Leita í fréttum mbl.is

Spillingin heldur áfram - Þetta lyktar af peningaþvætti

Vigdís Hauksdóttir á heiður skilinn fyrir að upplýsa um þetta mál.  Því miður sýnir það og fjölmörg önnur að spillingin er ennþá grasserandi í íslensku viðskiptalífi.  Mér er svo sem alveg sama hverjir standa að þessu fjárfestingarfélagi Triton meðan þeir stunda viðskipti úti í heimi.  En nú sælist félagið eftir einu verðmætasta og mikilvægasta fyrirtæki landsins og þá á allt að vera uppi á borðum.  Það á einfaldlega að vera bannað samkvæmt íslenskum lögum að fyrirtæki í opinberri eigi stundi viðskipti við félög og fyrirtæki sem ekki upplýsa um eignarhald sitt (afleitt eignarhald líka), hvað þá að þau séu skráð í skattaparadísum í þeim tilgangi að komast hjá eðlilegum skattgreiðslum og borga þar með til þeirra samfélaga þar sem starfsemin fer fram.  Ég verð að viðurkenna að ég hef illan bifur á þessu félagi, Triton.  Annað hvort koma menn hreint fram og greina skilmerkilega frá því hverjir eru eigendur þess og hverjir aðrir koma að þessu tilboði eða hafna á tilboðinu.  Haldi lífeyrissjóðirnir að það sé þeim til framdráttar í þjóðfélaginu að vera í einhverju baktjaldamakki, þá er það mikill misskilningur.  Krafan í samfélaginu er gagnsæi í viðskiptum með almanna eignir og eignir bankanna.

Eignarhald á íslenskum eignarhaldsfélögum fyrir hrun er best lýst með ættartré.  Þó rótin sé sú sama hjá þeim flestum, þá var búið að dreifa eignarhaldinu á 5 til 10 lög móðurfyrirtækja í þeim eina tilgangi að firra raunverulegan eiganda ábyrg og fela hver hann er í raun og veru.  Það er gjörsamlega út í hött, að opinbert fyrirtæki (Landsbankinn) og fyrirtæki í eigu þorra landsmanna (Framtakssjóður Íslands) eigi í viðskiptum við fyrirtæki eða félag sem reynir allt til að fela raunverulegt eignarhald og til að komast hjá því að taka þátt í kostnaðinum við rekstur þeirra þjóðfélaga sem raunverulegir eigendur búa í og sækja alla þjónustu til. 

Séu íslenskir peningamenn að baki tilboði Triton, þá þarf það að koma fram.   Eins og þetta lítur út fyrir mér, þá lyktar þetta af peningaþvætti.  Verið er að koma illa fegnu fé inn í löglega starfsemi.  Sama á við um aðrar eignatilfærslur sem hafa átt sér stað eða eru komnar í gang.  Greint var frá því í fréttum að ÍAV hefði á einhvern undarlegan hátt lent aftur í höndum fyrri eigenda.  Hvaðan komu peningarnir?  Verið var að selja Vífilfell til Coke á Spáni.  Mér kæmi ekkert á óvart að það væri bara leikflétta og Þorsteinn í Kók eignist fyrirtækið aftur innan nokkurra vikna eða mánaða.  Sama verður upp á teningunum þegar önnur þekkt fyrirtæki verða seld.  Á einhvern undarlegan hátt munu þau rata aftur í hendur fyrri eigenda með viðkomu í skúffum um víða veröld. 

Gleymum því ekki að stórar fjárhæðir hurfu út úr hagkerfinu í undanfara hrunsins.  Þessir peningar gufuðu ekki bara upp.  Þeir eru þarna einhvers staðar og þeim þarf að koma í vinnu.  Eru fyrirhuguð kaup Triton fjármögnuð með slíkum peningum eða væntanleg sala Triton til raunverulegra kaupenda?  Ég veit það ekki, en ég held að það sé vel þess virði fyrir efnahagsbrotadeild lögreglunnar að skoða þann möguleika.

Sé það rétt sem Vigdís hefur eftir bankastjóra Landsbankans, að íslenskir aðilar standi að Triton, þá er spurningin hverjir eru það og hvaðan koma peningarnir.  Næst má spyrja hvort greiddur hafi verið skattur af peningunum og hvar sá skattur var greiddur.  Loks má gera þá kröfu að félagið verði skráð á Íslandi og greiði í framtíðinni skatta og skyldur hér á landi.  Eins og áður segir eiga fyrirtæki og félög í eigu landsmanna ekki að stuðla að því að ríkissjóður verði af skatttekjum með því að selja verðmætustu fyrirtæki landsins til félaga í skattaparadísum.  Vilji Triton eiga í viðskiptum, þá verði einfaldlega gerð sú krafa að þau fari fram í gegn um dótturfélag með skattskyldu hér á landi.


mbl.is Segir íslenska aðila standa að Triton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svavar Bjarnason

Ér finnst þú hafa verið mjög málefnalegur og sanngjarn sem málsvari Hagsmunasamtaka heimilanna. Þú hefur líka bent á ýmislegt sem miður fer í okkar þjóðfélagi. En upp á síðkastið finnst mér þú vera farinn að færa þig meira og meira inn á hinn pólitíska vettvang, jafnvel hinn flokkspólitíska. Leiðréttu mig ef ég hef rangt fyrir mér.

Svavar Bjarnason, 20.1.2011 kl. 15:54

2 Smámynd: Svavar Bjarnason

Sorry. Mér átti það að vera en ekki Ér!!

Svavar Bjarnason, 20.1.2011 kl. 15:56

3 identicon

Hvað er flokkspólítískt við þessa færslu Svavar ?

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 16:00

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Svavar, ég hef alltaf verið mjög beinskeyttur hvað varðar þessi svik, pretti og lögbrot sem hér voru framin.  Bara svo ég rifji upp eina færslu vegna dejavu atviks sem átti sér stað í morgun.  Þessi færsla er frá 11.2.2010 - Tikk-tikk-tikk, tímasprengjan tifar, almenningur er að springa.  Í sama mánuði skrifaði ég nokkrar færslur á sömu nótum.

Marinó G. Njálsson, 20.1.2011 kl. 16:03

5 Smámynd: Svavar Bjarnason

Ekki get ég lesið  af þínu svari hvort þú dragir taum einhvers ákveðins stjórnmálaafls, svo ég áætla að sért ekki tengdur neinu ákveðnu, því þú hefðir örugglega sagt frá ef svo hefði verið.

En við Arnar vil ég segja að hann virðist ekki hafa lesið kommentið mitt. Ég sagði "upp á síðkastið", en var ekkert að vísa sértaklega á þessa bloggfærslu.

Svavar Bjarnason, 20.1.2011 kl. 16:20

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þú ættir a.m.k. að geta dregið þá ályktun, Svavar, að ég er lítið hrifinn af núverandi stjórnvöldum.  Nei, ég er ekki tengdur neinum stjórnmálaflokki, en þegar Gísli Tryggvason bað mig um að styðja sig í prófkjöri Framsóknarflokksins sl. vor, þá gat ég ekki gert það á annan hátt en að skrá mig í flokkinn.  Þar sem ég hef ekki breytt þeirri skráningu, þá telst ég víst ennþá vera í flokknum.

Staða mín gagnvart stjórnmálaflokkum skiptir á hinn bóginn engu máli þegar kemur að þeim grófu svikum, blekkingum, lögbrotum og prettum sem beitt hefur verið í þjóðfélaginu á undanförnum árum.

Marinó G. Njálsson, 20.1.2011 kl. 16:52

7 Smámynd: Svavar Bjarnason

Þakka upplýsingarnar. Mér líst líka vel á Gísla!!

Svavar Bjarnason, 20.1.2011 kl. 17:31

8 identicon

Talandi um að koma illa fengnu fé í umferð, "seldi" ekki Jón Ásgeir aldraðri móður sinni 300 fm einbýlishúsið sitt að Fjölnisvegi um daginn á rúmlega 100 milljónir minnir mig, að sögn til að fjármagna vörn sína gegn slitastjórn Glitnis. Það er gott að gamla konan á svona mikið af peningum, skyldi það vera vegna þess að hún hefur verið svona mikið í viðskiptum eða vegna þess að undanfarin ár hefur sonurinn skráð hana fyrir hlutum hér og þar í því óheillabralli sem hann var að sýsla í og passaði að hún seldi á réttum tíma. Sammála þér Marinó með að þetta snýst ekki lengur flokka eða pólitík heldur um að koma þessu yndislega landi okkar af stað aftur, sama hvað það kostar, þá er ég að meina, sama hvað það kostar útrásarvíkingana, gamlar valdaklíkur eða ónýta stjórnsýslu.

Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 23:33

9 identicon

Góð grein hjá þér Marinó!

Mig langar lika að benda á að menn hugleiði vanda heimilanna í samhengi við þjófnaðina og spillinguna sem er verið að upplýsa nánast daglega hjá fjármálaheiminum hérna. Þetta er allt sami grautur í sömu skál og fátt sem minnir á pólitík í þessu sambandi.

Anna Kr. Pétursdóttir (IP-tala skráð) 21.1.2011 kl. 01:49

10 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Áfram, Marinó!

Flosi Kristjánsson, 21.1.2011 kl. 09:55

11 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er nauðsynlegt að halda ormagryfjunni opinni Marinó, svo ekki grói yfir. Þú hefur verið duglegur og málefnalegur í þessu, sem öðru.

Varðandi þá umræðu sem fram fór í athugasemdum hér fyrir ofan, um pólitík, er rétt að benda mönnum á þá staðreynd að hver sá sem tjáir sig um það sem gerist í þjóðfélaginu, ekki sýst því sem snýr að stjórnun þess, hlýtur að vera að tjá sig um pólitík.

Það er ekki þó þar með sagt að viðkomandi tali fyrir ákveðið stjórnmálaafl eða sé tengdur því. Pólitík nær langt út fyrir flokkana.

Það að taka sér stöðu með lánþegum er pólitík, þó enginn stjórnmálaflokkur þori því.

Það að benda á þá spillingu sem á sér stað í þjóðfélaginu, bæði í fjármálageiranum og stjórnsýslunni, er pólitík. Þó virðast ALLIR stjórnmálaflokkar forðast eins og heitann eldinn að koma nálægt þeirri umræðu.

Svona væri lengi hægt að halda áfram. Það sem einkennir þó þessi mál er að þau eiga sér fáa talsmenn innan þingsins, en þó eru þeir til. Þessir fáu þingmenn skiptast á milli allra flokka alþingis.

Ekki þekki ég Svavar Bjarnason, sem opnaði á þessa umræðu, en vil þó benda honum á að með því einu var hann að ræða pólitík.

Pólitík er ekki skammaryrði, þó margir hafi farið illa með það vald sem þeir hafa náð.

Pólitík er samnefnari yfir alla umræðu um það sem viðkemur þjóðfélaginu.

Gunnar Heiðarsson, 22.1.2011 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1678165

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband