Leita í fréttum mbl.is

Upplýsingar í skjali Vigdísar og Guðlaugs og afleiðingar bankasamninganna

Umdeildasta skjal á Íslandi þessa daganna er "Skýrsla formanns og varaformanns fjárlaganefndar"/"Skýrsla meirihluta fjárlaganefndar"/"Skýrsla Vigdísar Hauksdóttur"  allt eftir því hvaða titil fólk notar.  Hún hefur verð úthrópuð að sumum sem algjört bull og af öðrum sem ærumeiðingar.  Mig langar að fjalla um það sem er  umfram þessar upphrópanir.

Traustar heimildir

Fyrir það fyrsta er skjalið alfarið byggt á opinberum gögnum, en þau eru:

1. Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, skilaði til Alþingis 31. mars 2011.  Í skýrslunni er lýst því ferli sem haft var við endurreisn viðskiptabankanna, en fyrst og fremst hvernig tveimur þeirra var komið í hendur þrotabúanna og þar með kröfuhafa.  Ekki er hægt að segja að þeim hafi aftur verið komið í hendur á þessum aðilum, því ríkið átti þá frá stofnun.

2. Skýrslu Ríkisendurskoðunar, Fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahruns, en í henni er nokkuð greinargóð lýsing á hvernig Ríkisendurskoðun metur að ríkissjóður hafi verið notaður til að styðja við viðskiptabankana þegar þeir voru endurreistir (þ.e. nýir stofnaðir í stað þeirra sem lögðust á hliðina).

3. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins vegna stofnunar nýju bankanna

4. Ársreikningar bankanna

Ég fann engin tilfelli, þar sem heimilda var ekki getið nema hvað hvorki kemur fram nafn skýrsluhöfundar né löggilts skjalaþýðanda.

Skjalið er því vel stutt heimildum um uppruna upplýsinga og allar eru þessar heimildir traustar og virtar.

Svo vill til, að í nokkur ár hef ég verið að dunda mér við að greina ýmislegt sem fór úrskeiðis í undanfara og eftirmála hrunsins.  Er það von mín að þessi vinna mín endi að lokum í bókarform, þó bókaflokk þyrfti nú til að gera öllu þessu góð skil.  Er ég af þeim sökum búinn að viða að mér óteljandi skjölum, m.a. öllum sem nefnd eru hér að ofan, og krufið inn að beini þær upplýsingar sem þar er að finna.  Efni skjals Vigdísar og Guðlaugs er mér því nokkuð vel kunnugt og hef ég auk þess oft fjallað um ýmsa anga þess opinberlega.  (Tek fram að ég veit ekki hvort eða hvenær þetta grúsk mitt endar á prenti.)

Það sem snýr að ríkinu

Það sem kemur fram í skjalinu umdeilda, er í stórum dráttum mjög svipað mínum ályktunum.  Ríkið gaf frá sér háar upphæðir til að ljúka samningum við kröfuhafa sem létu aðeins skína í tennurnar.  Vissulega vissu menn ekki allt sem þeir vita í dag, en samningar ganga ekki út á að annar aðili samnings taki á sig alla áhættuna meðan hinn hirðir allan hagnaðinn.  (Úps, var búinn að gleyma verðtryggðu lánunum.)

Ég hef lesið skýrslu fjármálaráðherra oftar en ég kæri mig um að rifja upp.  Í hvert einasta skipti sé ég eitthvað sem fær mig til að velta fyrir mér hvað menn voru að hugsa.

Ég ætla ekki að tjá mig um einstök efnisatriði í skýrslu fjármálaráðherra, en hvet alla, sem hafa áhuga á öðruvísi hryllingssögum, að lesa hana.  Ég verð að viðurkenna, að ég veit ekki alveg hvað mönnum gekk til í samningaviðræðunum.  Jú, ég veit það alveg: Að koma eignarhaldi á bönkunum undan ríkinu.  Það var málið, en rökin ganga ekki upp.

Höfundi "skýrslunnar", þ.e. sá sem ritar kafla 2 til 9, tekst mjög vel upp að lýsa furðulegum vinnubrögðum, útreikningum sem ekki ganga upp (nema átt hafi að gefa þrotabúunum peninga), hvernig hagsmunir lántaka gleymdust og brunaútsöluna sem var í gangi.  Ég fæ ekki séð að í köflum 2 til 9 sé á neinum stað farið með rangt mál.  Framsetning efnisins mætti hins vegar vera skýrari, útreikningar sýndir og rökleiðslan ítarlegri.

Kaldhæðnin í þessu er að stór hluti af eftirgjöfinni árið 2009 endaði í ríkissjóði núna í upphafi árs.  Gallinn er að fyriræki og einstaklingar hafa verið blóðmjólkaðir í millitíðinni og verða um nokkur komandi ár, vegna mistaka (að mínu mati) sem gerð voru í samningaviðræðunum árið 2009.  Hafi það hins vegar verið uppleggið, að fyrirtæki og einstaklingar ættu að borga kröfuhöfum til baka eins mikið af tapi þeirra og hægt var, þá var gerð heiðarleg tilraun.  Ég hef varað við þeirri aðferð í mörg ár, en talaði fyrir daufum eyrum ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.  Ef vilji Steingríms og Árna Páls Árnasonar hefði náð fram að ganga, þá væri "olíusjóðurinn" (gjaldeyrir frá ferðamönnum) tómur og mikill halli á viðskiptajöfnuði.  Svo kvörtuðu VG og Samfylking yfir því að stöðugleikaframlagið hafi ekki verið nógu hátt!

Raunverulegar afleiðingar

Voru menn að vinna að heilindum?  Því verður hver að svara fyrir sig, en þeir létu a.m.k. fara illa með sig.  Ég efast ekkert um að Þorsteinn Þorsteinsson og Guðmundur Árnason eru grandvarir menn.  Ég hef hins vegar í mörg ár verið ósáttur við niðurstöðu þeirra samninga sem þeir leiddu fyrir hönd ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í umboði Steingríms J. Sigfússonar.  Ég þurfti ekki skýrslu Steingríms, Ríkisendurskoðunar eða meints meirihluta fjárlaganefndar til þess.  Ég sá það strax haustið 2009 í "úrræðum" bankanna þriggja, lögum nr. 107/2009, vinnu minni í sérfræðingahópnum svo kallaða, "úrræðum" fjármálafyrirtækjanna sem komu út úr vinnu sérfræðingahópsins, málum sem hrönnuðust upp hjá Umboðsmanni skuldara, viðbrögðum kerfisins við sigri neytenda um ólögmæti gengistryggingar, þeirra tugþúsunda sem hrökklast hafa af heimilum sínum og svona mætti lengi telja.  Ljóst var að samningarnir við um bankana árið 2009 voru ekki um að bjarga íslensku efnahagslífi, fyrirtækjum og heimilum.  Þeir voru um það hvernig mætti sækja eins mikið og hægt væri til fyrirtækja og heimila, hvernig halda ætti efnahagslífinu í spennitreyju til langs tíma, hvernig kröfuhafar þyrftu ekki að taka ábyrgð á sinni hegðun.

Ég hljóma kannski bitur, en þetta eru vonbrigði.  Ég gerði mér vonir um að "norræna velferðarstjórnin" væri vinstri jafnaðarmanna stjórn, en ekki stjórn sem beygði sig undir kúgun auðvaldsins.  Ég hélt að þeim færist betur úr hendi, að skilja tjónið sem heimili og fyrirtæki urðu fyrir.  Í staðinn var ruglað um stjórnarskrárvarinn eignarrétt kröfuhafa í þrotabú fjármálafyrirtækja með fljótandi virði eigna!  Tap heimila og fyrirtækja á þessum gjafagjörningi "norrænu velferðarstjórnarinnar" er þegar komið hátt í 400 ma.kr. bara vegna hærri vaxta og afborgana lána á árunum 2009-2016. Þá eru öll hin árin eftir, þar til lánin greiðast upp og allt hitt sem þetta leiddi af sér.  Maður verðleggur ekki brotin heimili, húsnæðismissi, gjaldþrot og hvað það var annað sem hlaust af því, að úlfum kröfuhafa var hleypt á fyrirtæki og almenning.

Fólk heldur kannski að núna sé allt í lukkunnar vel standi.  Ríkissjóður fékk stöðugleikaframlagið greitt. Vei!  Hagkerfið er komið í blússandi uppsveiflu. Vei!  Sumir eru dottnir í 2007 ástand aftur. Vei!  En svo er bara ekki. Þúsundir, ef ekki tugþúsundir, eru persona non grata í bankakerfinu.  Þurfa að nota alls konar trix til að fá lán.  Fá ekki nema fyrirframgreidd greiðslukort, ef þeir fá þá nokkur.  Geta ekki fengið tryggingu í banka vegna leiguhúsnæðis.  Geta ekki keypt sér húsnæði, vegna þess að þeir fá ekki lán.  Eru utanveltu í samfélaginu og leita því inn í svartahagkerfið.  Eru fastagestir hjá hjálparstofnunum.  Ég ætla ekki að kenna samningum um bankana um allt þetta, en örugglega 50%, kannski jafnvel 80%.  Allt vegna þess að samningarnir gengu ekki út á að bjarga fjárhagsstöðu viðskiptavina bankanna, heldur að sýna meðvirkni með kröfuhöfum (sem ansi margir höfðu keypt kröfur sínar á skít á priki eða voru þegar búnir að innheimta tryggingar vegna þeirra hjá AIG).

Næst þegar samið verður um mikla hagsmuni almennings, þá er nauðsynlegt að einhver sem skilur hagsmuni almennings sé hafður með í ráðum.

PS.  Það er mín skoðun að ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur hafi tekið við MJÖG erfiðu búi.  Margt var gert vel, annað alveg þokkalega og svo voru það stóru mistökin.  Skuldamál fyrirtækja og heimila voru þessum tveimur ríkisstjórnum gjörsamlega ofviða og samningarnir um bankana eru stór ástæða fyrir því.  Það er líka skoðun mín, að menn hafi talið sig verið að gera góða samninga um bankana.  Þeir voru því miður afleitir!


Bloggfærslur 21. september 2016

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1678165

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband