Leita í fréttum mbl.is

Ánægjulegt að kaupmáttur launa aukist, en afborganir lána hækka meira. - Verðhjöðnun í júlí

Gott er að sjá að Hagstofan hafi fundið það út að kaupmáttur sé að aukast.  Ég verð að viðurkenna, að ég finn lítið fyrir því.  Einnig reikna ég með að lífeyrisþegar landsins fari alveg á mis við þessa kaupmáttaraukningu, enda hafa stjórnvöld lítið gert annað undanfarið eitt og hálft ár, en að skerða kjör þeirra.  Það er kannski ekki mælt í kaupmáttarvísitölunni.  Gunnar Axel Axelsson, starfsmaður Hagstofunnar, getur kannski frætt lífeyrisþega um það.

Annað sem er rétt að fólk hafi í huga, sem er með greiðslujöfnuð lán, að 2,2% hækkun launavísitölu milli mánaða og minnkun atvinnuleysis hefur í för með sér hækkun á afborgunum lána sem fylgja greiðslujöfnunarvísitölu.  Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofnunar þá hefur greiðslujöfnunarvísitalan hækkað frá 97,6 stigum fyrir júlí í 100,6 stig fyrir ágúst eða um 3,1% á milli mánaða.  Það er ígildi um 40% hækkunar á ári.  Á síðustu 12 mánuðum þá nemur hækkunin 6,7%.  Skýtur það skökku við, að þrátt fyrir að sífellt færri heimili nái endum saman við hver mánaðarmót, þá eru lántaka þegar byrjaðir að borga til baka "kreppuhala" greiðslujafnaðra lána.  Ég verð að viðurkenna, að það er a.m.k. tveimur árum fyrr en ég reiknaði með í útreikningum mínum í fyrra haust.

Rétt er að benda á, að greiðslujöfnunarvísitalan er þegar orðin hærri en hún var í nóvember 2008, sem er viðmiðunarmánuður fyrir grunngildi vísitölunnar.  Vissulega ber að fagna þessu, þar sem það þýðir að samkvæmt opinberum mælingum þá er það versta yfirstaðið.  Það er sem sagt búið að reikna okkur út úr kreppunni.  Ég er aftur ekki viss um að það sé rétt.  Að nota launavísitölu sem mælikvarða fyrir greiðslujöfnunarvísitöluna er náttúrulega arfavitlaus aðferð.  Laun mæla nefnilega ekki greiðslugetu, þar sem hækkun skatta vegur á móti.  Hagsmunasamtök heimilanna bentu á, að betra hefði verið að nota kaupmátt sem mælingu.  Í þessu tilfelli hefði það ekki skipt öllu máli.

Við getum huggað okkur við, að vísitala neysluverðs hefur líklega lækkað verulega frá júní.  Gunnar Axel, stafsmaður Hagstofunnar, segir það raunar beint út:

Ástæðan fyrir hækkuninni nú er einkum 2,5% almenn launahækkun, sem varð 1. júní, og á sama tíma hefur vísitala neysluverðs verið að lækka.

Kaupmáttur jókst um 2,6% meðan launavísitalan hækkaði um 2,2% milli mánaða.  Mismunurinn getur bara komið til vegna lækkunar á vísitölu neysluverðs.  Nú veit ég ekki hvernig þetta er reiknað, en af vef Hagstofunnar má lesa eftirfarandi:

Kaupmáttur sýnir hversu mikið af vöru og þjónustu hægt er að kaupa fyrir laun. Óbreyttur kaupmáttur frá fyrra ári þýðir að hægt er að kaupa sambærilega vörukörfu og fyrir ári. Kaupmáttur er oftast reiknaður sem breyting launa að teknu tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs. Kaupmáttur eykst þegar laun hækka umfram verðlag en minnkar þegar verðbólgan er meiri en launahækkanir.

Byggi útreikningurinn á því að ∆(VL+VNV) = ∆Kaupmáttar (∆ - þýðir breyting), þá er lækkunin á vísitöluneysluverðs 0,4%.  Ráðist þetta aftur á hlutfallareikningi, þá fáum lækkun vísitölu neysluverðs á bilinu 2,6 - 3,0%.  A.m.k. er ljóst að lækkun vísitölunnar er aldrei undir 0,4% og líklegast talsvert meiri. Hver sem aðferðin er við útreikning á kaupmætti, þá geta lántakar verðtryggðra lána búast við að sjá höfuðstól lána sinna lækka eitthvað á greiðsluseðlum sem kma um tvö næstu mánaðarmót.

 

 


mbl.is Fyrsta hækkun frá janúar 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta er einmitt það sem verðtryggðu lánin mín eru búin að vera að bíða eftir alveg frá hruni, því þá þóttist ég strax sjá fyrir minnkandi eftirspurn í hagkerfinu og miklar afskriftir í bankakerfinu. Allt hefur þetta svipuð áhrif og þegar peningamagn í umferð dregst saman, sem skv. einföldustu hagfræði ætti einmitt að valda verðhjöðnun.

Það sem af er þessu ári hefur verðlag hjaðnað þrisvar á milli mánuða og nú síðast tvo mánuði í röð, sem kemur fram í því að þriggja mánaða verðbólga mælist neikvæð og tólf mánaða verðbólga er á hraðri niðurleið. Ég held að verðtryggðir lánþegar ættu að fylgjast vel með þessu, kannski er að fara í gang sú óhjákvæmilega leiðrétting sem þarf að eiga sér stað. En í stað þess að það gerist með stýrðu ferli undir handleiðslu yfirvalda gegnum þennan ólgusjó, þá gerist það fyrr eða síðar undan fullum þunga markaðslögmála með öllum þeim sársauka sem því fylgir. Nema ríkisbankastjórnin grípi til enn meiri skattahækkana til að halda uppi verðlagi og blása þannig lofti í verðtryggð eignasöfn bankanna... Hvora leiðina sem þetta fer er útlit fyrir að það bitni harðast á þeim sem standa tæpast, en þeir sem eiga borð fyrir báru muni sleppa betur.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.7.2010 kl. 16:09

2 Smámynd: Anderson

Sæll Marínó

Ef formúlan byggist á mismuni, ætti hún þá ekki að vera:
del(VL-VNV)?
Líklega er þetta þó unnið út frá hlutföllum frekar en mismuni.

Persónulega er ég, Anderson, afar glaður með hóflega verðhjöðnun þar sem lánin mín lækka en lífeyrissparnaðurinn minn lækkar hins vegar að sama skapi sem er ekki eins gaman.

Anderson

Anderson, 21.7.2010 kl. 16:55

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Anderson: Það skiptir ekki máli þar sem þetta er allt afstætt. Ef verðtryggðar skuldir eru hærri en verðtryggðar eignir, þá græðir þú á verðhjöðnun. Ef því er öfugt farið þá tapar þú, a.m.k. til skemmri tíma. Helsti munurinn er samt sá að verðmæti lífeyrissparnaðar raungerist ekki fyrr en þau ferð á eftirlaun, en afborganir verðtryggðra lána taka breytingum innan tveggja mánaða frá sveiflum í verðlagi. Tímafaktorinn er líklega sú stærð í peningamálum sem oftast vill gleymast.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.7.2010 kl. 17:36

4 Smámynd: Anderson

Sæll Guðmundur,

Mér finnst þetta pínu furðulegt. Ef ég er með verðtryggðan lífeyrissparnað þá breytist verðmæti eignasafnsins strax á þeim tíma óháð því hvenær það fæst greitt. Hins vegar er ákveðin upphæð sem maður fær greidda eftir óralanga tíð mun minna virði en sama upphæð sem maður fær greidda í dag. Þar er tímafaktorinn að verki. En ég er líklega sammála þér, þessi time-preference er það sem oftast vill gleymast.

Anderson, 22.7.2010 kl. 17:28

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Hello Mr. Anderson" ;)

Það sem ég á við er að sveiflur sem verða til skamms tíma hafa jú áhrif á stöðu lífeyrissparnaðar á hverjum tíma, en það sem skiptir þig hinsvegar máli á heildina litið er langtímaþróunin þangað til að útgreiðslu lífeyrisins kemur, þá fyrst raungerist verðmæti hans. Afborganir af lánum lækka hinsvegar strax ef það verður verðhjöðnun núna, og í augnablikinu er það eitthvað sem myndi gagnast mjög mörgu fólki. Þarna vegast á langtíma og skammtíma sjónarmið.

Ég held að til lengri tíma litið geti það varla þjónað heildarhagsmunum að hafa hálfa þjóðina í óleysanlegri skuldaklemmu. Það gæti t.d. skert getu fólks í framtíðinni til að leggja fyrir lífeyrissparnað, og þar sem það eru sameignarsjóðir gæti það haft óbein áhrif á aðra lífeyrisþega, og þannig getur vandinn smitað út frá sér. Svo græða fyrirtækin í landinu (sem eru að hluta til í eignasöfnum lífeyrissjóða) ekki heldur neitt á því ef fólk á aldrei afgangspening til að eiga viðskipti við þau. Svona geta verið margvísleg hliðaráhrif sem sjást ekki nema maður skoði heildarmyndina.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.7.2010 kl. 03:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1678155

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband