Leita í fréttum mbl.is

Hverjum er að kenna?

Umræðan um hlýnun jarðar og ástæður fyrir henni voru nokkuð í umræðunni í vor og langar mig að birta aftur (lítilega breytt) tvö blogg sem ég skrifaði um málið þá.

Hlýnunin kannski ekki vandamálið, en mengunin er

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hlýnunin ein og sér sé kannski ekki svo alvarlegur hlutur miðað við hitabreytingar á jörðu undanfarin 10 - 20 þúsund ár og þó svo að við litum á skemmra tímabil.  Við erum t.d. ekki einu sinni komin á það hitastig sem var um landnám.  Mér fannst líka merkileg fréttin um árið, þegar einhver skriðjökull á Suðausturlandi hafði hopað svo mikið að hann hafði skilað mannvistarleyfum sem hann gróf einhverjum 5 - 600 árum eftir Landnám.  Ég verð að viðurkenna að ég sá ekki hver fréttin var.  Að jökullinn var að hörfa eða að fá staðfestingu á því að hitastig jarðar sveiflast.

Það er viðurkennd staðreynd að á tímabilinu frá siðskiptum fram á nítjándu öld (og sérstaklega á sautjándu öld) var fremur kalt.  Raunar svo kalt að það hefur verið kallað mini ísöld.  Á þessum tíma var t.d. algengt að fólk gat farið á skauta á Thames í hjarta Lundúna.  Engum hefur dottið í hug að segja að sú hlýnun sem varð á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu hefði verið vandamál.  Samt var sú hlýnun mun meiri en hefur átt sér stað á síðustu 50 ár, hvað þá síðustu 10 - 15 ár.  Hvert er þá vandamálið?  Líklegast að við fylgjumst meira með hitastigi á heimsvísu og sjáum hvaða áhrif (ég vil ekki tala um afleiðingar, þar sem það er neikvætt hugtak) breytingin hefur á umhverfi okkar.

Fyrir 300 árum var algengt að það snjóaði í London, nú þykja það fréttnæmt.  En vitum við hvað við þurfum að fara langt aftur í tímann til að finna sambærilegar aðstæður.  Hér á landi sjáum við í örnefnum að á Landnámsöld og fram á Sturlungaöld (ef við gefum okkur að megnið af eldri örnefnum hafi verið komið fram á þessu tímabili) að hér var mun hlýrra en jafnvel um þessar mundir.  Jarðvegsleifar og steingervingar víða um land vísa til þess að hér á landi hafi einu sinni verið mjög hlýtt.  Svona frekar í námunda við það sem er í Suður Evrópu eða þess vegna Karabískahafinu.  Hvert er þá vandamálið, þó örlítið hlýni?  Jökull í Noregi var að skila 3.000 ára gömlum skinnskó.  Þýðir það að það hafi verið hlýrra í Noregi fyrir 3.000 árum eða var eigandinn uppi á jökli þegar hann týndi skónum sínum.  Rannsóknir á ískjarna Grænlandsjökuls hafa leitt í ljós að hitasveiflur hafa verið miklar á stuttum tíma.  Þetta ber allt að sama brunni: Hitastig jarðar er óstöðugt. 

Það er aftur alvarlegt vandamál að við nútímamaðurinn eigum í miklum erfiðleikum með að vernda það umhverfi og þá náttúru sem við höfum til afnota á okkar æviskeiði.  Við mengum andrúmsloftið, úthöfin og landið eins og við höfum ekkert betra að gera.  Í því felst alvarleiki þess ástands sem er að skapast, ekki hlýnunin.  Hlýnunin er ennþá langt innan þeirra marka sem jörðin þolir og flest það líf sem á henni er.  Ég lít ekki einu sinni á það sem alvarlegan hlut að einhverjar dýrategundir þoli ekki þessar breytingar.  Það hefur gerst áður og mun endurtaka sig.  Geti einhver sýnt fram á að hlýnun af mannavöldum geti orðið það mikil, að hnötturinn verði ekki lífvænlegur, þá er um verið að tala um allt aðra hluti.  Málið er að engar slíkar heimsendaspár hafa komið.  Þær sem eru verstar gera í mesta lagi ráð fyrir að mannkynið eigi erfiðara líf fyrir höndum.  Og hvað með það?  Við erum hvort eð er bara maurar á þúfu sem heitir Jörð og þó svo að okkur þyki tilvera okkar merkileg, þá mun hún taka endi.  Spurningin er bara hvenær og hvort við fáum nokkru um það ráðið.

Stóra loftlagssvnindlið - sjónarhorn leikmanns

Mér finnst þessi umræða um hvort er meiri sökudólgur náttúruleg hitnun Jarðar eða hitnun Jarðar af mannavöldum, vera á vissum villugötum.  Ég held að báðir aðilar hafi eitthvað til síns máls og umræðan eigi ekki að fjalla um að halda með öðrum og þar með sjá hinum allt til foráttu.

Það eru tvær veigamiklar staðreyndir í þessu máli: 

1.  Hitastig Jarðar er breytilegt og þessar hitasveiflur geta valdið mikilli röskun á lífsskilyrðum á stórum svæðum og þróun lífs. 

2.  Maðurinn mengar andrúmsloftið eins og það sé einhver ruslafata og er með því að breyta lífsskilyrðum á afmörkuðum, en stórum, svæðum og hefur einhver áhrif á þróun lífs.

Bara á síðustu 100 árum höfum við upplifað talsverðar hitasveiflur, sem eru af báðum þessu ástæðum.  Spurningarnar sem við verðum að leita svara við eru:

1.  Hvað hefur hvor þáttur um sig lagt mikið til þessara sveiflna og hvert verður vægi þeirra á komandi árum og árhundruðum?

2.  Verða hitabreytingar af völdum mannkyns það miklar að þær hafi sjálfstætt veruleg áhrif á lífsskilyrði á Jörðunni?

3.  Hvað er það sem við getum gert til að sporna við óæskilegum áhrifum hitabreytinga af völdum mannkyns?

Það er mín trú, að hitabreytingar vegna mannkyns verða aldrei eins miklar og alvarlegar eins og náttúrulegar hitabreytingar.  Þetta sjáum við á hita- og kuldaskeiðum undanfarinna árþúsunda.  Raunar þarf ekki að fara lengra aftur en til um 1680 til að finna kuldaskeið, sem hefði fengið okkur í dag til að halda að ísöld væri að skella á.  Förum svo aftur til 1000 eða svo og við værum viss um að gróðurhúsaáhrifin væru í fullri virkni. 

Ég hef sagt að hitabreytingarnar séu ekki vandamálið heldur er það mengunin.  Við þurfum að leita leiða til að auka náttúrulega ljóstillífun, þ.e. náttúrulega bindingu kolefna og framleiðslu súrefnis.  Við þurfum að breyta framleiðsluferlum, þannig að þau mengi helst ekki neitt.  Við þurfum að breyta vélum bifreiða, þannig að þær spúi ekki út úr sér CO2 heldur bindi kolefnið í staðinn í fast efnasamband sem síðan er hægt að annað hvort farga á öruggan hátt eða endurnýta.  Nú önnur leið er að nota hreinni orkugjafa. 

Það er eitt sem við getum ekki gert:  Við getum ekki heft efnahagsþróun í Afríku, vegna þess að efnaðri þjóðirnar eru búnar að menga svo mikið.  Við verðum að leyfa þessum þjóðum að nota sömu tækni og við erum að nota, fá sömu tækifæri og við höfum.  Við getum ekki fárast út í fátækt þeirra og efnahagserfiðleikum, ef við ætlum að banna þeim að nota efnahagslega hagkvæmar leiðir til að koma sér út úr vanda sínum.  Ef við á Vesturlöndum viljum að þessar þjóðir noti ,,hreinni" aðferðir þá verðum við að ganga á undan og taka upp þessar ,,hreinni" aðferðir sjálf í jafn ríku mæli og við ætlumst til að aðrir noti þær.

 


mbl.is Hafna loftslagsbreytingum af mannavöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Marinó,

Það er alltaf gaman að lesa bloggið hjá þér:)  Það er af svo mörgu að taka í loftslagsmálum að ég held að enginn hafi öll spil á hendi sem þarf til að hafa glögga mynd af þessu.  Ég held það séu miklar líkur á að hluti af þessu hlýnunarskeiði sem við erum að ganga í gegnum stafi af þáttum sem mannkynið hefur haft áhrif á.  Margt af þessu eru menn að gera sér grein fyrir nú með nýjum mæliaðferðum og nýrri tækni, t.d. það að norðurskautsísinn bráðnaði miklu hraðar sumarið 2007 heldur en nokkurn óraði fyrir.  Orsökin reynist vera sú að ísinn bráðnaði neðan frá og þynntist í stað þess að minnka að flatarmáli.  Þegar ákveðinni þykkt var náð bráðnaði ísinn alveg og stór svæði, allt að 50 þúsund ferkílómetrar á dag urðu íslaus á haustmánuðum.  Áhrif norðurskautsísins á hitastig sjávar geta orðið talsverð þar sem íslaust norðurheimskaut endurkastar litlu magni af sólarljósinu sem kemur yfir sumarmánuðina. 

Eins og þú bendir réttilega á þá er hlýnunin ein sér er ekki stórt vandamál og ekkert meira heldur en jörðin hefur séð æ ofan í æ á þessum 4 milljörðum ára sem hún hefur hringsólað;)  Eyðing regnskóga í Suður Ameríku og Asíu er stórt vandamál því þessir regnskógar sjá okkur fyrir um fjórðungi súrefnis í andrúmsloftinu - sem við eigum erfitt með að vera án.  Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að við eigum ekki að kveikja stærra bál en slökkviliðið ræður við ef illa fer<g> og að best sé kapp með forsjá þegar kemur að því að fara með þessa litlu kúlu sem við búum á og erum, enn sem komið er, algerlega háð með búsetu. 

Ég held að það verði mjög spennandi að fylgjast með hvað skeður á næstu árum í framleiðslu hreinnar orku.  Hér í Texas er talsvert unnið í þessu og það hafa verið settar upp stór vindorkuver í vestur Texas á undanförnum árum og a.m.k. eitt stórt er í smíðum í norð vestur Texas (þar sem við köllum "the penhandle").  Annað stórt er í umræðunni í nágrenni við Corpus Christi, stutt frá strönd Mexíkóflóans.  Þá hafa verið gerðar tilraunir í olíuborunum í nágrenni Houston með að dæla koltvísýringi undir miklum þrýstingi niður í olíuborholur til að þrýsta olíu upp og geyma síðan koltvísýringinn á vísum stað neðanjarðar.  Við eigum eftir að sjá mikið af tækninýjungum á næstu árum, bæði til að framleiða orku, og eins til að nýta betur þá orku sem nú er að mestu framleidd með kolum.  Kjarnorka er aftur komin upp á borðið, en eftir því sem mér skilst þá eru vandamál með endurvinnslu hér svo miklar að þetta er hálfgerð þrautalending.  Nú er verið að hola út Yucca fjall í Nevada til að taka við kjarnorkuúrgangi, en flestir virðast vera sáttir á að það sé slæmur kostur, sérstaklega eftir að nýlegar jarðfræðirannsóknir sýndu að það lak mun meira vatn í gegnum fjallið en gert hafði verið ráð fyrir, sem gæti borið geislavirkan úrgang sem endaði í Colorado ánni sem sér megninu af Suðvestur ríkjunum fyrir drykkjarvatni.  Það er að mörgu að hyggja og mér finnst ráðlegra að menn hafi vaðið fyrir neðan sig eins og sagt var í sveitinni í gamla daga:)

Kveðja frá San Antonio, Texas

Arnór Baldvinsson

Arnór Baldvinsson (IP-tala skráð) 17.12.2007 kl. 07:01

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég las nú einhvers staðar, að vandamál borga eins og New York, liggi ekki síður í þyngdinni sem hvílir á landinu í formi bygginga og væru hreinlega að færa landið á kafa.  Þetta er svipað og er að gerst í Feneyjum.

Flóðin hafa ekki síður stafað af því, að búið er að setja margar ár í stokka og því vantar bæði flæðilendur og náttúrulega fyrirstöðu í botni áanna.  Við þetta eykst vatnshraðinn það mikið að bugður í ám hafa ekki undan og áin flæðir yfir bakka sína.  Þetta er svona svipað og vatnslás í vaski.  Renni vatn of hratt/í of miklu magni niður niðurfallið kemur að því að vatnslásinn hafi ekki undan, vegna þess að hann er hannaður til að taka við vatnsstreymi í tilteknu hámarksmagni á tilteknum hámarkshraða.  Annað dæmi um þetta, er þegar stór umferðaræð fer um bugðu, sbr. Kópavogsháls.  Þá hægir á umferðinni þó svo að handan við bugðuna séu hálf tómar götur.

Maðurinn hefur frá örófi alda og alveg fram að þeim tíma sem þéttbýli fór að myndast í Evrópu, fært sig til í samræmi við duttlunga náttúrunnar.  Fyrstu þéttbýlissvæðin tóku mið af landslagi og rennsli áa.  En nú fer kjörlendum þéttbýlis að fækka og þá er byrjað að byggja á svæðum sem engum datt í hug að byggja á áður.  Farið er of nærri árbökkum, fjörunni, ótraustum jarðvegi, sprungusvæðum, snjóflóðasvæðum, o.s.frv.  Þetta heitir að storka náttúruöflunum.  Mér finnst t.d. alveg arfavitlaus hugmynd að fara að byggja á landfyllingum undan ströndum, þegar allar framtíðarspár um sjávarstöðu segja að sjávarmál muni hækka um 50 - 100 sm og jafnvel meira á næstu 100 - 150 árum.  Svona landfyllingar eru kannski í lagi til að byggja á í fáeina áratugi, en ekkert meira en það.  Nema menn ætli svo næst að byggja flóðvarnir eins og í Hollandi.

Koltvísýringur er  mengun, þegar hann kemur ekki af náttúrulegum ástæðum.  Og það á við um allt sem maðurinn dælir út í umhverfið sitt.

Marinó G. Njálsson, 17.12.2007 kl. 10:14

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Arnór, fyrir mörgum árum tók ég kúrs við Stanford háskóla sem hét Energy Business Issues.  Í þessum kúrs fórum við í gegnum allar hugsanlegar og óhugsandi leiðir við orkuframleiðslu samhliða því að stunda sýndarviðskipti á olíumarkaði.  Margt hefur breyst á þessum 20 árum eða svo, en eitt hefur ekki breyst.  Framtíðarorkugjafinn er ekki ennþá kominn fram eða a.m.k. hafa menn ekki náð að virkja þá aðferð sem talin var þá að yrði orkugjafi framtíðarinnar.  Þessi aðferð sem menn horfðu til þá, er kjarnasamruni í stað kjarnaklofnunar.  Það kemur kannski að því að það takist, því kjarnasamruni er talinn veita margfalt meiri orku en allar hinar aðferðirnar til samans.  Eða að einhver önnur aðferð finnst.

En varðandi koltvísýring í útblástri, þá hefur mér verið hugleikir af hverju menn hafa ekki fyrir löngu fundið aðferð til að binda hann og breyta í fast efni.  Þetta hlýtur bara að vera spurning um að finna rétta efnið til að blanda saman við.

Það má svo nefna að á þeim tíma töldu svartsýnir menn að olíutunnan myndi hækka frá $18 árið 1988 í $27 árið 2005 og $36 árið 2015.  Ég hefði kannski átt að taka langtímalán og kaupa olíu þá. 

Marinó G. Njálsson, 17.12.2007 kl. 23:15

4 identicon

"En varðandi koltvísýring í útblástri, þá hefur mér verið hugleikir af hverju menn hafa ekki fyrir löngu fundið aðferð til að binda hann og breyta í fast efni.  Þetta hlýtur bara að vera spurning um að finna rétta efnið til að blanda saman við."

Þetta hefur nú þegar gerst, en er ekki langt á veg komið, bandarískar rannsóknir :)

Benni (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband