Leita í fréttum mbl.is

Út í hött að verðtryggja lánin. Engin lausn að fara úr einum forsendubresti í annan.

Er línan frá Samfylkingunni núna að verða ljós?  Fyrst vildi Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, verðtryggja bílalánin með 15% refsingu og núna vill Mörður Árnason verðtryggja öll fyrrum gengistryggð lán.  Hafa þessi menn ekki lesið stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?  Í henni er nefnilega talað um að draga úr vægi verðtryggingar.

Það kemur alls ekki til greina að auka vægi verðtryggingar.  Hún er það sem er að sliga íslensk heimili, nema náttúrulega þessi örfáu sem eiga einhverja upphæð inni á verðtryggðum bankareikningum eða í verðtryggðum skuldabréfum.  Verðtryggingin neytendalána er eitur sem sýkt hefur þjóðfélagið og við verðum að losa okkur við hana.  Það er ekkert sem segir að opinberir aðilar geti ekki gefið út verðtryggð bréf, en ég verðtryggingin neytendalána er rugl.

Einn stjórnarmaður Hagsmunasamtaka heimilanna bar íslenska verðtryggða lánasamninga undir sænska bankamenn.  Sá fyrsti las þá yfir og ákvað að kalla á yfirmann sinn. Hann skoðaði þá lengi og spurði hvort þetta væri grín.  Stjórnarmaðurinn hristi hausinn.  Eru þetta falsaðir pappírar?  Af var hausinn hristur og málin skýrð að þetta væru þau kjör sem íslenskum húsnæðiskaupendum byðust.  Yfirmaðurinn hristi þá hausinn og sagði að hann vissi af mönnum í Suður-Evrópu sem væru þekktir fyrir okur, en jafnvel þeir væru ekki svona grófir!

Það kemur ekki til greina að skipta einum forsendubresti út fyrir annan.  Það kemur ekki til greina að fara úr einu formi eignaupptöku í annað.  Höfum í huga að verðbólga síðustu 40 ára var  82.262% eða að jafnaði 19,9% á ári, síðustu 30 ár var verðbólgan 5.214% eða 16,3% að jafnað á ári, síðustu 20 ár var verðbólgan 154% með hógværari 5,1% árlega verðbólgu, síðustu 10 árin var verðbólgan 84,7% eða 6,3% að jafnaði árlega og skoðum loks síðustu 5 ár, þá eru tölunar 50,3% og 8,3%.

Nei, takk, Mörður.  Við þiggjum ekki nýju snöruna þína í staðinn fyrir þá gömlu.


mbl.is Vill verðtryggingu á lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Bachmann

Takk fyrir þessa synjun á "tilboði" Marðar.

En Marinó - mætti biðja þig, heimilin.is eða Guðmund Andra að birta staðlað bréf – sem allir geta sótt og sent fjármálafyrirtækjunum sem þeir skipta við – til þess að fólk sé dekkað inn fyrir ásmurðum innheimtukostnaði og aðförum?

Og ein fróm ósk: Mætti ég biðja alla landsmenn að standa saman um að sækja okkar rétt núna – ekki bíða þar til einhverjir sem ganga bara erinda andskotans hrifsa hann af okkur – einu sinni enn.

Gerum það – ég bið ykkur.

Þórdís Bachmann, 22.6.2010 kl. 10:59

2 Smámynd: Sævar Einarsson

Ríkið getur reynt að breita mínu ólöglega láni í eitthvað annað en það er ólöglegt nema með minu samþykki og það mun ég ekki gera.

Sævar Einarsson, 22.6.2010 kl. 11:06

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þórdís, ég held alveg örugglega að Guðmundur Andri sé búinn af því, en skal skoða hvað ég kemst í að gera síðar í dag.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 11:07

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sævarinn, það er heila málið.  Við höfum lögin með okkur að þessu leyti.  Ekki má breyta samingi neytanda í óhag og það sem meira er, að sé vafi um túlkun samnings, þá skal túlkun neytanda gildi (36. gr. laga nr. 7/1936).

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 11:09

5 identicon

Afhverju ferðu ekki í einhvern flokk og býður þig fram? Það er ekki hægt að breyta forriti utan forritsins! Bara ekki hægt so...

Jón bóndi (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 11:14

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón bóndi, ég tel enn sem komið er að kraftar mínir nýtist betur þar sem ég er.  Þingstörf heilla mig ekki, en engin veit sína ævi fyrr en öll er.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 11:20

7 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Við verðum að koma öllum við sama borð getum við ekki verið samála um það? Þeir sem tóku innlend lán og sitja uppi með þau stökkbreitt út af ástandinu mega ekki vera úti meðan þeir sem tóku erlend lán og um leið töldu sig vera að taka áhættu verði í mun betri stöðu!

Sigurður Haraldsson, 22.6.2010 kl. 11:37

8 identicon

Marinó, þýðir þessi pistill að ofan að HH ætla næst að ráðast gegn forsendubresti verðtryggingunnar? Það er fagnaðarefni.

Hver er framtíðarsýn HH varðandi kjör íslenskra heimila? Er stætt á því að halda áfram með krónuna?

Daði Rafnsson (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 11:39

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Daði, HH hafa alla tíð barist gegn forsendubresti verðtryggingarinnar.  Við höfum bara ekki það úrræði að fara í mál.  Við erum búin að hafa það sem kröfu frá stofnun samtakanna að sett yrði 4% þak á árlegar verðbætur.  Nú munum við setja meiri þunga í okkar baráttu, en spurningin er eins og alltaf hvort stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hlusti á okkur eða hvort við þurfum liðsinni dómstóla.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 11:47

10 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

svona er réttlæti Marðar - http://brjann.blog.is/blog/fjas/entry/1069749/

Brjánn Guðjónsson, 22.6.2010 kl. 11:49

11 Smámynd: Einar Þór Strand

Marinó þú villt sem sagt að þeir sem voru ekki að spenna bogann of hátt fái mesta niðurfellingu en þeir sem voru skynsamir eigi að borga allt upp í top?

Einar Þór Strand, 22.6.2010 kl. 12:05

12 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Fólk sem tók gengistryggt íbúðalán átti oft engan annn kost, allir þurfa jú heimili og heimili eru til langs tíma. Hús geta orðið nokkur hundruð ára gömul, það á ekki við um bíla sem endast ekki lengur en þvottavél!

Um aldamótin fór dollar úr 70 í 130 kr ef ég man rétt sem þýddi að það var út í hött að taka gengistryggt bílalán, áháttan var of mikil. Keypti einhver þvottavél á myntkörfuláni? Og, ekki má gleyma að ENGIN var neyddur til að kaupa rándýra bíla.

Já, hvílur hégómi og eltingaleikur við mammon og smáborgaraháttur að þora ekki að læta sjá sig á gömlum en gangfærum bíl. Já, hvílik sýndarmennska og heimska. Það er svona eins og að kaupa Rolex á afborgunum.

Fólk á að leggja peninga til hliðar. Ef það getur það ekki á er best að nota strætó, hjóla eða ganga. Best er að safna fyrir bíl. Gott er að byrja á ódýrum bíl. Leggja peninga í banka og kaupa dýrari bíl ef það eru peningar til fyrir honum. Ef ekki er hægt að vera án bíls en best að kaupa ódýran bíl og fara á sjálfsstyrkingarnámskeið ef fólk skammast sín fyrir bílinn.

Benedikt Halldórsson, 22.6.2010 kl. 12:13

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar Þór, það kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að fjármálafyrirtæki tóku grimmt stöðu gegn viðskiptavinum sínum.  Af hverju eiga lántakar að bera skaðann af því?  Þessi málflutningur um að þeir sem tóku gengistryggð lán séu áhættufíklar og allt það, er bara bull.  Munurinn á verðtryggingu og gengistryggingu er sá að annað er hægfara eignaupptaka sem skilar engu til baka, gengistryggingin hjó harkalega en hefur þegar skilað einhverju til baka.  50% verðbólga á 5 árum hefur í för með sér að eignir landsmanna hafa rýrnað sem því nemur.

Svo vil ég benda þér á, að fjármálafyrirtækjum var margoft boðið að ræða lausnir, en þau töldu sig ekki þurfa að hafa samráð við hagsmunaaðila neytenda.  Höfum líka í huga, að stóru bankarnir þrír fengu 45% afslátt af lánum heimilanna frá gömlu myndum sínum.  Af hverju fengu heimilin ekki þennan afslátt beint til sín?

Annars kannast ég ekki við að einhver munur sé á því hve hátt fólk spennti bogann hvort það tók verðtryggt lán eða gengistryggt.  Arion banki hefur t.d. bent á að þeir sem fengu 100% lán hafi ekki fengið gengistryggð lán.  Sett hafi verið þak á skuldsetningu, þegar slík lán voru veitt.

Í mínum huga er eftir að fá leiðréttingu á forsendubresti verðtryggðra lána og í staðinn fyrir að naga skóinn af þeim sem hafa fengið leiðréttingu sinna mála, þá sé betra að standa saman um að fá forsendubrestinn leiðréttan.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 12:29

14 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Maður er að verða leiður á að svara þessu fólki sem misskilur málin sem herfilegast, telur gengið á rétt þeirra sem voru með verðtryggðu lánin, að þeir með ólöglega gengistryggðu lánin skuli aðeins þurfa að greiða miðað við leyfilega hluta samningsins.

Auðvitað var það þannig að gengið var út frá því sem megin viðmiði að gengið héldist og að í raun héldi þessi lága vaxtaprósenta. Því eru það engin býsn að það standi, að vextirnir séu lágir þótt af sé tekin fáránleg gengishækkun sem auðvitað er að mestum hlut á sök bankanna. Þar fyrir utan eru þessir pappírar flestir , allavega það sem ég þekki, til með endurskoðunarákvæði vaxta. Mitt lán t.d. á þriggja ára fresti, en fyrstu 3 árin eru að taka enda núna. Þykir ekki ólíklegt að það verði notað til að smyrja á þá.

Þar fyrir utan eru þessar endalausu dylgjur um einhverja græðgi hjá fólki sem tók þessi lán! Hverslags eiginlega er þetta?

Við hjónin einfaldlega leituðum að því er við héldum, hagstæðustu lausnar fyrir okkar áður verðtryggðu húsnæðislán! Ekkert keypt aukalega, flatskjár bíll eða annað. Sátum samt uppi með það fyrir dóm að húsnæðisskuldin hafði þrefaldast skv. túlkun bankans. Í stað þess að eiga kannske 10 milljónir í íbúðinni okkar áttum við allt í einu að skulda 10-15 milljónir umfram verðmæti hennar. Var það bara rétt mátulegt fyrir helvítis græðgina að leita bestu kjara, sem við vissum ekki betur en væru löglega í boði.

 Flokkast það alltaf undir græðgi að leita bestu kjara? Hvað með þá sem versla í Bónus eða Krónunni ,svo eitthvað sé nefnt? Er það vegna botnlausrar græðgi og yfirgangs gegn öðrum sem láta sér nægja að skipta við kaupmanninn á horninu þótt hann sé aðeins dýrari?  Er það þá þeim hinum sömu rétt mátulegt að fá hressilega í magann af gumsinu sem þeir versla ódýrt í tilvitnuðum verslunum?

Nei , blessað fólkið sem er svona þenkjandi verður að leita sér hjálpar. Ég er ekki að ganga á hlut neins þótt af mér sé með tilstilli dómstóla tekinn sá kross sem bankar landsins af illum hug vildu leggja á mínar herðar. Er hins vegar hjartanlega sammála þörfinni á leiðréttingu vegna verðtryggingardjöfulsins. Skal manna glaðastur leggja þeim lið sem leita leiðréttingar þar.

Kristján H Theódórsson, 22.6.2010 kl. 13:27

15 identicon

Marinó. Ekki fara í flokk eins og Jón bóndi leggur til. Þá missirðu allan trúverðugleika. Þú ert hreint ágætur eins og þú ert.

Benedikt (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 13:30

16 Smámynd: Billi bilaði

Hvað hét hann maðurinn sem var dæmdur fyrir okur á okkar ungmennisárum? Ég man það ekki, en minnir að hann hafi verið dæmdur fyrir að taka 15% vexti.

Hvað varð um þau lög sem ofangreindur maður var dæmdur fyrir? Voru þau felld úr gildi til þess að koma að þessu okri sem nú er í gangi, og með hæstaréttardóminum að hluta til búið að dæma ólöglegt? Hvernig komast Hraðpeningar upp með 600% vexti?

ES: Benedikt, bílar eru ekki hégómi í borg þar sem allt tómstundastarf byggist á skutli, því almenningssamgöngur eru óásættanlegar. Hvað er það, u.þ.b. 30% af verði bílanna sem þurfti að borga með gjaldeyri? Afgangurinn voru gjöld í ríkissjóð og álagning bílasala. Var verið að lána gjaldeyrir fyrir þeim hluta verðsins?

EES: Marínó, ef þú býður þig fram með Besta Flokknum í næstu þingkostningum, þá flýgur þú inn.

Billi bilaði, 22.6.2010 kl. 13:33

17 identicon

Ég tek undir með Marinó, það er algerlega út í hött að verðtryggja myntkörfulánin og ekki á valdi Alþingis hvað þá heldur Marðar þar sem Hæstiréttur hefur kveðið á um að gengistrygging mynkörfulána sé ólögmæt. Enn og aftur stendur þingmaður ríkisstjórnarinnar og janvel ríkisstjórnin MEÐ fjármálafyrirtækjunum og á móti almenningi í landinu. Ég vil benda Merði og öðrum þingmönnum ríkisstjórnarinnar á að snúa sér að því að LEIÐRÉTTA verðtryggð húsnæðislán þeirra sem þau tóku þar sem forsendubrestur hefur orðið hvað þau varða.

Ríkisstjórnin er búin að þrástaglast á því við almenning í landinu að ef húsnæðislán almennings yrðu LEIÐRÉTT mundi það setja bankana á hliðina. Félagsmálaráðherra ásamt öðrum ríkisstjórnar ráðherrum hefur hvatt fólk til að taka tilboðum sem bankarnir hafa boðið t.d. tilboðum um niðurfærslu myntkörfulána í 110% af sölumati fasteigna. Við skulum vera minnug þess að það var jú, Alþingi sem setti lög um gengistryggingu lána sem Hæstiréttur dæmdi síðan eftir. Og að halda því síðan fram að ríkisstjórnin hafi EKKI VITAÐ að myntkörfulánin eru ólögleg  er í hæsta máta ótrúverðugt nema ef vera kynni að alþingismenn viti ekki hvað þeir eru að gera á Alþingi. Eftir dóm Hæstaréttar eru þingmenn og stjórnendur bankanna þeirra skoðana að dómurinn muni ekki setja bankana á hliðina. Getum við, almenningur í landinu, trúað lygum þingmanna. Ég hef velt því fyrir mér hvort slíkir þingmenn í öðrum vestrænum löndum, þ.e. sem uppvísir yrðu um slíkar lygar yrðu ekki að segja af sér???

Sólveig Jónsdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 13:34

18 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

það er mikið til í þessu hjá Merði - því ætti ég að borga lán fyrir aðra - nei fólk á að borga sín lán sjálft - ekki meira af 1980 ævintýrinu !!!

Jón Snæbjörnsson, 22.6.2010 kl. 13:48

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Snæbjörnsson, skýrðu það út fyrir mér hvernig þessi dómur Hæstaréttar verður til þess að þú borgir fyrir lán annarra.  Ég hef aldrei geta skilið hvernig það gerist, þannig að ég bið þig vinsamlegast um skýra það út fyrir mér.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 14:29

20 identicon

Það er augljóst að þeir sem tóku gengistryggð lán VISSU af gengisáhættunni þegar lánin voru tekin. Núna, eftir dóm Hæstaréttar grípa þeir fegins hendi við því að það hafi eftir allt verið ólöglegt (þótt ekkert hafi bent til þess þegar þeir tóku lánin) og vilja auðvitað að lánin beri lægstu vexti og séu óvertryggð. Augljóslega er þetta mikil eftiráspeki en auðvitað heppilegt EINGÖNGU fyrir þann hóp fólks sem tók gengistryggð lán. Kannski vill fólk búa til tvo flokka fólks í landinu - þá sem eru með "gjafalán" og hina sem eiga að greiða allt upp í topp og rúmlega það.

Það verður að segjast að þetta er nokkuð ómerkileg og fáránleg staða, sérstaklega þegar haft er í huga að þeir sem töldu sig vera að fara varlega í lánamálum með því að velja verðtryggð lán - sem voru sögð "öruggari" af bönkunum og yfirvöldum sitja uppi með að lánin hafa hækkað um 50% og ekkert sem bendir til að neitt verði gert í þeim málum.

Ólafur (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 15:49

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ólafur, já, fólk vissi af gengisáhættu.  Það gerði ráð fyrir að genigð gæti fallið um 10 - 15%, en ekki 80 - 130%.  Á þessu tvennu er munur.  Bentu mér á einn einasta hagfræðing eða greiningardeild sem spáði fyrir að gengisvísitala færi úr 110 punktum í 250 punkta.

Hvaða "gjafalán" ert þú að tala um, Ólafur? Ég kannast ekki við neina gjöf.  Það getur vel verið að höfuðstóllinn verði núna leiðréttur, en kostnaður fæstra verður nokkurn tímann bættur.  Ef einhverjum dettur í hug að verðtryggð lán hafi verið öruggari, þá er sá hinn sami á slæmum villugötum.  Það er sama snaran notuð, hún þregist bara hægar að og því er fólk látið venjast kvölunum og það áttar sig ekki á því að það er að kafna.

Ómerkileg er að staðan ekki, en vissulega fáránleg.  Það er þó ekki lántökum að kenna.  Fjármálafyrirtækjunum var boðið að semja um þessi mál, en þau höfnuðu því og því eru þau í þessari stöðu.

Svo vil ég benda á að samkvæmt frétt í einum miðlanna í gær, þá ráðlagði Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna einstæðri móður að taka gengistryggt lán vegna þess að það væri léttara.

Mér finnst það rangt af fólki að snúa þessum sigri lántaka gegn fjármálakerfinu upp í öfund og væl um óréttlæti.  Þetta á að blása lántökum líf í brjóst í baráttunni fyrir leiðréttingu verðtryggðra lána.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 16:03

22 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

Marino G. Njálsson - ég get ekki fundið þá glufu sem lætur "skuld" hverfa án þess að hún komi upp hjá öðrum í þjóðfélaginu til greiðslu á einn eða annann hátt - ég styð dóm Hæstaréttar en skil ekki niðurstöðuna svo vel fari fyrir öllum

Jón Snæbjörnsson, 22.6.2010 kl. 16:05

23 identicon

Það er a.m.k. mjög heppilegt fyrir suma ef niðurstaðan verður sú að gengistryggðu lánin verða óvirk aftur í tímann, þ.e. að þau beri aðeins grunnvexti LIBOR+álag, allt að 9 ár aftur í tímann - eða frá tökudegi þeirra.

Hefur einhverjum, nokkurntíma verið boðið sambærileg lán á Íslandi? Ath. að slík lán verða ekki aftur í boði, þ.e. einungis þeir sem voru búnir að taka slík lán fyrir hrun munu njóta þessarra kjara (ef það verður niðurstaðan). Er það sanngjarnt gagnvart hinum sem greiða hærri vexti og verðtryggingu á sín lán?

Áttu þeir sem tóku gengistryggðu lánin í upphafi von á slíkum endalokum? Nei, en vissulega er það heppileg niðurstaða - fyrir þá.

Ef á að vera sanngirni í málinu þá eiga þeir sem tóku verðtryggð lán að njóta sömu kjara og þeir sem tóku gengistryggð lán. Þ.e. verðtrygginguna á að fella niður aftur í tímann og vextir verði þeir sömu. Annað er hreinasta ósanngirni og mismunun.

Ólafur (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 16:20

24 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Snæbjörnsson, þú segir:

því ætti ég að borga lán fyrir aðra

og svo þegar þú ert beðinn um rökstuðning, þá segist þú ekki hafa hann.  Málið er að þú þurftir að borga með öðrum Íslendingum 260 milljarða vegna innstæðna í Landsbankanum, 270 milljarða vegna gjaldþrots Seðlabankans, um 100 milljarða vegna björgunar peningamarkaðssjóðanna (þó þeir peningar hafi vissulega ekki komið úr ríkissjóði), á annað hundrað milljarða vegna endurreisnar Íslandsbanka, Arion banka og sparisjóðanna, en þú munt ekki þurfa að greiða krónu vegna gengistryggðu lánanna vegna þess, að það var gert ráð fyrir því við endurreisn fjármálafyrirtækjanna að hækkun höfuðstóls lánanna vegna breytingar á gengi væri tapað fé.  Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki fengu lánasöfn heimilanna með 45% afslætti frá gömlu birtingarmyndum sínum.  Þegar þeir verða búnir að færa gengistryggðu lánin niður um 50%, þá munu þeir ennþá eiga 30% eða 2/3 af afslættinum eftir.  Hafðu engar áhyggjur, það er búið að leggja í púkið það sem þarf.  Málið er að bankarnir (og kröfuhafar) voru í sýndarleik sem gekk út á að veita afslátt af mikilli góðmennsku, innheimta lánin upp í topp og skila svo afslættinum aftur til kröfuhafa (sem þá heita eigendur) í formi arðs.  Þríburarnir skiluðu 80 milljörðum í hagnað á síðasta ári sem nam 30% af eigin fé (það er gott að þeir eru í góðum rekstri) þrátt fyrir að AGS hefði bannað þeim að eignfæra gengishækkun höfuðstóls lána.  Íslandsbanki færði 11-12 milljarða á varúaðarreikning (sem var gengishagnaður af lánum á fyrri hluta síðasta árs), þar sem bankinn reiknaði ekki með því (og AGS ekki heldur) að þessi hækkun höfuðstóls lánanna myndi innheimtast.  Hafðu því engar áhyggjur, ágætur Seltirningur, þú verður ekki látin borga lán fyrir aðra.  En þú varst látin borga háar upphæðir vegna innstæðna ofurríkra Íslendinga.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 16:23

25 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ólafur, hafðu í huga, að fram til marsbyrjunar 2008 var gengið oft hagstæðara en á lántökudegi.  Fjármálafyrirtækin gætu því átt inni hjá lántökum hluta lánstímans. 

Þú spyrð hvort einhvern tímann hafi verið boðin sambærileg lán.  Já, þegar gengistryggðu lánin voru boðin.  Það er kanski arfavitlaust að benda á það, en á árunum 2005 til janúar 2008 var verðbólga líklegast um 20%.  Á sama tíma fór gengisvísitalan frá því að vera 110 niður í 100 upp í 133 niður í 110 og var 125 í lok janúar 2008.  Þá voru þessi lán svona hagstæð eins og þú ert að fárast yfir og ég man ekki eftir að bankarnir hafi kveinkað sér undan því (og lántakar ekki heldur).

Þú spyrð hvort þeir sem tóku gengistryggð lán í upphafi hafi átt á svona endalokum:  Svarið við þessu er "Já".  Þess vegna tóku þeir svona lán.

Ég er fullkomlega sammála því að þeir sem tóku verðtryggð lán eiga að fá forsendubrestinn bættan, en ég er hræddur um að langt verður í það, að allar verðbætur verði endurgreiddar.  Ég hef barist fyrir því í 20 mánuði að forsendubrestur lánanna verði tekinn til hliðar og hann afskrifaður eða geymdur til betri tíma.  Hvað hefur þú barist fyrir því lengi?

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 16:37

26 Smámynd: Einar Þór Strand

Þetta hljómar hjá þér Marínó svona ég er sloppinn og skítt með hina, en ég væri ekki svo viss því ef þú lest dóm Hæstaréttar þá sendur þar að þar sem ekki hafi verið gerð varakrafa og þrautavarakrafa geti dómurinn ekki dæmt um það hvernig fara eigi með þegar gengistryggingunni sleppi, þannig að það má búast við að þetta verði tekið fyrir aftur og þá með vara og þrautavarakröfum svo við skulum sjá hvað setur.

Einar Þór Strand, 22.6.2010 kl. 16:42

27 identicon

Hvernig dettur fólki með verðtryggð lán það í hug að hagur þeirra sé meiri ef fólk sem tók "gengistryggt lán" fær ekki þá leiðréttingu sem Hæstiréttur hefur fyrirskipað?? Ef það er ekki málið er þetta hreinlega öfund út í fólk sem fær hlut sinn réttann með þessum dómi.

 Ég var að skoða kaupa minni fyrstu fasteign árið 2007, ég pældi mikið í því hvort ég ætti að taka gengis eða verðtryggt lán. Eftir að hafa skoðað málið var ég ákveðin í því að taka erlent lán ef ég léti til skara skríða sem ég gerði sem betur fer ekki, leyst ekkert á þróun fasteignaverðs og þá augljósu bólu sem markaðurinn var orðinn.

 Þegar ég reiknaði út 18 milljóna króna verðtryggtlán hjá mínum banka til 40 ára miðað við hóflega verðbólgu fékk ég það út að höfuðstólinn mundi ekki byrja að lækka í krónum talið fyrr en eftir 20 ár!!! Það er algjörlega fáranlegt og mér er fyrirmunað að skilja hvernig fólk gat/getur sætt sig við slík kjör á fasteignaláni.

 Ég er viss um að endurgreiðslur á erlendu 40 ára fasteignaláni væru lægri í heild en á sambærilega verðtryggðu láni. Þó svo að þau hefði ekki verið dæmd ólögleg. Þannig að allt tal um áhættufíkn fólks sem tók erlend lán er gersamlega út í hött.

 Ég er mest hissa á því að nokkur maður hafi látið bjóða sér að taka verðtryggt lán þegar önnur betri(til langs tíma) lán voru í boði.

Jón Ottesen (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 16:44

28 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Einar Þór, ég skil ekki hvað þú átt við með orðunum:

Þetta hljómar hjá þér Marínó svona ég er sloppinn og skítt með hina

Gætir þú skýrt þetta betur út?

Það er rétt að engar varakröfur voru gerðar og túlkun mín nær bara til dómsins eins og hann stendur.  Í máli NBI gegn Þráni, þá tók héraðsdómari aftur á móti á þessu og sagði að enginn önnur verðtrygging kæmi í stað verðtryggingarinnar.  Það er því komin viss vísbending um hver niðurstaða Hæstaréttar gæti orðið.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 16:51

29 identicon

Mér finnst ég vera búinn að borga nóg fyrir mistök í bankakerfinu, ég tók ekki gengistryggð eða verðtryggð lán, ég átti ekki innistæður í bönkunum eða sjóðsbréf.

Það er búið að bæta skaða þeirra sem áttu innistæður í bönkunum og sjóðsbréf, núna á að bæta upp skaðan hjá þeim sem tóku gengistryggð lán, allt á kostnað skattgreiðenda.

Það er nokkuð ljóst að ef gengistryggðu húsnæðislánin eru ólögleg þá er líklegt að skattgreiðendur komi til með að borga lán þeirra upp. Það voru skattgreiðendur sem borguðu fullt af milljörðum til að endurfjármagna bankana, það er líklegt að þessir peningar tapist ef tillögur þínar Maríno ganga eftir, bankarnir fari aftur á hausinn og við skattgreiðendur sitjum uppi með að borga reikninginn. Mér finnst það ekki sanngjarnt, sérstaklega gagnvart mér sem hef ekki tekið þátt í neinu af þessu, en sit uppi með að borga.

Bjöggi (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 17:06

30 identicon

Alveg er þetta með ólíkindum að fólk skuli ekki enn vera að bulla um að skattgreiðendur þurfi að borga þessi lán.

 Það apar hver vitleysuna upp eftir öðrum, en ekki nokkur maður getur rökstutt þetta bull.

Lántakendur eru svo ekki að fá neitt afskrifað, þeir munu enn þurfa að borga hverja einustu krónu til baka sem var fengin að láni, auk vaxta.

 Bara staðreynd.

"Óreiðufólkið" sem tók "áhættuna" af verðtryggðum lánum ætti að eyða þessari orku að fá þetta þjófakerfi afnumið frekar en að grenja þennan dóm.

Áhættusamari lán en íslenskt verðtryggt lán fyrirfynnst hvergi í veröldinni nema í undirheimum glæpasamtaka.

 Það hefur ekkert með "skynsemi" að gera að taka slík lán.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 17:37

31 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Það er stöðugt verið að tönglast á því að skattgreiðendur verði látnir borga mismunin. Ok rökstuðning takk. Hvernig verða skattgreiðendur látnir borga.

Sigurður Sigurðsson, 22.6.2010 kl. 17:40

32 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Bjöggi, ef það er þá nafn þitt, málflutningur þinn um að skattgreiðendur borgi leiðréttingu gengistryggðra lána er ekki byggður á neinu.  Sannaðu fullyrðingu þína með einhverju öðrum "það er nokkuð ljóst", vegna þess að það er ekkert sem bendir til þess að svo sé.

1. AGS bannaði bönkunum að færa gengishagnað sem myndaðist á síðasta ári til eigna, hvað þá tekna, í bókhaldi.  Það sem ekki hefur verið fært inn veldur ekki tapi.

2. Arion banki, Íslandsbanki og Landsbanki skiluðu 80 milljarða kr. hagnaði á síðasta ári eða 30% arðsemi eiginfjár og eiga þvi ágætis borð fyrir báru.

3.  Arion banki og Íslandsbanki eru að mestu í eigu kröfuhafa og koma skattgreiðendum ekkert við.

4. Arion banki, Íslandsbanki og Landsbanki fengu samkvæmt október skýrslu AGS 45% afslátta af lánasöfnum heimilanna og allt að 70% afslátt af lánasöfnum fyrirtækja, þegar lánasöfnin voru færð frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Þó svo að verðmæti gengistryggðu lánanna lækki um 50%, þá lækka heildarlánasöfn heimilanna bara um 15% og fyrirtækja um 35%.

5.  Lýsing og Avant eru einkaeigu og koma skattgreiðendum ekkert við.

6.  Gert var ráð fyrir því í samningum milli Landsbankans og SP-fjármögnunar að þetta gæti orðið niðurstaðan.

Það er mjög fjarlægur möguleiki að skattgreiðendur þurfi nokkuð að greiða, þó vissulega sé ekki hægt að útiloka neitt.  Líklegast væri, að það yrði í gegn um atvinnuleysistryggingasjóð og ábyrgðasjóð launa, sem þó eru báðir fjármagnaðir af atvinnurekendum.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 19:49

33 identicon

Þegar bankarnir voru teknir yfir eftir hrunið þá finnst manni það hefði verið eðlilegast að stjórnendur þessa lands hefðu notað tækifærið til að semja ný bankalög. Selt síðan bankana með reglum sem hefðu girt fyrir þá græðgisvæðingu sem hefur verið við lýði í þessu landi í 30 ár. En nei, um að gera að halda áfram með græðgisvæðinguna ef ske kynni að einhverjar fjölskyldur í þessu landi hefðu ekki enn verið að fullu blóðmjólkaðar. Af hverju fáum við ekki að vita hverjir eru eigendur bankanna í dag? Það skyldi þó aldrei vera að einhverjir þeirra séu þingmenn eða kannski hærra settir? Eftir hverju bíða stjórnvöld? Styrjöld, kannski? Gera stjórnvöld sér ekki grein fyrir að eftir því sem lengur er kynnt þeim mun betur hitnar í kolunum.

Ásta (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 20:10

34 Smámynd: Guðlaugur Hermannsson

Þú tryggir ekki eftir á.......................

Guðlaugur Hermannsson, 24.6.2010 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1678121

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband