Leita í fréttum mbl.is

Samfylkingin dregur fólk og fjölmiðla á asnaeyrunum

Ég skil ekki þessa umræðu um að þjóðin hafi verið að kjósa um ESB.  Hafi hún verið að gera það, þá var ESB hafnað!  Skoðum niðurstöður kosninganna nánar.

Í töflunni hér fyrir neðan hef ég bætt við einum dálki við þessar hefðbundnu upplýsingar sem hafa verið framreiddar fyrir þjóðina. Ég skoða hver er hlutfallslegur munur á fylginu núna og síðast:

Ef þessar upplýsingar eru skoðaðar, þá sést að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 35,2% af fylginu sínu og Frjálslyndir töpuðu rúmum 69% meðan aðrir flokkar bættu við sig.  Samfylkingin bætti við sig 11,2%, Framsókn 26,5% og VG heilum 51,7%.  Svo bætir Borgarahreyfingin við sig öllu.  Þó við tökum breytingunni í prósentustigum eða atkvæðamagni, þá bæta Framsókn, Borgarahreyfingin og VG við sig meira fylgi en Samfylkingin.  Nú get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvernig tekst mönnum að túlka þessar niðurstöður sem sigur Samfylkingarinnar!  Ég fæ ekki betur séð en að Borgarahreyfingin og VG séu sigurvegarar kosninganna.

Vilji menn túlka niðurstöðurnar þannig að ESB fylgjendur í Sjálfstæðisflokknum hafi farið yfir til Samfylkingarinnar og Framsóknar, þá hafa einhverjir aðrir fylgjendur þeirra flokka farið yfir til VG.  3% kjósenda er bara rétt um 5.600 atkvæði. 12,9% eru 24.146.  Hafi stórhluti af þessum 24 þúsund farið í Samfylkinguna, þá hafa 18.500 manns ákveðið að hætta að kjósa Samfylkinguna.  (Vissulega koma inn í þetta nýir kjósendur, þannig að þetta er einföldun.)  Eigum við þá að túlka að 13.850 fyrrum kjósendur Samfylkingarinnar hafi verið óánægðir með ESB fókus Samfylkingarinnar og ákveðið að kjósa VG?  Eða lýstu um 5.000 fyrrum kjósendur Samfylkingarinnar óánægju sína með svikin loforð um skjaldborg um heimilin og ákváðu að kjósa Borgarahreyfinguna og Framsókn?

Það er bull að "kosningasigur" Samfylkingarinnar sé yfirlýsingum um að sækja eigi um ESB-aðild. 70,2% þjóðarinnar kaus flokka sem vildu fara aðra leið en Samfylkingin.  Af hverju eru úrslit kosninganna ekki yfirlýsing kjósenda að þeir vilji ekki leið Samfylkingarinnar?  70,2% þjóðarinnar studdi framboð, sem vilja fá upplýsta umræðu um hvað aðildarviðræður þýða og vilja fá að kjósa um viðræðurnar áður en eitthvað annað sé gert.  70,2% þjóðarinnar hafnaði leið Samfylkingarinnar að hefja viðræður eins og beiningarmaður á stétt hjá ríkisbubbanum.  70,2% þjóðarinnar hafnaði aðgerðaleysi Samfylkingarinnar í málefnum heimilanna og atvinnulífsins.  70,2% þjóðarinnar keypti ekki "já, já, nei, nei" atvinnustefnu Samfylkingarinnar sem kom fram í orðum Össurar Skarphéðinssonar á borgarafundi um daginn. 70,2% þjóðarinnar hafnaði Samfylkingunni og það sem hún stendur fyrir.  Samfylkingin er vissulega stærsti flokkur landsins.  Því er ekki að neita, en flokkurinn er samt með innan við 30% fylgi.  Hvenær hefur það tíðkast að 30% myndi þvingaðan meirihluta?

Málið er að margir fjölmiðlamenn eru mjög veikir fyrir ESB-aðild.  Það var t.d. furðulegt að hlusta á umræðuna hjá Agli áðan, þar sem ESB-mantran var kyrjuð eins og ekkert annað skipti máli.  Staðreyndin er sú, að ESB skiptir engu máli, ef við leysum ekki þau brýnu efni, sem Samfylkingin hefur verið óhæf um að leysa, þ.e. vanda heimilanna og atvinnulífsins.  Hættum þessu endalausa blaðri um ESB og snúum okkar að því sem stendur okkur næst.  Upphefðin kemur ekki að utan.  Lausnirnar koma ekki að utan.  Ef við björgum okkur ekki sjálf, þá mun enginn bjarga okkur.  Um leið og aðrar þjóðir sjá að við höfum getu, vilja og þor til að takast á við vandamál okkar, þá fyrst munu þær taka okkur alvarlega og hæf til inngöngu í ESB.  Við eigum að fara í uppbyggingu samfélagsins með það í huga að uppfylla skilyrði ESB og Maastricht samkomulagsins án tillits til þess hvort við göngum í ESB og tökum upp Evru eða ekki.  Það mun alltaf færa okkur fram á við og gera Ísland og það sem íslenskt er samkeppnishæfara í samfélagi þjóða.


mbl.is VG verður að gefa eftir í Evrópumálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rosalega eigið þið  bágt í dag

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 16:54

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nei, Ragnar, ég á ekkert bágt í dag.  Ég bara hafna þeim fáránleika að túlka niðurstöður kosninga, þar sem fylgi Samfylkingarinnar jókst um 5.600 atkvæði, meðan VG og Borgarahreyfingin bættu hvor um sig við sig 13.500 atkvæðum og Framsókn bætt við sig 5.700 atkvæðum, sem yfirlýsingu um að fleygja eigi sér fyrir fætur ESB.  Ég túlka þetta sem yfirlýsingu um að einhenda eigi sér í aðgerðir til bjargar heimilunum og atvinnulífinu.  Mér er nákvæmlega sama þó Samfylkingin fari til Brussel, ef hún bara leysir vandann hérna heima.  Það er í mínum huga forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 17:02

3 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Rökrétt greining og góður punktur hvað fjölmiðlana áhrærir - þeir eru mannaðir aðildarsinnum enda margt líkt með þeim og tækifærissinnum.

Páll Vilhjálmsson, 26.4.2009 kl. 17:07

4 identicon

þú er hundfúll og lemur hausnum við steininn

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 17:12

5 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Þakka þér fyrir skorinort og réttmætt innlegg inn í fjölmiðlafroðuna.

Þegar þær staðreyndir kosningaúrslitanna sem þú rekur hér eru skoðaðar blasir við að Samfylkingin talar úr tómri tunnu.

Í bakgrunni er síðan staðan innan ESB í dýpkandi kreppu þar sem valdhafar stóru ríkjanna, Þýskalands, Frakklands og Bretlands, eru á nálum út af mótmælaöldu almennings í dýpkandi kreppu, svo ekki sé talað um neyðarástand í mörgum minni ríkjum innan ESB: Írland, Lettland og Grikkland sem dæmi. Spánn er jafnframt að sogast ofan í svelg 20%  atvinnuleysis. - Nánar í bloggsíðu minni.

Hjörleifur Guttormsson, 26.4.2009 kl. 17:22

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nei, Ragnar, ég er mjög ánægður með gengi míns flokks í kosningunum.  Við komum ferskir inn með 4 þingmenn og ættum að vera með 5 ef ekki væri misvægi atkvæða.  Raunar ætti Samfylkingin ekki að vera með nema 19 af sömu ástæðu.  Mér finnst bara kjánalegt að segja, að þar sem óánægju fylgi hafi færst frá D til S, að þá beri að túlka niðurstöðurnar þannig að við eigum að falla fyrir fætur ESB.  70,2% þjóðarinnar kaus flokka sem vilja gera hlutina með reisn.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 17:25

7 identicon

Þetta er nákvæmlega málið. S fylking a ekkert annað val en að leggja málið í is. Innganga er er ekki bara felld í skoðunarkönnunum sem sýna minnihluti vill esb heldur lika þegar talið var úr kjörkössunum. It is a waste of time. 'eg er fylgjandi esb aðild en það er ekki meirihluti þjóðarinnar.

harry (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 17:31

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta, Hjörleifur.  Ég er búinn að fylgjast með gangi mála í Ungverjalandi í tæp tvö ár og hef ekki áttað mig á því hver blessun ESB er fyrir þá.  Þeir fóru inn á sömu forsendum og Samfylkingin vill nota núna, þ.e. hagkerfið var í rúst og þeir urðu að finna leið út.  Hún kom í stuttan tíma, en margir telja að kommúnisminn hafi verið betri en ESB.  Nú, eins og þú bendir á, þá eru mörg lönd að vega salt á hengibrúninni.  Þau hafa áttað sig á því að hraðbrautin sem þau voru á, var ekki fullbúin og við enda hennar var einbreiður slóði sem lagður hafði verið fyrir þverhnípið.  Málið er að við verðum að leysa málin sjálf, ekki treysta á aðra.  Reynsla Austfirðinga, þ.e. bið í á þriðja tug ára eftir stóriðju, ætti að vera okkur dýrmæt lexía.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 17:35

9 identicon

Auðvitað fékk Borgarahreyfingin 100% meira en síðast.  Hún var ekkert með síðast.  Það er ekki hægt að segja að hún sé sigurvegari út frá því.  Hins vegar er það vel af sér vikið hjá þeim að ná 4 inn, það verður ekki tekið frá þeim

Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 17:41

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Tómas, nú bregst þér stærðfræðikunnáttan.  Það er ekki hægt að reikna prósentuhækkun frá núlli.  Aukning þeirra er því óendanleg í prósentum!

Borgarahreyfingin fékk 13.519 atkvæði sem er hátt í 8.000 atkvæða meiri aukning, en Samfylkingin getur státað af.  Ef það er ekki marktækt, þá vildi ég gjarnan fá að vita hvað er marktækt.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 17:52

11 identicon

Nei, ég get ekki heldur tengt útkomuna við það að fólk hafa verið neitt að kjósa Evrópubandalagið.  Veit ekki hvort fólk er viljandi að brengla niðurstöðurnar. 

EE elle (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 17:56

12 identicon

- - að fólk hafi - -

EE elle (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 17:58

13 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Samfylkingin vill bara túlka þetta sem sigur í ESB umræðu, þau vita ekki einu sinni hvað inniheldur í ESB, það er bara að ganga inn í ESB, fólkið fær ekkert að vita, það er ekkert upplýst, Samfylkingin fékk að mínu mati svona góða kosningu vegna persónudýrkunnar á Jóhönnu, mitt mat.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 26.4.2009 kl. 18:12

14 identicon

nújæja, vitleysan er semsagt ennþá stærri..

Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 18:16

15 identicon

Hvers vegna má ekki fara að tala við ESB?  Voðalega eru menn þröngsýnir.

Þið kjósið þá bara nei í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef samningurinn er svona hræðilegur.   Þá verður þetta bara fellt. 

Ef samningurinn verður okkur í hag, þá kjósum við bara já.

Er það ekki fair?  En við vitum ekki hvað við fáum án þess að tala við þá.

Gaupi (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 18:42

16 Smámynd: Offari

Gaupi ástæðan fyrir því að ég vill ekki fara í aðildarviðræður ´núna er sú að þá lengist bara biðin eftir úrbótum. Aðildarviðræður taka eitt til tvö ár. Ef ekkert verður gert annað til að bjarga heimilum landsins á meðan beðið er er hætt við að Esb aðild verði samþykkt á þeim rökum að Íslendingar séu ekki færir um að bjarga sér sjálfir.

Ég hef jafnvel frekar trú á að krónan lækki frekar en að hún hækki við að hefja aðildarviðræður því það er ESB í hag að fá landið fyrir sem minnstan pening.

Offari, 26.4.2009 kl. 18:50

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gaupi, hvar er sagt að ekki megi ræða ESB?  Ég minnist hvergi á það.  Það gott að fólk hafi ímyndunarafl en óþarfi að gera fólki upp skoðanir!

Annars væri gott að vita hver markmið og stefnumál Samfylkingarinnar eru varðandi ESB.  Það hefur hvergi komið fram.  Hvað hefur flokkurinn að fela?  Spyr sá sem ekki veit.

Þú verður að afsaka að ég treysti ekki stjórnmálamönnum og vil vita á hvaða forsendum menn ætla að fara í viðræðurnar.

Loks frábið ég mér, að mér séu gerðar upp skoðanir.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 18:50

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Steingrímur, ég er held ég að segja nákvæmlega sama og þú.  Að fleiri en Samfylkingin sé ekki ein um að vilja ESB aðild.  Það sem ég sagði er að hinir flokkarnir vilja ekki fara leið Samfylkingarinnar.  Þeir ýmist vilja fá umboð þjóðarinnar til þess að fara í viðræður eða eru með skýrt afmörkuð skilyrði fyrir slíkum viðræðum.  Þess vegna segi ég að þjóðin hafi hafnað leið Samfylkingarinnar.  Ég segi hvergi að þjóðin hafi hafnað ESB viðræðum eða aðild:

Það er bull að "kosningasigur" Samfylkingarinnar sé yfirlýsingum um að sækja eigi um ESB-aðild. 70,2% þjóðarinnar kaus flokka sem vildu fara aðra leið en Samfylkingin.  Af hverju eru úrslit kosninganna ekki yfirlýsing kjósenda að þeir vilji ekki leið Samfylkingarinnar?  70,2% þjóðarinnar studdi framboð, sem vilja fá upplýsta umræðu um hvað aðildarviðræður þýða og vilja fá að kjósa um viðræðurnar áður en eitthvað annað sé gert.  70,2% þjóðarinnar hafnaði leið Samfylkingarinnar að hefja viðræður eins og beiningarmaður á stétt hjá ríkisbubbanum.

Nú veit ég ekki hvernig þú lest að "ESB aðild hafi verið hafnað".

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 19:33

19 identicon

Það að vera viljugur að ræða aðild ER EKKI SAMA OG vilja sækja um aðild. 

EE elle (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 19:39

20 Smámynd: Björn Heiðdal

Eitt sem gleymist í þessari ESB strax umræðu er hæfni stjórnsýslunnar að glíma við tvö risamál á sama tíma.  Aðildarviðræður og hrun bankakerfisins.  Maður hefði haldið að ríkisstjórnin og embættismenn hennar hefðu nóg með hrunið og finna leiðir undan bankarústunum.  Hvað er að svona fólki?  

Björn Heiðdal, 26.4.2009 kl. 19:44

21 identicon

Steingrímur, fyrirgefðu en ég skil þetta ekki:"Þannig að 32-40 þingmenn af 63 eru hlynntir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu".  Það kemur ekkert fram að allir þessir menn séu viljugir að SÆKJA UM AÐILD AÐ EVRÓPUBANDALAGINU.  Kannski eru þeir VILJUGIR AÐ RÆÐA ÞAÐ ÞÓ.  En það er mikill munur.  Og ekkert sem lætur neinn halda að allir sem kusu flokkana 3 vilji að þeir sæki um.  Ætla nú bara að vona að þeir sæki ekki um fyrr en þeir hafa frætt fólkið um hvað það þýðir og fólkið hafi kosið um það.

EE elle (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 20:30

22 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held að lang flestir landsmenn vilja gjarnan fá að vita hvað hangir á spýtunni.  Ég tel mig t.d. ekki vera tilbúinn að segja af eða á um aðild fyrr en búið er að veita mér fyllri upplýsingar um hvað í þessu felst.  Síðan vil ég fá að vita hver eru markmið okkar þegar við förum inn í viðræðurnar.  Hverjir eru áherslupunktarnir, hvar eru við ekki að hafa áhyggjur, hvað bætist við EES samninginn og hvað felst í þeirri viðbót.  Ég gæti haldið svona áfram.

Síðan verð ég að spyrja mig, hvort ég geti treyst stjórnvöldum,sem leyfðu bankakerfinu að ganga yfir okkur á skítugum skónum og setja þjóðfélagið/hagkerfið á hliða, til að ná viðunandi samningum fyrir okkur.  Satt best að segja vil ég ekki sjá Samfylkinguna í þeirri samninganefnd sem send verður til Brussel.  Nú eru tæpir 14 mánuðir frá því að krónan tók sínu fyrstu snörpu dýfu.  Hvað hefur Samfylkingin gert til að vinna gegn því?  Ekki neitt sem heitið getur.  Nú eru tæpir 7 mánuðir síðan bankarnir féllu.  Hvað hefur Samfylkingin gert til að lina áfallið fyrir heimilin og atvinnulífið?  Ekkert sem heitið getur.  Af hverju í ósköpunum ætti ég að treysta Samfylkingunni til að verja hagsmuni mína í þessu máli sem fjallar um framtíð þjóðarinnar, þegar hún getur ekkert gert þegar neyðarástand varir í þjóðfélaginu.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 20:43

23 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Er það virkilega stefna XO að það sé "bjánaskapur" að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um mál þar sem um það bil helmingur þjóðarinnar er á með og hinn á móti?

Ég fékk sting í hjartað af vonbrigðum þegar ég heyrði Þráinn segja þetta í dag á RUV - "bjánaskapur" að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu bara af því að það samrýmist ekki stefnu flokksins?

Það á alveg eftir að kynna ESB fyrir þjóðinni, síðan ætti að hafa upplýstar umræður um samningsmarkmið og vonandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en sótt er um aðild.

Róbert Viðar Bjarnason, 26.4.2009 kl. 21:10

24 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Róbert, er einhver hér á þræðinum talsmaður Borgarahreyfingarinnar?  Sjálfur horfði ég ekki á Þráinn og þekki því ekki samhengi umræðunnar, þegar hann lét þessi orð um munn fara.

Tek aftur fyllilega undir þau orð þín að það á eftir að kynna ESB fyrir þjóðinni og því erfitt að móta sér skoðun.   Eins var áhugavert að sjá Steingrím J. gagnrýna að fjölmiðlarnir virðast vera of blindir og jafnvel hlutdrægir í þessari umræðu.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 21:19

25 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Marinó - Þráinn sagði þetta ("bjánaskapur") í samhengi við hugmynd Steingríms og fleiri um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem ekki er sótt um fyrr en þjóðin hefur ákveðið sig eftir upplýsta lýðræðislega umræðu.

Annars held ég að það sé hugsanlega einhver misskilningur með stefnu XO, þar sem viðræður og umsókn er ekki nógu skýrt.  Það eru nánast allir sammála um að við ættum að fara í viðræður við ESB, jafnvel Ragnar Arnalds frá Heimsýn sagðist vera sammála því í Kastljósi um daginn.  En umsókn og viðræður eru ekki sami hluturinn...

Hér er ágætis yfirlit, þó ekki frá óháðum aðila, um hvað umsóknarferlið snýst.  Þetta er engar venjulegar "viðræður" heldur verður maður að vera nokkuð viss um að maður vilji inn áður en farið er af stað í þessa vegferð...

http://eyjan.is/goto/kristjan/

Róbert Viðar Bjarnason, 26.4.2009 kl. 21:26

26 identicon

Hvernig ætlar þú að fá upplýsta umræðu, um hvað græðist og hverju þarf að fórna, án þess að fara í aðildarviðræðurnar? Er ekki töluvert atriði að setjast við samningaborðið og fá þessa hluti á hreint, og setja þetta síðan í dóm þjóðarinnar?

Framsókn fór fyrst að kippa í í skoðanakönnunum eftir að þeir fóru að gæla við evrópuaðild. Það er allavega mín tilfinning, frekar en að fólk hafi fallið fyrir "blekkingunni" um 20% niðurfellinguna.

Hvarflar það ekki að þér að einhverjir kjósendur hafi snúið baki við Samfylkingunni út af þeirra þætti í hruninu? Er það ekki inn í myndinni að einhverjir hafi snúið baki við henni og nýir kjósendur komið í staðinn, m.a. vegna evrópumálanna?

Að lokum langar mig að spyrja þig hvernig þú sjáir fyrir þér endurreisn krónunnar? Og hvort þú sjáir það fyrir þér að krónann verði einhvern tímann alþjóðlegur viðurkenndur gjaldmiðill á ný?

Andri Valur (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 21:55

27 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Andri Valur, ef ég væri nær skráargatinu, þá gæti ég kannski skýrt það betur.  Ég vil fá betri upplýsingar vegna þess að ég hef þær ekki.  Ég spurði sjálfur að því hve margir hefði farið annað og giskaði á um 18.000.

Varðandi krónuna og margt annað, þá hvorki göngum við í ESB á næstunni né skiptum um gjaldmiðil.  Við verðum að lifa við krónuna í nokkurn tíma í viðbót.  Hvort það er nokkrir mánuðir eða 5 ár veit ég ekki, en það er út í hött að einbeita sér ekki að uppbyggingarstarfi hér innanlands og ennþá fáránlegra að ekkert hafi verið gert af viti síðustu mánuði.  Að menn séu yfir höfuð að eyða tíma í þessa umræðu meðan heimili og fyrirtæki landsins brenna finnst mér bera vott um algjöra uppgjöf fyrir mun brýnni úrlausnarefnum.

Og fyrir þá sem sáu þáttinn með leiðtogum flokkanna og Birgittu í kvöld, sáu ótrúlega barnalega þáttastjórnun.  Ekkert var spurt út í efnahagsumræðuna, úrræði fyrir almenning og fyrirtæki.  Nei, það var rætt um ESB málin eins og þau væru það eina sem skipti máli.  Sem stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, þá veit ég að fyrir almenning í landinu skiptir ESB engu máli í augnablikinu.  Fyrir almenning skiptir máli hvernig tekst að endurheimta störfin, hvort tekið verði á vaxandi fjárhagsvanda heimilanna og fyrirtækjanna, hvort bankastarfsemi fer að komast í eðlilegt stand, hvort það sé framtíð fyrir fólk í landinu eða hvort framtíð þeirra sé betur búin annars staðar.  Að setja þessa ESB umræðu í forgang er ennþá ein tilraun Samfylkingarinnar til að sýna almenningi löngutöngina.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 22:30

28 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ánægð með þetta innlegg þitt og gott að fólk sé að lesa það! Ég er svo hjaranlega sammála þér því aðalmálið eru vandamálin hérna heima sem bráðliggur á að leysa. Mér er alveg sama þó Steingrímur samþykki að Jóhanna sendi einhverja út í aðildarviðræður ef krafturinn verður settur í að leysa vanda heimilanna og atvinnuveganna í landinu!

Það þarf líka að vinna að lýðræðisumbótum eins og þeim sem tryggja það að þjóðin geti greitt um það atkvæði hvort hún vilji inn í ESB ef samingar nást. 

Mér finnst þó liggja meira á að setja alvöru kraft í rannsóknina á bankahruninu en sækja um aðild að ESB sem ég hélt bara að við hefðum bara engar forsendur til að sækja um í augnablikinu! Eða oftúlkaði ég eitthvað

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.4.2009 kl. 22:34

29 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Algjörlega sammála þér, Rakel.  Þetta er spurning um forgangsröðun og hún er klár í mínum huga.  Einhvers staðar í sætum 50 - 99 er ESB.  Á undan eru tugir annarra verka sem þarf að vinna.  Að ætla að fara að setja tíma og auðlindir í ESB málin er hrein móðgun við alla þá sem eru atvinnulausir, í gríðarlegri fjárþröng, hafa misst eigur sínar á uppboð á síðustu mánuðum eða sér fram á að missa þær á uppboð eftir 31. október.  Samfylkingin er ekki búin að leysa nein vandamál fyrir almenning eða fyrirtæki í landinu frá því að bankarnir féllu.  Það er bara búið að fresta þeim, lengja í hengingarólinni.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 22:46

30 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þú veist sennilega að ég hef þó nokkrar áhyggjur af niðurstöðu kosninganna. Ég held hreinlega að stór hluti kjósenda hafi ekki áttað sig á því hvað staða okkar er alvarleg eða því sem enn verra að hún mun halda áfram að versna nema við setjum allar fjarlægar heildarlausnarhugmyndir til hliðar.

Fólk er að missa atvinnuna sína núna, heimili eru að fara í gjaldþrot og fyrirtækin rúlla hvert á fætur öðru. Stjórnvöld verða því að hætta að stara í einhverjar kristalskúlur eftir ESB og álverum inni í fjarlægri framtíð. Við verðum einbeita okkur að raunverulegum aðstæðum í nútímanum.

Ef Samfylkingin vill ekki fá yfir sig aðra mótmælaöldu þá verða fulltrúar hennar að læra að hlutsta og þiggja góð ráð til bjargar því sem grundvallar farsæld allrar þjóðarinnar! Þ.e. heimilunum og innlendum atvinnufyrirtækjum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.4.2009 kl. 23:04

31 identicon

Ég er sammála því að það hefur of litlu púðri verið eytt í að ræða efnahagsmálin hérna heima fyrir sbr. þennan þátt áðan.

Þú segir að við séum hvorki að fara að ganga í esb né skipta um gjaldmiðil á næstunni og verðum því að lifa með krónunni.

Ég er sammála fyrri fullyrðingunni en ekki þeirri síðari. Ég tel einfaldlega að við getum ekki lifðað með íslensku krónunni. Hún er ekki markaðsvara, hún er ekki alþjóðlegur gjaldmiðill. Þetta er ónýt vara og á meðan hún er jafn löskuð og hún er þá verða allar aðrar aðgerðir erfiðari.

Þá komum við inn á það sem margir hafa bent á, að aðildarviðræður/umsókn, eða hvað menn vilji kalla það, yrði ákveðið akkeri fyrir þjóðina. Við værum komin með stefnu og sjáanleg markmið og myndum þannig auka trúverðugleika og traust, bæði til þjóðarinnar og gjaldmiðilsins.

Andri Valur (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 23:10

32 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Andri - Ef ESB er kynnt fyrir þjóðinni og þjóðin samþykkir að sækja um aðild þá er ég sammála þér en annars munu útlendingar og aðrir alltaf líta til Noregs sem hefur fellt ESB aðild tvisvar sinnum í þjóðaratkvæðagreiðslum, eftir löng samningaferli og ef eitthvað er á sú staða eftir að auka óvissuna til muna...

Róbert Viðar Bjarnason, 26.4.2009 kl. 23:20

33 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Rakel, ég hef það líka, þar sem Samfylkingunni tókst að spila þessa biluðu plötu í kosningabaráttunni að hún hefði eitthvað gert.  Þetta var náttúrulega blekking, sem spyrlar á "borgarafundum" féllu fyrir vegna þess að þeir höfðu ekki unnið heimavinnuna sína. Ég er búinn að fjalla oft um þetta (sjá t.d. Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum).  Meira að segja hækkun vaxtabóta var þannig að heimili með árstekjum upp að 7 milljónum fékk 30% hækkun meðan tekjuhópar með 8-12 milljónir fengu allt að 500% hækkun.  Núna á að koma með breytingar á barnabótum, sem LÆKKA greiðslur fyrir hvert barn til örorkulífeyrisþega um kr. 6.000 á mánuði!  Ég skil ekki svona forgangsröðun.

Ég spái því að gerist ekkert róttækt á næstunni fáum við nýja búsáhaldabyltingu.  Hagsmunasamtök heimilanna eru að fá beiðnir um funda alls staðar að af landinu.  Fólk er orðið örvæntingarfullt.

Andri Valur, ég geri ekki ráð fyrir að við getum skipt um mynt á næstunni.  Því miður.  Ég tel mjög mikilvægt að gera það sem fyrst, þar sem einn kosturinn við það er að losna við hengingaról verðtryggingar.  Varðandi akkerið, þá má ekki gleyma því að sé akkerinu kastað út of fjarri landi, þá getur það dregið hripleka skútuna niður með sér.  Ég held að við verðum að minnsta kosti að sjá til lands áður en farið er að ræða um aðild.  Maður er ekki í góðri stöðu til að prútta, ef hinn aðilinn áttar sig á því að maður hefur engin tromp uppi í erminni.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 23:23

34 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Nákvæmlæga! Mér finnst frábært að fólk sé að átta sig á Hagsmunasamtökum heimilanna og vona að þið ákveðið að fara í fundarherferð um landið!

Við í borgarafundarnefndinni hér fyrir norðan ákváðum að taka okkur smápásu frá fundarhöldum fram yfir kosningar. Við erum þó ekki að baki dottnar þar sem við erum allar á einu máli um að það er sorglega mikið meðvitundarleysi í samfélaginu. Þetta meðvitundarleysi finnst okkur ekki síst speglast í samfélagsumræðu sem er hvarvetna á villigötum. Ég meina inni á Aþingi, í fjölmiðlum, í verkalýðsfélögunum, í bæjar- og sveitarstjórnum og meðal almennings.

Ég mæti örugglega á fund HH ef af verður hér á Akureyri! Myndi líka aðstoða við undirbúining og skipulagningu ef þörf krefur

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.4.2009 kl. 23:35

35 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Stundum finnur maður jábræður á ólíklegustu stöðum.  Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi formaður Félags íslenskra iðnrekenda, stjórnarformaður BM Vallá ritar grein á AMX, þar sem hann lýsir frati í þessa ESB umræðu.  Hvet fólk til að lesa pistilinn:  Endurreisn íslensk hagkerfis þrátt fyrir stjórnmálin

Rakel, ég veit ekki hvort við förum beint í fundarferð, en það veltur þó allt á fjárhag félagsins.

Marinó G. Njálsson, 26.4.2009 kl. 23:41

36 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég reikna með að við í borgarafundarnefndinni hér fyrir norðan gætum a.m.k. útvegað ykkur ókeypis húsnæði til fundarhaldsins

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.4.2009 kl. 23:57

37 Smámynd: Ólafur Ágúst Guðmundsson

Sæll Marinó, það er eitthvað furðulegt að gerast hjá Silfri Egils. Skyndilega eru öll málefnaleg komment ritskoðuð, virðist snúast um að verja Samfylkinguna hvað sem það kostar.

Jafnvel blekkingarnar um sigur hennar í kosningunum. Eins og þú bendir á stendur hún í stað, en VG bæta hlutfallslega við fylgi uppá 50%.

Fjölmiðlaheimurinn hér er algerlega heillum horfinn, þar eru allir ólæsir á tölur og ljúga með tölfræðinni eins og kynningarfulltrúar á yfirsnúningi.

Þetta er ótrúlegt ástand.

Kkv. Ólafur Ágúst Guðmundsson

Ólafur Ágúst Guðmundsson, 27.4.2009 kl. 00:09

38 identicon

Egill var líka hálf-ruddalegur við Ögmund í þætti RUV í dag, þar sem hann ásakaði hann um útúrsnúning sem var enginn útúrsnúningur þó.  Og undarlega, það sama gerði Jóhanna Vigdís í RUV í kvöld við Steingrím J, þó hann hafi ekkert verið að snúa út úr.  Bara datt þetta í hug af því Ólafur var að tala um Silfur Egils og þetta var leiðinlegt.

EE elle (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 00:19

39 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara að benda á aðra skýringu á niðurstöðu kosningana:

  • Í fyrstaskipti í sögunni er sjálfstæðisflokkurinn ekki stærsti flokkurinn. Samfylkingin er orðin stærsti flokkurinn í dag.
  • Samfylkingin fær væntanlega umboð til að mynda næstu stjórn ef að núverandi heldur ekki bara áfram.
  • Samflylkingin hefru nú um 1/3 af öllum þingmönnum
  • Vg og Borgarhreyfingin unnu stærstu sigrana en eru ekki stærstu flokkarnir

Og til allra sem hér hafa sagt að mörg önnur brýnni mál en ESB aðildarviðræður, þá segi ég að við erum nú ekki svo fá að við okkur muni um að setja okkur samningsmarkmið og senda nefnd til ESB viðræðna. Það tefur ekki önnur mál. EN aðildarviðræður þurfa að fara í gang hið fyrsta ef að ESB á að vera hluti af því að koma Íslandi á réttan kjöl aftur. Á meðan verður unnið hér á fullu við að koma fyrrtækjum (sem vilja felst öll nýja mynnt og inn í ESB) til hjálpar. Sem og eins og Jóhanna nefnd að ef að þær aðgerðir sem nú þegar hefði verið ráðist í til að koma heimilum til hjápar dyggðu ekki þá yrði bara að grípa til frekari aðgerða.

Mynni líka á að Svíar ákváðu að ganga í ESB til að koma á stöðugleika eftir hrun, sem og Finnar. Og það er sagt að nær allar þjóðir sem gegnið hafa í ESB síðustu áratugi hafi gert það í kjölfar efnahagsþrenginga hjá viðkomandi þjóðum.

En eins og venjulega þá hefur fólk hér þá trölla trú að við Ísland sé svo sérstakt að sambærileg rök eigi ekki við hér. Það yrði okkur dýrt að fresta því að kanna möguleika okkar og fatta svo eftir 2 til 3 ár að okkur sé nauðsyn að ganga í ESB. Það gæt runnið upp fyrir okkur að ef enginn hefur trú á því að við séum að taka vitræn skref fram á við þá fáum við engar fjárfestingar, né lán frá útlöndum. Og þar með verður hér engin uppbygging.

Magnús Helgi Björgvinsson, 27.4.2009 kl. 00:55

40 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Hvað um örlög Írlands, Lettlands og Ungverjalands innan ESB? Mér sýnist líka að Marinó hafi bent á að „hjálp“ Samfylkingarinnar til handa heimilunum sé lítið til að hrósa sér af Ég hef ekki trú á að það verði okkur til bjargar að stíga upp í næsta nýfrjálshyggjurússíbanann. Við vitum hvernig sá heimatilbúni fór með okkur. Hvers vegna ætti ESB-nýfrjálshyggjurússíbaninn að vera eitthvað skárri?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.4.2009 kl. 01:15

41 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Magnús, Samfylkingin hefur ekki einu sinni geta skipt sér þegar kemur að brýnum málefnum þjóðarinnar, sem er að leysa vanda heimilanna og atvinnulífsins samhliða uppbyggingu bankanna.  Ég held því miður að íslensk stjórnmál séu "single-taskig", þ.e. ráði bara að fást við eitt mál í einu.  Af þeirri ástæðu höfum við ekki efni á því að menn fari að taka 10 mánuði í ESB umræðu, þegar önnur brýnni mál bíða.

Samfylkingin má mín vegna gera hvað sem er gagnvart Brussel, ef vandi heimila og fyrirtækja er leyst með úrræðum koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot.  Við skulum hafa í huga að þegar Samfylkingin fór í ríkisstjórn fyrir 2 árum, þá var atvinnuleysi vart mælanlegt á Íslandi.  Núna erum við að nálgast ESB-tölur.  Við erum með 16% raunstýrivexti, þ.e. stýrivexti umfram verðbólgu.  Atvinnulífið og heimilin keyra á einum stimpli, hinir eru ónýtir.  Það er verið að eyðileggja vél hagkerfisins og eina sem mönnum dettur í hug "ESB-aðild er lausnin á þessu".  Hvernig er hún lausnin?  Hvað gerist við ESB-aðild sem leysir þetta, einn, tveir og þrír?  Ég hef nokkuð góða hugmynd um svarið:  Ekkert.  Þetta er bara reykbomba, en málið er að flestir hugsandi einstaklingar vita að ESB-aðild er ekki skammtíma lausn á vanda hagkerfisins.  Hún er í besta falli lausn sem nýtist okkur eftir nokkur ár.  ESB er sjálft í sárum eftir bankakreppuna/efnahagskreppuna og hefur ekki getað leyst vandamál Írlands, Bretlands, Pólland, Lettlands og Ungverjalands.  Núna er Spánn að sogast inn í kreppuna og Ítalía er ekki langt undan.

Ég hef ekkert á móti ESB, en aðildarviðræður núna eru ekki lausnin á vanda íslenska efnahagslífsins í dag.

Marinó G. Njálsson, 27.4.2009 kl. 07:43

42 identicon

Mín skoðun er einfaldlega sú að hefja skuli aðildarviðræður sem allra fyrst. Náist ásættanlegar niðurstöður úr þeim viðræðum muni það það koma þjóðinni endanlega á beinu brautina á ný.

Fram að þeim tíma, er einhverjar niðurstöður koma úr viðræðunum, þurfa stjórnvöld að leggja sig öll fram við endurreisn efnahagslífsins.

Ég er fullkomnlega sammála þér þegar þú talar um að vél hagkerfisins sé að skemmast. Það er ekki síður alvarlegt að frá því í byrjun okt, þegar hrunið varð, þá virtust Alþingismenn aldrei átta sig almennilega á því hversu alvarleg staðan var. Þeir gátu þráttað um áfengissölu ríkisins og álíka ómerkileg mál á meðan allt var á hraðri niðurleið.

Auðvitað átti að stöðva alla "hefðbundna" starfsemi Alþingis og setja allan þrótt þingsins í að verja heimilin og fólkið. Auðvitað áttu þingmenn að vinna vaktir allan sólarhringinn í nokkrum hópum og finna lausnir. Það var að sjálfsögu ekki gert.

Núna strax þarf að byrja af miklum krafti og bregðast almennilega við. Það er algjör lágmarks krafa að þingmenn starfi linnulaust fram á haust við aðgerðir til að rétta af hagkerfið.

Ég þetta mjög mikilvægt en tel jafnframt að á sama tíma eigum við að vinna í aðildarviðræðum við evrópusambandið. Við eigum bara mjög takmarkaða möguleika á viðsnúningi án þess að hafa alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil.

Andri Valur (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 08:17

43 identicon

Margt rétt og satt sem hér hefur verið sagt.

En.., ljóst er að kominn er meirihluti fyrir aðildarumsókn að ESB á Alþingi.
Rétt um helmingur þjóðarinnar vill líka sækja um.
Allir eru á einn eða annan hátt sammála um að verði sótt um þá fari slíkur samningur til þjóðaratkvæðis.

Samþykki þjóðin aðild þá þarf að kjósa aftur til Alþingis en tímaramminn fyrir slíkt er 1-3 ár, eða nokkur vegin tímarammi neyðarstjórnunar með AGS.                   Felli þjóðin samninginn þá er jafn ljóst að engin ESB umræða mun verða á dagskrá a.m.k næstu 10 árin, ESB er að loka á stækkun.

Gríðarlega mikilvægt er að samhent stjórn hefji strax störf við að vinna á efnahagsvanda þjóðarinnar, engin bið má verða á þeirri vinnu.
Það er algjört ábyrgðarleysi ef menn  nýta ekki tæki lýðræðisins (þjóðaratkvæði) til að knýja fram niðurstöðu í þetta klofningsmál.

Íslendingar mega ekki við því að eyða meiri tíma og orku í sundurþykkju, þetta mál verður að klára.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 09:04

44 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Andri Valur, ég held að staða okkar verði betri, ef við hreinsum upp hjá okkur og réttum af þjóðarskútuna.  Þetta er svipað og að selja hús.  Það gengur betur að selja það á ásættanlegu verði, ef allt er hreint og strokið þegar við sýnum það.  Þá getum við betur sýnt væntanlegum kaupanda það sem okkur finnst aðlaðandi við húsið.

Já, mér finnst alveg með ólíkindum að ekki kom eitt einasta frumvarp eða tillaga til þingályktunar frá óbreyttum þingmönnum eða ríkisstjórn í margar vikur eða mánuði frá hruni bankanna.  Ekkert.  Eins og ég hef bent á, þá saknaði ég þess að sjá sterka, öfluga aðgerðahópa setta á fót til að móta tillögur til að hrinda í framkvæmd.  Það er ekki hægt að bíða af sér alla storma.  Stundum verður að gera eitthvað til að takmarka tjónið.  Hvorki núverandi ríkisstjórn né sú síðasta virtust skilja þetta.  Sorgleg staðreynd.  Mér fannst t.d. nauðsynlegt í ágúst að allar fjármálastofnani biðu upp á greiðsluerfiðleika og greiðsluaðlögunarúrræði fyrir alla lántakendur.  Já, ég setti fram tillögu að slíku í færslu í ágúst. Átta mánuðir liðu áður en það varð að veruleika.  Það tók átta mánuði að gera það sem þurfti að gera áður en bankarnir hrundu.

Vissir þú, Andri Valur, að settir voru á hóp neyðarhópar fljótlega eftir hrunið.  Ég þekki mann sem var í einum slíkum hópi.  Hann sagði að öllum tillögum hópsins hafi verið stungið undir stólinn, m.a. vegna þess að "þær myndu hafa áhrif á möguleika stjórnarflokkanna að ná endurkjöri", eins og hann orðaði það.  Plædu í því, að það skipti menn meira máli að ná endurkjöri en að leysa efnahagsvandann.

Jóhann, skoðanakannanir hafa einmitt sýnt aðra niðurstöðu.  Minnihluti aðspurðra vill inngöngu.

Annars finnst mér grátlegt að meðan heimilin og atvinnulífið þjást, þá kemst ekkert annað að en ESB.  Ég hélt að farið hafi verið í þessar kosningar vegna búáhaldabyltingarinnar.  Vegna þess að fólkið í landinu var búið að fá nóg af "vanhæfri ríkisstjórn".  Svei mér þá, ef við erum ekki líka að kljást við "vanhæfa" fjölmiðla.  Ég segi þá vanhæfa, þar sem þeir bjóða stjórnmálamönnunum upp á skjól frá þeim sem þeir ættu að vera að einbeita sér að með því að tala liggur við eingöngu um ESB.  Tölum um raunverulegu vandamálin og setjum þau í öruggan farveg.  Ræðum svo um ESB.

Marinó G. Njálsson, 27.4.2009 kl. 09:15

45 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Annars vissi ég ekki til að kosningarnar hafi snúið um ESB.  Ég hélt að þær hefðu snúið um efnahagsvandann.  Framsókn fékk gott kjörgengi vegna 20% leiðarinnar sinnar.  Borgarahreyfingin m.a. vegna tillagna sinna til bjargar heimilunum.  Ég er sammála Ástþóri Magnússyni í því að Samfylkingin og VG byggðu sitt kjörgengi mikið á persónulegu fylgi Jóhönnu og Steingríms.  Ég er t.d. viss um að Samfylkingin hefði fengið skell, ef flokkurinn hefði ekki stillt Jóhönnu fram sem forsætisráðherraefninu sínu.  Hefði einhver kosið "já-já, nei-nei" Össur í það embætti?  Eða Árna Pál eða Björgvin G eða Kristján Möller?  Með fullri virðingu fyrir efstu mönnum S-listans, þá treysti ég bara Guðbjarti og Jóhönnu.  Hitt eru að mínu mati hálfgerðir froðusnakkar.  Hefur t.d. Árni Páll hlustað á sjálfan sig.  Hann ætti að gera það, þó ekki væri nema einu sinni og reyna svo að læra af því.

Marinó G. Njálsson, 27.4.2009 kl. 09:26

46 identicon

Sammála Marinó.

Vandinn er bara sá að þetta er mjög heitt deilumál, sennilega eitt það stærsta frá upphafi. Ef deilumál er ekki útkljáð þá þvælist það fyrir öllu öðru. Þess vegna er best að sækja um og stjórnin fær þá vinnufrið næstu 1-3 ár. Felli þjóðin samninginn þá fást enn önnur 10-15 ár af friði. 

Friður og samheldni er það sem Ísland þarf á að halda.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 09:31

47 identicon

Annað mál.

Hugsið ykkur annars hvað við erum föst í höftum hugarfars. Það hefði verið hægt að útkljá ESB spurninguna í eitt skipti fyrir öll með því að bæta við nokkrum línum á kjörseðilinn sem 190 þúsund manns krossuðu við á laugardaginn.  

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 09:36

48 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jóhann, efnahagsvandinn er margfallt stærra mál vegna þess að við gætum misst sjálfstæðið út af honum.

Marinó G. Njálsson, 27.4.2009 kl. 09:36

49 Smámynd: Offari

Jóhann ég er þér sammála að það þarf að útkljá þetta deilumál en tímasetningin finnst mér röng. Að bjóða Ísland til sölu núna þegar ekkert fæst fyrir það gefur okkur ekki sterka samningsstöðu.

Ef við lögum til heima há okkur áður en við förum að semja verður staða okkar sterkari og meiri möguleikar á góðum samning. Ég er líka hræddur um að ef við förum í aðildarviðræður núna fari tími þingmanna okkar í þær viðræður og önnur meira áríðandi verk sitji á hakanum á meðan.

Offari, 27.4.2009 kl. 09:53

50 identicon

Þetta er skarplega athugað hjá Marinó og þó ég sé pínu volgur fyrir ESB er ég sammála því að við eigum að sækja um frá stöðu styrkleika en ekki með allt niðrum okkur. Eins og Jóhann Kristjánsson bendir á hefði málið verið mun auðveldara viðfangs hefðum við fengið að merkja við hvort hefja ætti aðildarviðræður eða ekki. Það hefði skapað vissan vinnufrið á hvorn vegin sem færi. Kjarni málsins er að við þurfum að auka veg lýðræðisins. Fyrir komandi kynslóðir er það mikilvægasta verkefni okkar tíma. ESB er aukaatriði í samanburði.

Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 09:53

51 Smámynd: Haraldur Hansson

Samfylkingin er enn að túlka fyrstu spá. En nú er kominn mánudagur og tímabært að stíga niður af skýinu og skoða úrslitin.

Fyrsta spá sýndi nær 40% fylgi S í Kraganum, en úrslitin sýna rúm 32%. Fyrsta spá sýndi 4 nýja menn á þing, en úrslitin eru 2.

Rétt fyrir kosningar gekk Íslandshreyfingin í Samfylkinguna. Hún fékk 3,27% fylgi í síðustu kosningum, sem ekki nýttist til þingsæta vegna 5% þröskuldarins, en hefði annars gefið 2 þingsæti. Fylgi Samfylkingar núna er 0,23% minna en samanlagt fylgi S og Í lista síðast.

Breytingin er að Í-lista fylgi fellur ekki um 5% þröskuldinn heldur nýtist til þingsæta undir regnhlíf S-lista og pilsfaldi Jóhönnu. 

Haraldur Hansson, 27.4.2009 kl. 10:33

52 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Haraldur, ég held að það hafi nú ekki verið mikill munur á því að leggja Íslandshreyfinguna niður og hún gengi í Samfylkinguna.  Því miður.  Ég efast um að fylgi hennar hafi mælst, svo lítið fór fyrir henni.  Mér finnst það sorglegt, þar sem hennar málflutningur átti svo sannanlega erindi í þjóðfélagsumræðuna.  En ég skil hvað þú meinar.

Annars er ég kominnn á þá niðurstöðu, að þetta upphlaup í gær sýni, að við þurfum utanþingsstjórn (sjá næstu færslu).

Marinó G. Njálsson, 27.4.2009 kl. 10:44

53 Smámynd: Haraldur Hansson

Tek undir það Marinó.
Ég dró þetta upp meira til að sýna að það er alltaf hægt að finna vinkil sem hentar til að túlka niðurstöður. Það að leggja Í-fylgið við gamla S-fylgið er auðvitað ekki rétt. En það er þó ekki nærri eins glannalegt og að túlka úrslitin sem "skýr skilaboð um aðildarviðræður við ESB".
Ég á eftir að lesa næstu færslu þína, en geri það örugglega.

Haraldur Hansson, 27.4.2009 kl. 10:53

54 identicon

Það má alveg færa rök fyrir því að við séum ekki í bestu samningsstöðu sem um getur til að sækja um aðild að sambandinu. Á hinn bóginn kemur að Ísland er ekki eina landið sem er að berjast við að koma undir sig löppunum. Ef við værum eina landið sem væri í rúst þá myndi ég samþykkja að samningsstaða okkar væri ómöguleg.

Það má ekki gleyma því að Svíar eru í forystu sambandsins núna, ríki sem sóttist eftir aðild til að koma sér út úr kreppuástandi. Sama gerðu Finnar. Það má því leiða líkum að því að þarna séu aðilar sem skilja stöðu okkar og nauðsyn.

Niðurstaðan er samt alltaf sú sama, við vitum ekki niðurstöðuna án þess að ganga til viðræðna.

Ef stjórnmálamenn á Íslandi geta ekki gengist til viðræðna og á sama tíma beitt sér fyrir aðgerðum til handa fyrirtækjum og einstaklingum, þá er þjóðinni ekki viðbjargandi. Þá mælist ég til þess að við afsölum okkur öllu sjálfstæði og látum eitthvað þroskaðara ríki taka stjórnina.

Merkilegt að heyra með þessa neyðarhópa. Væri gaman að sjá hverjar tillögurnar voru og hvort þær komi hugsanlega til núna, að loknum kosningum.

Annars er ég býsna hræddur um að stjórnmálamönnunum okkar reynist erfitt að framkvæma öll þau "blóðugu" verkefni sem þarf að ráðast í. Ljóst er að skera þarf gríðarlega niður á öllum vígstöðum.

En mín skoðun er alltaf sú að á meðan við búum við ónýtan gjaldmiðil þá verður endurreisnin nánast ómöguleg. Við verðum að öðlast trúverðugleika og traust erlendis frá.

Það verður að setja lausnir til skamms tíma og langs tíma í samhengi, að koma með sértækar lausnir núna hjálpar okkur ekkert endilega til langs tíma, stefnulausri þjóðinni. Með því að stefna til evrópu, og á upptöku evru, erum við komin með stefnu sem gefur þjóðinni trúverðugleika.

Andri Valur (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 12:05

55 identicon

En Andri, EVRA er ekkert endilega nauðsynleg.  Við getum kannski tekið upp dollar.  Finnst rökin þín annars góð.

EE elle (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 17:50

56 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er meirihluti á Alþingi við viðræður.  Flokkar sem höfðu að stefnu að fara í viðræður kom út í meirihlut er talið var uppúr kössunum.

SF, B og O töluðu aldrei um að þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram um hvort ætti að fara í viðræður.  Enda slíkt bjálfalegt eins og Þáinn segir.

Úrslit kosninga alveg skýr.  Aðildarviðræður strax !

Tja, nema að einhverjir þingmenn svo sem B eða O ætli ekki að fylgja þeirri stefnu sem lagt var upp með í kosningum og ætli að hunsa vilja kjósenda.  Það er svo sem til í dæminu.  Það væri þá eigi í fyrsta skipti sem það gerðist.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.4.2009 kl. 11:50

57 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

...með þessari röksemd er West Ham sigurvegari ensku deildarinnar.

Páll Geir Bjarnason, 28.4.2009 kl. 16:16

58 identicon

Ég skildi hvorki Borgarahreyfinguna né Framsókn þannig að þeir vildu endilega fara í viðræður eða hefðu það að stefnu.  Heldur þannig að þeir væru viljugir að fara í viðræður.  Við getum ekkert vitað hvort meirihluti sé hjá þingmönnum eða þjóðinni fyrir viðræðum fyrr en kosið hefur verið um það.

EE elle (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 00:07

59 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

...reyndar Fulham. Meginatriðið er að sá sem hlýtur flest atkvæði vinnur kosningarnar, ekki sá sem bætti sig mest.

Páll Geir Bjarnason, 29.4.2009 kl. 04:19

60 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Viljugir", "vilja endilega"  Aðalatriðið er að þeir vildu fara í viðræður.  Þannig var málið sett fram.  Ef td. að þeir hefðu viljað kosningu um hvort fara skuli í viðræður hefðu þeir auðvitað sagt það.  Það gerðu þeir ekki.  Þeir vildu fara í viðræður og smning uppá borð.  Puntur og basta.  Framsókn setti nú fram skilyrðskrána meir að segja.

Td. fóru líklega talsvert af atkvæðum frá VG yfir á O í restina nákvæmlega vegna þessa.

Þetta er alveg klárt og þingmenn umræddra flokka svíkja kjósendur sína ef þeir ætla að bakka núna - en það væri svo sem ekki i fyrsta skipti sem kjósendur væru hafðir að fíflum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 29.4.2009 kl. 15:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1678165

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband