Leita í fréttum mbl.is

Hver er ávinningurinn af leiðréttingu verðtryggðra lána?

Í gær var dreift á Alþingi skýrslu Hagfræðistofnunar um áhrif annars vegar 10% og hins vegar 25% lækkunar höfuðstóls íbúðalána.  Mér finnst þessi skýrsla vera heldur rýr í roðinu og raunar bara tætaramatur.  Hún er ákaflega einhliða áróður fyrir einum málstað, þ.e. gegn aðgerðinni, og leggur lítið upp úr ávinningnum af henni.

13. febrúar 2009 skrifaði ég færslu til að mótmæla málflutningi Ólafs Darra Andrasonar, hagfræðings ASÍ (var það a.m.k. þá).  Mig langar að endurbirta færsluna, því sömu rök eiga við núna tæpum 40 mánuðum síðar.  Skiptið nafni Ólafs út og setjið Hagfræðistofnun í staðinn og þá gæti þetta nánast verið svar við skýrslu stofnunarinnar.

Ekki spyrja um kostnað heldur ávinning

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, sagði fyrir stundu á Rás 2, að niðurfærsla verðbóta kosti Íbúðalánasjóð, bankana og lífeyrissjóðina 280 milljarða.  Þarna getur hagfræðingurinn ekki verið annað en að tala gegn betri vitund.  Í fyrsta lagi, þá eru 20% verðbætur ekki sjálfsögð uppbót á eignum þessara aðila.  Hér er um innistæðalausa hækkun að ræða og því ekki um tap að ræða.  Það er enginn peningur á bak við þessa tölu.  Þetta er "pappírsgróði" og "pappírstap".  Í öðru lagi, þá gefur hann sér að öll þessi 20% innheimtist, sem er fráleitt.  Stór hluti þessarar hækkunar mun leiða til gjaldþrota, þar sem fólk mun missa heimilin sín, og afskrifta af hálfu framangreindra aðila.  Í þriðja lagi, þá er minni kostnaður falinn í því að niðurfæra skuldir strax, en að fara í tímafrekar innheimtu- og gjaldþrotameðferðir, sem gera ekki annað en að auka á skuldir heimilanna og minnka þá upphæð, sem að lokum kemur í hlut kröfuhafa.

Ólafur Darri nefndi einnig að óþarfi væri að færa niður skuldir allra.  Hann taldi t.d. óþarfi að koma miðaldra manni eins og honum til hjálpar, enda ætti hann fyrir sínum skuldum (að mér skyldist).  Ég er nú kominn lengra inn á miðjan aldur en hann og mynd alveg þiggja leiðréttingu á óhóflegri hækkun höfuðstóla þeirra lána sem ég er með.  En það er annar vinkill á þessu máli.  Ég hef ekki heyrt ASÍ mótmæla því að öllum innistæðu eigendum var bjargað, þó það sé staðreynd að ekki þurfti að bjarga öllum.  Af hverju gilda aðrar reglur um innistæðueigendur en skuldara?  Er það kannski vegna þess að lífeyrissjóðirnir koma betur út á báðum stöðum?  Eða er það vegna þess að með því var fjármunum verkalýðsfélaganna bjargað?

Ég held samt að mikilvægasta spurningin sem þarf að svara sé hver ávinningurinn af slíkri aðgerð verður, ekki hver kostnaðurinn verður.   Og ávinningurinn er m.a. eftirfarandi:

  1. Skuldir heimilanna lækka og greiðslubyrðilána minnkar
  2. Fleiri eiga kost á því að halda heimilum sínum
  3. Heimilin hafa meiri pening til að standa í skilum með aðrar skuldbindingar sínar
  4. Meiri peningur fer í neyslu sem fer þá inn í hagkerfið
  5. Veltuskattar til ríkisins dragast ekki eins mikið saman og annars hefði orðið.
  6. Meiri tekjur ríkisins þýðir að ríkissjóður þarf að skera minna niður, en annars, eða á meiri möguleika á að standa undir vaxtagjöldum
  7. Fyrirtækin fá meiri veltu, sem eykur líkur á því að þau lifi af.
  8. Fyrirtækin hafa meiri pening til að greiða laun og önnur útgjöld með tilheyrandi ruðningsáhrifum.  M.a. munu þau eiga auðveldara með að greiða skatta til ríkisins og mótframlag launagreiðanda til lífeyrissjóðanna.
  9. Færri þurfa að fara á atvinnuleysisbætur
Ég gæti haldið svona áfram, en læt þetta duga.  Það mikilvægasta í augnablikinu er að koma fjárstreymi hagkerfisins af stað.  Fjárstreymið er eins og blóðrás líkamans.  Það ber súrefni til fyrirtækja og heimilanna.  Ef allur peningur á að fara í að greiða af lánum, þá mun kreppan dýpka meira en nokkurn grunar vegna uppsöfnunaráhrifa.  Ávinningurinn af niðurfærsla skulda er því augljós.  Loks má ekki gleyma því, að Nýja Kaupþing gerir ráð fyrir því að afskrifa 67,7% af lánum gamla Kaupþings til innlendra viðskiptavina.  Reikna má með því að Nýi Glitnir og NBI geri slíkt hið sama.  Bent hefur verið á leiðir fyrir lífeyrissjóðina og ÍLS til að bæta sér hluta af sínu tjóni.

Mér finnst það vera röng nálgun hjá ASÍ að leggjast gegn þessari hugmynd sem "ekki hægt".  Hjá Hagsmunasamtökum heimilanna var strax ákveðið að gera þetta hugtak útlægt.  Í staðinn er spurt: Hvernig er best að fara að þessu?  Ég skora á ASÍ að taka upp þessa nálgun og skoða heildarmyndina.

----

Síðan vil ég benda á þingsályktun Hreyfingarinnar um leiðréttingu verðtryggðra lána.  Þar er sett fram mjög vel framkvæmanlega tillögu um það hvernig mætti standa að slíkri leiðréttingu.  Hugmyndin er að mestu frá mér komin og þekki ég hana því vel.


Bloggfærslur 1. júní 2012

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband