Leita í fréttum mbl.is

Góðverk í gær leyfir ekki lögbrot í dag

Það fer ekkert á milli mála að tilkoma Bónusar var gott mál fyrir íslenska neytendur.  Hér breyttist verðmyndun á dagvörumarkaði og vöruverð lækkaði til muna. Málið er að það var fyrir langa löngu. Og það var áður en Bónus varð hluti af Baugi.  Ég er ekki þar með að segja að Bónus hafi breyst í eitthvað skrímsli við sameininguna við Hagkaup, bara benda á að þá breyttist staða fyrirtækisins á samkeppnismarkaði.  Bónus varð hluti af markaðsráðandi fyrirtæki á matvörumarkaði.  Fyrirtæki sem hefði hvergi annars staðar fengið að vera til.

Ég er svo sem ekki í aðstöðu til að meta áhrif Haga á vöruverð í landinu í dag. Þar er örugglega margt jákvætt og annað neikvætt. Ég er samt ekki viss um að við vildum vera án verslana Haga af þeirri ástæðu að undir hatti Haga eru mörg ákaflega góð fyrirtæki sem stuðlað hafa að fjölbreytni í verslun og tiltölulega hagstæðu vöruverði.  Ég hef svo sem ekki alltaf verið sammála aðferðum fyrirtækisins við að færa út kvíarnar, en það er kannski þess vegna sem þeir eru stórir en ég er sjálfstætt starfandi í harkinu. Business er harður heimur og þeir feðgar, Jóhannes og Jón Ásgeir, hafa náð langt vegna þess að þeir hafa bein í nefinu, ekki vegna þess að þeir séu í góðgerðarmálum.

Þetta mál snýst bara ekkert um það. Þetta mál snýst um að notaðar voru ósiðlegar aðferðir til að koma í veg fyrir að samkeppnisaðili, Krónan, gæti aukið markaðshlutdeild. Það er enginn að andmæla því að Bónus mátti bregðast við. Þeir notuðu bara aðferðir, sem að mati samkeppnisyfirvalda, voru ólöglegar. Samkeppnisyfirvöld hafa ekkert leyfi til að milda afstöðu sína vegna áhrifa verslana Haga til hugsanlegrar lækkunar verðlags. Það er þessu óskylt. Góðverk í gær gefur mönnum ekki leyfi til lögbrota í dag. Um það snýst málið og ekkert annað.

Ég tek það fram, að ég er þakklátur þeim Baugsmönnum fyrir margt sem þeir hafa gert. Á sama hátt er ósáttur við annað. Þeir eru í andstreymi núna út af falli bankanna og Monopoly leiknum sem þeir hafa tekið þátt í undanfarin ár með íslenskt efnahagslíf. Því miður virðist sem þeir hafi lent í því sama og fyrri valdastéttir þjóðarinnar, þ.e. að kunna sér ekki hóf, að vita ekki hvenær á að stoppa. Við erum að bíta úr nálinni með það núna og því er taktískt rangt hjá þeim að koma með mótbárur í þessu máli. Það besta sem þeir gera í þessu máli er að viðurkenna mistökin og læra af þeim. Það vissi það hvert einasta mannsbarn á Íslandi, að aðferðir þeirra í verðstríðinu við Krónuna stönguðust á við gott viðskiptasiðferði og gátu ekki staðist. Nú hafa samkeppnisyfirvöld staðfest það. Af hverju getur Jóhannes ekki bara kyngt þeirri staðreynd? 

Ég viðurkenni alveg að sektin er há, en það er eðli sekta við samkeppnisbrotum.  Bónus vissi alveg, að verslunin mátti ekki bregðast við samkeppninni frá Krónunni með því að borga með vörunni.  Það eru skýr ákvæði um það í samkeppnislögum.  Ef Bónus hefur talið, að Hagar væri ekki markaðsráðandi aðili, þá voru menn í afneitun.  Víða í heiminum eru fyrirtæki með 30% markaðsstöðu talin markaðsráðandi, ef enginn annar aðili er stærri.  Markaðshlutdeild Haga á matvörumarkaði var á þessum tíma 60% á höfuðborgarsvæðinu.  Á lágvörumarkaði var Bónus nær einrátt.  Það er sama hvernig litið er á þetta:  Bónus var markaðsráðandi.  Sú staðreynd setur fyrirtækinu alls konar hömlur, eins og Síminn hefur margoft rekið sig á.  Menn höfðu dæmin fyrir framan sig, en héldu samt sínu striki.  Nú er komið að skuldadögum.

Það hefur komið fram að tap Bónusar á verðstríðinu hafi verið um 700 milljónir.  Spurningin sem þarf að svara er hver var hagur Bónusar á verðstríðinu?  Hve mikið tókst Bónus að takmarka aukningu á markaðshlutdeild Krónunnar með viðbrögðum sínum við markaðsátaki Krónunnar?  Hve vel heppnaðist Bónus að verja verðið á vöru sinni með hinum grimmu viðbrögðum við markaðsátaki Krónunnar?  Ég hef ekki lesið skýrslu Samkeppniseftirlitsins, þannig að ég veit ekki hvort lagt er mat á þessi atriði, en það er eðlilegt að sektin sé eitthvað margfeldi af þessu.  Það er nefnilega hagur Bónusar af viðbrögðunum sem skipta máli, ekki hvað Bónus hefur gert fyrir neytendur í gegnum tíðina.

Ég vil hvetja forráðamenn Haga til að halda áfram að stuðla að lágu vöruverði.  Samkeppniseftirlitið hefur ákvarðað að þið skiptið meira máli fyrir íslenska neytendur en flest önnur íslensk fyrirtæki á sama markaði.  Takið því sem hrósi, en lærið í leiðinni af mistökunum.


mbl.is „Dapurleg jólagjöf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góður pistill Marinó.

Bónus hefur breyst mikið á þessum 20 árum. Það byrjaði sem vöruhús með nánast engri þjónustu en í dag er lítill munur á þeim og venjulegri matvöruverslun. Þeir eru bara stærri og í því felst hagræðingin og hin sterka samkeppnisstaða.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.12.2008 kl. 22:57

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Skrítið fólk Íslendingar. Í þau 12 ár, sem ég eyddi í Þýskalandi, heyrði ég aldrei heyrt talað um bræðurna Theo og Karl Albrecht, sem stofnuðu ALDI keðjuna, sem einhverjar þjóðhetjur þar í landi.

Þeir eru líkt og Baugsmenn "múltímillar" og okruðu minnst af öllum á Þjóðverjum líkt og Jóhannes og Jón Ásgeir okruðu minnst á okkur Íslendingum.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.12.2008 kl. 23:47

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Já Bónus er búinn að gera mikið átak í lækkun vöruverðs á dagvörumarkaði á Íslandi. Samkeppniseftirlitið er sjálfsagt að vinna samkvæmt gildandi lögum, en það er ekki sama við hvern er keppt.

Ég rak lítið iðnfyrirtæki sem var að keppa við ríkisstofnun (Fangelsið á Litla Hrauni) þar sem vara er framleidd á vinnustað þar sem ekki eru greidd venjuleg laun og ekki þessi hefðbundnu launatengdu gjöld eða skattar. Varan var, á þeim tíma sem fyrirtækið mitt var starfandi, seld undir efniskostnaði frá Litla Hrauni.

Ég gerði kvörtun til Samkeppniseftirlitsins og það sem gert var að borun var fram kvörtun við Fangelsisyfirvöld. Ekki var telin grundvöllur til að sekta og ekki var ríkið tilbúið til að kaupa vélakost af mínu fyrirtæki.

Ég reyndi að selja það en það var óseljanlegt vegna þessarar samkeppni. Það er nú komið í þrot og það er bara minn skaði og puntur

Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.12.2008 kl. 23:55

4 Smámynd: Egill Jóhannsson

Bónus kom á sínum tíma inn á markaðinn vegna þess að þeir aðilar sem þar voru fyrir sofnuðu á verðinum. Þeir feðgar í Bónus nýttu sér glufu á markaðnum og allt gott um það að segja. Þetta var fyrir mörgum árum.

Lög hér á landi og allsstaðar í hinum vestræna heimi setja skorður fyrir því sem markaðsráðandi fyrirtæki mega gera. Þeim er einfaldlega óheimilt að gera hluti sem minni fyrirtæki mega gera. M.a. er undirverðlagning bönnuð þ.e. bannað að selja undir kostnaðarverði. Ástæðan er sú að þannig geta þau hindrað nákvæmlega það sem Bónus gerði á sínum tíma þ.e. að koma nýtt inn á markaðinn og hrista upp í honum.

Hagar eru með 60% markaðshlutdeild á höfðuðborgarsvæðinu. Það er markaðsráðandi staða. Samkeppnislög hér á landi eins og í flestum öðrum löndum taka mjög strangt á vinnubrögðum þannig fyrirtækja. Hér hafa þau náð að valsa um markaðinn að vild í skjóli valdsins sem þau hafa yfir fjölmiðlum og stjórnmálaflokkum þó að lögin banni það. Stjórnsýslan hefur einfaldlega ekki ráðið við verkefnið fyrr en núna.

Marinó bendir réttilega á að víða annars staðar telst markaðsráðandi staða jafnvel vera 30% markaðshlutdeild. Ég get í þessu samhengi bent á lög um bílgreinina í Evrópu (svokölluð Block Exemption Regulation - BER) en þar er einmitt miðað við 30%. Og þar er bílamarkaðurinn skilgreindur t.d. sala nýrra bíla, sala varahluta og sala þjónustu. Reglan um 30% hlutdeild gildir um alla markaðshluta og gildir fyrir ákveðin landssvæði.

Þessi sekt Samkeppniseftirlitsins gagnvart Högum er því mikilvægt skref í að vernda neytendur og um leið aðra keppinauta þannig að þeir verði til staðar í framtíðinni. Það er ekkert verra fyrir neytendur en það að hafa of fáa keppinauta á markaði. Auðvitað getur í einstökum greinum verið um of marga keppinauta að ræða og því þörf á sameiningum en of fáir er líka skaðlegt. Bæði fyrir neytendur og viðskiptalífið almennt.

Ég mæli með að þið lesið ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og rök stofnunarinnar á vefnum. Fjölmiðlum hefur mistekist að koma þeim á framfæri af einhverju viti.

http://samkeppni.is/samkeppni/is/frettir/?cat_id=36905&ew_0_a_id=317253

Ég tek undir með Hólmfríði að Samkeppniseftirlitið eins og margar aðrar stofnanir hér á landi sbr. Fjármálaeftirlitið og ekki síður Neytendastofa hafa brugðist almenningi og venjulegum fyrirtækjum sem ekki eiga ítök í fjölmiðlum og stjórnmálaflokkum. Því ber að fagna þegar þær rísa upp á afturlappirnar og láta glitta í tennurnar.

Egill Jóhannsson, 20.12.2008 kl. 20:54

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég hef tekið eftir því að margir telja að þessi úrskurður Samkeppniseftirlitsins sé enn einn anginn af Baugsmálinu svo kallaða.  Aðrir skilja ekki af hverju Bónusi var ekki leyfilegt að selja vöruna svona ódýrt.  Varðandi fyrr atriðið, þá sé ég ekki að það sé neitt í þessu máli sem tengist Baugi.  Baugur er ekki málsaðili á einn eða neinn hátt.  Varðandi síðara atriðið, þá áttaði ég mig á því strax haustið 2005, að háttsemi Bónusar var röng, ef samkeppnisyfirvöld mætu stöðu fyrirtækisins markaðsráðandi.  Þetta var auðvelt að sjá með því að lesa yfir samkeppnislög.  Ég gerði það á sínum tíma og sá strax ákvæði 11. greinar um að markaðsráðandi aðili mætti ekki undirverðleggja vöru, þ.e. selja hana undir kostnaðarverði, í þeim tilgangi að verja markaðshlutdeild sína.  Aðili, sem ekki er markaðsráðandi, má aftur gera það.  Þetta snýst því allt um hvort Bónus og Hagar teljast markaðsráðandi.  Það þarf engan geimvísindamann til að komast að þeirri niðurstöðu að svo sé og það áttu forráðamenn Bónusar og Haga að vita eða a.m.k. gruna að gæti átt við.  Menn áttu að hafa efasemdir um að þetta mætti.

Ég skil vel að fólki sé hlýtt til Bónusar vegna þess sem fyrirtækið hefur gert til að lækka vöruverð í landinu.  En ef jólasveinninn ekur of hratt, þá verður lögreglan samt að sekta hann.

Ég hef tekið eftir því að fyrirtækin tvö, þ.e. Bónus og Krónan, hafa fundið "lausn" í verðstríði sínu.  "Lausnin" er tvíþætt.  Annars vegar með því að bjóða ekki bæði sama vörumerkið, þar sem því verður við komið, og hins vegar að Krónan er einni krónu hærri í verðlagningu á vöru sinni.  Nú er spurningin hvort þetta sé brot á samkeppnislögum.

Marinó G. Njálsson, 20.12.2008 kl. 21:37

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég fékk á sínum tíma þá munnlegu skýringu að það væri afskaplega erfitt ef ekki ógerlegt að ná fram niðurstöðu þegar verið væri að kvarta undan samkeppnishömlum af hendi ríkisfyrirtækja. Það er ástæða þess að ég tók svona til orða að það væri ekki sama hver í hlut ætti.

Það er kannski ekki nema skrítið að fólk rugli þessu saman við Baugsmálið þar sem fréttin kemur í kjölfar þess að búið sá að ákæra í þriðja sinn. Svo er allskonar neikvæður áróður í gangi gagnvart Bónus, sem mér finnst ekki stórmannlegur.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.12.2008 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 686
  • Frá upphafi: 1677708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband