Leita í fréttum mbl.is

Ég skýrði leikreglur samfélagsins en hótaði engu

Nokkrir bloggarar og dálkahöfundar hafa farið mikinn varðandi það, að ég hafi reynt að ritskoða fjölmiðla landsins í dag.  Eyjan hefur verið dugleg við að setja linka inn með vísan í helst alla sem tala gegn mér og Pressan sló því upp að ég hefði hótað fjölmiðlum siðanefnd BÍ.

Hvernig getur það verið tilraun til ritskoðunar að ætla að vísa máli til siðanefndar BÍ?  Sá sem segir það, er ekki að hugsa rétt.  Ef blaðamenn líta svo á að ekkert sé að hræðast við það að máli sé vísað til siðanefndar, þá halda þeir áfram að birta fréttirnar sem um ræðir.  Ef þeir hræðast vísun málsins til siðanefndarinnar, þá vita þeir upp á sig skömmina.  Þarna er ekki um nema þessa tvo kosti að ræða.  Hvorugur felur í sér ritskoðun.  Annar felur í sér að ég hef rangt fyrir mér að þeirra mati.  Hinn felur í sér að ég hef rétt fyrir mér að þeirra mati.  Ég hef ekkert ritskoðunarvald, heldur eingöngu tilvísu í réttlætiskennd.

Ef menn vilja tala um ritskoðun, þá ættir þeir frekar að líta á dóma héraðsdóms í vændiskaupamálinu.  Það er ritskoðun, þar sem fjölmiðlum er hreinlega óheimilt að nefna mennina á nafn, þó nöfn þeirra séu alveg örugglega á vitorði þeirra allra.

Það sem mönnum sést yfir í þessu máli er kúgunin sem felst í birtingu DV á einkaréttarlegum málefnum mínum.  Sú kúgun hefur haldið áfram hjá a.m.k. einum fjölmiðli í viðbót (þó það sé kannski full fínt að kalla amx fjölmiðil).  Þessi kúgun snýst um berja niður óæskilega aðila í lýðræðisumræðunni.  Að fjölmiðill getur ákveðið að leggja fæð á einhvern einstakling bara af því að hann var orðinn of áberandi.  Ættu fjölmiðlar ekki að hafa áhyggjur af því?  Nei, þeir hafa að áliti þessara penna áhyggjur af því, að ég telji á mér brotið og tilkynni fjölmiðlum að ég muni ekki líða það, þá sé það ritskoðun.

Friðhelgi einkalífs míns er varið af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.  Þetta friðhelgi var rofið af DV í dag.  Stjórnarskrár varinn réttur minn var brotinn og menn tala um mig sem hinn brotlega, þegar ég vara aðra fjölmiðla við að brjóta líka á mér.  Til hvers er stjórnarskráin, ef fjölmiðlar mega vaða yfir hana á skítugum skónum, þegar þeim sýnist.

Ég mótmæli þeirri túlkun að ég hafi hótað einum eða öðrum.  Ég setti leikreglu hvað mig varðar og gekk þar í smiðju stjórnarskrárinnar.  Sú leikregla var, að hver sá fjölmiðill sem hnýsist í mín einkamál, sem eru varin af friðhelgisákvæði stjórnarskrárinnar, yrði kærður til siðanefndar BÍ.  Þetta er nákvæmlega, eins og fólk hefur rétt til að kæra hvern þann sem fer inn á þeirra einkalóð fyrir átroðning og hvern þann sem kemur óboðinn inn í húsnæði þess fyrir húsbrot.  Er það ritskoðun á fjölmiðli, ef ég kæri hann fyrir átroðning á minni einkalóð?  Er það ritskoðun á fjölmiðli, ef ég kæri hann fyrir húsbrot ryðjist hann óboðinn inn í húsið mitt? Nei, og það er ekki heldur ritskoðun, ef ég kæri fjölmiðil fyrir að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti mínum til friðhelgi einkalífs og læt aðra fjölmiðla vita að þeirra bíði sama hlutskipti, ef þeir endurtaka friðhelgisbrotin.  Ég var að benda þeim á hverjar leikreglur samfélagsins eru og að ég ætlaði mér að fylgja þeim.  Ég skýrði fyrir þeim leikreglur samfélagsins,en hótaði þeim engu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Flottur pistill. Sammála.

Benedikt Halldórsson, 23.11.2010 kl. 00:37

2 Smámynd: Gunnar Waage

Mér sýnist þetta vera svona helstu lýðskrumararnir sem eru með þennan söng. Jón Frímann til dæmis er nú bara troll og allir þeir sem eitthvað vit er í eru rakkaðir niður á hans vef.

Þetta gengur yfir, pressan.is og eyjan.is eru áróðursvettvangur ýmissa hagsmunaaðila og margir þar eru á launum við að blogga.

Ég sé reyndar ekkert athugavert við þína skuldastöðu og tel hana ekkert tilefni til þess að brjóta á friðhelgi þinni sem eins og þú bendir á er varin í stjórnarskránni.

Þetta eru tvíhliða viðræður við ríkisstjórnina og engin leið fyrir þig að taka neinar einhliða ákvarðannir í málinu.

Það er því ekkert sem réttlætir það að starfsmenn einkafyrirtækja (fjölmiðla) handvelji hverjir skuli útvarpa sinni persónulegu fjárhagsstöðu. Þá þyrfti jafnt yfir alla að ganga og í að ég held öllum flokkum nema einum er fólk sem talað hefur fyrir sambærilegum lausnum.

Gunnar Waage, 23.11.2010 kl. 00:47

3 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Alveg rétt Marinó.

Guðmundur St Ragnarsson, 23.11.2010 kl. 01:35

4 identicon

Veðbókarvottorð eru opinber gögn og hverjum aðgengileg gegn greiðslu, stundum er betra heima setið en að leggja í langferð án endis.

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 01:47

5 identicon

Veðbókarvottorð eru opinber gögn og hverjum aðgengileg. Málið snýst ekki um hvort þú sért blankur eða ekki heldur hvort þeir sem ekkert skulda eiga að borga fyrir þína óráðssýu eða ekki ég segi nei. Eins og ég hef marg sagt, að taka lán í annari minnt en maður hefur í tekjur er í besta falli heimska. Þú veðjaðir og tapaðir þannig er fjárhættuspil og enn og aftur þitt mál en ekki mitt.

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 01:59

6 Smámynd: Gunnar Waage

Hvað kemur það broti á friðhelgi einkalífs Marinó?

Ef menn eru ekki sammála einhverjum tillögum þá skal rannsaka menn?

Er það málið?

Gunnar Waage, 23.11.2010 kl. 02:12

7 identicon

Þú ert mikill Marinó,
milljónir þó skuldi.
DV fer í slitna skó,
sem að fylgir kuldi.

eftir mig Jón bóna.

Jón bóndi (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 03:49

8 identicon

Gunnar Waage. Opinber gögn eins og veðbókarvottorð eru ekki það sem kallast friðhelgi einkalífsins því þau eru öllum aðgengileg (hjá sýslumanni) einnig það sama um lögheimili (t.d. símaskrá). Kennitölu hjá þjóðskrá og til að toppa friðhelgi einkalífsins er hægt að fá upplýsingar um tekjur einstaklinga hjá skattstofu ákveðin tíma á ári. Svo gerði ég ekki Marinó að opinberri fígúru hann sá alfarið um það sjálfur. Alltaf verið ráð til að vera í friði er að láta aðra í friði.

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 04:17

9 Smámynd: Gunnar Waage

Ég veit allt um veðbókavottorð og var því síður að kenna þér um þetta mál.

Hitt er annað mál að þótt Marínó sé opinber fígúra eins og þú orðar það, á réttlætir það eitt og sér ekki að upplýsingum um hans fjármál sé dælt í fjölmiðla.

Bara upp á grín eða?

Gunnar Waage, 23.11.2010 kl. 04:29

10 identicon

Ég vil fá að vita meira um mann sem situr í nefnd á vegum Alþingis hvernig eigi að bregðast við þessum vanda um skuldsetnigu fólks. Að ógleymdum öllum þeim tima sem hann hefur fengið í fjölmiðlum. Ergó opinber fígúra. Er hann að bjarga eigin skinni (ótrúverður) eða að gera öllum gagn þar á meðal þeim sem ekkert skulda. Ef hann fær að eigin sögn ca. 2.000.000.kr í lækkun skulda leggur hann þá til að þeir sem ekkert skulda fái sömu upphæð senda í pósti (jafræðisreglan) ekki veitir af til að mæta hærri sköttum. Fyrirgefðu slettuna fígúra=manneskja.

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 05:06

11 Smámynd: Gunnar Waage

Nei það að þú viljir vita meira um manninn nægir ekki til þess að fjármál hans séu sett í blöðin. Það verður að vera einhver tilgangur.

Einu rökin sem þú færir fram eru að þú sért á móti niðurfærslu. Það er þér frjálst en ekkert meira.

Gunnar Waage, 23.11.2010 kl. 06:28

12 identicon

Þetta er dæmigerð blogg- og blaðaumræða. Auðvitað hefur marínó engin tök á því að ritskoða fjölmiðla. Hann getur lært til siðanefndar Blaðamannafélagsins ef honum finnst umfjöllun um sig vera röng. ófagleg og skrifuð í annarlegum tilgangi.Siðanefnd er ekki hluti réttarkerfisins og hefur aldrei verið. Mér er satt best að segja ekki ljós hve mikil áhrif hín hefur. Í upphafi skyldi endirinn skoða. Þegar marínó tekur þá ákvörðun að starfa fyrir HH og halda úti miklum skrifum um lánamál heimilanna er hann kominn á hið opinbera svið. Hann og fleiri frá HH ræða við íslenska ráðamenn og fulltrúa AGS. Lánamálin eru afar mikilvæg. Þau snerta hagsmuni fjölmargra. Þau snerta lífshagsmuni fjölda fólks og fjölda heimila sem á í afar miklum vanda. Í vaxandi mæli verða þeir sem taka þátt í opinberri umræðu að gera grein fyrir hagsmunatengslum sínum. Nærtækasta dæmið eru prófkjörin. Dæmi um hagsmunatengsl sem blöð hafa lýst er afar mörg og óþarfi að nefna eitt dæmi. Sem sagt; Maríno gat gefið sér það að um fjármál hans yrði skrifað. margt af því eru opinber gögn. Það á ekki að koma á óvart að DV fari rangt með staðreyndir. Marínó vissi það eins og allir aðrir.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 06:51

13 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Guðmundur Ingi,

HH hefur beitt sér fyrir hlutfallslega flötum niðurskurði skulda, minnir að 15,5% hafi verið sú tala sem nefnd hefur verið.  Ég sé því ekki hvað skuldir eða skuldalækkun Marinós hefur með neitt að gera?  Ef menn vilja skoða veðbókarvottorð þá er það hverjum sem er heimilt.  En hverju breytir það hvort einhver aðili, Marinó eða einhver annar, er með skuldir upp á x eða y krónur bara vegna þess að viðkomandi situr í nefnd?  Ættu eingöngu þeir sem ekkert skulda að vera tækir í þessa nefnd?  Væru þeir sem eru skuldlausir eða skulda innan einhverra marka að vera betur tækir í slíka nefnd heldur en þeir sem eru með skuldir?  Mér sýnist að allir sem sætu í slíkri nefnd og væru með skuldir væru að einhverju leiti að "bjarga eigin skinni"  Hvað í ósköpunum er rangt við það?  Er það ekki einmitt það, sem lífsbaráttan gengur út á???

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 23.11.2010 kl. 06:55

14 identicon

Alveg er merkilegt að fylgjast með fólki koma ítrekað með þær fullyrðingar að lántakar GRÆÐI ef farið verður út í leiðréttingu.

Hvernig getur það verið gróði að fá til baka það sem hefur verið tekið af manni ?

Dæmi: Manneskja á íbúð sem kostar 14 milljónir. Hún borgar upp í 3 milljónir og greiðir af láninu í hverjum mánuði tugi þúsunda. Lánið er 11 milljónir.

Í dag er lánið komið upp í á milli 15 og 16 milljónir og eigið fé lántaka er horfið.

Hvernig getur það verið gróði að lánið fari niður í 13-14 milljónir við leiðréttingu(hver sem sú leiðrétting yrði á endanum) ??

Ok verðtrygging... hefur laun og kaupmáttur hækkað í takt við lánin ? NEI. Fasteignin hefur meira að segja lækkað um tugi prósenta ofan á allt.

Þannig að hvar er gróðinn ??????

--

Þakka þér Marinó fyrir þitt starf í þágu heimila sem hafa orðið fyrir .. ja ráni.. hvað annað er hægt að kalla þetta?? :/

Einar (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 08:37

15 identicon

Þó að ég stend fullkomlega með þér Marínó þá finnst mér að opinber gögn geta verið birt um einstaklinga!

Sama gildir um skattaskýrslur og útsvar.. Ef fjölmiðill er óheimilt að birta opinber gögn  þá er það ákveðin ritskoðun á því sem almenningur fær að sjá.

Slæmt er það nú þar sem þetta útspil þitt Marínó hefur dregið athyglina frá því sem þú hefur barist fyrir. Fjölmiðlar hafa engan áhuga á niðurfellingur lána til almennings þar sem það þóknast ekki fjármagnseigendum. Má eiginlega segja að þeir náðu að lokka þig í gildru og hér situr þú! Byrjaður að karpa við öflug hagsmunasamtök sem vilja fyrir allt setja múl á þig. Mér sýnist það vera að virka, því miður.

Sverrir (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 08:38

16 Smámynd: Grétar Eiríksson

flottur pistill, og Marínó þú hefur staðið þig með eindæmum vel í þágu þjóðar, þín er þörf, þú ert nauðsin, HH eru eitthvert al-flottasta og nauðsinnlegasta afurð Hrunsinns ! og þar að öðrum ólöstuðum stendur þú þína plikkt með miklum sóða og sanngirni.

 en að ræða AMX er eins og láta húsflugu pirra sig, hjólaðu í þá sem þú telur að hafi brotið á þér, hiklaust ! mín skoðun er að opinbera aðila meigi fjalla um, en árásir á almenning eru óásættanlegar.

 og þú ert sannarlega Almenningur Marínó, en um leið og svona er gert Marínó þá VEISTU að þú ert á réttri braut, og bara tilefni til að rísa upp gegn þræl skipulögðum "árásum" Fjórflokks-verndaranna í Así-SA-SI-XD-XS-XB og með undantekninngum VG !

 Svona árásir eru eins og Heiðursmerki f vel unninn störf, þú ERT að bera mikinn árangur, svo áfram skal barist Afkoma alls Almennings er í húfi !

 HH eru ASÍ dagsinns í dag, HH eiga að vera umbosmaður Skuldara !

Grétar Eiríksson, 23.11.2010 kl. 09:18

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Marínó.

Núna ert þú ekki bara að verja heimilin gegn smásálum og lúðaleppum.  Þú ert líka að verja þau gegn ágangi blaðamanna sem telja að það sem betur hljómar sé frétt, ekki að það eigi að birta það sem sannara er.

Og siðanefnd má þó eiga að hún reynir að tækla slík brot.

En hún virkar ekki nema einhver kærir.  Og í guðanna bænum kærðu ef á þér er brotið.  

En það sem smásálin fattar ekki er tvennt, að málflutningur þinn fyrir HH er algjörlega óháð persónu þinni, hvort sem þú skulda milljón eða hundrað eða þúsund eða milljón milljónir.  Það eru hin almennu rök sem þar búa að baki sem þarf að taka afstöðu til.  

Þó þú skuldir milljón, þá getur hann samt verið rangur, þó þú skuldir milljón milljón, þá getur hann samt verið réttur.  

Hitt sem smásálin fattar ekki er að þar sem málflutningur HH er ekki vegna þinna persónulegu mála, þá dugar það ekki að skjóta þig og þína, málið lifir samt áfram, því það er almennt.  Þess vegna var það ekki góð regla hjá litlum kóngum í gamla daga að slátra sendiboðum stærri ríkja, þó þeir væru boðberar illra tíðinda, meginherinn kom alltaf á eftir, og þá varð höfuð hins smáa konungs oft laust á búk.

Ef aurburðinum tekst að hrekja rólyndismennina af vettvangnum, þá erum bara stríðsmennirnir eftir.  Og her þeirra er um 70.000 skuldarar þessa lands.

Og það er aðeins tímaspursmál hvenær þeir sameinast og krefjast réttar síns.  Stjórnvöld geta aðeins stýrt á hvaða forsendum sú sameingin er.

Þau ættu að tjóðra rakka sína.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 23.11.2010 kl. 09:43

18 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hafðu þökk fyrir starf þitt fyrir heimilin í landinu.

Vonandi mun sigur hafast, þrátt fyrir lúgaleg brögð þeirra sem ganga erinda kúgarana, sem höfðu aðstöðu til, að breyta að eigin geðþótta, forsendum  undirritaðra skjala, með árásum á gjaldmiðil okkar og framboði á lánsfé til hækkunar íbúðaverðs og allskonar bragða sem þeir stóðu í, Á MEÐAN ÞEIR VORU AÐ SEMJA UM LÁNSKJÖR VIÐSEMJENDA SINNA.

Það eru til ógeðfelld samtök í landinu okkar, LÍJúgarar eru ein, Samtök fjármálastofnana eru önnur.

Við sem berjumst gegn sérhagsmunum og viljum heiðarlegt opið samfélag, munum ná takmarki okkar, bara spurning um tíma.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 23.11.2010 kl. 11:05

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mig langar að bæta einum vinkli inn í umræðuna hérna.  Kannski skiptir hann máli, kannski ekki.

Tillögur HH um að sett yrði 4% þak á  árlegar verðbætur (sem er ígildi 15,5% afsláttar núna) voru settar fram á stofnfundi samtakanna 15. janúar 2009.  Þær voru samdar af undirbúningsnefnd að stofnun samtakanna.  Ég tók ekki þátt í því starfi og kom ekkert nálægt því að semja þá kröfugerð sem þá var lögð fram.  Kom bara á þennan fund eins og hver annar maður af götunni sem hafði áhuga á þessu málefni.

HH hefur unnið með lítið breyttar kröfur frá upphafi.  Eina stóra breytingin var að óverðtryggð lán voru tekin með.

Loks finnst mér merkileg túlkun Henrýs Þórs að ég missi rétt minn til friðhelgi einkalífs við það að vera bloggari.  Þá hlýtur hann ekki að njóta þess heldur.  Ég sé ekki neinn mun á þjóðfélagsrýni hans og þeirra sem blogga.

Marinó G. Njálsson, 23.11.2010 kl. 13:16

20 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Málið er ekki flókið það er einfaldlega verið að halda niðri fólki og öllum meðölum beitt. Guðmundur hér að ofan telur það rétt að hann viti um málefni Marinós því að hann sé hlynntur leiðréttingu á skuldaglæpnum en eigum við þá ekki heimtingu á að vita eignastöðu Guðmundar vegna þess að það mætti skilja að hann sé á móti leiðréttingu.

Það er talið kosta rúmlega 100.000.000.000 las ég einhverstaðar að leiðrétta það sem ég leyfi mér að kalla rangláta skuldaaukningu byggða á fölskum forsendum.

Allir sem beita sér fyrir þessari leiðréttingu eru umsvifalaust stimplaðir fjármálavitleysingar skuldarar sukkarar og hvað það nú heitir og fjármál þeirra skulu vera opinber og líf þeirra borið á torg. Þetta hefur tekist svo vel að það vill engin orðið gagnrýna þessi mál eða mál lífeyrissjóðanna nema órfáir merkisberar réttlætis fyrir almenning.

Á sama tíma var 2 % einstaklinga og 7% fyrirtækja færðar 1.763.000.000.000 úr vösum annarra landsmanna og talan er í raun hærri því þetta er miðað við inneignir hærri en 10.000.000. Nöfn þessara eignaeistaklinga eru aldrei nefnt.

Eru þá þeir sem hæst tala gegn leiðréttingunni hluti af þessum 2% og því að verja hagsmuni sína og á þá eignastaða talsmanna þess að ekkert sé leiðrétt að vera opinberuð líka er það ekki bara sanngjarnt. 

Því ef talið er að engin berjist fyrir réttlætinu nema af annarlegum hvötum hvað má þá segja um þá sem vilja viðhalda óréttlætinu.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 23.11.2010 kl. 13:40

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Jón Aðalsteinn, það eru aðeins sjúkar smásálir á móti réttlæti.  Best að lýsa þessu liði eins og það er.

En vissulega má deila um þær leiðir sem verða farnar.  Ég til dæmis hef talað fyrir leið Gunnars Tómassonar, að hún valdi minnstu róti, HH tala um að láta afskriftir lenda á þeim sem þurfa að afskrifa.

Aðrir tala svo um annað.

En þeir sem hía og tala um sukk, eins og það hafi verið á ábyrgð einstaklingsins, að Seðlabankinn og stjórnvöld mögnuðu hér upp húsnæðisbólu og ofurgengi krónunnar, það er fólk sem er ekki sjálfrátt, skilur ekki út á hvað réttlátt þjóðfélag gengur, ekki fyrr en óréttlætið brennur á þeirra skinni.

Tek það fram að ég þarf ekki á skuldaleiðréttingu að halda fyrir mig og mína, enda húsnæði í sögulegu lágmarki á mínum heimaslóðum þegar ég keypti það.  Og á bílinn skuldlausan.

En tel mig vera í sama bátnum og hinir, og tel hann ekki sjóferðahæfan ef lungað af ungu og menntuðu kynslóð landsins sé skilin eftir í skuldaþrældómi.

Í slíku þjóðfélagi vill ég ekki ala upp börn mín, ekki frekar en í þjóðfélagi kynþáttahyggju, fátækrahverfa, eða þjóðfélagi sem lifir á arðráni fátæks fólks í þriðja heiminum.

Og svo er réttlæti vegvísir að velmegun, velmegun allra, ekki bara sumra.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 23.11.2010 kl. 14:33

22 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Mibbó kl. 11.05  hittir naglann lóðbeint á höfuðið.  Tek undir hans ræðu.

Það sem er þó sagnfræðilega athyglisvert í þessu máli, er að svarnir andstæðingar í samfélagsmálum eru nú á einu máli;  AMX.is og jónas.is

Kannski vegna þess að verið er að hjóla í boltann en ekki manninn.

Persónulega finnst mér öllu alvarlegra að bankastjórar og æðstu stjórnendur bankana, sem sannarlega hafa sýnt fádæman dómgreindaskort í fjármálum, með því að skrifa undir skuldabréf, sem nemur tvöföldu ævistarfi flestra meðal jóna, og finnast allt í lagi að ganga um götur og torg og 400 fermetrana sína með nefið upp í loft, af því að búið er að afskrifa "dómgreindaskortinn og glóruleysið".

Fólk með flekkað "hrunavottorð" á ekki, ég endurtek ekki að gegna æðstu stjórnenda og ábyrgðastöðum í íslensku viðskiptalífi.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 23.11.2010 kl. 16:56

23 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það er leiðinlegt að horfa upp á að þú skulir lenda undir óhróðursdriti afturhaldsaflanna. Þeir gala hátt og hvellt en eiga lítinn hljómgrunn meðal almennings.

Takk fyrir alla þína vinnu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.11.2010 kl. 21:09

24 identicon

Marinó beinir því til mín að enginn munur sé á bloggi og því sem ég geri. Sem er auðvitað rétt, enda hef ég aldrei titlað mig annað en skrípóbloggara, sbr. Facebook síðu.

Af hluttekningu með honum, og hans opinberunum, skal ég útlista mín mál, því mér finnst það svo sjálfsagt.

Svo það upplýsist hér með þá var ég nánast skuldlaus við hrun, um 200 þúsund krónu skuldabréf hjá Byr Sparisjóði, sem stóð seinast þegar ég vissi í 120þúsund krónum, og einhver nokkur hundruð þúsund í bílaláni á 2003 árgerð af Nissan Almera. Lán sem fór mest upp fyrir 800 þúsund en stendur kringum 300 þúsund eftir meðferð dómskerfisins, útkoma sem ég er mjög sáttur við. Átti kringum 300 þúsund krónur á venjulegum verðtryggðum reikningi við hrun.

Ég er þriggja barna faðir en hef alla tíð leigt mér húsnæði þar sem ég átti ekki innistæðu fyrir útborgun í íbúð. Ég hafði þegar mest var 5 störf í einu, ég vann í þjónustuveri hjá Íslandspósti hf., skúraði hæð á Heilsugæslunni á Akureyri á kvöldin, fyllti á kæla í verslunum fyrir Vífilfell um helgar, gerði vefsíður í verktakavinnu, og stundaði mitt skrípó. Mestu skakkaföll sem ég varð fyrir við hrun var að störfin tíndust utan af mér að því marki að á skattkorti mínu í dag eru ónýttar 120þúsund krónur, sem hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Þó get ég glatt lesendur með því að ég er kominn í frábært starf í dag, mér og mínum til heilla.

Í þessari útlistun felst þó enginn áfellisdómur yfir þeim sem tóku lán þegar það var hægt og leituðust við að eignast sitt eigið húsnæði. Enda held ég að menn geti hæglega fundið mikla samúð í mínum verkum með skuldurum, og þeim sem leitast við að eignast húsnæði. TIl dæmis:

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/10/31/forsendur/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/10/30/vinglar/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/10/27/borga-borga/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/10/10/enn-einn-bjargvaetur/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/10/8/utblastur/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/10/4/thessi-stjorn-er-ekki-fyrir-millistett/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/10/3/bankinn-thinn/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/10/2/ekki-meiri-roluhatt/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/9/28/johanna-berst-vid-fataekt/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/9/22/oislenskt/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/9/17/litla-jafnadarmannshjartad/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/9/5/seint-illa-og-helst-ekki-neitt/

http://www.dv.is/gula_pressan/2010/8/30/vidskiptavild/

Og þetta eru bara myndir undanfarinna þriggja mánuða, tæpra. Hefði einhver ykkar fylgst með myndunum mínum, þá hefðuð þið tekið eftir þeim mun fleirum.

Það er nefnilega ekki þannig að maður þurfi sjálfur að vera lamaður til að kenna í brjósti og hafa samkennd með þeim sem lenda í bílslysum.

Ég hef gert eina skopmynd á dag síðan 15. nóvember 2008, og ykkur félögum í Hagsmunasamtökum Heimilanna hlotnast sá vafasami heiður að eiga einhver þau ergilegustu viðbrögð sem ég hef fengið.

Og svo ég reyni aðeins að hjálpa þér að lesa í sjálfa myndina, sem þið félagar eruð að missa ykkur út af, þá er djókurinn ekki að bloggarar megi eiga von á fyrirvaralausum úttektum á sínum skuldamálum, heldur að bloggarar telji sig hafa siðferðislega yfirburði gagnvart öðru fólki í almennri umræðu.

Eitthvað sem þú hefur séð ástæðu til að taka sérstaklega til þín.

Henrý Þór (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 21:49

25 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Henrý Þór, það var bara þetta eina atriði og ekkert annað sem mér fannst stinga í stúf.  Annað hef ég ekki um myndina að segja.  Ég vil þó taka það fram, að ég er ekki að reyna að hefja mig yfir einn eða neinn og hef aldrei gert það.  Ég t.d. kommentaði ekki á myndina, þó mig hafi langað það, en málið er að ég skyldi ekki helminginn af því sem stóð þar og fann alls ekki samsvörun við mig.  Ég hef aldrei beint þeim orðum til Steingríms og Jóhönnu sem þú vísar til.  Ég hef einmitt frekar sagt að ég sæi ekki að nýju fólki væri eitthvað betur treystandi.  Fólk hefur ítrekað skorað á mig í framboð og ég hef einmitt spurt það að því af hverju það haldi að ég verði eitthvað betri.  Ég hef líka ítrekað tekið fram að ég tryði ekki öðru en að allir innan stjórnkerfisins og stjórnsýslunnar væru að gera sitt besta, en þá skorti oft tæki, menntun, þekkingu, skilning og rétta ráðgjöf.  Þessu getur þú öllu flett upp.

Nú ég sem bloggari kem þessu máli ekkert við, enda væri það nú orðið einkennilegt ef menn færu að elta ólar við bloggara.  Nei, það er verið að eltast við mig sem stjórnarmann í HH og það er aðför að lýðræðislegri umræðu.  Ef menn geta ekki tjáð sig opinberlega um ákveðna hluti án þess að eiga á hættu að vera teknir af lífi í fjölmiðlum er grafalvarlegt mál.  Frétt DV opnaði ormagryfju og upp úr henni spýtist óþverri yfir mig og fjölskyldu mína frá einstaklingum sem ekki er hægt að lýsa á neinn hátt nema sem sinnissjúkum.  Ég ætla ekki að nefna nein nöfn og sumir þeirra eru einfaldlega veikir á geði og þeim verður bara að taka eins og þeir eru.

Áhugaverð þessi viðbrögð.  Fréttatíminn upplifði víst líka heiftarleg viðbrögð.  Fólki er misboðið og finnst að sér vegið.  Nú verð ég vændur um það í hvert einasta skipti sem ég tjái mig um þessi mál að ég sé að þessu af eiginhagsmunasemi og engu öðru.  Ég get alveg sagt það, að það hefur aldrei markað málflutning minn þetta og hitt væri nauðsynlegt að gera vegna þess að ég væri í einhverri stöðu.  Ég aftur getað tjáð mig um hluti af eigin reynslu og þannig skilið stöðu þeirra sem ég ræði við betur.  Nákvæmlega eins og óvirkur fíkill eða aðstandandi fíkils skilur stöðu fíkla betur.  Nú er það aftur orðinn glæpur að hafa orðið fórnarlamb glæps.  Merkilegt hvað hægt er að snúa hlutunum á hvolf.

Mér finnst þið Halldór (á Fréttablaðinu) vera almennt mjög góðir í ykkar þjóðfélagsrýni og eruð nokkrum gæðaflokkum fyrir ofan þá á Mogganum.  Ég er ekki alltaf sammála þér og ekkert frekar Halldóri, en ég veit að þetta er þjóðfélagsrýni.  Það er því á vissan hátt heiður að vera tekinn fyrir.

Takk fyrir innlitið.

Marinó G. Njálsson, 23.11.2010 kl. 22:31

26 identicon

„Ég hef aldrei beint þeim orðum til Steingríms og Jóhönnu sem þú vísar til.“

Ja hérna! Ætlar þú að saka efnislið sem kallar sig Gulu Pressuna um að skálda og fara frjálslega með staðreyndir?

Ég krefst tafarlausrar afsökunarbeiðni og heilsíðu auglýsinga í öllum helstu dagblöðum. Eigi síðar en strax!

En að gríni slepptu, þá eru engin skot varðandi skuldastöðu þína eða þíns heimilis í myndinni, ekkert minnst á upphæð þeirra, stærð húsnæðis, fjölda lána, eða neitt slíkt. Ekki að það hefði verið hrikaleg illmennska að tíunda það sem þegar hafði birst í blöðum.

Svo ég held að þú, í það minnsta, hafir mig fyrir rangri sök.

Henrý Þór (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1677709

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband