka vanda sinn að óþörfu og stofna til gríðarlegra óþæginda hjá sér og sínum nánustu. Ég tel mig skilja ágætlega í hverju vandinn felst ég er bara ekki sammála að þær aðgerðir sem HH og fleiri vilja fara séu tækar í því þjóðfélagi sem við búum við núna (sjá síðustu athugasemd mína nánar um þetta).

Ég er jafnframt hjartanlega sammála um óréttlætið sem felst í niðurfellingu skulda eins og mögulega mun gerast hjá starfsmönnum gamla Kaupþings (ath. Nýja Kaupþing hefur neitað að gefa upp hvort í þessar aðgerðir hafi verið farið, eða verði farið). Ég er alfarið á þeirri skoðun að refsa eigi öllum sem brutu lög - og þeim sem brutu gegn siðareglum samfélagsins - þó mismunandi refsingar þurfi fyrir þessar mismunandi tegundir brota.

Mér finnst það djö.. skítt að sitja í þeirri súpu að eign sem ég kom mér upp tímanlega fyrir eignabólu á skuldum sem ég hef þurft að frysta og fresta til þess að ná endum saman, hundfúlt að eignin mín sé nú uppurin. Ég væri persónulega vel til í að fá niðurfellingu 20% skulda til þess að eiga að nýju 20% í eigninni minni. Ég sem var í námi þegar mesta eignabólan átti sér stað, var í námi og keypti hvorki bíl né flatskjá né nokkuð annað á lánum - en tók reyndar lán til þess að fjármagna námið.

Þetta er bölvanlega ósanngjarnt og réttlætið er ekkert EN ...

Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að ég hef vinnu, ég fæ laun fyrir mína vinnu sem gera mér kleift að standa við mínar skuldbindingar og greiða niður mín lán. Þess vegna verð ég að bíta í það súra að ég fái ekkert fyrir minn snúð. Ég þarf að borga hærri skatta, komi til skattahækkana, ég fæi minni vaxtabætur vegna tekjutenginga, ég mun þurfa að borga gjöld og þóknanir og skatt og meiri gjöld.

En ég er jafnaðarmaður og ég tel það mína skyldu í skelfilegu ástandi eins og því sem við stöndum frammi fyrir, að verja mínum fjármunum í auknum mæli til þeirra sem þurfa meira á þeim að halda heldur en ég. Ég geri það beint, með eigin framlögum til málefna sem styðja við fátæka og ég geri það óbeint, með framlögum mínum í gegnum skatta- og bótakerfi. Ég afþakka með hörðum mótmælum að fjármunum ríkisins, þeim litlu fjármunum sem aflögu verða á næstu árum, verði varið í niðurgreiðslu á mínum skuldum til þess að ég geti haft það betra.

Það er af þessum ástæðum sem ég styð ekki flatan niðurskurð, þverar leiðréttingar eða hvað sem mismunandi hópar nefna breytingar á höfuðstól lána sem lagðar hafa verið til. Þjóðin mun hafa það svo djö skítt, að við getum ekki leyft okkur þann munað að láta eina einustu krónu til þeirra sem geta séð um sig sjálfir.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 20:27

34 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, í október voru við mun betur stödd en núna.  Ástæðan er einfaldlega sú, að þá var tækifæri til að lina áhrif hrunsins.  Getuleysi síðustu tveggja ríkisstjórna til að verja störfin í landinu hafa aukið vandann.  Afleiðingin er sú að það mun taka lengri tíma en ella að koma sér upp úr kreppunni.

Já, það hefur hver og einn sína skilgreiningu á hvað er skjaldborg.  Flestir sem ég hef rætt við, og þeir eru talsvert margir og búa á ólíkum stöðum á landinu, hlæja af þessari "skjaldborg" sem Jóhanna hefur slegið um heimilin og segja að í besta falli sé hægt að tala um tjaldborg.  Í hverju felst þessi "skjaldborg"?  Það atriði sem mér finnst hlæilegast er þegar vaxtabætur á lægri tekjur voru hækkaðar um allt að 30%, meðan næsti tekjuflokkur fyrir ofan fékk allt að 500% hækkun.

Elfur, þú talar um að allt verði orðið gott eftir 3 ár.  Ertu þá að ganga út frá því að það verði tíminn sem það tekur Samfylkinguna að troða Íslandi inn í ESB eða verðum við þá orðin fylki í Noregi?

Varðandi það að sanngirni og réttlæti séu munaðarorð, þá skulum við láta sömu sanngirni og sama réttlæti ganga yfir alla.  Fjármagnseigendur og húsnæðiseigendur.  Fjármagnseigendur tapa hér um bil öllu sínu og húsnæðiseigendur tapa hér um bil öllu sínu.  Hvor hópur um sig fær að halda 10% af eignum sínum eða 20% eða einhver önnur tala sem er sú sama hjá báðum. Ég skal taka því.  Málið er að það sem gerðist á síðasta ári var skillagður og vel undirbúið rán.  Við viljum að tekið sé á málum, eins og öllum öðrum auðgunarbrotum.  Nei, við viljum að tekið sé á þessu eins og lögin segja að taka eigi á auðgunarbrotum. Punktur.

En fyrst þú ert að fjalla um að skoða eigi málin eftir þrjú ár og ákveða þá hve mikið er hægt að afskrifa. Af hverju ekki að snúa þessu við?  Það vill svo til að ég setti fyrstur fram þessa hugmynd um niðurfærslu höfuðstóls lána.  Hún var sett fram 28. september 2008, þ.e. daginn áður en Glitnir var þjóðnýttur. Hugmyndin var sem sagt sett fram þegar hér voru eftir því sem ég best vissi þrír starfhæfir bankar sem áttu framtíð fyrir sér.  Tillagan sem ég setti fram 28.9.08 var ekki fullmótuð en í blogginu segi ég:

Jú, ríkið verður að koma að því að greiða niður slíkar skuldir.  Það getur gert það með breytingu á vaxtabótakerfinu, þar sem vaxtabætur verða þre- til fjórfaldaðar næstu 10 árin eða svo.  Það getur gert það með því að stofna einhvers konar afskriftarsjóð lána, þar sem bankar geta sótt pening til að afskrifa/lækka höfuðstóla húsnæðislána og bílalána.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, hringdi í mig þremur dögum síðar og óskaði eftir að fá að nota tillöguna í pakka sem hann var að búa sig undir að senda félagsmálaráðherranum, Jóhönnu Sigurðardóttur.  (Ennþá vorum við með 3 starfhæfa banka, að því að við héldum.)  Gísli útbjó pakkann og sendi til ráðherra og bað mig um að vera í startholunum vegna þess að hann átti von á því að strax yrði boðað til fundar í ráðuneytinu.  Þar sem Gísli útfærði ekki tillöguna mína, þá ákvað ég að gera það í annarri færslu 9.10.08.  Þar segi ég:

Í fullri lengd (en þó ekki að fullu útfærð) þá gengur tillaga mín út á eftirfarandi:

  1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.
  2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.
  3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.
  4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.
  5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.
  6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.
Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.

Elfur, förum þessa leið og skoðum eftir 3 ár hvort húsnæðiseigendur (og bíleigendur) verða borgunarmenn fyrir stærri hluta lánanna sinna.  Með þessu er verið að sýna fólki að það er ljós við enda ganganna.  Það er verið að hjálpa því að byggja upp heimilið.  Það er verið að auka veltu í þjóðfélaginu.  Það er verið að fjölga störfum og styrkja stoðir fyrirtækjanna.  Það er verið að auka skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga.  Það er verið að fjölga þeim sem bera byrðarnar af hruninu. Af hverju ekki að fara þessa leið í staðinn fyrir að særa fyrst alla og sjá svo eftir 3 ár hverjir eru grónir sára sinna og hverja þarf að jarða?

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 21:13

35 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nánari útfærslu á þessari hugmynd minni er að finna í eftirfarandi tveimur færslum:

Hinn almenni borgari á að blæða

Færa þarf höfuðstól lánanna niður

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 21:24

36 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó,

"Elfur, þú talar um að allt verði orðið gott eftir 3 ár.  Ertu þá að ganga út frá því að það verði tíminn sem það tekur Samfylkinguna að troða Íslandi inn í ESB eða verðum við þá orðin fylki í Noregi?"

Að sjálfsögðu er ég ekki svo einföld að telja að allt verði orðið gott eftir þrjú ár, enda kom það hvergi fram í máli mínu. Það sem ég sagði, og stend við, er að ef fylgt er þeim áætlunum sem búið er að teikna upp verðum við komin í þá stöðu eftir 2-3 ár að hagvöxtur fari að mælast jákvæður á ný og byrji að birta til. Það er langur vegur frá því að "allt verði orðið gott". Áætlanirnar sem ég er hér að tala um eru áætlanir AGS og ríkisstjórnarinnar um að ná niður fjárlagahallanum á þremur árum, til þess að koma okkur í betri stöðu gagnvart framhaldinu.

En af því að þú spurðir um ESB ... :)

Ég neita því ekki að ég tel að hag okkar sé betur borgið innan sambandsins heldur en fyrir utan það, og að við eigum auðveldari leið fyrir höndum, þegar horft er til langtímamarkmiða þjóðarinnar, í samstarfi við ESB. Ég tók hins vegar ESB aðild ekki með inn í reikninginn í málflutningi mínum að ofan, því hitt verðum við að gera hvort sem við erum innan eða utan sambandsins.

Hvað varðar tillögur þínar frá síðasta hausti, þá ganga þær miklu skemur en málflutningur þinn uppá síðkastið. Ef þú lest tillögur þínar yfir með mínum gleraugum, þá er helmingur þeirra þegar kominn í framkvæmd með greiðslujöfnunarvísitölu verðtryggðra lána annars vegar og greiðslufrystingu hins vegar. Hinn helmingurinn er eitthvað sem ég tel að við ættum að skoða, þegar við höfum burði til þess að gefa loforð. Ég er hins vegar þessi jarðbundna týpa af lögfræðitagi sem gef helst ekki loforð sem ég veit ekki hvort ég get staðið við. En tillögur af þessu tagi eru mér miklu betur að skapi heldur en það sem HH hafa borið fram undanfarið.

Það er ein setning sem þú hefur nokkrum sinnum sett fram sem ég myndi gjarnan vilja sjá útreikning þinn á:

"Það atriði sem mér finnst hlæilegast er þegar vaxtabætur á lægri tekjur voru hækkaðar um allt að 30%, meðan næsti tekjuflokkur fyrir ofan fékk allt að 500% hækkun."

Áttu þá við að ... nei, blunt: hvað áttu við, hvernig finnurðu 500% hækkunina?

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 21:57

38 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó,

það er verið að minnka skerðingar í vaxtabótakerfinu með þessari breytingu og að þú notir tilvitnaða setningu frístandandi án tilvísunar til upphaflegrar færslu þinnar er tölfræðilega nokkuð vafasamt, ekki satt?

Svo ekki sé talað um að í upphaflegu færslunni nefnirðu hvergi að þeir sem hafa lægri tekjurnar fá hámarksbætur, 408.374 en þessir með 12 milljóna heimilistekjurnar (sem þú talar um 500% hækkun hjá), þeir fá 180.000 krónur í vaxtabætur.

Það er alveg rétt hjá þér að breytingin úr 30.000 í 180.000 er sexföldun en tekið úr samhengi ertu samt að gefa í skyn að þeir sem hafa hærri tekjur séu að fá hærri vaxtabætur en þeir sem hafa lægri tekjur - sem er ekki raunin.

Hins vegar, þegar kemur að þeim tekjuskattshækkunum sem við þurfum væntanlega að sæta, þá hjálpar þetta til við að minnka álagið á meðaltekjufólkinu.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 22:43

39 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, hvað áttu við með að verið sé að minnka skerðingu?  Skoðaðu nefndarálitið þá sérðu nákvæmlega hvað ég er að segja.  Sá sem gat fengið hæst 30.000 kr. í vaxtabætur getur núna fengið 180.000.  Það er sexföldun eða 500% hækkun.  Ekkert flókið við það.  Það sem meira er að viðkomandi fær meiri hækkun í krónum talið en sá sem var með lægri tekjur.  Mismununin var þegar til staðar, en Jóhanna og aðrir Samfylkingar ráðherrar töluðu um að með þessu væri verið að rétta hlut þeirra lægst launuðu.  Það er bull.  Þeir sem njóta mest góðs af þessu eru þeir sem eru með 9 - 12 milljónir í árslaun!

Ég er ekki að taka neitt úr samhengi.  Ég er að greina frá staðreyndum.  Get ég ekki bara sagt eins og þú fyrr í dag, að tölurnar voru bara ekki eins og þú áttir von á

Ekki réttlæta vitleysuna með því að vísa í eitthvað sem gæti hugsanlega gerst síðar.  Þetta var arfavitlaust og nefndinni var bent á það.  Ég fór á fund nefndarinnar og hélt yfir þeim ræðu, get ég sagt þér.  Ég hafði ekki mikið álit á sumum sem þar voru fyrir fundinn og ekki batnaði það.  Það fáránlegasta í þessu var, að fulltrúi fjármálaráðuneytisins benti á leið til að hækka vaxtabætur þeirra með lægstu tekjurnar um allt að 55% á kostnað fólksins með 8 milljónir og hærra í árslaun, en nefndinni fannst það greinilega ekki nógu góð hugmynd.   Ég hefði sjálfur viljað sjá fjórföldun vaxtabótanna.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 23:05

40 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ég er ekki að réttlæta vitleysuna, alls ekki og ég trúi þér alveg, bæði varðandi 500% og fundinn og þingmennina :)

Tölurnar eru óþarfar, þ.e. ég get auðveldlega fallist á að þetta hefði ekki þurft að gera, en þú verður að horfa á þetta út frá hinum endanum, það er verið að minnka skerðinu og þess vegna hækka þeir sem eru efst og höfðu áður mestu skerðinguna, hlutfallslega mest.

Ég hefði hins vegar, eins og þú, stutt tillögu fjármálaráðuneytis-fulltrúans - jafnvel þó þau hefðu tvöfaldað kostnaðinn af frumvarpinu.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 23:19

41 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Elfur, það skiptir ekki máli hvernig breytingin á vaxtabótunum er fengin.  Það góða við tillögu fjármálaráðuneytisins, er að hún hefði kostað það sama.  Færa átti peninga til innan kerfisins og klippa áfram út þá sem eru með tekjur yfir 8 milljónum.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 23:30

42 Smámynd: Billi bilaði

Góður pistill, og góðar rökræður; en; ég stoppa við síðasta orðabelg þinn Marínó. Af því að ég næ, með yfirvinnu og löngum fjarvistum frá fjölskyldunni (m.a. núna), að ná launum mínum yfir 8 milljónir, og næ samt ekki endum saman - þá ætti ég ekki að fá vaxtabætur? (Ég sá það reyndar þegar ég skilaði skattaskýrslunni, að nú í fyrsta sinn dett ég út úr því kerfi miðað við reiknivélina á RSK.)

Ekki veit ég hvort ég er í plús eignalega séð ennþá, því að miðað við eitthvert blogg sem ég sá er fermetraverð húsnæðis skv. leynireiknireglu bankanna 160.000 kr per fermeter. Sé það rétt, er ég sokkinn. (Ég hef verið að reyna að selja síðan í janúar 2008. Það hefur ekki tekist og því hef ég neyðst til að bæta við mig vinnunni sem lengir í hengingarólinni.)

En, þessi pistill fékk mig endanlega til að ákveða að skrá mig í HH, og það hef ég þegar gert.

ES: Elfur, takk fyrir skýrar og greinargóðar athugasemdir.

Góðar kveðjur,

Billi bilaði, 5.5.2009 kl. 07:17

43 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Billi bilaði, ég er ekki að segja að fólk hafi það of gott á 8 milljónum á ári, en hvernig hefðir þú það, ef þú værir bara með 6 milljónir?  Í mínum huga snýst þetta um hvernig breyting er útfærð.  Það var vilji Alþingis við gerð fjárlaga að hjón með tekjur yfir 8 milljónum ættu takmarkaðan rétt á vaxtabótum.  Ríkisstjórnin ákvað að auka við vaxtabæturnar með því fororði að þeir sem minnstar hefðu tekjurnar ættu að bera mest úr bítum.  Niðurstaðan varð á annan veg.  Þetta er það sem ég er að gagnrýna.

Ég myndi vilja stokka upp vaxtabótakerfið alveg.  Það er tvennt sem ég vil að vaxtabætur endurspegli:  fjölskyldustærð og greiðslubyrðilána sem hlutfall af tekjum.  Mér finnst fáránlegt að hjón með börn fái sömu vaxtabætur og barnlaus hjón meðan það þykir eðlilegt að einstætt foreldri fái hærri vaxtabætur en einstæðingur.  Ég væri t.d. í minna húsnæði, ef ekki vildi svo til að ég á fjögur börn.  Fyrir hvert barn, þá þarf ég einu herberginu fleira og þar af leiðandi stærra húsnæði.  Nú ég þarf líka meiri tekjur til að framfleyta stærri fjölskyldu.  Mér finnst þessi þáttur vera helsti annmarki vaxtabótakerfisins, eins og það er í dag.  Hitt atriðið varðandi greiðslubyrði sem hlutfall tekna er nokkurn veginn það sem kerfið gengur út á. Það er sjálfsagt að byggja inn í það skerðingarákvæði, en þau verða líka að taka tillit til fjölskyldustærðar.

Marinó G. Njálsson, 5.5.2009 kl. 09:00

44 Smámynd: Billi bilaði

Sæll aftur, og takk fyrir svarið.

Með 6 milljónir væri ég kominn í þrot, með mín 4 börn í heimili. Gagnrýni þína skil ég vel, og tek undir, en hjó bara við það í síðasta orðabelg að skerða ætti við 8. (Við endurlestur sé ég að þú ert að segja hvernig reglurnar voru, en ekki endilega lýsa yfir hvernig þú vilt að þær séu.

Seinni málsgreininni er ég einnig algerlega sammála. Ég valdi mér eign miðað við fjölskyldustærð. Ég hef ekki efni á henni lengur, en get ekki selt. Gæti ég selt, og farið t.d. að leigja í minna (eða keypt mér minna) þá væri ég eflaust í mjög þokkalegum málum. Það bara selst ekki. Ég geri mér líka fulla grein fyrir því að mjög margir eru miklu verri stöðu en ég - og því hugsar maður oft, "á ég nokkuð að vera að væla". Ég enda alltaf með sama svarið - "já, ég á að væla upp að vissu marki - allar raddir verða að heyrast".

Mér er í raun sama hvaða lausnir eru settar á borðið ef þær virka - eins og ég segi, virkur fasteignamarkaður myndi sennilega bjarga mér - en þær lausnir VERÐA AÐ VIRKA. Og þú ert duglegur að benda á að það eru þær ekki að gera. Kann ég þér bestu þakkir fyrir það.

Góðar kveðjur,

Billi bilaði, 6.5.2009 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 1678108

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband