Leita í fréttum mbl.is

Verðbólgumæling gefur tilefni til bjartsýni og lækkunar stýrivaxta

Hægt er að segja margt um þessa verðbólgumælingu og þó furðulegt sé flest jákvætt. 0,57% hækkun vísitölu neysluverð verður að teljast mjög temmilegt miðað við allar hækkanir ríkisstjórnarinnar á síðustu vikum síðasta árs og svo þær hækkanir sem urðu um mánaðarmótin.  Ekki má heldur líta framhjá hækkun á eldsneyti.  Ef ekki væri fyrir útsölurnar, þá hefði mælingin orðið hærri.

Eitt atriði kemur til lækkunar á verðbólgumælingunni, en það er að í síðustu 12 mælingum á undan þessari, þá var í reynd verið að mæla 54 vikna verðbólgu, en frá og með þessari nær mælingin yfir 52 vikur.  Ástæðan er að mælingartímabili var breytt í byrjun síðasta árs og í staðinn fyrir að mæla verð á einum degi í upphafi mánaðar, þá hefur frá janúar 2008 verið stuðst við mælingu á nokkurra daga bili um miðjan mánuð.

En aftur að því jákvæða.  0,57% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða þýðir að verðbólguhraðinn (þ.e. vísitöluhækkun milli mánaða yfirfærð á 12 mánuði) lækkar úr 18,25% í 6,84%.  Jafnframt fer 3 mánaðaverðbólga (þ.e. verðbólga síðustu þriggja mánaða yfirfærð á 12 mánuði) úr 22,07% niður í 15,5%.  Fyrri talan segir að slegið hefur verulega á verðbólguna á milli mánaða og að verðbætur sem bætast á lán 1. mars verða ekki eins svakalegar og þær hafa verið undanfarna mánuði.  (Verðbæturnar sem bætast á 1. febrúar taka aftur mið af 1,52% hækkun vísitölu neysluverðs sem varð milli nóvember og desember.)  Þriggja mánaða verðbólgan gefur í mínum huga vísbendingu um að Seðlabankinn hafi núna svigrúm til að lækka stýrivexti.  Vissulega er 12 mánaða verðbólgan ennþá há, en eins og ég hef margoft bent á hér, þá er hún fortíðarmæling.  Seðlabankinn hefur ítrekað sagt í rökstuðningi sínum fyrir háum stýrivöxtum, að verði sé að bregðast við undirliggjandi verðbólguþrýstingi.  Nú er þessu öfugt farið.  Undirliggjandi þrýstingur er horfinn og framundan er tími hóflegrar verðbólgu.  Af þeirri ástæðu, þarf ekki að halda vöxtum háum.

Að lokum get ég ekki staðist þá freistingu að vitna í forsætisráðherra, Geir H. Haarde.  Þegar verðbólgutölur vegna desember voru birtar, þá tók Ísland í dag viðtal við blessaðan manninn.  Í því viðtali segir Geir, að hann telji verðbólguna sem þá mældist, þ.e. 18,1%, vera toppinn.  Ég andmælti þessu í athugasemd við færslu hér (sjá Það er vont en það venst) og taldi það útilokað, þar sem verðbólgumælingin í janúar í fyrra hafi verið svo lág (0,2%) og útilokað væri að hækkun vísitölu milli mánaða núna gæti orðið það lítil.  En núna held ég að mér sé óhætt að fullyrða, að komi ekki til óvæntrar kollsteypu, þá er toppinum náð.  Erfiðasta 12 mánaðatímabili í verðbólgusögu Íslands síðan 1990 er því að baki. 

Ef við horfum til 3 mánaða verðbólgu, þá bendir margt til þess, að lækkun hennar verður mjög mikil á næstu mánuðum.  Sjálfur geri ég ráð fyrir að 3 mánaðaverðbólga í febrúar verði komin ofan í um 11%, tæp 6% í mars, undir 5% í apríl og verði síðan í um 3% strax í maí. Þar sem ég tel að Seðlabankinn eigi að nota 3 mánaða verðbólgu sem grunn við ákvörðun stýrivaxta, þá held ég því fram að hægt eigi að vera að lækka stýrivextina mjög skarpt á næstu mánuðum og þeir eigi að geta verið komnir niður í 6% í apríl/maí.


mbl.is Verðbólgan 18,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð umfjöllun.

Samt er hér smá athugasemd.

Ef verð hækkar um 0,57% milli mánaða þá svarar það til 7,1% hækkunar yfir 12 mánaða tímabil. (1+0,0057)í 12 veldi. Það er ekki hægt að margfalda með 12 því þetta virkar líkt og vaxtavextir.

Ólafur Jakobsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 10:41

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta eru ánæjulegar fréttir og allt vel útskýrt eins og venja er hjá þér Marinó. Að vaxtalækkun sé mögulega framunda er auðvitað mjög góð frétt og bráðnauðsynleg aðgerð.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.1.2009 kl. 11:07

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Það verða standandi útsölur út árið og mun það keyra niður verðbólguna, amk. að meðaltali, og jafnframt laun og atvinnu. Hagkerfið hreinlega gengur fyrir innbyggðri verðbólgu, eins og aðrir keðjubréfafaraldrar. Núna er verðhækkunargeta atvinnulífsins svo til engin þar sem neytendur hafa orðið fyrir alvarlegum fjárhagslegum skelli, eru að missa vinnuna þúsundum saman og búa jafnframt við okurvexti og enn vaxandi skattpíningu framundan. Þetta verður síðan vítahringur þar sem fyrirtækin neyðast til að skera niður kostnað til að forðast gjaldþrot, sem þýðir uppsagnir og launalækkanir sem aftur skerða kaupmátt og neyslustig sem kemur niður á fyrirtækjunum og svo framvegis.

Baldur Fjölnisson, 28.1.2009 kl. 11:54

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ólafur, það er vissulega rétt ábending hjá þér sé gengið út frá prósentuhækkun.  Málið er að ég reikna út frá stigum sem vísitalan hækkar á milli mánaða og margfalda þau með 12.  Núna t.d. hækkar vísitala úr 332,9 stigum í 334,8 eða 1,9 stig.  Þessi 1,9 stig margfalda ég með 12 og fæ hækkun upp á 22,8 stig á ári eða 6,84%.  Prósentureikningurinn er síðan afleiddur af stigunum.  Þetta eru tvær aðferðir sem báðar eru réttar hvor út frá sínu sjónarhorni.

Marinó G. Njálsson, 28.1.2009 kl. 11:59

5 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þú þarft að reikna þetta sem vaxtavexti, hvora aðferðina sem þú notar. Umreiknað til árshækkunar miðað við hækkun vísitölunnar síðasta mánuð gerir þetta sem sagt 7.1%.

Baldur Fjölnisson, 28.1.2009 kl. 15:22

6 identicon

Góð umfjöllun hjá þér, að vanda. Þá er að vona að Davíð O verði ekki morgunfúll í fyrramálið og hækki stýrivexti af reiði yfir því að vinstri stjórn sé í burðarliðnum.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 21
  • Sl. sólarhring: 121
  • Sl. viku: 584
  • Frá upphafi: 1677601

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband