Leita í fréttum mbl.is

FIRST LEGO keppnin

Ég fylgdist með FIRST LEGO keppninni sem fram fór í dag.  Eldri sonur minn, sem er 11 ára, var þátttakandi.  Hann hefur ásamt liðsfélögum sínum unnið baki brotnu síðust vikur við að undirbúa sig fyrir keppnina, en þeir voru í einu af þremur liðum sem Salaskóli sendi til leiks.

Það er óhætt að segja að keppnin hafi verið bráðskemmtileg.  Hugmyndaauðgin sem kom fram í útfærslum krakkanna var með ólíkindum.  Þrautirnar sem þurfti að leysa voru margar mjög flóknar og raunar það flóknar að það var eingöngu á færi þeirra allra hugmyndaríkustu að leysa sumar þeirra.   Þarna höfðu menn takmarkaðan tíma til að vinna verkið og oft varð stressið mönnum að falli.  Verkefnið fólst í því að búa til farartæki, sem átti að leysa ýmis verkefni með hjálp tölvustýringa.  Ýta, toga, safna, fella, draga hluti til og frá á borði með afmörkuðum reitum.  Stig voru ýmist gefin eða tekin eftir því sem til tókst.  Sigurvegararnir í þessum hluta keppninnar voru 3 drengir úr Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi og settu þeir m.a. mótsmet þegar þeir náðu 370 stigum í einni umferðinni.  Fyrra met átti sveit Salaskóla frá því í fyrra og var það 295 stig.

En það var ekki bara keppt í tímaþrautum.  Krakkarnir þurftu að halda dagbók um vinnu sína, skýra út fyrir dómurum hvaða hugmynd var að baki farartækjum sínum og síðan vinna rannsóknarverkefni.  Veittar voru viðurkenningar fyrir framangreinda þætti, en einnig besta skemmtiatriðið, samheldasta hópinn og síðan fékk sá hópur sem hafði lagt mest á sig líka viðurkenningu.  Mig langar að vekja athygli á tveimur af þeim hópum sem fengu viðurkenningar.

Fyrst vil ég nefna lið Korpuskóla, en af einhverjum ástæðum ákvað skólinn ekki að taka þátt í keppninni.  Þetta sætti hópur drengja sig ekki við og þeir mynduðu keppnishóp, fundu liðstjóra, skráðu sig í keppnina, greiddu þátttökugjöld og fundu sér húsnæði til að stunda æfingar og undirbúa sig fyrir keppnina.  Þetta er alveg frábært framtak og vona ég að Korpuskóli láti það ekki gerast aftur að skrá ekki lið til keppni [svo þessir drengir fái að sýna hvað í þeim býr]*.

Hitt liðið sem ég vil fjalla um er lið sonar míns, Orkugjafar frá Salaskóla, en það fékk viðurkenningu fyrir rannsóknarverkefni sitt.  Viðfangsefnið heitir Orkuviti, en það er um vita sem sér sjálfum sér fyrir raforku.  Hugmyndin kom vissulega frá einum af kennurum Salaskóla, en útfærsla og framsetning var drengjanna.  Hugmyndin gengur úr á að nota sólarorku og vindafl til að búa til rafmagn, sem ýmist er notað beint til að senda straum í peru vitans eða hlaða rafgeymi sem síðan er hægt að nota þegar hvoru tveggja fer saman að sólar nýtur ekki við og að úti er logn.  Þeir byggðu frumgerð úr Lego kubbum með spaða og sólarsellu og sýndu dómurum og áhorfendum hvernig þetta virkaði.  Til að virkni sólarsellunnar sæist betur, tengdu þeir mótorinn við spaðana, þannig að sólarsellan sneri þeim um leið og hún safnaði orku.   Fyrst var haldin glærusýning, þar sem hugmyndin var skýrð og farið í rafmagnsfræðina að baki henni.  Þá var sýnt hvernig vitinn virkaði í raun.  Strákarnir notuðu vindafl (þ.e. blésu) á spaðana og það kviknaði ljós á peru vitans.  Þá var reynt að nota ljósið í salnum til að virkja sólarselluna.  Það dugði ekki strax, en þá var þeim bent á að nota ljós skjávarpans.  Sólarsella vitans var borin upp að skjávarpanum og það kviknaði bæði ljós og spaðarnir snerust.  Frábær lausn hjá þessum hópi drengja, sem eru nemendur í 5., 6. og 7. bekk í Salaskóla.  Viðurkenning er uppreisn æru fyrir þá, þar sem þeir lentu í miklum vandræðum með farartækið sitt í keppninni og gafst ekki færi á að sýna þar hvað í þeim bjó.

Það sem var skemmtilegast við þessa keppni í dag, var ánægjan og gleðin sem skein úr andlitum allra keppenda.  Það voru allir að gera sitt besta um leið og þeir voru að sýna hugvitsamlegar lausnir sínar.  Alls tóku 18 lið þátt frá 16 skólum, en Salaskóli sendi 3 lið til keppni eins og áður sagði, þar á meðal sigurvegarana frá því fyrra, Liðið hans Jóns míns (þetta er nafnið á liðinu).  Kynjahlutföll voru drengjum í hag, en alls ekki í því mæli sem maður hefði búist við.  T.d. voru nokkur lið þar sem stúlkur voru í miklum meirihluta, þó stúlkur vantaði alfarið í önnur.

Til hamingju krakkar og liðstjórar með frábæra keppni, þið voruð öll til sóma.  Sérstakar hamingjuóskir til Ísjaka úr Hafnarskóla með von um gott gengi á Evrópumótinu í vor.

 

*Bætt við 13.11. kl. 23:30, þar sem fólk var farið að misskilja setninguna sem gagnrýni á Korpuskóla, en ekki  hvatningu, eins og hún átti að vera.


mbl.is Skapandi vísindi hjá grunnskólabörnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Gaman að lesa um keppnina, þetta er frábært framtak hjá Tómasi Rasmus og hinum sem standa að þessu framtaki. Nokkrir nemendur mínir í kennaranáminu voru dómarar í þessari keppni í fyrra og núna í ár. Við fylgjumst vel með keppninni í gegnum frásagnir þeirra. Gaman líka að lesa um sjónarhorn foreldra. Svona viljum við að skólastarf sé sem mest, frumkvæði og sköpun nemenda sem vinna í saman í hóp að einhverju verkefni.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 11.11.2007 kl. 11:49

2 identicon

Takk fyrir skemmtilegan stíl og frásögn, sem bætir heilmiklu við alltof snubbótta moggamálsgrein. Það er augljóst að margt býr í börnunum og sýnir að hægt er að opna augu þeirra fyrir því hvernig þau sjálf geta leyst hagnýt og fræðileg vandamál. Slík hugsun og almennt vísindalæsi á eftir að koma þjóðfélagi okkar vel.

Arnar Palsson (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 09:35

3 Smámynd: Ingunn Jóna Gísladóttir

Sæll Marino og takk fyrir að skrifa um Lego keppnina, ég sem foreldri barna í Korpuskóla er bæði hneyksluð og reið yfir því að skólin sjálfur tók ekki þátt og aðstoðaði börnin sem vildu og tóku þátt i keppninni.

Fengum í morgunn póst frá skólastjóranum þar sem talað var um frábært gegni liðsins, mikið lof og hrós, skrifað er um samvinnu, virðingu, stuðning, hvatningu, trúnað, kraft og hæfileika til að leysa vandamálin. Það er á hreinu að Korpubörnin leystu vandan og skráðu sig sjálf og stóðu ein í öllum undirbúningi. Þetta er ferlega ljótur stimpill á stjórn Korpuskóla. Og pósti og skömmum mun rigna yfir skólastjórnendur.  

Ingunn Jóna Gísladóttir, 13.11.2007 kl. 13:11

4 identicon

Þetta er gott innlegg hjá þér og mjög mikilvægt að rætt er um það sem er jákvætt og uppbyggjandi í þjóðfélaginu. Einnig er það mjög góð ábending sem þú gefur til stjórn Korpuskóla.

Hins vegar er auðvitað lika hægt að bera fram rök fyrir því að það getur verið til marks um jákvæða og góða stjórn í Korpuskóla, að nememdur skólans sýna svo mikið sjálfstraust og sjálfstæði. Því greinilega eru þau vel fær og óhrædd við að skrá sig og keppa í keppnum eins og þessari, án þess að skólinn þarf að vera í farabroddi og eða ýta við þeim.

Ég er hins vegar alveg sammála þér að það hefði verið skólanum til sóma að sýna þátttöku nemenda meiri áhuga og stuðning. En, ég get sagt þér að slóðin varðandi innlegg þítt, hefur þegar verið send í tölvupósti til Skólastjóra Korpuskóla, af öðrum lesenda.

Dan Sommer (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 14:03

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta átti nú ekki að vera nein alvarleg ádeila á Korpuskóla og mér þykir leitt ef það ætlar að verða það sem menn muna eftir úr þessu bloggi.  Ég gerði lítið annað en að koma með rökin sem færð voru fyrir því að veita drengjunum viðurkenningu sína.  Og það má svo sem til sannvegar færa, að þetta kenndi drengjunum að þeim eru allir vegir færir, ef viljinn er fyrir hendi.

Marinó G. Njálsson, 13.11.2007 kl. 18:09

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Og svo ég bæti við.  Þar sem ég segi: "vona ég að Korpuskóli láti það ekki gerast aftur að skrá ekki lið til keppni", þá á ég eingöngu við, að þá gefst þessum frábæru keppnismönnum færa á að mæti til leiks næstu ár.  Það sem ég sagði var ekki ætlað að vera neikvætt, en ljóst er að túlkunin er það.

Marinó G. Njálsson, 13.11.2007 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1677709

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband