Leita í fréttum mbl.is

Hver er ávinningurinn af leiðréttingu verðtryggðra lána?

Í gær var dreift á Alþingi skýrslu Hagfræðistofnunar um áhrif annars vegar 10% og hins vegar 25% lækkunar höfuðstóls íbúðalána.  Mér finnst þessi skýrsla vera heldur rýr í roðinu og raunar bara tætaramatur.  Hún er ákaflega einhliða áróður fyrir einum málstað, þ.e. gegn aðgerðinni, og leggur lítið upp úr ávinningnum af henni.

13. febrúar 2009 skrifaði ég færslu til að mótmæla málflutningi Ólafs Darra Andrasonar, hagfræðings ASÍ (var það a.m.k. þá).  Mig langar að endurbirta færsluna, því sömu rök eiga við núna tæpum 40 mánuðum síðar.  Skiptið nafni Ólafs út og setjið Hagfræðistofnun í staðinn og þá gæti þetta nánast verið svar við skýrslu stofnunarinnar.

Ekki spyrja um kostnað heldur ávinning

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, sagði fyrir stundu á Rás 2, að niðurfærsla verðbóta kosti Íbúðalánasjóð, bankana og lífeyrissjóðina 280 milljarða.  Þarna getur hagfræðingurinn ekki verið annað en að tala gegn betri vitund.  Í fyrsta lagi, þá eru 20% verðbætur ekki sjálfsögð uppbót á eignum þessara aðila.  Hér er um innistæðalausa hækkun að ræða og því ekki um tap að ræða.  Það er enginn peningur á bak við þessa tölu.  Þetta er "pappírsgróði" og "pappírstap".  Í öðru lagi, þá gefur hann sér að öll þessi 20% innheimtist, sem er fráleitt.  Stór hluti þessarar hækkunar mun leiða til gjaldþrota, þar sem fólk mun missa heimilin sín, og afskrifta af hálfu framangreindra aðila.  Í þriðja lagi, þá er minni kostnaður falinn í því að niðurfæra skuldir strax, en að fara í tímafrekar innheimtu- og gjaldþrotameðferðir, sem gera ekki annað en að auka á skuldir heimilanna og minnka þá upphæð, sem að lokum kemur í hlut kröfuhafa.

Ólafur Darri nefndi einnig að óþarfi væri að færa niður skuldir allra.  Hann taldi t.d. óþarfi að koma miðaldra manni eins og honum til hjálpar, enda ætti hann fyrir sínum skuldum (að mér skyldist).  Ég er nú kominn lengra inn á miðjan aldur en hann og mynd alveg þiggja leiðréttingu á óhóflegri hækkun höfuðstóla þeirra lána sem ég er með.  En það er annar vinkill á þessu máli.  Ég hef ekki heyrt ASÍ mótmæla því að öllum innistæðu eigendum var bjargað, þó það sé staðreynd að ekki þurfti að bjarga öllum.  Af hverju gilda aðrar reglur um innistæðueigendur en skuldara?  Er það kannski vegna þess að lífeyrissjóðirnir koma betur út á báðum stöðum?  Eða er það vegna þess að með því var fjármunum verkalýðsfélaganna bjargað?

Ég held samt að mikilvægasta spurningin sem þarf að svara sé hver ávinningurinn af slíkri aðgerð verður, ekki hver kostnaðurinn verður.   Og ávinningurinn er m.a. eftirfarandi:

  1. Skuldir heimilanna lækka og greiðslubyrðilána minnkar
  2. Fleiri eiga kost á því að halda heimilum sínum
  3. Heimilin hafa meiri pening til að standa í skilum með aðrar skuldbindingar sínar
  4. Meiri peningur fer í neyslu sem fer þá inn í hagkerfið
  5. Veltuskattar til ríkisins dragast ekki eins mikið saman og annars hefði orðið.
  6. Meiri tekjur ríkisins þýðir að ríkissjóður þarf að skera minna niður, en annars, eða á meiri möguleika á að standa undir vaxtagjöldum
  7. Fyrirtækin fá meiri veltu, sem eykur líkur á því að þau lifi af.
  8. Fyrirtækin hafa meiri pening til að greiða laun og önnur útgjöld með tilheyrandi ruðningsáhrifum.  M.a. munu þau eiga auðveldara með að greiða skatta til ríkisins og mótframlag launagreiðanda til lífeyrissjóðanna.
  9. Færri þurfa að fara á atvinnuleysisbætur
Ég gæti haldið svona áfram, en læt þetta duga.  Það mikilvægasta í augnablikinu er að koma fjárstreymi hagkerfisins af stað.  Fjárstreymið er eins og blóðrás líkamans.  Það ber súrefni til fyrirtækja og heimilanna.  Ef allur peningur á að fara í að greiða af lánum, þá mun kreppan dýpka meira en nokkurn grunar vegna uppsöfnunaráhrifa.  Ávinningurinn af niðurfærsla skulda er því augljós.  Loks má ekki gleyma því, að Nýja Kaupþing gerir ráð fyrir því að afskrifa 67,7% af lánum gamla Kaupþings til innlendra viðskiptavina.  Reikna má með því að Nýi Glitnir og NBI geri slíkt hið sama.  Bent hefur verið á leiðir fyrir lífeyrissjóðina og ÍLS til að bæta sér hluta af sínu tjóni.

Mér finnst það vera röng nálgun hjá ASÍ að leggjast gegn þessari hugmynd sem "ekki hægt".  Hjá Hagsmunasamtökum heimilanna var strax ákveðið að gera þetta hugtak útlægt.  Í staðinn er spurt: Hvernig er best að fara að þessu?  Ég skora á ASÍ að taka upp þessa nálgun og skoða heildarmyndina.

----

Síðan vil ég benda á þingsályktun Hreyfingarinnar um leiðréttingu verðtryggðra lána.  Þar er sett fram mjög vel framkvæmanlega tillögu um það hvernig mætti standa að slíkri leiðréttingu.  Hugmyndin er að mestu frá mér komin og þekki ég hana því vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisvert að skýrsluhöfundar álykta að nánast allt "tapið"(ránsfengurinn) lendi á ríkinu. Má þá ekki gagnálykta að ríkið sé að hagnast langmest á því að ræna eiginfé  þorra landsmanna í íbúðum sínum?

Illvirkin (ræningin) er núverandi stjórn, vegna aðgerðarleysis hennar við stökkbreytingu verðtryggðra lána.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 1.6.2012 kl. 14:42

2 identicon

Jónas, það er ekki alveg svo að ríkið hafi fengið mest í sinn vasa.

ÍLS hefur gefið út verðtryggð skuldabréf sem Lífeyrissjóðir hafa keypt. Þessi skuldabréf hækkuðu mikið í hruninu og allar verðbætur sem ríkið fékk í gegnum ÍLS var þannig skilað áfram til Lífeyrissjóða. Það eru því Lífeyrissjóðir sem hafa hafa hagnast manna mest á verðbólgunni undanfarið og í raun hefur hún að miklu leiti bjargað afkomu þeirra. Út frá því er svo skiljanlegt að þeir vilji ekki losa okkur við verðtrygginguna.

Annars eigum við að setja alla okkar orku í að auka hér verðmætasköpun til að geta borgað hærri laun og hætta þessari vonlausu baráttu um niðurfellingu á lánum. Ef við getum hækkað laun vegna aukinnar verðmætasköpunar og fengið þar af leiðandi ekki aukna verðbólgu verður mun auðveldara að greiða af þessum lánum sem vissulega hafa hækkað mikið.

Benedikt Guðmundsson (IP-tala skráð) 1.6.2012 kl. 15:30

3 identicon

Allt í lagi, félagi Marinó, horfum á hver er ávinningurinn:

Væri ekki hluti af "ávinningnum" að ég, sem er með einhverju megin við 500þ á mánuði og skulda um 20 milljónir fengi niðurfelldar rétt um fjórar milljónir króna - þ.e. miðað við 20% niðurfellingu !?!

Geturðu sagt mér, Marinó, hvaða gagn það gerði?

Fyrir mér þýddi það bara eitt:  Ég færi í endurfjármögnunina sem ég þarf að fara í (út af lánsveðinu) en ólíkt stöðunni nú kæmi út með 1-2 milljónir í reiðufé.  Já, það myndi þýða að ég færi í heimsreisuna sem mig hefur dreymt um - Shanghai, Bejing, Hong Kong, Sidney og svo formúlan í Melbourne!

Enda þarf ég ekki lengur að hafa áhyggjur af því að greiða af lánunum af húsinu, þeir verða smámunir í öllu samhenginu.  Kannski færi ég bara að lokinni heimsreisunni inn á næstu bílasölu og fengi mér 2-3 milljón króna bíl sem ég myndi þá greiða af í stað íbúðalánsins.

Segðu mér Marinó:  Hvernig mun þessi hegðan mín hjálpa íslenska hagkerfinu til að komast áfram frá hruninu?

Þá standa eftir þeir sem eru með meiri tekjur er en ég!  Þeir munu fá mun meira niðurfellt en ég og hafa ennþá minni þörf á því!

Já, það er rétt að það á ekki að horfa á hvað hlutirnir kosta heldur hver er ávinningurinn - mikið rétt!

En er þá ekki rétt að nota þessa 240 milljarða þar sem ávinnungurinn er miklu, miklu, miklu meiri en að niðurgreiða lán þeirra sem hafa lægri skuldir frekar en þeirra sem hafa hærri tekjur en ég?

Eitt er víst:  Ég vil ekki nett af þessu!

En því miður, ég er ekki betur gerður en það að ég mun taka það ef ég sé að þeir sem eru betur staddir en ég fá það líka....

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 2.6.2012 kl. 23:11

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Steingrímur, þessi athugasemd segir mér meira um þig en nokkru sinni ábendingar mínar. 

Fyrst að þú hefur ekki þörf fyrir þetta, þá er einfaldast að þú myndir bara afþakka svona leiðréttingu.  Merkileg samt þessi hugsun, að sé stökkbreytingunni skilað, þá eignist þú pening.  Svo er ekki.  A.m.k. ekki sé tekið mið af eign þinni í fasteign þinni 31.12.2007 og eign þinni í henni í dag.  Ég myndi giska á að "tap" þitt sé umtalsvert. 

Ennþá merkilegra er að opinbera þá undarlegu fjármálastjórnun að ætla að auka skuldsetninguna strax um sömu upphæð og ætla að nota þann pening í heimsreisu.  Aftur þetta lýsir þér en ekki landsmönnum almennt. 

Síðasta sem mér finnst merkilegt er vanþekking þín á þeim hugmyndum sem eru í gangi, en samt ert þú að tjá þig um þær eins og þú vitir allt. 

Svo klikkar þú á því að færslan var birt í febrúar 2009 og þó flest í henni standist ágætlega enn þann dag í dag, þá var í viðræðum stjórnvalda og Hreyfingarinnar rætt um ólíka útfærslu.

Verð að viðurkenna að ég hef ekki séð aumari athugasemd um hagsmuna mál stórs hluta landsmanna, en þessa frá þér.  Hún lýsir ótrúlegri þröngsýni og hroka.

Marinó G. Njálsson, 2.6.2012 kl. 23:35

5 identicon

Marinó, í fyrsta lagi:  Athugasemdir mínar eru jafngildar árið 2009 og þær eru í dag!

það er ekki ég sem ég hef áhyggjur af.  Og það er ekki bara ég sem ég er að taka sem dæmi - ég er sér í lagi að meina þeir sem eru með hærri skuldir og miklu hærri tekjur en ég.    Ég var í raun að lýsa einhvers konar "meðalútfærslu af manni með meiri tekjur en ég"

Málið er, Marinó, að efnahagsástandið eins og það er í dag er skelfilega tvískipt.

Það er annars vegar þeir sem ég tel mig í flokki með - þeir sem hafa ágætar tekjur, skuldir sem eru í versta falli hóflegar miðað við tekjur.  Þetta er fólk sem þarf nákvæmlega engar niðurfellingar. Ég kannski ýkti dæmið af því hvernig þetta hefði áhrif á nákvæmlega mig - en horfðu á þjóðfélagið í kringum þig og reyndu að segja mér að miðað við algjörlega uppseldar utanlandsferðir, flotta bíla á nýjum númerum o.fl. ofl. að þetta sé röng staðhæfing almennt.

Burtséð frá því hvar skurðpunkturinn er þá er ég að segja að það sé einfaldlega rangt að auknar tekjur (í formi niðurfellingu skulda - já eða lækkandi skatta) muni leiða til aukinnar innlendrar veltu og koma öllum til góða. Auknar tekjur munu fyrst og fremst skila sér í auknum útstreymi gjaldeyris.

Miðað við mína upplifun af samfélaginu þá er þetta stærri hlutinn af þjóðinni. Jú, sumir þeirra kvarta hástöfum yfir því að hafa það ekki enn betra, en veistu, ég hlusta ekki á það væl.

Ég held því fram að 75% af þjóðinni falli undir þessa skilgreiningu - prósentutalan er reyndar aukaatriði í þessari umræðu.

Og já, segðu mér, hvernig færi ég að því að afsala mér þessum niðurgreiðslum?  Og þar sem ég tók sjálfan mig sem dæmi - já, ég er tilbúinn til þess ef það mun hjálpa en heldur þú virkilega að fólk muni almennt gera það?  Svar óskast við þessum lið sérstaklega!

Svo eru það hinir.  Þar er fólk sem hefur tekjur sem eru e.t.v. ekki mikið lægri en mínar.  Þar er fólk sem hefur lent illa í hruninu, keypt  sér venjulegar íbúðir miðað við væntingar um tekjur - en er svo óheppið að skuldirnar hafa hækkað og tekjurnar lækkað.

En vandamálið er, Marinó:  10-25% skuldalækkun mun ekki hafa neitt einasta áhrif á stöðu meiri hluta þessa fólks!

Meirihlutinn mun fara til mín og þeirra sem skulda meira og hafa meiri tekjur en ég.

Allt í lagi, Marinó, 240 milljarðar er e.t.v. ekki svo mikill kostnaður m.v. allt sem gengið hefur á í hruninu, í raun smádropi EN:

1: Þessi kostnaður mun að lang, lang mestum hluta renna til þeirra sem hafa það þegar hafa það mjög gott, eins og mín og þeirra sem hafa meiri tekjur en ég.

2: Ekkert bendir til þess að aukin velta þessara aðila muni skila sér nema að litlu leiti til innlendra aðila heldur frekar til þess að hægja á uppgreiðslu gjaldeyrisskuldar þjóðarinnar.

3. Ef taka þarf á þeim sem skulda mest m.v. lágar tekjur þá munu aðrar aðferðir duga mun betur en að dreifa fullt af peningum til tekju (og skuldahárra)

Og svo það sé á hreinu:  Ég er alls, alls, ekki að setja mig á móti því að við bætum hag þeirra sem mestar skuldir hafa í þjóðfélaginu.  Ég er efinfaldlega að segja að ég vil gera það með þeim hætti að ég (og þeir sem erum með hærri tekjur en ég) græði ekki á því!

Steini (IP-tala skráð) 3.6.2012 kl. 00:23

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Steingrímur, þessi ályktun þín er röng í liðum 1-3 hér síðast.

Byrjum á 3:  Þetta hefur einmitt ekki verið að virka.  Þeir sem helst hafa fengið eitthvað eftir sértækum aðferðum eru þeir sem skuldsettu sig mest og það var oft ríkasta fólkið.  Ég á gögn sem sýna skuldsetningu eftir tekjum og þekki því þessa dreifingu vel.  Skýrsla Maríu-nefndarinnar staðfestir þetta líka.  Sértækar aðgerðir hafa ekki nýst þeim eru í a) mestum vanda og b) við það að komast í mikinn vanda.  Annað í þessu.  Markmiðið með almennum aðgerðum er auk þess að fækka þeim sem þurfa mesta aðstöð.

Liður 1:  Auðvelt er að setja skurðfleti á þessar aðgerðir, eins og ég setti fram í séráliti mínu á sínum tíma og nefnt var í umræðum Hreyfingarinnar við stjórnvöld.  Þess fyrir utan er staðhæfing þín röng, þar sem þeir tveir hópar sem hafa það best eru alls ekki svo fjölmennir.  Efnamesti hópurinn telur um 4.000 fjölskyldur og sá sem er í góðum málum telur um 18.000 fjölskyldur.  Þetta eru  30% af fjölskyldum með húsnæðisskuldir.  Sem sagt langt, langt frá því að vera "að lang, lang mestum hluta".  Síðan er það ófyrirgefanleg villa og hreinlega áfagmannlegt fúsk í skýrslu Hagfræðistofnunar að gera ráð fyrir að fólk fái tvöfaldalækkun á lánum sínum, þ.e. bæði þá lækkun sem það hefur fengið í gegn um gengislánadóma, 110% leiðina, sértækaskuldaaðlögun o.s.frv. og líka þessa.  Svona nálgun er nánast aumkunarverð.

Liður 2:  Umtalsverður hluti lána heimilanna er óvirkur (non-performing), þ.e. ekki er greitt af þeim.  Þessi lán þurfa ekki að vera húsnæðislán.  Stærsti hluti af aukinni greiðslugetu mun fara í að koma öðrum skuldum í skil, a.m.k. til að byrja með.  Síðan má benda á, að lækkun 10 m.kr. skuldar í 8 m.kr. (svo dæmi sé tekið) lækkar greiðslubyrði á mánuði um 11.000 kr. og árlega um 132.000 kr.  Að halda því fram að hver fjölskylda auðgist svo á þessu að hún fari á eyðslufyllerí í útlöndum er í besta falli hjákátlegt.

Loks vil ég benda þér á hvernig heimilum landsins var skipt upp í vinnu "sérfræðingahópsins" á sínum tíma.  Bæti við hópi 0, þar sem mér finnst nauðsynlegt að aðgreina hann frá öðrum:

Hópur 0.  Fjölskyldur sem ekki hafa efni á lágmarksframfærslu hvað þá nokkuð umfram það.

Hópur 1.  Fjölskyldur í greiðsluvanda, þ.e. hafa ekki greiðslugetu til að greiða af öllum skuldum miðað við lágmarksframfærslu (eða kannski naumhyggjuframfærslu).

Hópur 2.  Fjölskyldur í skuldavanda, þ.e. yfirskuldsettar fjöldskyldur, eru með neikvætt eigið fé. - Ég segi að þessi hópur sé ekki vandamál nema skert greiðslugeta fylgi. Dreifist á flesta hina hópana líka.

Hópur 3.  Fjölskyldur á leið í greiðsluvanda, þ.e. eru á mörkunum að tilheyra hópi 1 -  Að mínu áliti gera þær það að stórum hluta, þar sem lágmarksframfærsla er óraunhæft markmið.  Enda kom það í ljós þegar framfærsluviðmiðin væru kynnt í byrjun árs 2011 að gera þarf ráð fyrir mun hærri framfærslukostnaði gert var ráð fyrir vegna hóps 1.  Auk þess hafa þesar fjölskyldur þegar tekið út allan sinn sparnað og hafa því ekkert upp á að hlaupa til að greiða það sem upp á vantar.

Þá vil ég bæta við hópi 3.b.:  Fjölskyldur sem ekki tilheyra hópum 1, 2 og þeim hluta af upprunalega hópi 3 sem eru undir lágmarksframfærslu viðmiðum í skýrslu vinnuhóps velferðarráðuneytisins.

Hópur 4:  Fjölskyldur sem halda sjó og eigna enn einhvern sparnað sem hægt væri að ganga á.  Gæti verið í yfirskuldsetta hópnum.

Hópur 5:  Efnafólk.

Hópur 6:  Tekjuháar fjölskyldur án þess að tilheyra hópi 5.

Hópur 7:  Fjölskyldur með engar húsnæðisskuldir.

Hópur 8:  Fjölskyldur með tvær eignir.

Mér finnst áhugavert að sjá, að þú segir athugasemdir þínar hafa alveg eins geta átt við 2009, þegar þetta var niðurstaðan ítarlegrar úttektir haustið 2010.  Annað hvort hefur þú aðgang að einhverjum gögnum sem við í "sérfræðingahópnum" höfðum ekki eða að þú ert að bulla.

Marinó G. Njálsson, 3.6.2012 kl. 11:18

7 identicon

Ef verðbólga er að peningar rýrni í verði (minna fæst fyrir hverja krónu) hvaða gild rök eru þá fyrir að taka fé frá öðru fólki til að bæta fjármagnseigedanum upp rýrnunina?

Eiga ekki allir að bera ábyrgð á sér og sýnu?

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 3.6.2012 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 81
  • Sl. sólarhring: 145
  • Sl. viku: 644
  • Frá upphafi: 1677661

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband