Leita í fréttum mbl.is

Mótbárur sendar fjármálastofnun

Fjármálafyrirtækin eru orðin ansi ágeng í innheimtum sínum og knýja þá sem ekki viðurkenna útreikninga sína til að gangast undir þá.  Eina sem lántakar geta gert fyrir utan að fara í dómsmál, er að hafa uppi mótbárur, þ.e. mótmæla því að krafa á hendur þeim sé réttileg.  Hér fyrir neðan eru mótbárur sem ég sendi Landsbankanum í dag og er öðrum frjálst að nota þær aðlagaðar að sínum þörfum.  Tekið skal fram að textinn er lítillega breyttur frá þeim sem ég sendi.

Mótbárur

Með þessum pósti er ég að halda uppi mótbárum við kröfu Landsbankans hf. og hafa mótbárurnar skjalfestar með mínum tilvísunum til kröfuréttar.  Í bók Páls Hreinssonar Viðskiptabréf segir m.a. um mótbárur:

Mótbárur skuldara gagnvart framsalshafa má flokka í þrennt.  Í fyrsta lagi mótbárur um að krafa á hendur skuldara sé falin niður.  Í öðru lagi mótbárur er lúta að stofnun viðskiptabréfakröfunnar, þ.e. að hún hafi verið ógild frá upphafi.  Í þriðja lagi geta mótbárur varðað efni kröfunnar.. 

Mínar mótbárur falla undir fyrsta liðinn og lúta fyrst og fremst að því að krafa hafi að hluta verið fallin niður þar sem sá hluti hafi verið að fullu efndur eða eins og Páll Hreinsson segir:

Í þennan flokk mótbára [um að viðskiptabréfakrafa sé niður fallin] fellur að sjálfsögðu sú mótbára að krafa sé greidd sbr. tilskipun frá 9. febrúar 1798..

Ég tek að sjálfsögðu fram að ég lít ekki á það að ég hafi verið í vanskilum.  Samkvæmt kröfurétti hef ég fullan rétt á að greiða ekki það sem ég tel ekki vera rétt krafa enda mótmælti ég útreikningunum.  Vanefnd myndast þegar réttileg krafa er ekki greidd með réttilegum hætti og án galla.

Ástæðan fyrir því að ég tel kröfu ykkar ekki rétta er svo sem vel þekkt, en langar mig að rifja það upp með tilvísunum í kröfurétt.  Í bókinni Kaflar úr Kröfurétti Ólafs Lárussonar segir m.a.:

Kröfuhafinn á heimtingu á því, að skuldarinn efni að fullu þær skyldur sem krafan leggur honum á herðar.  Til fullra efnda heyrir það að þær fari fram á réttum stað og á réttum tíma.  Ef fullar efndir eiga sér stað, er skyldu skuldarans þar með lokið og kröfuhafinn getur þá einskis frekar af honum krafist.

Og síðar í bókinni segir:

Við framsalið öðlast nýi kröfuhafinn (framsalshafi) allan þann rétt sem fyrri kröfuhafi (framseljandi) átti á hendur skuldara og að jafnaði öðlast hann ekki annan rétt gegn skuldara en framseljandi átti.

Og enn segir í þeirri ágætu bók:

Þegar krafa er liðin undir lok er greiðsluskyldu skuldarans lokið.  Ef kröfuhafinn færi í mál við skuldarann út af slíkri kröfu og skuldarinn hefði uppi þá vörn að krafan væri úr gildi gengin myndi skuldarinn verða sýknaður af kröfu sækjandans.

Nú í bókinni Kröfuréttur I eftir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvind G. Gunnarsson segir:

Greiðsla skuldara til kröfuhafa leiðir því aðeins til brottfalls skyldu skuldara og þar með til loka kröfuréttinda, að greitt sé í samræmi við ákvæði samnings eða lagareglna.  Til réttra efnda af hálfu skuldara heyrir m.a. að hann inni greiðslu sína af hendi á réttum stað og réttum tíma.  (Neðanmáls: Til viðbótar því, að krafa sé greidd á réttum stað og tíma, heyrir það til réttra efnda á kröfu, að innt sé af hendi greiðsla sú sem greiða átti, hún hafi þá eiginleika til að bera sem um var samið, og að hún sé greidd til kröfuhafa eða einhvers sem heimild hefur til að taka við greiðslunni fyrir hans hönd.) (Leturbreyting er mín)

Og loks vil ég vitna í:

Það heyrir til réttra efnda kröfu í gagnkvæmu skuldarsambandi í fyrst lagi að hún sé greidd á réttum stað og réttum tíma.  Í öðru lagi að kröfuhafi hljóti þá réttarstöðu, sem af samningi leiðir, þ.e. hann öðlist þær heimildir yfir greiðslunni, sem samningur hans og skuldara gerir ráð fyrir.  Í þriðja lagi að greiðslan sé gallalaus, þ.e. að raunverulegum eiginleikum hennar sé ekki áfátt.

Það hefði svo sem verið nóg, að vera bara með fyrstu tilvitnunina, en gaman er að vitna í fleiri til að sýna hversu sterkur réttur minn er samkvæmt kröfurétti.  Ég vil hafa það á hreinu að ég tel að kröfur á mig vegna þess tíma sem kröfurnar voru í höndum Landsbanka Íslands hf. hafi verið að fullu efndar.  Við framsal "öðlast nýi kröfuhafinn (framsalshafi) allan þann rétt sem fyrri kröfuhafi (framseljandi) átti á hendur skuldara og að jafnaði öðlast hann ekki annan rétt gegn skuldara en framseljandi átti" eins og segir að ofan.  Landsbankinn hf. á því engar kröfur á mig sem Landsbanki Íslands hf. átti ekki við framsal kröfunnar.  Landsbankinn hf. (Nýi Landsbankinn hf./NBI hf.) lét þinglýsa í skilmálabreytingu í október 2008 að ég fengi þá skilmálabreytingu vegna þess að ég var í skilum.  Er mér ómögulegt að skilja hvernig Landsbankinn hf. geti átt ríkari rétt á mig núna í nóvember 2011 en hann átti í október 2008.  Ég hef því alltaf mótmælt rétti ykkar til að reikna lánin eins og þið gerið.  Þess vegna neita ég því að um vanskil hafi verið að ræða, þar sem ég fékk aldrei í hendur rétta greiðslukröfu.

Ég mun því gera fyrirvara á bæði skuldabréf og geri hér fyrirvara við útreikninga ykkar á meintum vanskilum, enda tel ég ekkert af þessu standast íslenskan kröfurétt.

Dómstólar eiga bara einn kost

Svo mörg voru þau orð.  Það er mín skoðun og allra lögfræðinga sem ég hef rætt við, að dómstólar eigi bara einn kost í stöðunni, þegar reynir á endurútreikninga fyrir dómi.  Þ.e. að hafna endurútreikningi á þegar greiddum gjalddögum.  Jón Finnbjörnsson við Héraðsdóm Reykjavíkur gerði það raunar í máli nr. X-77/2010 Arion banki gegn Agli ehf. þar sem hann segir:

Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.

Því miður hefur Hæstiréttur dregið lappirnar með að taka á þessu atriði, þó hann hafi fengið til þess mörg tækifæri.  Rétturinn hunsar með því fjölmarga úrskurði Evrópudómstólsins um að honum beri að hafa í huga betri rétt neytenda, þrátt fyrir að hann hafi ekki verið reifaður fyrir dómi.

Nú tek ég það fram, að ég er ekki löglærður og þekki því ekki alla króka og kima lögfræðinnnar.  Einnig fékk ég Viðskiptabréf Páls Hreinssonar bara í hendur á laugardag og keypti hina tvær síðdegis í gær.  Ég er því ekki  búinn að lesa þær spjaldanna á milli og gæti því hafa yfirsést eitthvað sem vinnur gegn mér og öðrum lántökum í þessu máli.  Þætti mér vænt um að fá ábendingar um slíkt, því hafa skal það sem sannara reynist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Takk fyrir þetta Marinó. 

Hvað gerist með kæru fólksins á Akureyri. Það verður gott að  að sjá varnir LÍ í því máli. Líklega verður LÍ að opna lánabækur sínar og sýna fylgiskjal 1, þ.e. það skjal sem á að sýna stöðu viðkomandi láns við yfirfærslu frá  gamla LÍ yfir í þann nýja. (Ákvörðun FME þann 9 október 2008).

Eggert Guðmundsson, 15.11.2011 kl. 21:00

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nú er ég ekki með á nótunum.  Hvaða kæru ertu að tala um?

Annars veit ég að fleiri kærur eru í farvatninu, þannig að það verður áfram líf og fjör hjá bönkunum í dómsölum.

Marinó G. Njálsson, 15.11.2011 kl. 21:06

3 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Þetta er fólk sem var að byggja verslunarhús á Akureyri.  Þau voru  að leggja fram þjófnaðarákæru á Landsbankann vegna gjaldeyrisláns sem þau fengu hjá bankanum.

Eggert Guðmundsson, 16.11.2011 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1678153

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband