Leita í fréttum mbl.is

Pólitískar vangaveltur hjá ópólitískum manni

Ég var að lesa færslu á Silfrinu hans Egils og umræðuna sem þar kom upp.  Ég var byrjaður að skrifa athugasemd, en hún eiginlega þróaðist út í þessar vangaveltur hér.  Þær spunnust út frá því að Guðbjörn Guðbjörnsson sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum í kjölfar samþykktar flokksins um að draga til baka ESB umsókn.  Hér eru vangaveltur mínar:

Fróðlegt að lesa þessa umræðu (þ.e. á Silfrinu) um þörf á flokki á mið-hægri væng.  Furðuleg afmörkun, þegar vængirnir eru orðnir jafn þokukenndir og raun ber vitni.  Eina stundina er Sjálfstæðisflokkurinn vinstra megin við Samfylkinguna í félagshyggju og aðra er VG hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn í frjálshyggju allt eftir því hvert málefnið er.

Ég held að það sem Ísland þarf er flokkur fyrir fólkið.  Hvort að hann er vinstri hægri snú flokkur eða hægri vinstri snú flokkur skiptir ekki máli.  Bara að hann beri hagsmuni almennings fyrir brjósti og leysi úr málum sínum á lýðræðislegan hátt.  Hvað eru t.d. raunverulega margir á Íslandi sem vita hvort aðild að ESB er jákvæð eða neikvæð?  Hvað felst í aðildinni, hvað við fáum og hverju við fórnum?  Ég tel mig alveg þokkalega upplýstan mann, en ég get ekki sagt af eða á hvort ESB aðild er það sem hentar okkur, en ég veit fyrir víst, að við eigum að stefna að því að uppfylla öll skilyrði inngöngu og öll skilyrði fyrir upptöku evru óháð því hvort við förum í ESB eða tökum upp evru, vegna þess að það er alveg örugglega til hagsbóta fyrir almenning!

Gallinn við fjórflokkinn er sagan og þeir hlekkir sem hún lætur þá dragast með.  Þetta er saga sérhagsmuna, spillingar, afneitunar, mistaka, óeiningar, efnahagsóstöðuleika, getuleysis, úrræðaleysis og svona gæti ég haldið lengra áfram.  Nú segir einhver að VG eigi ekki slíka sögu.  En dettur einhverjum heilvita manni í hug að skilja að sögu VG og Alþýðubandalagsins?  Samfylkingin neitar ekki uppruna sínum í Alþýðuflokknum, þó hún sé löngu búin að gleyma út á hvað sá flokkur gekk.  Þingstörf í vetur hafa sýnt okkur að Samfylkingin er orðin að hagsmunagæsluflokki fyrir fjármagnseigendur og VG hefur dregist inn í það.  Öðru vísi mér áður brá að sósíalistar og sósíaldemókratar taki upp hanskann fyrir auðvaldið til að lemja niður almúgann!  Og á sama tíma tekur flokkur atvinnurekenda upp hanskann fyrir almúgann (fyrirgefið mér þetta Sjálfstæðismenn, en hlekkir sögunnar segja að þið séuð hagsmunagæsluflokkur atvinnurekenda).

Það verður engin breyting í bráð hjá fjórflokknum.  Í gær fékk Sjálfstæðisflokkurinn kjörið tækifæri til að breytast.  Hann gat kosið almennan flokksmann í embætti varaformanns.  Ólöf er örugglega fín.  Kannast við hana af Nesinu, en hún er hluti af flokksverkinu - kerfinu.  Auk þess er hún konan hans Tomma, sem rekur eitt stærsta fyrirtæki landsins.  Áður var Þorgerður Katrín varaformaður, sem ég þekki líka frá gamalli tíð, metnaðarfull og klár kona, sem hafði unnið sig upp í efri stéttir þjóðfélagsins.  Og það er punkturinn.  Í gær gat Sjálfstæðisflokkurinn færst nær almúganum, en hann kastaði því tækifæri frá sér.  Ég vil samt óska Ólöfu til hamingju.  Það var þá loks að Seltirningur varð varaformaður flokksins.  Gamla Gróttufólkið er farið að raða sér út um allt í þjóðfélaginu Smile

Samfylkingin er ennþá að ákveða hvað hún ætlar að gera.  Jóhanna sagðist ekkert vera á förum, en hefur greinilega misskilið hlutverk sitt sem forsætisráðherra.  Í því embætti er einmitt gott að vera á ferðinni, þ.e. út á meðal almúgans.  Hún getur það náttúrulega ekki, þar sem hún gæti lent í sömu klemmu og skoðanabróðir hennar hann hr. Brúnn sem lenti á konu með óheppilega skoðun.  Jóhanna, hann Hrannar getur ekki verndað þig endalaust fyrir staðreyndum um stöðuna í þjóðfélaginu.  Ennþá verra hjá Samfylkingunni er að allir innan hennar ganga í sama vitlausa múgsefjunartaktinum.  Það er sama hvaða vitleysa kemur frá flokksforustunni, enginn þorir að víkja af línunni.  Jábræðralagið skal standa þó ekkert vit sé í því.  Síðan á Samfylking bara eitt svar við öllu: ESB, ESB, allt er betra í ESB.  Þessi mantra er orðin svo vandræðaleg, að maður er farinn að óttast að fólkið gangi í dáleiðslu og fari sér að voða.

VG kettirnir eru frekar kindugir, því þeir rata alltaf í réttum fjölda heim, þó ekki séu alltaf þeir sömu heima!  Þetta er eitt furðulegasta leikrit sem ég hef upplifað.  Ein Lilja er alltaf með eigin skoðun meðan önnur Lilja fylgir formanninum.  Þriðja Liljan hoppar á milli.  Ég er ekki viss um að Eysteinn hafi kveðið um svona Liljur, því þá hefði kvæðið ekki orðið jafn fagurt og raun bar vitni.  Hann hefði sífellt þurft að breyta bragarhættinum.  Innan VG er furðulegt safn þingmanna og skil ég ekki hvernig Álfheiður Ingadóttir getur átt heima þarna.  Hún hefur ekki í sér að taka afstöðu með almúganum.  Á hinum endanum eru eins rauðir kommar og hægt er að hugsa sér.  Takt þekkir flokkurinn ekki, en mér finnst það samt fela í sér vissan sjarma.

Svo er það Framsókn.  Ég talaði á miðstjórnarfundi flokksins um daginn um stöðu heimilanna.  Ég sagði þeim eitt og annað og hafði á tilfinningunni, að fyrir utan mesta lagi 10 manns í salnum, þá vissi þetta fólk ekki hvað var að gerast.  Sorglegt.  Sama gerðist raunar þegar ég hélt erindi hjá Sjálfstæðismönnum í fyrra.  Afneitunin eða sambandsleysið við þjóðfélagið er átakanlegt.  Tek þó fram að innan Framsóknar er alveg hörkudugleg kona, Eygló Þóra Harðardóttir.  Stundum finnst mér kröftum hennar sóað innan flokksins.  Sama á við um Unni Brá hjá Sjálfstæðisflokknum og ég skil alls ekki hvað Lilja Móses þolir lengi við í VG.  Ég held í einlægni að Framsókn vilji vel, en hann hefur bara enga vigt.  Það hlustar enginn á flokkinn, enda engin þörf á því.  Tilvistarkreppa hans hlýtur því að vera svakaleg. Ekki bætir úr skák að hann hefur leitað í smiðju Einars Ágústssonar, en eins og þeir sem muna eftir þeim mæta manni vita, þá fékk hann viðurnefnið "já, já - nei, nei", af því að hann gat aldrei haft skoðun á neinu eða skipti um skoðun á milli viðtala.

Fjórflokkurinn er að grafa sína gröf.  Það sýndu sveitastjórnarkosningarnar um daginn.  Sjálfstæðisflokkurinn barði heldur betur í brestina í gær og nú er spurningin hvort hann hrökkvi í sundur.  Ístöðuleysi flokksins er ótrúlegt.  Hann tekur 180 gráðu beygjur þegar það hentar honum, þó það gangi stundum þvert á landsfundarsamþykktir.  Maður hefur á tilfinningunni að skoðanakannanir ráði för.  Þrátt fyrir þetta mun fjórflokkurinn lifa af meðan að fólk hefur ekki annan og traustan kost.  Þökk sé Borgarahreyfingunni, þá verður ekki hægt að treysta að grasrótin geti komið sér saman um eitt eða neitt.  Ég er ekki að taka afstöðu í því máli, bara segja að þessi uppákoma olli skaða.  Ég hef rætt nokkrum sinnum við Margréti og Þór, en Birgittu varla svo heitið getur í nær 20 ár.  Ég held samt ekki, að þau hrófli mikið við fjórflokknum.  Hvað með Besta flokkinn og slík framboð?  Mér finnst alveg fínt að hafa Jón Gnarr í Reykjavík og vil fá að fylgjast með honum úr fjarlægð áður en álit verður gefið út.  Vona bara að hann verði betri stjórnandi en Georg Bjarnfreðarson.

Bara svo það sé á hreinu, þá er ég ekki að hugsa um uppreisn eða framboð gegn fjórflokknum.  Ég held að pólitík sé mannskemmandi, a.m.k. eins og hún er stunduð í dag.  Sjáum bara hvernig ráðherrastarfið hefur farið með ljúfan mann, eins og Gylfa Magnússon.  Hann glataði sakleysi sínu, en það sem verra er, að mér sýnist hann hafa glatað hugsjónum sínum.  Ég vona hans vegna að hann fái sem fyrst að snúa til fyrri starfa, því ég get ekki séð að honum líði vel í því sem hann er að gera. Ég held líka að Pétur Blöndal hafi alveg sagt satt þarna um daginn.  Þetta er illa launað og ákaflega slítandi starf fyrir þá sem stunda það af einurð.  Vinnutíminn er heilsuspillandi og álagið líka, þó svo að landsmenn sjái alltaf ofsjónum yfir þinghléum, þá kæmi mér ekki á óvart að árlegur vinnutími þeirra þingmanna sem mest leggja á sig sé langt yfir þessum 1.600 tímum sem hinn almenni launamaður á að skila.  Ég er alveg handviss um að Alþingi brýtur oft mjög gróflega gegn lögum um hvíldartíma og um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað.  Svo má ekki gleyma að hver sem er svo vitlaus að láta kjósa sig þarna inn, er búinn að gefa út opið skotleyfi á allt sem viðkomandi segir og skotin koma án tillits til þess hvort ummælin voru viturleg eða ekki.  Er ég sko alls ekki saklaus af slíkri skothríð. 

Því vil ég að lokum þakka öllum þingmönnum fyrir störf þeirra frá síðustu kosningum.  Þó ég sé ekki sáttur við allt sem þið gerðuð, þá vona ég að þið hafið verið, í ykkar huga, að leggja ykkur fram fyrir þjóðina.  Meira get ég ekki farið fram á.  Nú ef þið eruð ekki sannfærð um að þið hafið verið að leggja ykkur fram, þá hafið þið líklegast þrjú ár til að bæta úr því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Þegar ég las þennan pistil hjó ég eftir þessu sem þú segir um þessa hringsnúninga stjórnmálamanna og flokkanna.  Þetta minnir mig á þegar ég var að byrja að prófa mig áfram með forritun, fór nú aldrei í skóla til að læra þetta, þetta var allt saman "trial and error" hjá manni, en maður lærði af mistökunum og óx ásmegin.  Mér finnst þetta ástand sem þú lýsir minna óneitanlega á "trial and error".  Ef þetta virkar ekki, þá bara prófum við að breyta um stefnu 180 gráður og sjá ef það virkar betur.  Það sem mér finnst vanta er að læra af mistökunum

Rannsóknarskýrslan kom með ýmislegt sem var gert rangt, en hingað til hef ég séð afskaplega lítið sem tekur á því hvað má læra af öllum þeim mistökum sem gerð voru undanfarinn áratug.  Stjórnmálamenn hafa talað hátt og digurbarkalega um öll mistökin sem gerð voru og "að nú verða menn að læra af mistökunum" en enginn segir mikið um hvað menn eiga að læra eða hvað menn eru að læra! 

Ég hef ekki fylgst nógu vel með þessum nýju lögum um fjármálafyrirtæki sem hafa verið og eru e.t.v. enn í meðförum þingsins, en ég er óskaplega hræddur um að það sé ekki verið að læra af mistökunum.  Að ekki sé verið að horfa fram á veginn og reyna að koma í veg fyrir framtíðarvandamál.  Mér finnst að það sé meiri áhersla á að þrástaga í götin í staðin fyrir að prjóna nýtt.  Stundum þarf maður að henda kóða og byrja alveg upp á nýtt.  "Been there, done that";)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 27.6.2010 kl. 06:40

2 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Ég var mjög ánægð með hvað grasrótin er orðin öflug að tjá sig og það sást vel á landsfundinum. Greinilegt er að grasrótin í Sjálfstæðisflokknum ætlar að ná flokknum sínum til baka og láta í sér heyra. Mjög áberandi var í málefnastarfinu og í stjórnmálaályktuninni að Sjálfstæðisflokkurinn vill almenn úrræði fyrir lántakendur með verðtryggingu og fagnar dómi Hæstaréttar.

Ég var ekki endilega sammála lokaniðurstöðu um ESB, heldur var ég hlynntari málamiðluninni það er setja á "hold" meðan við stefnum að því að uppfylla Maastricht og sjáum hvernig ESB þróast á meðan.

Niðurstaða þessa landsfundar er að allar línur hafa skýrst en kannski dregur hann svolítinn óróadilk á eftir sér. Það verður svo að vera, hinn almenni flokksmaður talaði, kaus og valdi niðurstöðuna.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 27.6.2010 kl. 07:53

3 identicon

Takk fyrir áhugaverða greiningu.

Mér hefur oft fundist skera í augun hvað stjórnmálaflokkar eru viðkvæmir fyrir hugsjónaskipbrotum.

Þótt flestir vilji vel sem starfa á vettvangi flokkanna er alltaf stutt í hagsmunapot, spillingu, klíkuráðningar og þar fram eftir götunum. 

Vel meinandi fólk sem maður leyfði sér að hlusta á og vonaði að myndi sýna orð sín í verki snýr síðan bara við blaðinu og ver hagsmuni fjármálafyrirtækja sem áttu stóran þátt í hruninu -og sem í þokkabót hafa brotið lög. 

Er von að fólki fallist hendur? 

Í hugsjónaskipbrotinu bíður almenningur yfirleitt skaða og nægir að líta til verðtryggingahryllingsins og þess nútíma þrælahalds sem íbúðalán eru. 

Og ef einhver spyr mig hvað sé þá til ráða? Hvað ætti að koma í stað hefðbundinna stjórnmálaflokka hef ég náttúrulega engin svör. Ætli ég sé ekki vonlaus rómantíker. Þori ekki fyrir mitt litla líf að ganga til liðs við stjórnmálaflokka af ótta við að hugsjónin kafni.

En ég veit hvernig samfélagi ég vil lifa í. 

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 27.6.2010 kl. 09:02

4 identicon

Flokkakerfið þjónar ekki lengur hagsmunum almennings. Maður vill geta verslað í smásölu en ekki í heildsölu. Enginn getur keypt heilann pakka af skoðunum hjá einum flokki. Stjórnmál eru orðin blanda af hugmyndafræði og tæknilegum úrlausnarefni. Það er ekkert vinstri sinnað að vera umhversverndarmaður. Það er ekkert hægri sinnað við að vera á móti inngöngu í ESB. Það er ekkert vinstri sinnað við að vilja ekki afskipti AGS, né hafa áhyggjur af spillingu í fjármálakerfinu.

Við þurfum að fara að færa okkur nær svissnesku leiðinni, þar sem kosið er um tæknilegu málin og þannig leysa menn sinn ágreining án átaka. 

Hugmynd þín Marinó um flokk fyrir fólkið, þá er þetta góð lausn tímabundið, til að hreinsa til og koma á breytingum, sem núverandi flokkakerfi ræður ekki við að gera.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 27.6.2010 kl. 10:38

5 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Ég er óssammála ykkur um að flokkar séu úreldir. Flokkarnir eru bara fólkið sem er í þeim, það skapar flokkana en ekki öfugt. Það er engin önnur leið til þess að finna skoðunum sínum farveg á eins áhrifaríkan hátt en að flokka sig með hópi annarra sem hefur skoðanir sem eru sem líkastar þínum. Aftur á móti þarf að auðvelda þjóðaratkvæði og ekki bara láta Alþingi fá þau völd. Ef flokkur er að fara í einhverja allt aðra átt en landsfundir eða kosningarkynningar gáfu í skyn, þ.e. út fyrir umboð sitt líkt og VG gerði, verður að vera hægt að stoppa þá á vegferð sinni. Til þess ætti t.d. að þurfa þriðjung alþingismanna eða 10-20% þjóðarinnar.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 27.6.2010 kl. 10:53

6 identicon

Adda, þá verður að koma þeirri breytingu á sem þú nefnir. Við í félaginu Þjóðaratvæði, hyggjumst berjast fyrir því.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 27.6.2010 kl. 11:08

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Bara svo enginn misskilji mig, þá getur einn fjórflokkanna eða þeir allir orðið þessi flokkur fyrir fólkið.  Þeir eru það bara ekki í dag að mínu viti.  Það getur líka verið að það þurfi nýjan flokk.

Adda, þú segir að grasrótin sé öflug, en hvar sést það?  Er grasrótin með talsmann í forystusveit flokksins?  Er grasrótin með nægilegt sjálfstraust til að storka forystunni með því að samþykkja tillögur sem ekki eru fyrirfram samþykktar af forystunni?  Hvað voru margar álytkarnir samþykktar á landsfundinu, sem Bjarni var á móti?  Ég veit það ekki, þess vegna spyr ég. 

Marinó G. Njálsson, 27.6.2010 kl. 12:50

8 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Það urðu t.d. veigamiklar breytingar á stjórnmálaályktuninni. Líkt og mikið hefur verið fjallað um var gripið fram fyrir vilja Bjarna og Einars K um að samþykkja ekki málamiðlunartillögu um aðildarumsókn heldur hafa hana meira afgerandi, þá var þess krafist að taka fyrir ályktun um styrkjamálin og sú ályktun staðfest með miklum meirihluta.... þetta varða þrátt fyrir að þetta er bara auka landsfundur sem ekki var ætlað að taka veigamiklar ákvarðanir. Eru þetta ekki fáein dæmi? Sömu aðilar sem ætla að ganga úr flokknum vegna þessa, kvarta nú yfir að yfirstjórn ráði öllu en samt var það hinn almenni flokksmaður sem tók fram fyrir hendurnar á formanni og krafðist afgerandi afstöðu gegn aðild. Þessir aðilar sætta sig því ekki við að yfir 90% fundarmanna segði nei. Þá var í ályktuninni fjallað um að stefna að meira og beinna lýðræði og tengingu við vilja hins almenna kjósanda. Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst töluvert verið kryfja endurreisnina með tilliti til Rannsóknarskýrslunnar.

Mikið af málefnavinnunni þar sem farið var fram á töluverðar breytingar er svo notað til að vinna að endanlegri útfærslu á næsta Landsfundi næsta vor. Sjálfstæðisflokkurinn er og var alltaf lýðræðislegasti flokkurinn og ætlar að bæta um betur. Hvar annarstaðar eru yfir þúsund manns á landsfundum?

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 27.6.2010 kl. 14:39

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð grein hjá þér Marinó, að vanda.

Ég hef lesið flestar greinar þínar, sem ég hef komist yfir, síðan snemma í vetur. Það er ekki annað en hægt að dást af því hvernig þér hefur tekist að sneiða framhjá öllum pólitískum skrifum og einnig öllu því sem kallast skítkast. Þú kemur fram með upplýsingar og rökstyður þær með staðreyndum. Þegar einhverjir sem eru þér ósammála hafa kastað í þig óhróðri,  svarar þú með rökum. Enn tekst þetta hjá þér þó þú fjallir um stjórnmálaflokkana.

Því er varla annað hægt en að lesa þessa greiningu þína á fjórflokknum öðru vísi en með opnum huga. Vissulega er þarna margt sem er rétt, þó má ætla að hverjum flokksmanni finnist að þú deilir of mikið á sinn flokk en of lítið á hina.

Vandamálið er fyrst og fremst að erfitt er fá skynsamt fólk til að taka þátt í flokkapólitík. Þeir fáu sem hafa komist inn á þing vegna eigin ágætis, hafa oftar en ekki þurft að deila meira við sinn flokk en andstæðingana. Flokksvaldið er algjört. Þetta fólk hefur yfirleitt endst stutt á þingi, það gefast flestir upp þegar aðal slagurinn er við samherjana.  

Flokkarnir eiga hinsvegar fullann rétt á sér, þeir þurfa bara að hleypa grasrótinni nær flokksstjórninni. Í flestum þessara flokka er ágæt grasrót, flokksvaldið hleypir henni bara ekki að. Flokkar verða líka að hafa skýra afstöðu til allra stærri mála og standa við hana.

Vandi VG nú er fyrst og fremst vegna þess að meirihluti þingflokks þeirra hefur tekið upp þá stefnu að fórna flest öllum sínum gildum til að koma á stofn "hreinræktaðri vinstristjórn". Það er alveg klárt mál að ef "hægri stjórn" hefð gert, þó ekki væri nema brot af því sem núverandi stjórnvöld hafa gert, heyrðust hóvær og miður falleg ummæli á þingi frá "vinstri flokkunum". Þetta er vandi VG núna, þetta er vandi allra fjórflokkana í raun. Þeir hafa verslað með atkvæði fólksins að eigin vild.

Það er flokksvaldið sem þarf að uppræta og hleypa því fólki að sem hefur trú á stefnu síns flokks. Það þarf einnig að uppræta hugsunina "hægri/vinstri". Slíkt er ekki til lengur í raun og veru. Fyrir síðustu kosningar var til dæmis VG mun nær Sjálfstæðisflokknum í sínum hugmyndum en Samfylkingunni. Samt kom ekki til greina að þeir flokkar ræddust við, vegna "hægri/vinstri" sjónarmiða VG.

Einu áhrifin sem fólk hefur eru í kosningum, meðan ekki er raunhæfur möguleiki á öðru en fjórflokknum eru litlar líkur á að þetta lagist. Því gæti verið rétt að reyna að safna saman skynsömu fólki til að koma með raunhæft framboð gegn þeim. Erfitt gæti þó reynst að fá fólk til að taka þátt í slíku framboði, orðstýr þingsins er ekki upp á marga fiska núna.

Fyrir síðustu kosningar kom fram framboð Borgarahreyfingunnar, ekki tókst henni sem skyldi, hugsanlega verið of snemma á ferð. Illa fór fyrir þessum samtökum fljótlega eftir kosningar, klofningur og ósamstaða. Eftir sat Hreyfingin og einn þingmaður utan flokka.

Það verður að segjast eins og er að þingmenn Hreyfingarinnar hefur staðið sig mjög vel á þingi það sem af er, hugsanlega er þar komið afl sem gæti gert fjórflokknum grikk í næstu kosningum.

Gunnar Heiðarsson, 27.6.2010 kl. 14:42

10 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Marínó þú spyrð ennfremur hvar sést að grasrótin hafi áhrif í flokknum. Æðsta vald flokksins og það sem stýrir honum er Landsfundur þar sem flestir sem áhuga hafa á komast að. Landsfundur markar stefnuna og setur reglurnar. Mín reynsla er sú að þegar ég sýndi áhuga á að fara að starfa í flokknum stóðu mér allar hurðir opnar og mjög vel tekið á móti mér. Sama hef ég heyrt af öðrum og flokkurinn þrífst á áhugasömu og kröftugu fólki sem hefur mjög greiðan aðgang að forystumönnum hans. Þá er í bígerð að hinn almenni kjósandi fái að hafa meiri áhrif í stefnumótun og mikið starf unnið í þá átt sem betur á eftir að koma í ljós. Flokkurinn hefur alltaf verið í fararbroddi í lýðræðisátt meðal flokkanna og ætlar ekki að láta sitt eftir liggja núna og taka Rannsóknarskýrsluna alvarlega.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 27.6.2010 kl. 14:49

11 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Björn, Marínó og Gunnar; ég held að allir Íslendingar geti sammælst um að auðvelda þjóðaratkvæðagreiðslur óháð flokkum. Hrunið kenndi okkur að það þarf að vera hægt að gefa aðhald þegar beygt er af leið og ekki sé bara afhent atkvæði sem flokkarnir mega braska með að vild í fjögur ár. Sjáum t.d. þessa Ríkisstjórn, ég er sannfærð um að mikill meirihluti myndi vilja stoppa hana núna.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 27.6.2010 kl. 14:54

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar, takk fyrir þitt innlegg og góð orð.

Ég gæti svo sem farið í ennþá krítískari greiningu á flokkunum, en ég er ekki viss um að menn á þeim bæjum væru tilbúnir að vinna mikið með mér eftir það

Adda, ég efast ekki um að grasrótin er sterk í öllum flokkunum.  Hagsmunasamtök heimilanna létu reyna á það í vetur og það gekk vel.  Ég hef aldrei tekið þátt í flokksþingum og mun líklegast aldrei gera það, þó veit enginn sína ævi fyrr en öll er, en ég veit vel að þar fer fram umræða á grasrótarlagi.  Hitt er annað mál, að flokkarnir hafa ítrekað hunsað grasrótartillögur, sem samþykktar hafa verið á flokksþingunum.  Þær fá ekki brautargengi, þegar kemur að því að hrinda þeim í framkvæmd vegna þess að forystan er ósammála.  VG, Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn hafa öll gert sig sek um þetta á síðasta ári og raunar Sjálfstæðisflokkur alla tíð.  Það sem Davíð var ekki þóknanlegt sofnaði svefninum langa.  Það sem Geir vildi ekki vita af fór í ályktanir Landsfundar, en síðan var ekkert gert með það.  Nú verður Sjálfstæðisflokkurinn að afsanna að ályktanir sem eru formanninum ekki þóknanlegar fari lengra, að Landsfundur sé æðsta vald flokksins, en ekki skoðun formannsins.  Þangað til, þá stendur greining mín sterkum fótum, að mínu mati.

Marinó G. Njálsson, 27.6.2010 kl. 15:03

13 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Sæll Marínó,

Ágætis pælingar um stjórnmálaflokka. Nú veit ég að hugtakið ,,fjórflokkurinn" var fundið upp í stjórnmálafræðideild HÍ og er ágætt til að ná utan um hreyfingar kjósendahópa sem enda síðan alltaf á svipuðum slóðum og er ,,fjórflokkurinn" birtingarmynd þess. Hins vegar er staðreyndin sú að aðeins einn flokkur hefur starfað óslitið undir sama nafni frá árinu 1929 sem er Sjálfstæðisflokkurinn. Nú er ég eldri en tvævetra í stjórnmálum og hef starfað í tveimur stjórnmálaflokkum. Annar er ekki lengur til en hinn er Sjálfstæðisflokkurinn. Ég hef ekki verið virkur í Sjálfstæðisflokknum þó ég hafi verið þar félagi í á annan áratug. Ég mætti á minn fyrsta landsfund í fyrra eftir hrunið enda tel ég að enginn megi sitja hjá í dag. Ég sat minn annan landsfund um helgina.

Ég verð að segja að báðir þessir landsfundir hafa komið mér þægilega á óvart. Þeir hafa verið fjölmennir, þangað hefur mætt fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins og af öllu landinu. Þrátt fyrir þetta mikla fjölmenni, á annað þúsund manns, þá fer fram lýðræðisleg umræða og afgreiðsla með öruggum hætti að öllu jöfnu. Þannig eru mál krufin til mergjar, rædd fyrst í málefnanefndum fyrir landsfund, síðan í fagnefndum á landsfundi og síðan á landsfundinum sjálfum þar sem allir eru viðstaddir. Þar geta menn lagt fram tillögur sem ekki hafa fengið brautargengi í nefndum, eins og gerðist í gær með ESB tillöguna frá ungum sjálfstæðismanni og tillögu Rangæinga um styrkjamál trúnaðarmanna flokksins. Báðar tillögurnar voru samþykktar með þorra atkvæða. Jafnframt var ákveðið að hafa fyrri daginn í ,,þjóðfundarformi" þar sem öll sjónarmið komust að í níu manna umræðuhópum.

Þá mótmæli ég því að Sjálfstæðisflokkurinn hringsnúist. Ef þú átt við ESB stefnuna þá hefur hún alltaf verið að Ísland eigi ekkert erindi inn í Evrópusambandið, allra síst við núverandi aðstæður. Þar með er ekki sagt að sjálfstæðismenn vilji óbreytt ástand í gjaldeyrismálum. Það er önnur Ella enda Evran ekki fenginn þó Ísland gangi í ESB eftir 3 til 4 ár eða svo.

Það er alltaf auðvelt að afskrifa ,,fjórflokkinn" allan í umræðunni um Nýja Ísland og umbætur í stjórnmálum og bara búa til eitthvað nýtt - Besta eða Næst besta flokkinn. Stjórnmálaflokkur er ekkert annað en fólkið sem er í honum. Þess vegna er það í höndum félaga flokkanna að breyta þeim og ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn sé að breytast hægt og örugglega. Góðir hlutir gerast hægt og sérstaklega í gamalgrónum ,,íhaldsflokkum".

Þú ættir að skoða það Marinó að hefja þátttöku í einni stærstu fjöldahreyfingu Íslands. Ég hélt að þetta væru allt sjálfstæðismenn á Nesinu!

Jón Baldur Lorange, 27.6.2010 kl. 16:53

14 Smámynd: Jón Baldur Lorange

e.s. Ég sá ekki hin ágætu innlegg Öddu Þorbjargar fyrr en ég hafði send mitt innlegg. Ég tek undir allt sem kom fram hjá henni um lýðræðisleg og opin vinnubrögð á landsfundum Sjálfstæðisflokksins.

Jón Baldur Lorange, 27.6.2010 kl. 17:01

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Baldur, nú átt þú sem a.m.k. fyrrverandi Seltirningur að vita betur.  Faðir minn sat í sveitarstjórn og síðar bæjarstjórn fyrir H-lista og Framsókn.  Vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins á Nesinu voru á þeim tíma æði furðuleg.  Hvað eftir annað kom minnihlutinn með tillögur sem voru felldar, en síðan lagðar fram á næsta fundi af meirihluta með kommubreytingum og þá samþykktar.  Þetta er íslensk pólitík í hnotskurn.  Þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir í mínum huga og því er ég bólsettur fyrir lífstíð gegn því einu sinni að velta fyrir mér að kjósa flokkinn.  Þú getur sem sagt kennt Sigurgeir, Snæbirni, Magnúsi Erlends og fleiri íhaldssömum Sjálfstæðismönnum um að mín vistaskipti verða aldrei í þá átt, fyrir utan að Davíð var eins og hann var (og er).

En fyrst þú ert nú kominn inn á landsfundi flokksins, þá vil ég benda þér á rannsóknar efni:  Hvað hafa marga landsfundarsamþykktir ratað inn í þingmál Sjálfstæðisflokksins undanfarin 10 ár og hvernig var stuðningi flokksforystunar háttað gagnvart þeim málum sem ekki rötuðu sem þingmál eða unnið var þvert gegn í rikisstjórn og á Alþingi?  Það er nefnilega ekkert gagn af góðu og öflugu grasrótarstarfi nema forystan fylgi málefnum grasrótarinnar eftir.  Nú hef ég ekki hugmynd hver niðurstaða svona úttektra yrði en bíð spenntur eftir niðurstöðunni.  Það væri líka áhugavert að fá sambærilega úttekt framkvæmda hjá hinum flokkunum.

Marinó G. Njálsson, 27.6.2010 kl. 17:10

16 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Sæll fyrrum sveitungi,

Þetta væri áhugavert rannsóknarefni og spurning hvort einhver slík rannsókn hafi farið fram áður. Þetta væri fín BA eða MA verkefni í stjórnmálafræði.

Þetta kom einmitt upp í þeim hópi sem ég var í allt föstudagskvöldið (já svona fórnar maður sér fyrir málstaðinn). Við ræddum innra starf og þar var ofarlega á blaði gagnvirk vefsíða þar sem m.a. yrði hægt að fylgjast með framgangi landsfundarmála. Stjórnmálaflokkar verða að nýta sér möguleika upplýsingatækninnar í miklu meira mæli en nú er. Þannig gætu allir flokksmenn haft aðgang, komist í milliliðalaust samband við trúnaðarmenn, rökrædd mál sín á milli en aðalmálið er að vefsíðan sé lifandi og gagnvirk.

Jú, þetta var nú svona á Nesinu en Seltirningar hafa alltaf treyst sjálfstæðismönnum best til að stjórna bænum, enda ber reksturinn af miðað við önnur sveitarfélög.   

Jón Baldur Lorange, 27.6.2010 kl. 17:33

17 identicon

mikið til í þessu, en varðandi Hreyfinguna, Borgarahreyfinguna þá held ég að þú sért að misskilja !

 Klofninngurinn var óumflýjanlegur, enda hópur fólks með gífurlega missmunandi áherslur sennilega breyðari hópur en nokkurntíman hefur boðið fram undir sama hatt, og í raun gott hvað uppgjörið varð fljótt, en af þingmönnum Hreyfingarinnar er gott eitt að segja eru alla daga að berjast í td hefðum Alþingis og gengur nokkuð vel.

 En að segja að klofninngurinn hafi eyðilagt ! Bara orð í tómið, mikið mikið hefur áunnist og klárt mál að ekki skemdi framboðið (þrátt fyrir klofninng) fyrir hinni gígatísku sprenginngu er varð í sveitastjórnamálum þar sem í öðruhverju sveitafélagi kom fram íbúa-listi, og hvort sem það er XO framboðinu að kenna/þakka þá er mjög greinilegt hve lýðræðisáhugi þjóðarinnar hefur vaxið til mikilla muna, og fólk er farið að átta sig á að ALLIR er áhuga hafa eiga erindi í Lands/sveitastjórnar mál.

 Við erum farin að horfa á aðila snúa sig undan fjötrum flokkana í sí auknu mæli (og ekki bara Kristinn h Gunnarson) við horfum á XD álikta um að "auka þurfi aðkomu almennings" en eins og allir vita hefur svokallaður almenningur ekki talist með hingað til hjá XD nema reyndar í 2 mánuði á 4 ára fresti.

 Almenningur er farinn að átta sig á að hér hefur ríkt gerfi-lýðræði þar sem skríllnum er fróað á 4 ára fresti, og er að opna augunn fyrir því að í virku Lýðræði þarf að beyta vörnum ALLA daga en ekki bara í kosninngum.

 Hvort sem það er XO eða sem meiri líkur eru á einfaldlega bara tískunni að kenna, þá hefur verið höggvið svöðusár í the-four-flokk sem sennilega mun ekki gróa að fullu, en það er undir okkur öllum komið hvort sárið grær eður ei.

 Ég segi þakk Borgarhreyfing, Hreyfing, Besti, A-listinn en nr eitt þakk þjóð, við höfum sannað fyrir okkur sjálfum að fjórflokkurinn er ekki náttúrulögmál, veitum honum náðarhöggið og krefjumst persónukjörs ÞVERT á alla lista !

 Og síðast en ekki síst þakk Hagsmunasamtök Heimilanna fyrir þau kraftaverk sem þið hafið unnið ! Fyrst undir foristu Þórðar Björns og nú undir frábærri stjórn ykkar :-)

 hér eru komnar varanlegar breytingar í átt að virkara almannalýðræði með velferð einstalinga landsinns í sterkari forgrunni

Gretar Eir (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 08:33

18 Smámynd: Guðmundur Karlsson

Þú ert upplýstur Marinó, og þú veist að það eru eiginhagsmunasamtök útvegsmanna og bænda sem halda uppi áróðri gegn ESB. Það eru svo til engir útvegsmenn eða bændur í Hagsmunasamtökum heimilanna.

Hvað varðar heimilin og skuldavanda þeirra, þá þarftu varla að eyða miklum tíma í að bera saman stöðu skuldara í ESB og á Íslandi til að komast að því að hún er gjörólík. Innan ESB skilur enginn hvernig lántakendur á Íslandi láta bjóða sér þessi kjör. Heldur þú virkilega að afnám vísitölutryggingar, sem hlýtur að vera takmark Hagsmunasamtöka heimilanna, geti nokkurn tímann átt sér stað án inngöngu í ESB og upptöku Evru?

Það er mér fullkomlega óskiljanlegt að Hagsmunasamtök heimilanna skuli ekki lýsa yfir eindregnum stuðningi við inngöngu í ESB og upptöku Evru!

Guðmundur Karlsson, 28.6.2010 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 686
  • Frá upphafi: 1677708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband