Leita í fréttum mbl.is

Rétt skal vera rétt - villandi spurning og villandi fyrirsögn

Fyrirsögn fréttarinnar er ekki í samræmi við innihaldið.  Í könnuninni er spurt:

Hversu fylgjandi eða andvígur ert þú því að lífeyrissjóðir taki þátt í skuldaniðurfellingu húsnæðislána, þó það þýði að lífeyrisgreiðslur myndu mögulega skerðast?

Hér er líklegast verið að vísa til hugmynda Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu á húsnæðislánum heimilanna.  Við þetta er að athuga:

  1. Ekki er gert ráð fyrir því í tillögum HH að lífeyrisgreiðslur skerðist hjá þeim sem eru byrjaðir að taka lífeyri eða hjá þeim sem eru í þann mund að taka lífeyri.
  2. Það eru lífeyrisréttindi sem eiga að skerðast samkvæmt tillögum HH, en þau gera það hlutfallslega og eykst skerðingin eftir því sem lengra er í að viðkomandi taki lífeyri.  Þetta þýðir að skerðingin hefði lent meira á þeim sem eru líklegir til að vera með hærri lán frá Íbúðalánasjóði.
  3. Könnunin fjallar ekki um "almenna skuldaniðurfellingu" eins og fyrirsögnin bendir til heldur almenna skuldaleiðréttingu sem gæti mögulega skert lífeyrisgreiðslur.  Á þessu tvennu er mikill munur.

Annars hefði vrið gaman, ef Landsamtök lífeyrissjóðanna hefðu spurt gagnrýnna spurninga um störf lífeyrissjóðanna, eins og:

  1. Vilja félagsmenn að lífeyrissjóðirnir skili þeim hagnaði sem þeir fengu við kaupa á íbúðabréfum til skattgreiðenda eða húsnæðislántaka?
  2. Vilja félagsmenn taka á skerðingu lífeyrisgreiðslna og/eða lífeyrisréttinda vegna gríðarlegra afskrifta sjóðanna sem afleiðingu af fjárfestingarstefnu sjóðanna?
  3. Vilja félagsmenn að lífeyrissjóðirnir leggi peninga sjóðfélaga í rekstur félaga og fyrirtækja í samkeppnisrekstri, svo sem Vestia, Icelandair, Haga?
  4. Vilja sjóðfélagar að skipt verði um stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum?
  5. Vilja sjóðfélagar breyta fyrirkomulagi stjórnarkjörs lífeyrissjóðanna og gera það opið fyrir almenna sjóðfélaga að bjóða sig fram?
  6. Vilja sjóðfélagar minnka vægi atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóðanna eða útiloka þá alveg frá stjórnarsetu?
Vafalaust mætti spyrja fleiri áhugaverðra spurninga.

Það skal tekið fram, að ég hef fulla samúð með lífeyrissjóðunum vegna hins mikla tjóns sem sjóðirnir urðu fyrir vegna að því virðist lögbrota stjórnenda og eigenda bankanna.  Gleymum því aldrei, að það voru örfáir einstaklingar sem settu hagkerfið á hliðina.  Þessa einstaklinga þarf að sækja til sakar og láta þá greiða fyrir það tjón sem þeir ollu.  Sá tími á að vera liðinn að fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur geti hagað sér hvernig sem er til að hagnast um eina krónu, pund eða dollar í viðbót og þegar eitthvað misferst, þá sé reikningurinn sendur skattgreiðendum.


mbl.is 43% á móti almennri skuldaniðurfellingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Sammála þér.

Það er ótrúlegt hvað tönlast er á orðinu niðurfelling og alveg fyrir munað að nota hið rétta orð leiðrétting það er rétt eins og að viðkomandi haldi að með því að tönglast nógu oft á því hverfi glæpurinn.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 30.11.2010 kl. 12:46

2 identicon

Sæll, ég hef aldrei skilið þetta Marinó.

Ungt fólk sem er að fara að hefja störf, fólk með engin lán af hverju á það að taka þátt í þessu með að skerða eftirlaunin þegar það fer á eftirlaun eftir 40 ár. Varla er hægt að rökstyðja það að þetta fólk hafi grætt eitthvað á þessu hruni?

Á að skuldbinda þetta unga fólk að greiða í lífeyrissjóði sem eru skuldbundir til að greiða niður þessi lán með lægri ávöxtun. Á það ekki að fá að velja sjálft lífeyrissjóð eða séreignasjóð eins og margir skuldarar sem raunar ekki eru í lífeyrissjóð og vilja augljóslega koma skuldunum yfir á aðra en ríkissjóð, þar sem það lendir á þeim sjálfum í gegnum skatta og niðurskurð.

Er það réttlátt að skerða lífeyrisgreiðslur unga fólksins til að greiða niður lán þessarar kynslóðar?

Í raun er það þetta fólk, fólk nýskriðið út úr skóla kanski nýbúið að stofna heimili og valið er að fara að greiða niður lán fólks sem sumt getur staðið í skilum.

Skrimta á íslenska láglaunasvæðinu með sveiflukennda krónu og velferðarkerfi sem verður um 1/2 þess sem er í norrænu nágrannalöndunum.

Augljóslega mun það fólk sem mun fara vera ungt og oft vel menntað fólk. Það mun ekki láta bjóða sér þetta og velja bara að fara.

Eina sanngjarna leiðin til lánaniðurfærslu er að hafa um þetta þjóðaratkvæðagreiðslu og það verður einungis fjármagnað í gegnum skuldugan ríkissjóð sem skuldar raunar 1250 miljarða í árslok 2011 (+ Icesave skuldbindingin á 40-60 miljarða) og sá þungi leggst síðan á þjóðina í formi skatta og niðurskurðar.

Ég hef ekki skilið það af hverju sá hópur sem greiðir í lífeyrissjóð og þeir sem ekki höfðu neinar lífeyrissjóðsgreiðslur ættu að niðurgreiða lánin.

Raunar er það ekki lánin sem hafa hækkað það eru launin sem hafa lækkað þótt ekki allir geri sér grein fyrir þeirri staðreynd.

Það eru tveir gjaldmiðlar á Íslandi verðtryggð og óverðtryggð króna.

Gunnr (IP-tala skráð) 30.11.2010 kl. 12:48

3 identicon

Ef lífeyrissjóður tapar 100 milljörðum og þarf þess vegna að skera niður um 5%, hvað þarf hann að skerða mikið vegna 10 milljarða???

Raunin er sú að 5% niðurfærsla á lífeyrisréttindum fyrir niðurfærslu á skuldum almennings er þvæla.

Lífeyrissjóðirnir töpuðu tugumföldum þeim upphæðum er niðurfærslan kemur í raun uppá strax í fáránlegum áhættufjárfestingum, bruðli og gríðarlegri yfirbyggingu árin á undan.

Raunin er að lífeyrisréttindi ætti að þurfa að skerða um 0,7 - 1.0% , m.ö.o að ef að vandamálin eru ef að fólk fær 1500 kr minna á mánuði sé munurinn á vandamáli og vandaleysi að þá er í raun ekkert vandamál hér....

Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 30.11.2010 kl. 13:10

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Marinó,sennilega er það rétt hjá þér að spurningin hafi verið villandi.  Það er allavega ósennilegt að 43% þjóðarinnar séu á móti því að þýfi sé skilað.

Magnús Sigurðsson, 30.11.2010 kl. 13:11

5 identicon

Spurningin hefði átt að vera:

Ef þú ert rændur, áttu þá rétt á því að ræna einhvern annan?

SG (IP-tala skráð) 30.11.2010 kl. 14:20

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

SG, en lífeyrissjóðirnir tóku við þeim hluta þýfisins sem fólst í mikilli hækkun verðbóta.  Það er því ekki verið að "ræna" þá heldur krefja þá um að skila því sem var oftekið.

Marinó G. Njálsson, 30.11.2010 kl. 14:28

7 identicon

Umræðaðn snýst alltaf um lífeyrissjóðina.

Það er búið að ljúga okkur full að við lifum við besta lífeyrissjóðakerfi heimsins. En það er líka akkúrat það sem markaðsmenn píramítafyrirtækja predika og fá nokkra auðtrúa einstaklinga til að trúa á. Langflestir sem leggja peninga í píramíta tapa þeim aðeins þeir sem eru upphafsmenn græða.

Lífeyrissjóðirnir eru valdatæki. Hvernig getur Vilhjálmur Egilsson sagt til um það hvað verður eftir 40 ár, hann veit ekki einu sinni hvar hann drekkur wiskýsjússinn sinn í kvöld.

Byrjum á að berjast fyrir betra lífeyriskerfi.

Ég legg til að það verði 8% skildusparnaður sem hver launamaður leggur inn í  á lífeyrissparnað sinn hjá Íbúðalánasjóði og fái 2% vexti en á móti lánar Íbúðalánasjóður til íbúðakaupa með 3.5% vöxtum. Það er mikilvægt að hver og einn eigi sinn lífeyrissparnað  og að spilafíklar fái ekki aðgang að peningunum til að fullnægja spilaþörf sinni á reikning annara en sjálfra sín.

Nú þurfum við að reikna og sjá hvort þetta lífeyriskerfi sé ekki betra en kerfið sem gerði það mögulegt að Víglundur Þorsteinsson fátækur drengur úr vesturbænum laug sig inn á peningastofnanir sem formaður stærsta lífeyrissjóðs landsins og skuldaði meir en 7 miljarða við hrun bankanna.

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 30.11.2010 kl. 15:21

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Um leið og ég heyrði fréttina í snarhasti um þessa gerviskoðanakönnun datt mér strax í hug að spurningin væri leiðandi og til þess ætluð að fá aðeins eitt svar.

Það væri alveg eins hægt að spyrja í skoðanakönnun hvort fólk sé tilbúið að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef það verður til þess að hér verður algert hrun aftur eftir tíu ár, eða hvort fólk vilji kjósa VG ef það merkir að hér verður fátækt og örbrigð eins og í Norður-Kóreu og stjórnarfarið eins, komist þeir til valda, ríkið ráði alveg yfir einstaklingnum og ekkert frelsi verði.

Málið er að lífeyrissjóðirnir eru að reyna að ljúga af sér hið gríðarlega tap sem varð af fjárfestingaræði þeirra og vegna þess að þeir leyfðu fjárglæpamönnum að láta greipar sópa um sjóðina, á sama hátt og þeir fengu að ræna bankana innan frá.

Þeir hafa fundið blóraböggul í Hagsmunasamtökum heimilanna og þeim sem vilja sanngjarnar leiðréttingar okurvaxtalána og ætla að kenna þeim um skerðingar sem verða af óstjórn forstjóra lífeyrissjóðanna sjálfra, sem hugsuðu meira um að komast á fyllerí í laxveiðiferðum en að gæta hagsmuna sjóðfélaga.

Engin af þeim lýsingarorðum og nafnorðum sem mér detta í hug um þessa forkólfa lífeyrissjóðanna eru birtingarhæf, þannig að ég ætla ekki að segja meira.

Theódór Norðkvist, 30.11.2010 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 686
  • Frá upphafi: 1677708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband