Leita í fréttum mbl.is

Verðstöðugleiki Seðlabankans – fíkillinn þarf sífellt stærri skammt

Morgunblaðið birti meðfylgjandi grein eftir mig 29. mars. sl.  Fór alveg framhjá mér að búið væri að birta hana!

Eftir Marinó G. Njálsson: "Er Seðlabankinn að endurtaka sömu mistök og fyrir hrun? Að berjast við verðbólgu sem hefur ekkert með virðisrýrnun gjaldmiðilsins að gera."

Peningamálastefna Seðlabanka Íslands er rekin á þeim grunni að hún skuli stuðla að verðstöðugleika. En hvaða verðstöðugleika er Seðlabankinn að vernda?

Verðbólguþróun og stýrivextir fyrir hrun

Undanfarin þrjú ár hefur verðbólga verið lág á Íslandi í sögulegu samhengi. Þó ber að nefna að verðbólgan var einnig að mestu lág á árunum 1993 og fram til ársbyrjunar 2006, þótt hún sveiflaðist á köflum nokkuð. Þetta eru því ekki alveg nýir tímar. Svo merkilegt sem það nú er hélt Seðlabankinn þá, alveg eins og hann heldur núna, að háir stýrivextir væru allra meina bót. Í 2,9% verðbólgu í maí 2004 ákvað bankinn t.d. að hækka vexti sína úr 9,0% í 9,5%.

Með þessu var bankinn að reyna að draga úr hröðum útlánavexti frá bankakerfinu. En bankinn rak sig þá á þá staðreynd að þegar mikil bjartsýni ríkir og hagnaðarvonin er sterk eru stýrivextir máttlaust tól til þess að draga úr útlánavexti. Niðurstaðan var stöðugt hækkandi verðbólga og stöðugt hækkandi stýrivextir allt þar til allt hrundi. Látum eina tilraun með þessari aðferð duga og prófum eitthvað annað núna.

Hvaða verðstöðugleika er verið að verja?

Seðlabankamönnum er tíðrætt um að þeir séu með peningastefnu bankans að verja verðstöðugleikann. Ég vil spyrja: Hvaða verðstöðugleika er verið að verja? Ég vil nefnilega halda því fram að bankinn sé að rústa verðstöðugleikanum til framtíðar með skammsýnum aðgerðum sínum.

Skipta má verðbólgunni upp í fjóra þætti: innlenda eftirspurnarverðbólgu (þ.e. verðbólgu sem á sér stað vegna mikillar eftirspurnar eftir almennum vörum og þjónustu), innlenda framboðsverðbólgu (þ.e. verðbólgu uppruna vegna innlendra kostnaðarhækkana á vöru og þjónustu), innflutta verðbólgu (þ.e. verðbólgu sem verður vegna innfluttra kostnaðarhækkana á vöru og þjónustu) og húsnæðisverðbólgu. Hækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðarins hefur upp á síðkastið verið lítil eða neikvæð. Á meðan hefur húsnæðisverðbólgan verið í hæstu hæðum.

Nú myndi maður halda að Seðlabankinn reyndi að beita einhverjum ráðum til að hemja hækkunina á húsnæðisverði, því hún drífur almennt verðlag upp á við. Málið er hins vegar að bankinn hefur ekki mörg úrræði, þar sem hækkunin á húsnæðisverði er drifin áfram af skorti á húsnæði. Því hefur bankinn gripið fegins hendi að gengið hefur verið að styrkjast, sem leitt hefur til þess að hinir aðrir meginflokkar vísitölunnar hafa ýmist verið í eða nálægt verðhjöðnun. Gallinn er að á meðan húsnæðisverðið heldur áfram að hækka þarf gengið að halda áfram að styrkjast til að vega á móti húsnæðisverðbólgunni. Seðlabankinn er eins og fíkill í afneitun sem vill sífellt stærri skammt til að halda sér stöðugum. Kaldhæðnin er að verðbólga er, samkvæmt skilgreiningu, virðisrýrnun gjaldmiðilsins, en hækkun húsnæðisverðs er vegna skorts. Sá skortur hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera.

Hvað gerist nú þegar gengishækkunarskammturinn er orðinn of stór? Jú, gengið hættir að hækka. Fíkillinn mun því ekki fá þann skammt sem hann þarf til að halda sér stöðugum og hann fer í fráhvarf. Seðlabankinn er að búa til verðóstöðugleika með aðgerðum sínum því gengi krónunnar verður óstöðugt til langs tíma. Spurningin er ekki hvort verðbólgan fari af stað, heldur hve mikil verðbólgan verði. Við vitum síðan að þegar verðbólgan fer af stað mun fíkillinn reyna allt hvað hann getur til að fá gengishækkunarskammtinn sinn með því að keyra upp vextina. Kannski bankinn þurfi að læra af meðferð fíkla og best sé að fara í gegnum fráhvarfið því það er mikilvægur hluti bataferlisins.

Í hverju felst afneitun Seðlabankans?

Misskilningur Seðlabankans felst í því að hann heldur að hægt sé að hækka vexti bankans til að slá á húsnæðisverðbólguna. Eins og áður segir er hækkun húsnæðisverðs fyrst og fremst vegna skorts á húsnæði. Seðlabankinn getur ekki aukið framboð á húsnæði, hvað sem hann reynir. Það sem bankinn getur gert er að hugsa upp á nýtt hvaða verðbólgu hann er að kljást við með vöxtum sínum. Háir vextir geta ekki aukið framboð á húsnæði. Það er frekar að þeir dragi úr framkvæmdavilja þeirra sem vilja byggja húsnæði, þar sem framkvæmdaaðilar þurfa að fjármagna framkvæmdir þar til fokheldisvottorð fæst og hægt er að þinglýsa langtímalánssamningum á eignirnar. Þá er fjármagnskostnaður hátt hlutfall þess kostnaðar að byggja húsnæði og þessum háa fjármagnskostnaði velta þeir sem byggja húsnæðið yfir í verðlagið á því, alveg eins og almenn fyrirtæki velta olíuverðshækkun yfir í verðlag sinna vara. Eðlilegt er því að bankinn hunsi þá verðbólgu sem hækkun húsnæðisverðs veldur (a.m.k. í núverandi ástandi) og noti aðrar mælingar við mat á verðhækkunum við vaxtaákvarðanir sínar. Þar liggur beinast við að nota samræmda vísitölu neysluverðs og þá fyrst og fremst vegna þess að hana er hægt að nota til að bera saman verðhækkanir á milli landa.

Mér sýnist almenningur þurfa að búi sig undir hærri verðbólgu á komandi mánuðum eða enn eina harða lendingu íslensks efnahagslífs.

Höfundur er með verkfræðigráðu í aðgerðarannsóknum frá Stanford-háskóla.


Bloggfærslur 6. apríl 2017

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 21
  • Sl. sólarhring: 121
  • Sl. viku: 584
  • Frá upphafi: 1677601

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband