Leita í fréttum mbl.is

Hver er vandi heimilanna og hvað þarf að gera?

Mikið fer fyrir umræðunni um stöðu heimilanna í kosningaumfjöllun.  Flestir flokkar hafa einhverja skoðun á málinu, en ekki allt of margir þá þekkingu sem nauðsynleg er, ef taka á afstöðu til jafn mikilvægs máls.  Einn frambjóðandi sagði í sjónvarpssal um daginn að ekki væri búið að greina hver staðan er, annar segir að lítið hafi farið fyrir umræðunni um þá verst settu, þá vilja sumir ekki bjarga þeim sem eiga sæmilega til hnífs og skeiðar og loks kemur þessi umræða um að almenn niðurfærsla komi þeim ríkustu best.  Sama viðhorf kom fram hjá nokkrum fjölmiðlamönnum í Silfri Egils í dag.

Ég vara við því að færslan er löng, en það er vegna þess að í henni er fjallað um marga þætti málsins, þ.e.:

  • Markmiðin
  • Greiningu vandans
  • Leiðir og lausnir
  • Lausnirnar mátaðar
  • Rök fyrir aðgerðum

Markmið ekki virt

Á vormánuðum 2010 sat ég sem fulltrúi Hreyfingarinnar í starfshópi á vegum efnahags- og viðskiptaráðherra. Hlutverk hópsins átti að vera að meta árangurinn af setningu laga 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns, og skoða álitaefni sem upp koma við framkvæmdina, "sem og álitaefni tengd þinglýsingum og stöðu síðari veðhafa, samkeppnisréttarleg álitaefni sem tengjast lögunum og þörf á takmörkun á gildistíma laganna".  Svo áttum við líka að "skoða stofnun nýs embættis umboðsmanns skuldara sem m.a. skuli gæta hags og réttinda skuldara, beita sér fyrir því að áhrif laga þessara séu í samræmi við markmið þeirra, vinna að því að tryggja jafnræði, sanngirni og gagnsæi í samskiptum og samningum fjármálafyrirtækja við skuldara og taka við og meðhöndla ábendingar og mál um misbeitingu laganna".  Því miður fékk hópurinn ekki að ljúka vinnu sinni, enda hefði það getað dregið fram í dagsljósið hvers handónýtt úrræðin voru sem bankarnir bjuggu til útfrá texta laganna.

Um haustið, þ.e. október og nóvember 2010, sat ég í svo nefndum sérfræðingahópi um skuldamál heimilanna.  Hann átti að taka sama upplýsingar vegna fyrirhugaðra aðgerða, en þær áttu að hafa eftirfarandi markmið:

  • Fólk hafi þak yfir höfuðið.
  • Skuldsett fólk nái endum saman.
  • Byrðum dreift á sanngjarnan hátt.
  • Aðgerðir skilvirkar, áhrifa gæti fljótt.
  • Umsýslukostnaður sé sem minnstur.

Af greinargerð um fjárhagsstöðu heimilanna, sem útbúin var af heilum fimm ráðuneytum og birt var 4. apríl sl. og Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands 2012, sem birt var sama dag, er ljóst að eitthvað gekk ekki eftir.  Um 3 fjölskyldur hafa á dag misst húsnæðið ofan af sér frá síðari hluta árs 2009 (frysting á nauðungarsölum var fram eftir ári), 48,5% heimila á í erfiðleikum með að ná endum saman og 36% heimila geta ekki mætt óvæntum útgjöldum upp á 157.000 kr. með þeim leiðum sem venjulega nýtast þeim til að standa undir útgjöldum. 

Byrðum hrunsins hefur að fárra mati verið dreift á sanngjarnan hátt, en um 50 milljarðar hafa farið í að lækka lán með 110% leiðréttingunni og sértækri skuldaaðlögun.  (Höfum í huga að þegar þessar leiðir voru kynntar í seinna skiptið í byrjun desember 2010, þá var gert ráð fyrir að yfir 90 milljarðar færu í þessar aðgerðir.)  Ekki verður sagt að aðgerðirnar hafi verið skilvirkar og áhrifa þeirra gætt fljótt. Samkvæmt upplýsingum í greinargerð ráðuneytanna voru 20.830 heimili með neikvætt eigið fé í árslok 2009, en 21.515 í árlok 2011 eða fjölgun um tæp 700.  Vissulega varð fækkun milli 2010 og 2011, en hafa verður í huga að þá höfðu mörg fjármálafyrirtæki uppreiknað áður gengistryggð lán til einhverrar veruleikafirrtrar tölu.  Síðan er rétt að nefna að í árslok 2008 voru ríflega 5.000 færri heimili í neikvæðri eiginfjárstöðu en 3 árum síðar.  Varðandi umsýslukostnaðinn, þá held ég að mörg heimili séu að upplifa óheyrilegan kostað af þessu öllu í gegn um ýmis brögð fjármálafyrirtækjanna, þó svo að ekki hafi verið greidd stimpilgjöld og önnur fáránleg gjöld til hins opinbera.

Vandi heimilanna greindur

"Sérfræðingahópurinn" greindi heimilin niður í nokkra hópa.  Ég ætla að mestu að halda mig við þá hópaskiptingu, en tel nauðsynlegt að bregða aðeins út af henni.  Tekið skal fram að hvert heimili getur fallið í fleiri en einn hóp.

Hópur 1 - Heimili í framfærsluvanda:  Þegar framfærsluvandi er metinn, þá þarf fyrst að ákveða framfærsluviðmið.  Þegar vinna "sérfræðingahópsins" fór fram, var eingöngu hægt að nota viðmið frá Umboðsmanni skuldara, en þar sem það var (og er) naumhyggjuviðmið sem fólki er eingöngu ætlað að lifa af í mjög stuttan tíma, þá fékk ég því framgengt að notað var hærra viðmið, þ.e. viðmiðið var tvöfaldað.  Hafa skal í huga að mörg fastaútgjöld eru ekki í grunnviðmiðinu, svo sem kostnaður vegna ungbarna, leikskólagjöld, samgöngur, símakostnaður og tryggingar svo fátt eitt sé nefnt.   Tvöföldun viðmiðanna er því algjört lágmark, en gefur líklegast ekki raunhæfa mynd á raunverulegum framfærslukostnaði heimilanna.  Þegar tvöfalda viðmiðið var notað, þá fékkst út að rúmlega 7.000 heimili voru í framfærsluvanda, 4.033 einhleypir og 3.064 hjón/sambýlisfólk.  Hvor hópur um sig getur verið með barn/börn á heimilinu.  Þessi hópur var sem sagt ekki með nægar tekjur til að framfleyta heimilinu, hvað þá að geta greitt af lánum.

Þar sem þessi hópur féll ekki undir verksvið sérfræðingahópsins, þá gerði hann engar tillögur fyrir þá sem ekki gátu framfleytt sér og sínum.  Ég aftur á móti fjallaði um þennan hóp í erindi mínum, þegar ég kynnti sérálitið mitt á fundi í Þjóðmenningarhúsinu um miðja nóvember og hvatti stjórnvöld til að huga að vanda þessa hóps.  Fyrir hann gildir ekkert annað, en að auka tekjur hans.  Hafa skal þó í huga, að einhver af þessum "heimilum" eru einstaklingar/pör sem búa á stofnunum eða dvalarheimilum og eru með mjög takmörkuð persónuleg útgjöld.

Hópur 2 - Heimili í greiðsluvanda:  Almennt þegar talað er um fjárhagsvanda heimila, þá er talað um greiðsluvanda, þ.e. tekjur duga ekki fyrir þeim útgjöldum sem .  Útreikningar sérfræðingahópsins bentu til þess að í árslok 2009 hafi um 17.763 heimili verið í greiðsluvanda.  Eru þá þau heimili sem eru í hópi 1 meðtalin. Fyrir heimili í hópi 2 breytir miklu að létt sé á greiðslubyrði lána, en það þarf ekki að vera nóg.  Ýmsar leiðir eru til að létta á greiðslubyrðinni og algengast er að reynt sé að semja við fjármálastofnunum framlengingu lánanna með von um að betri tíð sé framundan með blóm í haga. Slíkt er hættuleg blekking.  Engin ástæða er til að ætla að lenging lána geri nokkuð annað en að fresta vandanum.  Í núverandi atvinnuástandi er því bara um eitt að ræða:  Lækkun lána niður í greiðslugetu.  

Hópur 3 - Heimili í skuldavanda:  Hvað er að vera í skuldavanda?  Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem virðist notast við í dag, er það að skulda meira en maður á.  En er þá allt ungt fólk sem hefur verið á námslánum í skuldavanda?  Algengast er að ungt fólk sé með neikvætt eigið fé í mörg ár eftir að háskólanámi lýkur.  Neikvætt eigið fé er því ekki sjálfkrafa skuldavandi.  Neikvætt eigið fé er ekki skuldavandi nema að öðru af tveimur skilyrðum uppfylltum:  A. Að neikvæða eiginféð sé í eign sem þarf að selja, hver sem eignin er; B. Samhliða skuldavandanum fari greiðsluvandi.

Í vinnunni í "sérfræðihópunum" komst ég að því að fullt af heimilum er með bullandi neikvætt eigið fé í fasteignum sínum, en er með svo miklar tekjur að það skiptir ekki máli.  Raunar vekur furðu að nokkur lánastofnun hafi leyft að lánunum væri þinglýst á eignina, en það er náttúrulega mál þess sem lánaði.  Í lok árs 2009 voru ríflega 20.000 heimili með neikvætt eigið fé, þ.e. flokkuðust í skuldavanda.  Af þeim voru rúm 8.000 bæði í skuldavanda og greiðsluvanda, sem þýðir að ríflega 12.000 heimili stóðu undir greiðslubyrði lána, þó hluti lánanna væri umfram virði eigna.

Hópur 4 - Heimili á leið í greiðsluvanda:  Í upphafi árs 2008 voru eignir heimilanna í sparnaði alveg ágætar, þá sérstaklega í lífeyrissparnaði.  Vandinn var að lífeyrissparnaðurinn var ekki aðgengilegur.  Alþingi samþykkti þá lög sem leyfðu fólki að taka út séreignasparnað.  Tilgangurinn var tvíþættur, annars vegar að gefa heimilunum aðgang að fé til að greiða lán og hins vegar að afla ríkissjóði og sveitarfélögum skatttekna.  Ég hef ekki nákvæmlega tölu á fjölda þeirra heimila sem nýttu sér þetta úrræði, en síðustu tölur gáfu til kynna að yfir 60.000 manns hefðu nýtt sér úrræðið.  En hvað svo?  Þegar sparnaðurinn var uppurinn, hvað átti þá að taka við?  Miðað við að 48,5% heimila eða um 60.000 heimili telja sig eiga í erfiðleikum með að láta enda ná saman, þá má búast við að yfir 40.000 heimili séu á leið í greiðsluvanda.

Hópur 5 - Heimili sem halda sjó:  Þessi heimili hafa dregið úr neyslu til að standa í skilum en ekki gengið að sparnaði.  Tölur sem sérfræðingahópurinn vann með gefa til kynna að þetta hafi á þeim tíma verið um 20.000 heimili.  Þessi heimili munu líklegast hægt og sígandi koma sér í þokkalega stöðu.  Hafa skal í huga að hluti þessara heimila er líka í hópi 3.

Hópur 6 - Vel sett heimili:  Þetta eru raunar tveir hópar, þ.e. annars vegar eignafólk með einkaskuldir sem val, þ.e. vextir af húsnæðislánum eru lægri en ávöxtun af öðrum eignum, og hins vegar fólk með góðar tekjur og þarf ekki að hafa áhyggjur af háum útgjöldum.  Samanlagt eru þetta um 20.000 heimili.  Hafa skal í huga að hluti þeirra er líka í hópi 3.

Hópur 7 - Heimili með tvær eignir og hefur greiðslugetu til að standa undir annarri:  Kannski ekki stór hópur, var um 1.100 heimili í október 2010, en reynslan frá kreppum í öðrum löndum er að þessi hópur kemur almennt verst út úr þeim.

Hópur 8 - Heimili með engar húsnæðisskuldir og býr í eigin húsnæði:  Þetta er nokkuð stór hópur eða um 30.000 heimili.  Hann getur samt verið með aðrar skuldir sem eru að slaga heimilisreksturinn.  Heimili í þessum hópi geta því verið í greiðsluvanda.

Hópur 9 - Heimili með nánast engar skuldir:  Hafa skal í huga að um 24.000 heimili eru annars vegar ungmenni sem enn búa í foreldrahúsum eða ellilífeyrisþegar sem búa hjá börnum sínum eða á dvalarheimilum.  Þessi hópur getur þó verið í framfærsluvanda, þ.e. tilheyrt hópi 1.

Markmið aðgerða

Sérfræðingahópurinn komst að þeirri niðurstöðu í vinnu sinni að markmið aðgerða ætti að vera sem hér segir (kemur þó ekki fram í skýrslu hópsins, bara í séráliti mínu):

  1. Að fækka eins og kostur er í hópi 2 (munum að hópur 1 var ekki í verkahringsérfræðingahópsins) með ýmsum úrræðum.  Með þessu fækkaði í hópi 3 í leiðinni.
  2. Koma í veg fyrir að heimili færðust úr hópi 4 yfir í hóp 2.
  3. Hjálpa þeim sem verða áfram í hópi 2 eftir aðrar aðgerðir sem hraðast í gegn um það ferli sem virðist óumflýjanlegt, þ.e. nauðungarsölu, greiðsluaðlögun og gjaldþrot.
  4. Færa sem flesta úr hópi 4 yfir í nýja útgáfu af hópi 5, þar sem fólk getur tekið upp eðlilega lifnaðarhætti.
  5. Hjálpa þeim sem eftir verða í hópi 4 sem sömu úrræðum og þeir sem eru í hópi 2 munu njóta.

Leiðir/lausnir

Sérfræðingahópurinn reyndi að velta við eins mörgum steinum og hægt var til að finna leiðir sem væru færar.  Sumar þeirra voru farnar í handónýtri útfærslu fjármálafyrirtækjanna.  Tel ég þær upp hér fyrir neðan í eitthvað breyttri mynd:

Leið 1 - Almenn niðurfærsla skulda: Leið Hagsmunasamtaka heimilanna, Hreyfingarinnar (núna Dögunar), Hægri grænna og Framsóknarflokksins og fleiri hópa.  Helstu andmæli við þessari leið er að mönnum vex í augum að einhverjir sem ekki eru þess verðir fái niðurfærslu og að hinir ríku fái mest. Leiðina mætti framkvæma með þaki á upphæð, eign eða ráðstöfunartekjur allt að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. Nýtist öllum ríflega 72.000 heimila með húsnæðisskuldir.  Gera skal þó ráð fyrir að umtalsverður fjöldi heimila hefur þegar fengið einhverjar leiðréttingar, annars vegar í gegn um sértæka skuldaaðlögun, en ekki síst í gegn um gengislánadóma Hæstaréttar.

Leið 2 - Aðlögun skulda að eignastöðu: Aðlögun skulda að eignarstöðu, sem er útfærsla af sértækri skuldaaðlögun, oft vísað til sem 80-110% leiðar, þar sem skuldir eru strax færðar niður í 110% af eign og ef ekki er greiðslugeta fyrir því, þá má fara með hana niður í 80% og munurinn á 80 og 110 er sett á 3 ára biðlán. Einnig má útfæra þetta sem niðurfærslu í eitthvað annað hlutfall, svo sem 100%, 70% eða 60%, en þá er líklega alveg eins gott að fara leið 3.  Þessi leið var útfærð af fjármálafyrirtækjunum, en á annan hátt en sérfræðingahópurinn ræddi hana.  Þar með nýttist hún mun færri heimilum, en gert var ráð fyrir.  Talsverður hópur heimila fór í gegn um 110% leiðina eða sértæka skuldaaðlögun.  Vegna takmarkanna á þeim leiðum hefur það ekki reynst nóg.

Leið 3 - Greiðslumat: Setja fólk einfaldlega í greiðslumat og laga skuldir að greiðslugetu með fyrirvara varðandi breytingar á greiðslugetu á næstu 3 - 6 árum.

Leið 4 - Hækkun vaxtabóta: Hækkun vaxtabóta og húsaleigubóta til að gera fólki kleift að greiða hærri upphæð, en almennar tekjur ráða við.  Þetta má líka kalla niðurgreiðslu vaxta.  Leiðin var farin og heilum 2 milljörðum bætt í auknar vaxtabætur.  Nýttist þeim tekjulægstu en var eins og skvetta vatni á gæs.  Breytingarnar sem gerðar voru á vaxtabótakerfinu varð til þess að það fækkaði í hópi þeirra heimila sem fengu vaxtabætur.  Þannig að hærri upphæð dreifðist á færri heimili.

Leið 5 - Hjálpa fólki að minnka við sig: Hjálpa fólki að skipta um húsnæði og fara í ódýrara. Hægt er að útfæra þetta á ýmsa vegu, en tryggja yrði að fólk væri ekki að tapa eigin fé í leiðinni. Ég hef aldrei skilið hvers vegna þessi leið var ekki farin.  Fjármálafyrirtækin eiga um þessar mundir eitthvað yfir 4.600 íbúðir, þar af Íbúðalánasjóður yfir 2.600.  Af hverju bjóða þessi fyrirtæki ekki upp á skiptimarkað fyrir þá sem vilja minnka við sig til að létt á skuldum?

Leið 6 - Kaupleiga: Kaupleiga, lánardrottnar taka yfir eign og leigi til baka. Eitthvað verið rætt, en ekki komið í framkvæmd svo ég viti til.

Leið 7 - Lyklafrumvarpsleiðin: Lyklafrumvarpsleið, þ.e. að lánardrottnar taka yfir eign og skuldari er laus allra mála.

Heimili í framfærsluvanda eru utan þessara leiða, en nánast eina leiðin til að hjálpa þeim er gagnger fjárhagsleg endurskipulagning heimilisins og fjárhagsaðstoð.  Engin lausn er að sveitafélögin taki við framfærslu þessara heimila.  Leita þarf annarra ráða, sem ég ætla ekki út í hér.  Einhverjir munu losna úr þessari stöðu með bættu atvinnuástandi.

Að máta lausnir

Hér fyrir neðan hef ég raðað leiðunum á hópana.  Eru úrræðin merkt eftir því í hvaða röð ég tel þær nýtast best eða eigi að framkvæma þær. 

Leiðir

1

2

3

4

5

6

7

Hópur 2

1

 

3

2

4

5

 

Hópur 3

1

2

3

 

4

 

5

Hópur 4

1

 

3

2

4

 

 

Hópur 5

1

 

 

2

 

 

 

Hópur 7

1

 

 

 

 

 

2

Ég lít svo á, eftir vinnu mína í þeim tveimur hópum, sem ég nefndi að framan, að eðlilegast sé að koma til móts við heimilin með almenna niðurfærslu þeirra skulda sem ýmist hækkuðu verulega vegna verðbólgu og banka- og gjaldeyrishrunsins eða urðu til þegar fólk var að reyna að halda sér á floti vegna þessa.  Flest áður gengistryggðra lána hafa verið leiðrétt, en ekki öll.  Óverðtryggð lán hafa nánast alveg verið fyrir utan þessa umræðu, en mörg heimili brugðu á það ráð að auka við slíka lántöku til að brúa bilið hjá sér. Þær almennu leiðréttingar sem ég tala um, kæmu að sjálfsögðu bara til framkvæmdar að því marki sem lán hafa ekki þegar verið leiðrétt. 

Einn banki hefur komið til móts við viðskiptavini sína með almennri aðgerð vegna neyslulána, þ.e. Landsbankinn með lækkun annarra skulda, meðan hinir hafa mér vitanlega ekki gert neitt í þá veru.

Hafa skal í huga, að þegar búið er að koma til móts við heimili í hópi 7, þá getur verið að þau verði eftir það áfram í hópum 2 eða 3.

Ég reikna með að gagnvart hópum 4 og 5 þá þurfi í flestum tilfellum ekki önnur úrræði en almenna leiðréttingu.  Misjafnt er hverjir úr þeim hópum munu fá vaxtabætur og síðan þyrfti lítill hluti heimila í hópi 4 að fá nýtt greiðslumat með aðlögun skulda að útkomu þess, hvort heldur í formi breytingar á lánum eða að fólki væri hjálpað að færa sig yfir í ódýrara húsnæði.

Aðgerðir fyrir heimili í hópum 2 og 3 eru greinilega flóknari, en hvert skref þar miðar að því að fækka þeim sem þurfa sértækari úrræði.

Af hverju þessar aðgerðir?

Ég hef oft verið spurður að því hvers vegna þurfi svona aðgerðir fyrir heimilin.  Eiga þeir sem tóku lánin ekki bara að bera ábyrgð á sínum skuldum?  Þessu er svo sem bæði fljót svarað og ekki síður þörf á því að svara í lengra máli.

Fyrst stutta svarið:  Hækkun skulda heimilanna á árinu 2008 er nánast eingöngu tilkomin vegna meintra lögbrota hrunbankanna, stjórnenda þeirra og eigenda og afleiðinga þessara lögbrota.  Sérstakur saksóknari rekur nú fjölmörg mál, þar sem stefnt er vegna grófrar markaðsmisnotkunar og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er nánast full af upplýsingum um þessi meintu lögbrot. Er hægt að jafna þessu við að hrunbankarnir hafi brotist inn á heimili landsins og stolið þaðan verðmætum upp á nokkur hundruð milljarða.  Eðlilegt er að það tjón sem heimilin urðu fyrir verði bætt.

Langa svarið:  Að sjálfsögðu er stutta svarið innifalið í langa svarinu, en þess fyrir utan eru rökin efnahagsleg, viðskiptaleg, félagsleg, lagaleg og siðferðisleg:

Í fyrsta lagi eru mörg lagaleg rök fyrir því að þetta verði gert.  Bara til að nefna fáein, þá er það 36. gr. laga nr. 7/1936, samningalaga, en þar er fjallað um ógildingu samninga vegna forsendubrests.  Í tölulið c segir t.d.: „Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag.“  Í lögum nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir er í 9. gr. ákvæði um að víkja megi til hliðar fjárhagslegri tryggingarráðstöfun, „ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera ákvæðið fyrir sig“.  Tel ég þessi lagalegu rök vera nokkuð traust og vex stöðugt í hópi þeirra lögfræðinga sem telja þau nægilega sterk til að vinna dómsmál gegn fjármálafyrirtækjunum. 

Í öðru lagi eru það viðskiptaleg rök.  Það hefur oft sýnt sig, að sé komið til móts við skuldara með niðurfellingu, afskrift eða leiðréttingu á höfuðstól láns, þá innheimtist í raun hærra hlutfall af höfuðstólnum en annars myndi gerast.  Heildarafskriftin/niðurfærslan/leiðréttingin verður því minni, en annars yrði.  Ástæðan er að skuldarinn verður áfram virkur viðskiptavinur fjármálafyrirtækisins og stendur oftar í skilum, þar sem greiðsluviljanum er viðhaldið.  Viðskiptavinur sem finnst hann njóta réttlætis og sanngirni, er betri viðskiptavinur, en sá sem finnst hann órétti beittur.  Virkur viðskiptamaður er verðmætari fyrir fjármálafyrirtækið, en hinn sem er sífellt á flótta með peningana sína og forðast að greiða skuldir sínar.  Nú þurfi fjármálafyrirtækin á annað borð að afskrifa lán til að geta komið yfirteknum eignum aftur í umferð, hvers vegna má þessi afskrift ekki eiga sér stað gagnvart núverandi eiganda eignarinnar?  Af hverju er það bara hægt gagnvart nýjum eiganda?

Í þriðja lagi eru það siðferðisleg rök.  Flest, ef ekki öll, fjármálafyrirtæki tóku á einn eða annan hátt þátt í hrunadansinum.  Það er engin afsökun að hafa haft gjaldeyrisjöfnuð í jafnvægi eða hafa ekki ætlað að valda tjóni, dansinn var stiginn taktfastur án þess að hugsað væri fyrir afleiðingunum.  Áhættustjórnun fyrirtækjanna brást, of mikil áhætta var tekin og þegar spilaborgin hrundi, þá reyndust viðbragðsáætlanir ekki vera til staðar.  Vissulega var hlutur fjármálafyrirtækja misjafn í hruninu, en þeir sem horfðu á og gerðu ekkert til að stoppa vitleysuna eru líka sekir.  Það getur því ekkert íslenskt fjármálafyrirtæki talið sig vera saklaust í þessum efnum. 

Í fjórða lagi eru það efnahagsleg rök.  Þetta eru raunar bara andstæðan við fyrri kostinn.  Ef greiðslubyrði lána verður létt með leiðréttingu á höfuðstóli lána, þá eykst neyslan, velta fyrirtækja, skatttekjur, samneysla og við verjum velferðarkerfið.  Fleiri verða virkir á fjárfestingamarkaði og verðfall fasteigna stöðvast.  Staðið verður vörð um eignir fólks og fyrirtækja.  Tiltrúin á hagkerfinu eykst og viljinn til að vera virkur þátttakandi líka.  Verulega dregur úr atvinnuleysi og þar með útgjöldum ríkisins til þeirra þátta.  Ánægðari þjóðfélagsþegnar skila meiri og betri vinnu og þar með auknum hagvexti.  Fólk sér fram á bjartari tíð og að framtíð þess verði best borgið hér á landi.  Aukin hagvöxtur og auknar skatttekjur gætu síðan hjálpað við að greiða niður skuldaklafana sem nú hvíla á þjóðinni.  Annar vinkill í efnahagslegu rökin eru að bankarnir mega hreinlega ekki hagnast meira því stór hluti hagnaðarins eykur á gjaldeyrisvanda þjóðarinnar.  Aðgangsharka fjármálafyrirtækjanna er því hrein ógn við stöðugleika í efnahagslífinu.

Í fimmta lagi eru það félagsleg rök.  Eins og mál hafa þróast eru sífellt stærri hópur að lenda utangarðs í þjóðfélaginu.  Fólk hefur ekki bara misst allar eigur sínar, heldur er það í auknu mæli að verða komið upp á sveitafélögin eða það dettur inn í hið svarta hagkerfi.  Biðraðir þar sem eru matarúthlutanir hafa lítið styst og jafnvel frekar þróast í gagnstæða átt.  Fjölmargar fjölskyldur eiga ekki í nein hús að venda og eru nánast á vergangi.  Fjölgi í þessum hópi, þá færast byrðarnar yfir á skattgreiðendur og nauðsynlegt verður að fjölga félagslegum úrræðum í húsnæðiskerfinu.

Lokaorð

Þetta er orðin löng færsla, en ég vona að hún verði gott innlegg í umræðuna fram að kosningum.  Ef það er einhver flokkur sem er í vafa um út á hvað þetta gengur eða hefur ekki fólk innan sinna vébanda, sem hefur næga þekkingu á þessum málum, þá vona ég að þeir hinir sömu geti nýtt sér þessa grein.

Í fimm ár hafa heimili landsins glímt við meiri fjárhagsvanda en líklegast frá því í kreppunni miklu.  Með þessu er ég ekki að gera lítið úr vanda heimilanna í byrjun níunda áratugarins og ekki heldur þeim vanda sem heimili á landsbyggðinni hafa mátt kljást við í fleiri áratugi.  Framganga stjórnvalda á þeim tíma er ekkert nema hneyksli.  Landsbyggðin upplifði að þeir sem gátu fluttust burt, en átthagafjötrarnir héldu öðrum, þar sem fólk sat fast í eignum sínum.  Ástandið á Suðurnesjum er verra en tárum tekur og þar er fólk að missa húsnæði sitt í stórum stíl.  Stjórnvöld og fjármálafyrirtæki verða að vakna upp af þyrniróssvefni sínum.  Að gera stóran hluta heimila landsins óvirkan á eignamarkaði er stórhættulegt.  Kynslóðin sem á að standa undir nýjabruminu í atvinnulífinu hefur ekki efni á því, þar sem það á ekkert eigið fé í húsnæði sínu.

Við þá sem segja:  "Þetta er ekki hægt", vil ég bara segja:  "Allt er hægt, ef viljinn er fyrir hendi.  Þetta er viðfangsefni, sem til eru margar lausnir á.  Við þurfum bara að fara yfir þær opnum huga og velja þá fýsilegustu."  Ég er sannfærður um, að séu allar hugmyndirnar lagðar á borðið og færustu einstaklingar fengnir til að vinna eina hugmynd út úr þeim öllum, þá finnist lausn sem hægt er að hrinda í framkvæmd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamálið er ekki greining vandans og leiðir til að leysa hann heldur viðhorfið til vandans. Fráfarandi stjórnvöld þekkja fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja en þau hafa ekki viljað hjálpa til og þeirra pólitíska sýn á jöfnuð og félagshyggju er á algjörum villigötum. Mýtan sem stjórnvöld hafa starfað skv. (fyrir utan pilsfaldakapítalismann í bankabjörgun) er sú að eignarhald almennings á eigin íbúðum hafi leitt til glötunar (ekki hrun bankanna sem tvöfaldaði skuldirnar). Þau kalla þessa rökleysu sína "gjaldþrot séreignarstefnunnar" og tala fjálglega um skilvirkan leigumarkað án þess þó að hirða um afleiðingarnar af þessari menningarbyltingu sinni sem kalla má "hamingjusama leiguliðann". Afleiðingarnar eru þó komnar fram en þær eru uppsöfnun íbúða í eigu leigufélaga banka og fjárfestingarfélaga sem öll krefjast góðrar ávöxtunar á sínar fjárfestingar og eru þegar farin að kalla eftir hækkaðri leigu.

Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 13:41

2 Smámynd: Tryggvi Helgason

Stóra spurning dagsins í dag er vitaskuld "hvernig" á að leysa vanda þeirra sem eru í skuldafjötrum vegna hins skelfilega vísitölutryggingakerfis, - svo og, - "hvað" á að gera og hvað "verður" að gera.

Það er og hefur verið hlutverk Aþingis að leiðrétta þessi mál og setja lög til leiðréttinga á skuldavanda heimilanna, sem fyrst og fremt felst í því að afnema lögin um vísitölubindingarnar sem Alþingi sjálft skellti á allan almenning, - jafnt fátæka sem ríka.

En ár eftir ár hafa Alþingismenn ekkert gert til lausnar skuldavanda heimilanna, en margir bullað og blaðrað um eitthvað "velferðarkerfi" sem enginn veit hvað merkir, - þar sem það merkir í rauninni ekki neitt.

Eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem er með skýra stefnu til lausnar á þessum skuldavanda er Fullveldisflokkurinn, en um þá leiðréttingu geta menn lesið á vefsíðunni; - fullveldisflokkurinn.is

Tryggvi Helgason, 7.4.2013 kl. 14:56

3 identicon

"Hækkun skulda heimilanna á árinu 2008 er nánast eingöngu tilkomin vegna meintra lögbrota hrunbankanna, stjórnenda þeirra og eigenda og afleiðinga þessara lögbrota."

Þetta er ekki alveg rétt Marínó. Stökkbreytingin stafar af þeirri kerfisvillu að nota neysluverðsvísitölu til að verðtryggja lán. Þessi aðferð verður til þess að við það að hagkerfið skreppur saman þá hækka skuldir og þar með eru fjármagnseigendur látnir sleppa við rírnunina á kostnað skuldara.

Þú getur kent meintum lögbrotum hrunbankanna,stjórnendum og eigendum um hrunið. En að afleiðingar hrunsins verða svona slæm fyrir heimilin í gegnum stökkbreytt lán, stafar af kerfisvillunni.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 16:09

4 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

 takk fyrir gott fóður í kosningabaráttuna!

 kk

GSA

Gunnar Skúli Ármannsson, 7.4.2013 kl. 16:25

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Bjarni Gunnlaugur, þú mátt nota hvaða skýringu sem er, en ef ekki væri fyrir hrun krónunnar, þá hefði ekki orðið sú verðbólga sem varð.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2013 kl. 17:11

6 identicon

Flott yfirferð. Virkilega gagnlegt fyrir alla sem vilja lyfta sér yfir köpuryrðaflauminn.

Hérna er svo skýrslan um sama efni. Virkilega flott vinna þar á ferð.

http://www.velferdarraduneyti.is/media/Rit_2013/Greinargerd-um-fjarhagsstodu-heimilanna_april2013.pd

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 17:57

7 identicon

Alveg rétt Marínó, en eftir útskýringunni fara úrlausnirnar.

Verðbólgan sem varð í kjölfar hrunsins var ekki venjuleg verðbólga þar sem stöðugt er verið að dæla nýjum peninum í sama hagkerfið með þeim afleiðingum að virði hverrar krónu minkar en smám saman hækka öll verð til samræmis.     Verðbólgan af völdum hrunsins var í raun hækkun verðlags erlendis frá vegna samdráttar hagkerfisins.

Það að þessi samdráttur var látinn stuða inn í skuldir m.a. heimilanna stafar af kerfisvillu sem er á ábyrgð landsstjórnarinnar,þingsins, (ekki fjármálakerfisins nema kanski að því leiti sem það hafði og hefur stjórnvöld í vasanum. )

Ef þessi villa verður leiðrétt, þá minkar geta lífeyrissjóðanna enn, til að greiða út lífeyri, sem aftur leiðir til aukins kostnaðar fyrir ríkið. Að auki eykst tap íbúðalánasjóðs og þar með eykst þörf á fjárframlagi frá ríkinu til hans.

Ríkið ber semsagt bæði ábyrgð á þessari sérstöku hækkun lánanna og hagnast einnig á henni þ.e. að hún verði ekki leiðrétt!

Að ætla að benda á hina "vondu" vogunarsjóði í þessu samhengi er eingöngu til þess að afvegaleiða umræðuna frá ábyrgð ríkisins og skyldu þess til lausnar vandans.

Hitt er svo annað mál að efnahagssamdráttinn sem slíkan máttu að stórum hluta skrifa á (innistæðulausann?) reikning bankabófanna!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 18:06

8 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Góður og fræðandi pistill eins og þín er von og vísa.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 7.4.2013 kl. 21:05

9 Smámynd: Kjartan Eggertsson

Þetta góð greining og afar upplýsandi. En er ekki ein góð lausn á þessum vanda; að láta lánastofnanirnar reikna höfuðstólsbreytingarnar samkvæmt forsendunum í greiðslumati lánanna?

Kjartan Eggertsson, 7.4.2013 kl. 21:22

10 identicon

Sæll Marínó, takk fyrir góðan pistil og þína kraftmiklu baráttu á síðustu árum. Ég er að stríða við dálítið sérstaka gerð "óláns" sem enginn virðist hafa áhuga á að leiðrétta og mig langar til að bera undir þig. Til þessa hafa allar leiðréttingar eða úrbætur sem gerðar hafa verða á verðtryggðum lánum (og reyndar einnig allt tal um slíkt) aðeins náð til þeirra lána sem eru beinlínis tekin vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Ég er í þeirri stöðu að vera á leigumarkaði en var að koma úr námi þegar hrunið varð og var með svokallað verðtryggt námslokalán frá kb banka tekið 2007 sem bankinn hafði boðið mér upp á í tilefni námsloka til að binda slaufu á allar litlu óverðtryggðu smáskuldirnar sem einkenna gjarnan fólk sem er að koma úr langskólanámi (vildi reyndar óska að ég hefði frekar haldið óverðtryggðu smáskuldunum í ljósi þróunar). Þetta lán hefur að sjálfsögðu stökkbreyst eins og önnur verðtryggð lán en ólíkt þeim lánum sem tengjast með beinum hætti íbúðarkaupum fæ ég engar vaxtabætur eða "110% leiðir". Og eins og ég get innilega og hjartanlega unnt íbúðareigendum þess að fá leiðréttingu sinna mála hef ég smá áhyggjur af því, í ljósi þess hvernig pólitíkusar tala um skuldaleiðréttingar þessa dagana, að eins og áður verði mitt verðtryggða námslokalán skilið eftir út í kuldanum þegar/ef kemur að aðgerðum. Og nú langar mig að vita hvort að þú hafir eitthvað hlerað um það hvort að til standi hjá einhverjum aðilum að taka "ólán" af mínu tagi með í reikninginn þegar farið verði í leiðréttingar lána?

Juliana Magnusdottir (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 22:14

11 Smámynd: Maelstrom

Ég held að vandamálið liggi helst í því að finna leið sem leiðréttir lánin hjá þeim sem þurfa á því að halda og eiga það skilið.  Almenn leið sem lækkar öll lán finnst mér ekki réttlát.

 Persónulega keypti ég mér mína "lokafasteign" kringum aldamótin.  Frá þeim tíma hefur eignin hækkað fáránlega í verði.  Þrátt fyrir hrunið, lækkun fasteignaverðs og hækkun lánanna er ég samt með eiginfé umfram það sem ég hef greitt inn á lánin.  Það er einfaldlega ekkert réttlæti í því að ég fái almenna leiðréttingu á lánin mín þegar ég er nú þegar með hagnað af minni fjárfestingu.

M.ö.o. þá hagnaðist ég af starfsemi bankanna á árunum 2000-2007.  Starfsemi bankanna varð til þess að krónan varð mjög sterk á tímabili sem hélt aftur af verðbólgu.  Útlánabólan hækkaði verðið á fasteigninni minni og gengisstyrkingin hélt aftur af verðbólgu og hækkun lánanna minna.  Þetta á við um stóran hluta landsmanna, hvort sem ykkur líkar betur eða verr.  Allir sem fjárfestu fyrir 2004 högnuðust mikið og töpuð einhverju aftur í hruninu. 

 Þeir sem fjárfestu í fasteign 2004-5 eru líklega kringum núllið (fer eftir lánshlutfalli).

Þeir sem fjárfestu í sinni fyrstu fasteign á árunum 2006-2008 eru í öfugri stöðu og fengu bara tapið.  Vandamálið verður alltaf að finna hverjir þetta eru og finna einhverja lausn sem er ekki svo þunglamaleg að enginn komist í gegnum nálarauga þess skilyrðaflóðs sem þarf að uppfylla.

Varðandi framsetningu í greininni að ofan þá eru setningar eins og "Hækkun skulda heimilanna á árinu 2008 er nánast eingöngu tilkomin vegna meintra lögbrota hrunbankanna, stjórnenda þeirra og eigenda og afleiðinga þessara lögbrota" ekki til þess að einfalda málið.  Ef meint lögbrot 2008 urðu til að þess að hækka lánin í hruninu, þá urðu þessi sömu lögbrot til þess að ég hagnaðist á minni fjárfestingu á árunum fyrir hrun sem og þorri landsmanna.  Það breytir engu um það að það eru fjölskyldur í landinu í miklum vanda sem þarf að leysa og þjónar þeim eina tilgangi að skipta fólki í fylkingar.  Ég held að við ættum að láta Sérstakan saksóknara um að finna lögbrjótana og einbeita okkur frekar að því að hjálpa þeim sem þurfa hjálp.

Nú eru bráðum 5 ár frá hruni og búið að spila lögbrots-spilinu allan tímann.  Það virkar greinilega ekki og því kominn tími á kalt mat á stöðunni.  Ég held því að rökin þín að ofan um viðskiptaleg, efnahagsleg og félagsleg rök séu málið.  Það eru rök sem virka á núverandi stöðu, algerlega óháð því hvernig við komumst hingað.

Bara mínir 20 aurar um málið

Maelstrom, 8.4.2013 kl. 14:01

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Maelstrom, takk fyrir innlitið og vel framsett innlegg.

Mín færsla var til að birta greiningu á vandanum og hugsanlegar leiðir til að leysa mál þeirra sem á því þyrftu að halda.  Ég segi hvergi að allir þurfi á þessu að halda, en í mér er rík réttlætiskennd og skaðinn sem fjármálafyrirtækin ollu heimilunum og raunar þjóðinni öllu megi ekki fara óbættur.

Lögbrotin sem ollu hækkun lánanna voru fyrst og frest framin frá haustmánuðum 2007 og fram að hruni krónunnar í mars 2008.  Þó fólu m.a. í sér að gjaldþrotafyrirtæki, þ.e. bankarnir þrír, héldu áfram rekstri, þó að rétt hefði verið að kasta inn handklæðinu.  Að taka við 30% gengisfellingu og jafnvel hærri þegar gengisvísitalan var í stöðunni 110-115 hefði ekki leitt til sömu hækkunar lánanna og gerðist í stöðunni 190.  Það hefði breytt öllu fyrir nánast allt þjóðfélagið.

Húsnæðisverð var byrjað að lækka um þetta leyti og því varð hækkun þess áður en þau lögbrot sem ég er að tala um voru framin.

Hitt er annað mál, að enginn étur eigð fé og mér finnst það ekki skipta máli.  Sjái menn ofsjónum yfir því að húsnæðið hafi hækkað of ört, þá má einfaldlega skattleggja söluhagnað vegna hækkunar umfram eitthvað hámark.  Þetta eru bara tvö aðskilin mál, þar sem það er fasteignaverð á söludegi sem skiptir máli, en ekki einhverjar sveiflur á því. 

Ég get bara tekið dæmi af sjálfum mér.   Ég átti eign sem um mitt ár 2004 var verðmetin á um 50 m.kr. fyrir árslok 2004.  Á þeim tíma var staða áhvílandi lána um 30 m.kr.  Þegar ég nýtti mér lög fyrir fólk með tvær eignir var eignin tekin yfir á 54,4 m.kr. og lánin sem höfðu staðið í 30 m.kr. stóðu núna í 52 m.kr.  Þannig að lánin hækkuðu um 22 m.kr. á sama tíma og fasteignaverðið fór upp um 4,4 m.kr.  Vissulega fór fasteignaverðið vel upp fyrir 60 m.kr. í millitíðinni, en það var fuglar í skógi, ekki í hendi.

Marinó G. Njálsson, 8.4.2013 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 192
  • Sl. viku: 569
  • Frá upphafi: 1677586

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband