Leita í fréttum mbl.is

Upplýsingaleynd og almannahagsmunir

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lagt fram nýtt frumvarp til upplýsingalaga.  Markmið laganna er eins og segir í 1. gr. þeirra:

að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna m.a. í þeim tilgangi að styrkja:

  1. upplýsingarétt og tjáningarfrelsi,
  2. möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi,
  3. aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum,
  4. möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni,
  5. traust almennings á stjórnsýslunni.

Í 2. gr. er tilgreint að lögin nái til allrar starfsemi stjórnvalda og lög aðila sem eru að 75% hluta eða meira í eigu hins opinbera.  Þó eru takmarkanir varðandi lögaðilana.

Í 6. gr. eru talin upp gögn undanþegin upplýsingarétti:

Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur ekki til:

  1. fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi,
  2. gagna sem útbúin eru af sveitarfélögum, samtökum þeirra eða stofnunum og varða sameiginlegan undirbúning, tillögugerð eða viðræður þessara aðila við ríkið um fjárhagsleg málefni sveitarfélaga,
  3. bréfaskipta við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað,
  4. gagna sem ráðherra aflar frá sérfróðum aðilum vegna undirbúnings lagafrumvarpa,
  5. gagna sem tengjast málefnum starfsmanna, sbr. 7. gr.,
  6. vinnugagna, sbr. 8. gr.

Í frumvarpinu er þess getið að eftir 30 ár eigi síðan gögnin að berast Þjóðskjalasafni og í þeim tilgangi eru lagðar til breytingar á lögum um Þjóðskjalasafn.  Þar er það sem gamanið kárnar.  36. gr. frumvarpsins fjallar um fyrirhugaðar breytingar á öðrum lögum.   Í 2. tölulið er fjallað um lög um Þjóðskjalasafn Íslands.  Byrjað er í undirlið c. að segja að Þjóðskjalasafni Íslands sé skylt að veita almenningi aðgang að skjölunum þegar 30 ár eru liðin frá því að þau verða til enda gildi ekki takmarkanir 9. gr. a - c.  Þeim greinum er bætt við lög um Þjóðskjalasafn með frumvarpi forsætisráðherra og hljóða sem hér segir:

d.      Við lögin bætist ný grein, sem verður 9. gr. a, svohljóðandi:
Þjóðskjalasafni Íslands er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að skjölum þegar liðin eru áttatíu ár frá því að þau urðu til þótt þar komi fram upplýsingar er varða fjárhags- og einkamálefni einstaklinga, þar á meðal persónuupplýsingar sem teljast viðkvæmar í skilningi 8. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, svo og upplýsingar um vernd vitna, brotaþola og annarra sem fjallað er um í skjölum hjá lögreglu, ákæruvaldi, dómstólum og stjórnvöldum sem hafa vald til að beita stjórnsýsluviðurlögum.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óheimilt að veita aðgang að sjúkraskrám og öðrum skrám um heilsufarsupplýsingar nafngreindra manna fyrr en liðin eru 100 ár frá síðustu færslu í skrárnar.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er aðgangur að aðalmanntölum, prestsþjónustubókum og sóknarmanntölum heimill þegar liðin eru 50 ár frá því að upplýsingar voru færðar inn.

e.      Við lögin bætist ný grein, sem verður 9. gr. b, svohljóðandi:
Óheimilt er að veita aðgang að skjölum sem hafa að geyma upplýsingar sem snerta virka og mikilvæga hagsmuni einstaklings eða fyrirtækis um atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál.

f.      Við lögin bætist ný grein, sem verður 9. gr. c, svohljóðandi:
Stjórnvald getur ákveðið við afhendingu skjala til Þjóðskjalasafns Íslands að skjal verði fyrst aðgengilegt þegar liðin eru 60 ár frá því að það varð til ef það þykir nauðsynlegt til að vernda virka almannahagsmuni um:
      a.     öryggi ríkisins eða varnarmál,
      b.     samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir,
      c.     bréfaskipti stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað,
      d.     viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga, að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra.
g.      Við lögin bætist ný grein, sem verður 9. gr. d, svohljóðandi:
Þegar sérstaklega stendur á getur þjóðskjalavörður ákveðið að synja um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára, svo sem þegar það hefur að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings sem enn er á lífi eða um almannahagsmuni er að ræða.

Það eru þessar heimildir þjóðskjalavarðar sem eru hvað mest umdeildar.  Látum vera að fólk njóti persónuverndar.  Ekki ætla ég að deila á það.  Spurning er aftur hvort gögn dómstóla eigi að vera lokuð í 80 ár.  Nú varðandi heilsufarsupplýsingarnar, þá þýðir þetta í reynd að þær eru lokaðar í 100 ár frá andláti, sem þýðir jafnframt að allir eftirlifendur við andlát eru komnir undir græna torfu (eða orðnir að dufti).  Ekki að nokkrum varði sjúkdómasaga annarra og því er þetta hið besta mál.

Auðvelt er að snúa út úr hinni nýju grein sem á að verða 9. gr. b.  Þar er talað um virka og mikilvæga hagsmuni um atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál.  Hvenær eru hagsmunir virkir og hvenær eru þeir mikilvægir?  Hvernig haldast hagsmunir virkir og mikilvægir í yfir 30 ár?  Hér sé ég að rifist verði um að sjá upprunalegt starfsleyfi Fjarðaráls eftir um 23 ár eða svo, raforkusamninga Landsvirkjunar við stóriðjuver og fleira í þessum dúr.

f - liður er saga út af fyrir sig.  Hvernig dettur mönnum í hug á þeim tímum sem við lifum núna, að 30 ára gamlar upplýsingar séu svo leynilegar að það þurfi að framlengja leynd þeirra um önnur 30 ár.  Svona leyndarhyggja er út í hött.  Eðlilegast er að fella þennan f-lið út.  Breytingar á þjóðfélaginu eru svo hraðar, að almenningur áttar sig á því, að í langflestum tilfellum voru ákvarðanir teknar 30 árum fyrr barn síns tíma.

g - liður toppar samt líklegast allt:

Þegar sérstaklega stendur á getur þjóðskjalavörður ákveðið að synja um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára, svo sem þegar...um almannahagsmuni er að ræða.

Þetta er nú eiginlega tær snilld.  Hvernig getur 110 ára gamalt skjal snert almannahagsmuni?  Í skýringu með frumvarpsgreininni er ekkert vikið að almannahagsmunum, enda skil ég ekki hvernig eitthvað sem gerðist fyrir 30, 60, 80 eða hvað þá 110 árum getur varðað almannahagsmuni í dag.

Hugtakið "almannahagsmunir" er oftast notað, þegar verið er að réttlæta það að halda einhverju vafasömu leyndu.  Málið er, að varði eitthvað "almannahagsmuni", þá felur það í sér að gott er fyrir almenning að vita allt sem hægt er að vita um málefnið.  Notið menn "öryggissjónarmið" eða eitthvað í þá áttina, þá getur hugsanlega verið ástæða til að viðhalda leynd.  En hugtakið "almannahagsmunir" getur aldrei átt við.  Stjórnvöld hafa aftur ítrekað falið sig á bak við "almannahagsmuni" þegar verið er með leyndarhyggju og vafasamt baktjaldamakk.

Verði þessum leyndarhyggjugreinum bætt inn í lög um Þjóðskjalasafn Íslands, þá er alveg lágmark að settar verið mjög stífar skorður við beitingu þeirra.  Koma verður t.d. algjörlega í veg fyrir að stjórnvöld geti útilokað almenning frá vitneskju um atburði sem viðkomandi voru kannski þátttakendur í 30 árum eftir að þeir gerðust.  Í mínum huga ætti að gera allar slíkar upplýsingar opinberar í síðasta lagi 10 árum síðar, en ekki 30 árum, hvað þá 60 árum síðar.  Leyndarhyggja stjórnvalda gefur bara samsæriskenningum og gróusögum byr undir báða vængi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Marinó: Það sem verra er að svona langur leyndar-tími ýtir undir lögbrot og misferli því það er hægt að leyna upplýsingum svo lengi. Það eitt og sér er vafasamt.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 19.4.2011 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 1678110

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband