Leita í fréttum mbl.is

Viðnámsþol þjóðarinnar

Ég byrjaði í vor á skýrslu þar sem ég ætlaði mér að draga fram þá þætti sem eðlilegt væri að skoða við gerð hættumats fyrir land og þjóð með tillit til þjóðaröryggis á breiðum grunni.  M.a. með hliðsjón af seiglu fyrirtækja og heimila til að þola áföll.  Því miður gat ég ekki leyft mér að setja of mikinn tíma í þetta gæluverkefni mitt, en mig langar að nefna hér þá punkta sem ég var að vinna með.

  1. Búsetuskilyrði, en undir það falla atriði eins og umhverfisþættir, náttúruhamfarir, landsvarnir, viljandi eða óviljandi atriði af mannavöldum, samgöngur milli landa og grunnþjónusta (vatn, hiti, rafmagn, holræsi) til að nefna nokkur atriði.
  2. Fjárhagsleg skilyrði, hér koma flest þau atriði sem við höfum verið að upplifa undanfarna daga, þ.e. greiðsluhæfi fyrirtækja, greiðsluhæfi þjóðarinnar, styrkur/veikleiki gjaldmiðils, skyndileg veðköll, lausafjárkreppa, ruðningsáhrif aðgerða, o.s.frv.
  3. Nauðþurftir, hér er það spurning um aðföng til framleiðslufyrirtækja, innflutningur nauðsynja, matvælaframleiðsla í landinu, flutningur innanlands og milli landa með vörur til neytenda.
  4. Heilsufar, hér er spurningin um getu mikilvægra fyrirtækja og stofnana samfélagsins til að halda upp lágmarks þjónustu fyrir fyrirtæki og almenning í landinu.

Það skal tekið fram, að það er starfandi nefnd á vegum hins opinbera sem fjallar um þessi mál að einhverju leiti.

Áhugi minn á þessu verkefni hófst eiginlega, þegar ég var að ræða við son minn um hvað við þurfum til að geta lifað sem þjóð.  Niðurstaðan var í stórum dráttum það sem kallað hafa verið grunnþætti Maslovs þríhyrningsins, þ.e. fæði, klæði, húsnæði og grunnöryggi.  Síðan fór ég að greina hvert atriði fyrir sig og komst að því að forsenda þessara atriða liggja í búsetuskilyrðum, fjárhagsforsendum, nauðþurftum og heilsu. 

Þessi atriði tengjast öll meira og minna innbyrðis. Þannig geta náttúruhamfarir komið í veg fyrir aðflutning nauðsynja á sama hátt og gjaldeyrisþurrð, vöntun á umbúðum eða skortur á eldsneyti.  Bara til að skýra þetta atriði, þá getur hamfaragos mengað stór svæði á landinu, þannig að matvælaframleiðsla á þeim leggst af, en það getur líka stöðvað alla flugumferð yfir og í kringum landið.  Gjaldeyrisþurrð getur komið í veg fyrir innflutning nauðsynja, þar sem varan fæst ekki afhent nema gegn greiðslu.  Þetta nær einnig til varahluta í vélar og tæki og endurnýjun þeirra.  Vöntun á umbúðum kemur í veg fyrir að hægt sé að pakka þeim matvælum, sem þó eru framleidd, þar sem þau verða eingöngu afhend til neytandans í umbúðum.  Nú skortur á eldsneyti kemur í veg fyrir að hægt sé að koma vörunni á afhendingarstaði.

Við þessa vinnu nota ég svo kallað áhrifagraf, þar sem reynt er að skilja hvað það er sem getur stíflað rennslið frá uppsprettu til ósa.  Dæmi:  Einstaklingur þarf föt til að klæðast.  Þá þarf að spyrja sig hvaðan fær hann fötin, hvernig fékk hann fötin, hvernig flutti hann fötin heim til sín, hvernig greiddi hann fyrir fötin, hvernig aflaði hann teknanna til að greiða fyrir fötin.  Þá færir maður sig utar veltir fyrir sér versluninni, þá heildsalanum, framleiðandanum, framleiðanda hráefnisins í fötin o.s.frv.  Inn í þetta ferli kemur síðan bankinn, skipafélagið/flugfélagið, tollurinn og hvað það nú er sem þarf að vera til staðar.

Mér sýnist sem það sé þarft verk að fara í svona greiningu og skoða hvað þurfum við sem þjóð til að halda hér uppi ákveðnum lífsgæðum.  Hvað getum við bjargað okkur lengi, ef skorið er á öll aðföng?  Hvaða aðföng eru okkur mikilvægari en önnur?  Hvaða grunnþættir þjóðfélagsins verða að vera og hverjir mega missa sín a.m.k. tímabundið?  Hve lengi getum við verið án þeirra?  Fyrir nokkrum vikum var brjálæðisleg olíukreppa, í vor virtist matvælakreppa vera að skella á og nú er það lausafjár- og gjaldeyriskreppa.  Er ekki tími til kominn að við áttum okkur á því hvaða kreppur geta skollið á okkur og búa okkur undir þær.

Í nokkurn tíma hefur verið í gangi undirbúningur vegna heimsfaraldurs fuglaveiki eða eitthvað þess háttar.  Eins og ég skil verkefnið, þá snýr það fyrst og fremst að því að halda grunneiningum þjóðfélagsins gangandi meðan flensan gengur yfir.  Hvað með aðföng?  Gætum við lent í því að hingað yrði ekki flogið, þar sem annað hvort landið væri komið í sóttkví eða við lokuðum landinu?  Talið er að heilbrigðiseftirlitsmenn séu þeir sem skipta mestu máli á tímum flensufaraldurs!  Af hverju skyldi það vera?  Jú, þeir þurfa að votta að matvælaframleiðslan sé örugg.  Ef þeir gera það ekki, þá þarf að loka matvælaframleiðslufyrirtækjunum!  Þessu til viðbótar þurfa matvælavinnslur alls efni til að tryggja hreinlæti og halda í burtu alls konar óværu.  Ég veit ekki hvort þetta var skoðað, enda skiptir það ekki megin máli fyrir þetta innlegg, en það sýnir bara hversu flókið ferli það er að finna út hvers við þurfum.  En ef við byrjum ekki vinnuna að alvöru, þá líkur henni aldrei og næsta áfall mun koma okkur í jafn opna skjöldu og það sem núna er að ganga yfir.

Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar veitir frekari upplýsingar um þetta mál og fleiri á svið stjórnunar rekstrarsamfellu og stjórnunar upplýsingaöryggi.  Best er að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 164
  • Sl. viku: 570
  • Frá upphafi: 1677587

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband